Vinnuréttarvefur

Vinnustöðvanir

Hagsmunaágreiningur sem verður milli samtaka launafólks og atvinnurekenda getur með löglegum hætti leitt til vinnustöðvunar. Réttur til þess að beita slíkri aðgerð telst vera meginregla íslensks réttar og sætir þeim takmörkunum einum sem greindar eru í lögum. Undantekningar frá þessari meginreglu ber að túlka þröngt sbr. t.d. Félagsdóm 9/2000.

Vinnustöðvun er þvingunaraðgerð, sem heimiluð er undir vissum kringumstæðum og að uppfylltum tilteknum skilyrðum sem bæði lúta að formi og efni. Áður en að vinnustöðvun kemur hafa samningsaðilar reynt að mati þeirra sjálfra aðrar leiðir til þrautar. Hún er því eins konar neyðarúrræði þegar annað hefur ekki dugað.

Við framkvæmd vinnustöðvunar veltur á miklu fyrir þann sem efnt hefur til slíkrar aðgerðar að hún reynist virk og að hún þjóni þeim tilgangi að knýja gagnaðilann til samninga. Það er einnig hagsmunamál þess sem vinnustöðvun beinist að, að hún valdi sem minnstum skaða.

Evrópusamtök launafólks (ETUC) gáfu út í mars 2007 greinargerð þar sem verkfallsrétti stéttarfélaga í 27 Evrópuríkjum, þ.m.t. á Íslandi, er nánar lýst. Sjá nánar

Grundvöllur vinnustöðvunar - Hagsmunaágreiningur

Hagsmunaágreiningur er þegar deilt er um það hvaða kaup og kjör skuli gilda á vinnumarkaði, þegar samningur aðila er útrunninn eða samningur milli þeirra hefur aldrei verið fyrir hendi. Hagsmunaágreiningur er annað orð yfir kjaradeilur.  Hagsmunaágreiningur er almennt skilyrði fyrir því að hægt sé að beita vinnustöðvun, verkfalli eða verkbanni.  Sjá Félagsdóm7/1988 (IX:253).

Ákvæði um vinnustöðvun er að finna í II. kafla laganna um stéttarfélög og vinnudeilur, fyrst og fremst í 14. gr. Þótt hagsmunaágreiningur sé meginskilyrði fyrir því að hægt sé að beita vinnustöðvun, finnast undantekningar þar frá, og þá sérstaklega 17. gr. laganna.

Ekki er hægt að efna til verkfalls um hvaða kröfur sem er og grundvallarskilyrði lögmætrar vinnustöðvunar er, að þeir sem kröfunni er beint að geti orðið við henni sbr. t.d. Félagsdóm 11/1993 (X:111) þar sem meirihluti dómsins taldi raunverulega ástæðu verkfallsboðunar Sjómannafélags Reykjavíkur, kröfu um að tiltekið skip sem Hf. Eimskipafélag Íslands hafði ekki ráðstöfunarrétt yfir skyldi mannað íslenskum hásetum. Við þeirri kröfu gat útgerðin ekki orðið. Krafa þessi var hins vegar ein af fjórum kröfum sem verkfall var boðað til að fylgja eftir. Þrátt fyrir það var verkfallið talið ólögmætt og verður því að álykta sem svo, að kröfugerðin í heild verði að varða raunverulegan hagsmunaágreining sem gagnaðila er fært að taka þátt í að leysa.


14. gr. laga nr. 80/1938

Samkvæmt 14. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur er stéttarfélögum, félögum atvinnurekenda og einstökum atvinnurekendum heimilt að gera verkföll og verkbönn í þeim tilgangi að vinna að framgangi krafna sinna í vinnudeilum og til verndar rétti sínum samkvæmt lögunum með þeim skilyrðum og takmörkunum einum sem sett eru í lögum. Þeir aðilar sem njóta þessa réttar eru tæmandi taldir í greininni, en þeir eru í fyrsta lagi stéttarfélög, í öðru lagi félög atvinnurekenda og í þriðja lagi einstakir atvinnurekendur. Sambönd stéttarfélaga og atvinnurekendafélaga virðast því ekki hafa rétt til að gera verkföll og verkbönn sé ákvæðið túlkað eftir orðanna hljóðan.     

Vinnuveitendasamband Íslands (nú Samtök atvinnulífsins) hefur þó verið talið hafa verkbannsheimild og hafa boðað verkbann gagnvart einstökum stéttarfélögum, svo sem til dæmis í Félagsdómi 11/1984 (IX:88), er VSÍ boðaði verkbann gagnvart félagsmönnum Félags bókagerðarmanna, sem voru í verkfalli, og Blaðamannafélags Íslands. Verkbannsheimild VSÍ var þó ekki til úrlausnar í Félagsdómi og rétti VSÍ til boðunar verkbanns  hafði ekki verið mótmælt sérstaklega. Dómurinn er því vart fordæmisgefandi. 

Einstakir launamenn eða starfshópar án aðildar stéttarfélags hafa heldur ekki rétt til að boða til verkfalls samkvæmt lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur og ákvörðun þeirra um að leggja niður vinnu verður ekki talin verkfall í skilningi laganna.  Einstakir atvinnurekendur geta á hinn bóginn að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna lýst yfir verkbanni.


Vinnustöðvun til að fylgja eftir Félagsdómi

Í 17. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur er kveðið á um það að óheimilt sé að hefja vinnustöðvun ef ágreiningur er einungis um atriði, sem Félagsdómur á úrskurðarvald um nema til fullnægingar úrskurðum dómsins. Samkvæmt þessu er heimilt að hefja vinnustöðvun til að fylgja eftir dómi Félagsdóms.

