Ákvörðun um verkbann

 

Samkvæmt 15. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur er stéttarfélagi eða félagi atvinnurekenda því aðeins heimilt að boða vinnustöðvun að ákvörðun um hana hafi verið tekin með þeim hætti sem þar er tilgreindur. Felur greinin í sér tæmandi upptalningu þeirra leiða sem nota má við boðun vinnustöðvunar.

Hver hefur ákvörðunarvaldið?

Ákvörðunarvald um verkbannsboðun liggur eftir því sem við á hjá viðkomandi félagi atvinnurekenda eða hjá einstökum atvinnurekanda. Eðli máls samkvæmt er engar reglur að finna um það með hvaða hætti einstakur atvinnurekandi tekur ákvörðun um verkbann. Sé verkbann boðað af atvinnurekendafélagi verður að gæta ákvæða 15. gr. laga nr. 80/1938 um ákvörðunartökuna.

Hvaða áhrif hefur þátttaka í atvinnurekendafélagi?

Sé atvinnurekandi þátttakandi í félagi atvinnurekenda er hann háður þeim reglum sem þar gilda um verkfallsboðun. Spyrja má hvort hann geti eftir sem áður á eigin spýtur boðað verkbann á grundvelli ákvæða laganna um stéttarfélög og vinnudeilur. Ekki verður séð að þau lög komi í veg fyrir slíka boðun, en skuldbindingar sem atvinnurekendur taka á sig við að ganga í félag atvinnurekenda myndu væntanlega í flestum tilvikum þrengja heimildir hans til þess.

Í samþykktum Samtaka atvinnulífsins segir í 45. gr. að um ákvörðun verkbanns fari samkvæmt 15. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Segir í 45. gr. að SA séu félag atvinnurekenda í skilningi laganna, enda eigi aðildarfyrirtækin beina aðild að samtökunum. Stjórn SA getur ákveðið að láta fara fram atkvæðagreiðslu um verkbann meðal félagsmanna. Í tillögu stjórnar skal koma fram hversu víðtækt verkbannið skuli vera og hvenær því er ætlað að koma til framkvæmda. Heimilt er stjórn að einskorða atkvæðagreiðslu við þau fyrirtæki sem verkbanni er ætlað að taka til. Við atkvæðagreiðslu um verkbann ræður fjöldi atkvæða skv. gildandi atkvæðaskrá, sbr. 19. gr. samþykkta SA.

Stjórn SA getur heimilað aðildarfélögum samtakanna og atvinnurekendum innan þeirra að leggja á verkbann. Atkvæðaréttur fer skv. gildandi atkvæðaskrá samtakanna en stjórnin getur heimilað að atkvæðagreiðsla fari fram skv. félagslögum viðkomandi aðildarfélags, eða án atkvæðagreiðslu, ef einstök aðildarfyrirtæki eiga í hlut.

Framkvæmdastjórn SA ákveður hvort viðhafa skuli póstatkvæðagreiðslu eða greiða skuli atkvæði á kjörfundi og setur nánari reglur um framkvæmd atkvæðagreiðslu. Þá er framkvæmdastjórn SA, eða þeim sem hún tilnefnir, heimilt að aflýsa eða fresta boðuðu eða yfirstandandi verkbanni.

Í 46. gr. samþykkta SA segir að framkvæmdastjórn SA geti veitt undanþágu frá þátttöku í verkbanni, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Ef ekki fæst samþykki framkvæmdastjórnar til undanþágu má bera málið undir stjórn SA sem getur, ef 2/3 fundarmanna á stjórnarfundi eru því samþykkir, veitt hina umbeðnu undanþágu.

Umdeilt er hvort reglur þessar séu undantekningarlausar. Í dómi Félagsdóms 2/1998 (XI:224) var verkbannsboðun Landssambands íslenskra útvegsmanna dæmd ólögmæt.  Samkvæmt þágildandi samþykktum VSÍ þurftu félagsmenn sérstakt samþykki framkvæmdastjórnar VSÍ til þess að mega boða til verkbanns. Voru ákvæði samþykkta VSÍ (nú SA) ekki talin samrýmast 14. og 15.gr. laga 80/1938.  Umdeilt er hvort túlka beri niðurstöðuna með víðtækari hætti og þá þannig að þar sem einstök útgerðarmannafélög innan LÍU hafi ekki sjálf tekið ákvörðun um að efna til atkvæðagreiðslu um verkbannsboðun, heldur VSÍ (nú SA) og LÍU sameiginlega hafi boðunin verið ólögmæt.