Um framkvæmd slíkrar vinnustöðvunar er ekki fjallað sérstaklega í lögum nr. 80/1938 eða greinargerð með lögunum. Þar sem orðið vinnustöðvun er notað í inngangi 17. gr. sem fjallar um þessa undantekningu frá þeirri meginreglu að vinnustöðvun megi einungis gera vegna hagsmunaágreinings verður að túlka greinina þannig að um boðun og framkvæmd gildi önnur ákvæði II. kaflans eftir því sem við getur átt sbr. m.a. Félagsdóm 4/1963 (V:127).  Í því máli hafði verkfall verið boðað skv. þágildandi lögum til að fylgja eftir, að því er stéttarfélagið taldi, niðurstöðu Félagsdóms. Verkfallið var þó dæmt ólögmætt, þar sem dómur Félagsdóms sem var grundvöllur vinnustöðvunarinnar kvað ekki berum orðum á um persónulega skyldu  viðkomandi atvinnurekanda eða um félagslega afstöðu hans til LÍÚ, sem var hinn dæmdi aðili.

Lög nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna

Sérstök lög gilda um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986. Samkvæmt þeim hafa stéttarfélög sem falla undir lögin verkfallsheimild í þeim tilgangi að stuðla að framgangi krafna sinna í deilu um kjarasamning með vissum skilyrðum og takmörkunum. Lög nr. 94/1986 gilda um alla starfsmenn sem eru félagar í stéttarfélögum sem samkvæmt 4. og 5. gr. laganna hafa rétt til að gera kjarasamninga samkvæmt þeim og eru ráðnir hjá ríkinu, ríkisstofnunum, sveitarfélögum eða stofnunum þeirra með föstum tíma-, viku eða mánaðarlaunum, enda verði starf þeirra talið aðalstarf.

Í 1. gr. laganna eru taldir embættismenn  og starfsmenn sem lögin gilda ekki um. Ákvæði laganna taka ekki til: 
1. Þeirra embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins sem heyra undir lög nr. 47/2006 um kjararáð.  
2. Starfsmanna ríkisbanka eða lánastofnana ríkisins.
3. Starfsmanna stofnana og fyrirtækja ríkis og sveitarfélaga þegar kaup þeirra og kjör fara eftir kjarasamningum stéttarfélaga þeirra og vinnuveitenda, sbr. lög nr. 80/1938 og lög nr. 19/1979.
4. Þeirra sem skipa samninganefndir ríkis og sveitarfélaga.
5. Þeirra starfsmanna sveitarfélaga sem getið er í 6.–8. tölul. 19. gr. þessara laga og eru utan samningsumboðs stéttarfélags samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar sem ákveður þeim starfskjör án samnings.

Lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna ná einnig til starfsmanna sjálfseignarstofnana sem starfa í almannaþágu samkvæmt lögum, eru í fjárlögum eða njóta fjárframlaga til launagreiðslna úr ríkissjóði  af daggjöldum eða úr sveitarfélagssjóði enda komi til samþykki viðkomandi stofnana.

Í 19. gr. laganna er fjallað um takmarkanir á verkfallsrétti opinberra starfsmanna. Í ákvæðinu er að finna upptalningu á því til hvaða starfsmanna heimild til verkfalls nær ekki en þeir eru m.a. embættismenn og starfsmenn sem heyra undir kjararáð, starfsmenn Alþingis, Stjórnarráðs og ríkissaksóknara auk starfsmanna sem starfa við nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu. Á hverju ári gera fjármálaráðherra og sveitarfélög að undangengnu samráði við viðkomandi stéttarfélög skrá yfir þau störf sem falla undir þessi ákvæði.

Lögin ná ekki eingöngu til félagsmanna BSRB heldur einnig til félagsmanna annarra stéttarfélaga starfsmanna ríkis og sveitarfélaga. Við setningu laganna vaknaði sú spurning hvort þau myndu hafa áhrif á þá skiptingu starfsmanna sem viðgengist hefur milli félaga innan ASÍ og félaga innan BSRB og annarra félaga opinberra starfsmanna þar sem hin nýju lög rýmkuðu verulega samningsumboð gagnvart ríkinu frá því sem verið hafði. Sú skipting byggir á því að almennu stéttarfélögin innan ASÍ semja við ríki og sveitarfélög á grundvelli l. 80/1938 meðan opinberu félögin semja skv. lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þessar spurningar vöknuðu þar sem allar skilgreiningar og afmarkanir vantar í lögin um hverjir séu starfsmenn ríkis og sveitarfélaga í skilningi laganna og hvort lögin gætu þá til dæmis náð til stéttarfélags eins og Sóknar (nú Eflingar) sem hafði innan sinna raða félagsmenn sem störfuðu skv. kjarasamningum félagsins hjá ríkinu, ríkisstofnunum, sveitarfélögum og stofnunum og þá einnig hvort einstök stéttarfélög gætu valið eftir hvaða lögum þau semdu. Vegna þessa lýsti þáverandi fjármálaráðherra því yfir við afgreiðslu málsins á þingi að lögin breyttu í engu því skipulagi og skiptingu sem verið hefði milli félaga ASÍ og félaga opinberra starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði. Almennu stéttarfélögin semja því eftir sem áður við hið opinbera á grundvelli laga 80/1938. Sjá hér um t.d. Félagsdóm 1/1994 ( X:153) Í kjarasamningum Starfsgreinasambands Íslands á árinu 2004 var hins vegar samið um það í sérstöku samkomulagi að ákvæði III. kafla laga nr 94/1986 skuli gilda um ákvörðun og framkvæmd verkfalla aðildarfélaga SGS frá og með gildistöku þess samnings.