Tilkynning um verkbann

Ákvæði 16. gr. laganna um stéttarfélög lúta að tilkynningu um vinnustöðvun. Ákvæðið tekur bæði til verkfallsboðunar og boðunar verkbanns. Tilgangur þessa ákvæðis er meðal annars að fyrirbyggja skaðlegar afleiðingar vinnustöðvunar með því að gefa aðilum ráðrúm til að gera nauðsynlegar ráðstafanir vegna vinnustöðvunar sem fyrirsjáanleg er.

Misfarist verkbannsboðun þarf að boða verkbannið að nýju með réttu lagi.

Hvenær telst tilkynning hafa borist viðtakanda?
Tilkynningu um vinnustöðvun, sem hefja á í þeim tilgangi að knýja fram breytingu á ákvörðun um kaup og kjör ber að tilkynna sáttasemjara og þeim, sem hún beinist aðallega gegn sjö sólarhringum áður en tilætlunin er að hún hefjist.

Tilkynning um vinnustöðvun er ákvöð, sem bindur viðtakanda, þegar hún er komin til hans. Viðtakandi þarf ekki að hafa kynnt sér innihald tilkynningarinnar og nægilegt er að tilkynningin sé afhent á heimili viðtakanda eða starfsstöð með sjö sólarhringa fyrirvara. Ef viðtakandi er félag, sem hefur opna skrifstofu á ákveðnum tímum dags verður að gera þann fyrirvara að tilkynningin berist félaginu á venjulegum skrifstofutíma, þannig að raunverulegt tækifæri gefist til að kynna sér efni tilkynningarinnar og gera nauðsynlegar ráðstafanir í framhaldi af því. 

Form
Þótt ekki sé krafist sérstaks forms á verkbannsboðun samkvæmt lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur þarf boðandi þess að geta sýnt fram á að boðunin hafi verið gerð nægjanlega tímanlega og tilkynnt réttum aðilum. Þess vegna er tilkynning um verkbann alltaf höfð skrifleg.

Fyrirvari
Lögin kveða á um sjö sólarhringa fyrirvara á verkbannsboðun. Það þurfa því að líða sjö sólarhringar frá því að verkbannsboðun er afhent þeim sem hún beinist gegn og sáttasemjara og þar til verkbann á að hefjast.

Í dómi Félagsdóms 9/1994 var sú regla sett um túlkun á 16. greininni að þegar upphafsdagur verkfalls er tilgreindur í verkfallsboðun án þess að getið sé um klukkustund eða önnur nánari tímamörk, verði að líta svo á að verkfallið eigi að hefjast þegar viðkomandi almanaksdagur gengur í garð án tillits til þess hvenær daglegur vinnutími á að hefjast hjá þeim starfsmönnum sem í hlut eiga. Þessi regla á væntanlega jafnt við um boðun verkbanns.

Hverjum á að tilkynna verkbann?
Verkbann á að tilkynna sáttasemjara og þeim sem það beinist aðallega gegn. Sé vinnustöðvun ekki tilkynnt sáttasemjara með 7 sólarhringa fyrirvara telst boðunin ólögmæt samanber Félagsdóm 4/1962 (V:61). Verkbann beinist fyrst og fremst gegn starfsmönnum þess aðila sem því beitir. Þar sem stéttarfélag er lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör félagsmanna sinna virðist nóg að tilkynna verkbann því stéttarfélagi sem verkbannið beinist gegn. Rétt er að hafa í huga að boða vinnustöðvun þeim aðilum sem bundnir voru að þeim kjarasamningi sem deilt er um, og betra er að tilkynna verkbann fleiri aðilum en færri, þar sem tilkynning um vinnustöðvun er ávallt túlkuð þröngt.

Ákvörðun um vinnustöðvun bindur ekki aðeins þá, sem eru meðlimir félags eða sambands þegar ákvörðun er tekin, heldur einnig þá sem gerast félagsmenn síðar, eða fram til þess að vinnustöðvun hefst. Af þessu leiðir að ekki þarf að taka sérstaka ákvörðun um vinnustöðvun vegna þessara nýju félaga né tilkynna hana í samræmi við 16. gr. laga nr. 80/1938. Í  Félagsdómi6/1969 (VI:163) reyndi á þetta ágreiningsefni. VSÍ hafði fyrirskipað verkbann að beiðni Meistarafélags járniðnaðarmanna gagnvart félagsmönnum í Félagi járniðnaðarmanna í Reykjavík og Hafnarfirði. Eftir að verkbann hafði verið boðað, gekk Stálvík hf. í Meistarafélagið. Félag járniðnaðarmanna mótmælti því að verkbannið gilti gagnvart starfsmönnum Stálvíkur hf., þar sem fyrirtækið hefði hvorki verið meðlimur í Meistarafélaginu né VSÍ þegar ákvörðun um verkbann var samþykkt og tilkynnt. Niðurstaða Félagsdóms varð sú að verkbannið næði einnig til Stálvíkur hf.

Hvað er verkbann

Í II. kafla laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur er fjallað um verkföll og verkbönn. Í 14. gr. laganna er kveðið á um það að stéttarfélögum, félögum atvinnurekenda og einstökum atvinnurekendum sé heimilt að gera verkföll og verkbönn í þeim tilgangi að vinna að framgangi krafna sinna í vinnudeilum og til verndar rétti sínum samkvæmt lögunum með þeim skilyrðum og takmörkunum einum sem sett eru í lögum.

Skilgreining

Hugtakið verkbann er ekki skilgreint í lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur en samkvæmt skilgreiningu Björns Þ. Guðmundssonar er verkbann það þegar einn eða fleiri atvinnurekendur stöðva vinnu að einhverju leyti eða öllu hjá launþegum sem eiga aðild að einu eða fleiri stéttarfélögum í þeim tilgangi að vinna að framgangi krafna sinna í vinnudeilum og til verndar rétti sínum samkvæmt lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. 

Ásmundur G. Vilhjálmsson skilgreinir verkbann sem vinnustöðvun sem nánar tiltekið sé fólgin í því að einn eða fleiri vinnuveitendur segja upp hópi starfsmanna eða neita að taka við vinnuframlagi þeirra að einhverju eða öllu leyti, án þess að uppsögnin eða neitunin eigi rót að rekja til rekstrarsjónarmiða. Óheppilegt er þó að nota hugtakið uppsögn í þessu sambandi, þar sem uppsögn er almennt notað um það þegar ráðningarsamningi er ætlað að ljúka. Verkbann er þannig aðgerð sem atvinnurekandi getur gripið til í kjaradeilu. Venjulega er verkbanni beitt sem mótleik gegn verkfalli af hálfu stéttarfélags.

Segja má að annar kafli laganna um stéttarfélög og vinnudeilur sé saminn með hliðsjón af verkföllum, en ákvæðunum sé síðan ætlað að gilda eftir því sem við á um verkbönn. Verkföll eru margfalt tíðari en verkbönn, og í reynd hefur verkbannsrétti atvinnurekenda lítið verið beitt hér á landi. Meginreglan um vinnustöðvanir er þó reglan um gagnkvæmni, sömu reglur eiga við hvort sem stéttarfélag efnir til verkfalls eða hvort atvinnurekandi boðar verkbann.

Í Félagsdómi 3/2013 var deilt um túlkun hugtaksins verkbann en þar var fjallað um ágreining sem reis um þau tilmæli LÍÚ að beina því með fréttatilkynningu aðildarfélaga sinna og félagsmanna að halda skipum sínum ekki til veiða eftir sjómannadag hinn 3. júní 2012 „vegna þeirrar alvarlegu stöðu í íslenskum sjávarútvegi sem talin var blasa við, yrðu nefnd frumvörp um stjórn fiskveiða og veiðigjöld að lögum.“ ASÍ taldi að um væra að ræða pólitíska aðgerð og ólögmætt verkbann sem hefði alvarlegar afleiðingar fyrir félagsmenn ASÍ í ýmsum atvinnugreinum enda sjávarútvegur ein stærsta atvinnugrein þjóðarinnar. Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að ofangreind tilmæli LÍÚ fælu ekki í sér vinnustöðvun (verkbann) í skilningi 19.gr. laga 80/1938. Í dóminum segir: „Þegar litið er til framangreinds þykir ekki unnt að líta svo á að í tilkynningunni felist áskorun stefnda og aðildarfélaga hans til félagsmanna sinna um vinnustöðvun í skilningi 19. gr. laga nr. 80/1938. Er hún samkvæmt efni sínu tilmæli til félagsmanna um ákveðna aðgerð, án þess þó að séð verði að það hafi haft nokkrar afleiðingar í för með sér, þótt ekki væri farið að þeim tilmælum. Þá heldur stefndi því fram að aðildarfélög hans hafi staðið að fullu við lög- og samningsbundnar skyldur sínar gagnvart starfsmönnum sínum og hafa engin gögn verið lögð fram sem hrekja þá fullyrðingu. Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á það með stefnanda að  umrædd aðgerð stefnda, að beina því til félagsmanna sinna að halda skipum sínum ekki til veiða eftir sjómannadag 2012 og beina þeim þess í stað til Reykjavíkurhafnar nokkrum dögum síðar, teljist vinnustöðvun í skilningi 19. gr. laga nr. 80/1938, eða aðgerð sem geti flokkast sem „rof á friðarskyldu sem jafna má til eiginlegrar vinnustöðvunar“, svo sem segir í athugasemdum með 5. gr., síðar 4. gr., frumvarps sem varð að lögum nr. 75/1996. Þykir engu breyta að þessu leyti þótt taka megi undir það með stefnanda að umrædd tilmæli stefnda hafi falið í sér hvatningu til óhefðbundinnar notkunar á framleiðslutækjum, fiskiskipaflotanum, enda bar þessi aðgerð engin megineinkenni vinnustöðvunar samkvæmt framangreindri skilgreiningu, eins og fyrr segir. Félagsdómur kom sér hjá því að fjalla um pólitískt markmið aðgerðarinnar sem var það að hafa áhrif á stjórnvöld en vinnustöðvanir og aðgerðir sem jafna má til þeirra og sem gerðar eru í þeim tilgangi eru bannaðar skv. 17.gr. laga 80/1938.

Þessi dómur virðist beita annarri nálgun en gert var í Félagsdómum nr. 14/1992 og 7/1999 þar sem fjallað var um aðkomu stéttarfélags að fundarhöldum á vinnutíma og hópuppsögnum félagsmanna. ( Sjá umfjöllun „Hvað er verkfall“ ) Í þeim dómum lá áherslan á aðkomu stéttarfélaganna en ekki markmiðum eða afleiðingum aðgerðanna gagnvart atvinnurekendum. Ekki verður dregin önnur ályktun af þessum þremur dómum en sú, að stéttarfélögum sé, eins og samtökum atvinnurekenda, heimilt að beina tilmælum til félagsmanna sinna t.d. um þátttöku í fundum á vinnutíma, þ.m.t. mótmælafundum tengdum starfskjörum sínum eða fundum sem haldnir eru til þess að knýja á um aðgerðir stjórnvalda í velferðarmálum, enda hafi það engar afleiðingar fyrir félagsmanninn gagnvart stéttarfélagi sínu að hlíta ekki þeim tilmælum.  


Tilgangur verkbanns

Tilgangur verkbanns er eins og segir í 14. gr. laganna sá að heimila atvinnurekanda með verkbanni að vinna að framgangi krafna sinna í vinnudeilu og til verndar rétti sínum samkvæmt lögunum. Þannig getur atvinnurekandi ekki í sparnaðarskyni þegar verkfall er skollið á starfsemi hans eða í almennum verkefnaskorti boðað verkbann. Þetta kemur skýrt fram í málsatvikum í Félagsdómi 12/1984 (IX:95).

Þar höfðu bókagerðarmenn átt í þriggja vikna löngu verkfalli þegar Nútíminn hf. boðaði verkbann á blaðamenn. Í verkbannsboðuninni var ástæðan sögð sú að vegna verkfalls Félags bókagerðarmanna hefði NT ekki komið út í nær þrjár vikur og þar af leiðandi orðið fyrir miklu tekjutapi. Stjórn Blaðamannafélagsins taldi verkbannsboðunina ólögmæta, þar sem henni væri ekki ætlað að vinna að framgangi krafna í kjaradeilu. Ákvað stjórn NT þá að boða verkbann að nýju. Í þeirri boðun sagði að verkbannið væri að sjálfsögðu lagt á til þess að knýja á um kröfur félagsins í yfirstandandi kjaradeilu. Dómurinn tók ekki sérstaklega á þessu atriði í dómsuppsögu þar sem verkbannið hafði verið boðað að nýju.

Framkvæmd verkbanns

Um framkvæmd verkbanns gilda að flestu leyti sömu sjónarmið og um framkvæmd verkfalls. Meginskyldur aðila samkvæmt ráðningarsamningi falla niður þann tíma sem verkbann varir og rakna við þegar því líkur. Vinna er ekki innt af hendi og laun eru ekki greidd.

Spyrja má að því hvernig fari með fyrirframgreidd laun, hafi verkbann verið boðað, og hvort atvinnurekandi geti þannig komið sér undan samningsbundnum launagreiðslum með verkbannsboðun. Úr þessu deiluefni var skorið í Félagsdómi 12/1984(IX:95). Málsatvik voru þau að Félag bókagerðarmanna hafði verið í þriggja vikna löngu verkfalli þegar Nútíminn boðaði verkbann á blaðamenn sem störfuðu hjá fyrirtækinu. Skyldi verkbann hefjast þann 4. október. Samkvæmt kjarasamningum Blaðamannafélags Íslands eru laun greidd fyrirfram fyrsta hvers mánaðar. Þegar verkbann hafði verið boðað greiddi fyrirtækið einungis laun vegna fyrstu þriggja daga mánaðarins. Félagið höfðaði mál gegn fyrirtækinu og krafðist þess að þessi framkvæmd yrði dæmd ólögmæt. Niðurstaða dómsins var sú að fallist var á það með fyrirtækinu að samningsákvæðið um fyrirframgreiðslu launa eigi ekki að skýra svo bókstaflega að það hafi átt að tryggja félagsmönnum BÍ launagreiðslur fyrir tímabil, sem þeir fyrirsjáanlega yrðu í verkbanni. Var Nútíminn því sýknaður af kröfu félagsins.

Það er á valdi þess aðila sem fyrirskipar verkbann að ákveða hversu víðtækt það skuli vera. Hann getur ákveðið að það skuli koma til framkvæmda í áföngum eða eftir atvikum að það skuli einungis taka til tiltekinna verkþátta eða starfsgreina. Verkbann getur þó aldrei orðið víðtækara en upphaflega var ákveðið.

Ágreiningur getur komið upp um það atriði hverjir megi vinna í verkbanni eins og er með verkföll.

Í samþykktum Samtaka atvinnulífsins (SA) er m.a. fjallað um það hvernig félagsmenn þess skuli bregðast við í vinnustöðvun.

Í 47. gr. samþykktanna segir að enginn félagsmaður megi ráða til sín launþega, sem eru í verkbanni eða verkfalli hjá öðrum félagsmönnum. Greinin kveður líka á um að sama skuli gilda viðvíkjandi verkbanni eða verkfalli erlendis. Þegar verkfall eða verkbann verður hjá félaga innan SA skal hlutaðeigandi, ef hann telur ástæðu til eða framkvæmdastjóri óskar, senda skrifstofu samtakanna skrá yfir launþega þá sem hlut eiga að máli. Er þá heimilt að kynna það þeim félögum sem ástæða þykir til hverjir þátttakendur séu í verkfallinu.

Þá er í 48. gr. kveðið á um að þegar vinnustöðvun standi yfir hjá einhverjum félagsmanni megi enginn félagi í samtökunum vinna gegn hagsmunum hans, t.d. með því að taka að sér, án samkomulags við hlutaðeiganda sjálfan eða stjórn viðkomandi aðildarfélags, framkvæmd á verki, sölu á vöru eða þjónustu sem hlutaðeigandi atvinnurekandi hefur tekið að sér eða á annan hátt nota sér aðstöðuna til þess að rýra viðskipti hans eða starfssvið.

Þá getur framkvæmdastjórn SA, þegar vinnustöðvun stendur yfir eða er yfirvofandi, bannað atvinnurekendum í samtökunum að hafa viðskipti við tiltekin fyrirtæki eða á sérstaklega ákveðnum sviðum, svo sem að selja tilgreinda vörutegund, og gert aðrar slíkar ráðstafanir sem hún telur nauðsynlegar vegna deilunnar.

Ófélagsbundnir atvinnurekendur hafa sjálfstæðan rétt til að fyrirskipa verkbann og félag eða samband sem stendur að verkbanni getur ekki hindrað að slíkir atvinnurekendur haldi áfram starfsemi sinni. Samþykktir SA taka þó á þessu í 48. gr. Þar segir að ef einhver utan samtakanna vinnur beinlínis gegn hagsmunum félagsmanna sem eiga í vinnustöðvun er öðrum félagsmönnum óheimilt að eiga viðskipti við hann meðan á vinnustöðvuninni stendur. Framkvæmdastjórn SA getur samþykkt að sama skuli einnig gilda eftir að vinnustöðvun er lokið, annað hvort um tiltekinn tíma eða þar til framkvæmdastjórnin afléttir slíku viðskiptabanni.

Þá getur stjórnin ákveðið tilsvarandi aðgerðir í deilumálum sem hafa eigi leitt til vinnustöðvunar.

Ábygð á samningsrofum í verkbanni

Lögin um stéttarfélög og vinnudeilur geyma fá ákvæði um viðurlög, ef vinnufriður er rofinn með ólögmætum hætti.

Ákvæði 8. gr. laga nr. 80/1938 ná ekki til atvinnurekenda

Samkvæmt 8. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 bera stéttarfélög ábyrgð á samningsrofum þeim, sem félagið sjálft eða löglega skipaðir trúnaðarmenn þess gerast sekir um í trúnaðarstörfum sínum fyrir félagið. Þetta ákvæði tekur einungis til ábyrgðar stéttarfélags vegna samningsrofs. Ekkert sambærilegt ákvæði sem mælir fyrir um ábyrgð atvinnurekanda eða félags atvinnurekanda er að finna í lögunum. Engu að síður verður að telja að þessir aðilar geti borið skaðabótaábyrgð í samræmi við meginreglur skaðabótaréttarins. 

Samkvæmt 70. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur varðar brot á lögunum auk skaðabóta sektum. Samkvæmt 65. gr. laganna getur Félagsdómur dæmt málsaðila til að greiða skaðabætur. Við ákvörðun skaðabóta má taka tillit til saknæmi brotsins, en það þýðir að Félagsdómur getur lækkað bótafjárhæðina eða eftir atvikum fellt hana niður með tilliti til þess, hversu mikil sökin er og hvort rekja megi tjónið til eigin sakar tjónþola og annarra atvika.

Almennar skaðabótareglur gilda

Um ákvörðun skaðabóta gilda almennar reglur skaðabótaréttarins. Skaðabætur byggjast á sakarreglunni, en samkvæmt henni ber maður skaðabótaábyrgð á tjóni ef hann er sakhæfur og veldur tjóninu með bótanæmum, saknæmum og ólögmætum hætti, enda sé tjónið sennileg afleiðing af hegðun hans og sérstakar bótaleysisástæður eru ekki fyrir hendi.

Bætur vegna ólöglegs verkbanns eru fyrst og fremst bætur vegna tekjumissis fyrir þann tíma, sem verkbannið varir, samanber Félagsdóm 6/1969 (VI:163).

Verkbann hjá ríki og sveitarfélögum

Reglur um verkbann eiga einungis við um þá atvinnurekendur sem falla undir lög nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur þ.e. atvinnurekendur á hinum almenna vinnumarkaði. 

Lög nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna ná til flestra starfsmanna fyrirtækja og stofnana á vegum ríkis og sveitarfélaga. 

1. mgr. 14. gr. laga nr. 94/1986 veitir þeim stéttarfélögum sem heyra undir lögin verkfallsheimild. Orðrétt segir í ákvæði þessu: Stéttarfélagi, sem er samningsaðili samkvæmt lögum þessum, er heimilt að gera verkfall í þeim tilgangi að stuðla að framgangi krafna sinna í deilu um kjarasamning með þeim skilyrðum og takmörkunum sem sett eru í lögum þessum. Í 2. mgr. 14. gr., sbr. lög nr. 67/2000, segir um verkfall í skilningi laga þessara sé að ræða þegar starfsmenn leggja niður venjuleg störf sín að einhverju eða öllu leyti í því skyni að ná tilteknu sameiginlegu markmiði. Sama gildir um aðrar sambærilegar aðgerðir af hálfu starfsmanna sem jafna má til verkfalla.

Sambærilega heimild fyrir atvinnurekendur til að boða verkbann er hins vegar ekki að finna í lögum 94/1986. Ríki og sveitarfélög geta því ekki boðað verkbann á þá starfsmenn sína sem heyra undir lögin.

Um þá starfsmenn ríkis og sveitarfélaga sem falla undir lög nr. 80/1938 gegnir öðru máli. Ríki og sveitarfélög geta væntanlega þar notfært sér heimildina í II. kafla laganna til að boða verkbann.