Vinnuréttarvefur

Skilgreining og skipulag

Í 74. og 75. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands er fjallað um stéttarfélög og starfsemi þeirra. Í 1. mgr. 74. gr. segir að menn eigi rétt á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Í 2. mgr. er réttur manna til þess að standa utan félaga síðan tryggður en þar segir að engan megi skylda til aðildar að félagi en þó megi með lögum kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra. 2. mgr. 75. gr. mælir síðan fyrir um að í lögum skuli kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu. Um verkalýðsfélög, hlutverk þeirra, starfsemi og stöðu er síðan fjallað í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna. 

Í 1. gr. laga nr. 80/1938  um stéttarfélög og vinnudeilur segir: „Rétt eiga menn á að stofna stéttarfélög og stéttarfélagasambönd í þeim tilgangi, að vinna sameiginlega að hagsmunamálum verkalýðsstéttarinnar og launtaka yfirleitt“. Hvað nákvæmlega felst í þessu ákvæði er ekki útskýrt en í greinargerð með lögunum segir, að um sé að ræða rétt til þess að „… gæta hagsmuna þeirra manna, sem hafa lífsviðurværi sitt af því að selja vinnu sína gegn ákveðnu kaupgjaldi.“ 

Af lögunum í heild er augljóst að þeir hagsmunir sem rætt er um í 1. gr. eru fólgnir í réttinum til þess að semja sameiginlega um kaup og kjör og beita í því ferli þeim þvingunarúrræðum, sem lögin geyma. Þessir hagsmunir eru þó ekki þeir einu sem lögin vernda. Af 1. mgr. 5. gr. laganna sést að kjarasamningsrétturinn er einungis eitt þeirra hlutverka sem verkalýðsfélögum er ætlað að sinna en þar segir: „Stéttarfélög eru lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna, enda hafi félagið í samþykktum sínum ákveðið að láta starfsemi sína taka til slíkra málefna“. 

Löng hefð er fyrir því að verkalýðsfélögin sinni margþættu félagslegu hlutverki öðru en því að semja um kaupið eitt eins og endurspeglast 1. mgr. 5. gr. laga nr. 80/1938 sem áður er vitnað til. T.d. hafa verkalýðsfélögin frá upphafi talið lífeyrismál, húsnæðismál, almannatryggingamál, orlofsheimilamál, öryggis- og vinnuverndarmál, menningarmál, menntamál og sjúkratryggingar falla undir verksvið sitt. Þetta kemur m.a. fram í greinargerð með lögunum þar sem öryggi á vinnustöðum, hámarksvinnutími o.fl. er flokkað með réttindum verkafólks. 

Til þess að sinna þessum hlutverkum er verkalýðsfélögum m.a. talið heimilt að safna sjóðum og ráðstafa þeim en í frumbernsku verkalýðshreyfingarinnar við lok 19. aldar og í upphafi 20. aldar var sá réttur víða umdeildur. Hér á Íslandi hefur réttur til sjóðssöfnunar og ráðstöfunar þeirra til félagslegra málefna ekki verið umdeildur og ber starfsemi verkalýðshreyfingarinnar þess skýr merki. Nægir þar að vísa  til þjónustu verkalýðsfélaganna við einstaka félagsmenn hvað varðar ráðningarsamninga þeirra og einstaklingsbundin réttindi á vinnustað og til reksturs sjúkra- og orlofsheimilasjóða. Þetta birtist þó ekki síst í rekstri öflugra söfnunarlífeyrissjóða, sem jöfnum höndum greiða ellilífeyri, örorkulífeyri, makalífeyri og barnalífeyri og mynda órjúfanlegan hluta af félagslegu öryggiskerfi verkafólks og samfélagsins í heild.

 

Félögin skulu opin öllum

Í 2. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur segir um stéttarfélög að þau skuli opin öllum í hlutaðeigandi starfsgrein á félagssvæðinu eftir nánar ákveðnum reglum í samþykktum félaganna.

Félag telst vera stéttarfélag þótt innan vébanda þess séu einstaklingar sem ekki eiga lögvarinn rétt til inngöngu í það.

Í Félagsdómi 3/1945 (II:153) var deilt um það hvort verslunarmannafélag ætti rétt á að koma fram fyrir hönd félagsmanna sinna í kjarasamningum. Kaupsýslumenn á félagssvæði þess töldu að svo væri ekki þar sem 28 af 66 félagsmönnum uppfylltu ekki það inntökuskilyrði í samþykktum félagsins að þeir störfuðu í verslun eða skrifstofu. Félagsdómur féllst ekki á þessa málsástæðu og sagði í dóminum að ekki væri hægt að fallast á þá skoðun að það svipti félagið þeim eiginleikum að vera stéttarfélag samkvæmt lögum nr. 80/1938 þótt til félaga þar teldist eitthvað af fólki sem ekki mundi eiga lögvarinn rétt til inngöngu í félagið.

Þetta ákvæði felur einnig í sér, að stéttarfélögum er óheimilt að takmarka aðild við tiltekna búsetu eða lögheimili félagsmanna og skulu félögin opin öllum sem vinna þau störf á félagssvæðinu sem stéttarfélagið semur um.

Reglan um að stéttarfélag sé öllum opið er ein grundvallarreglan um starfsemi verkalýðsfélaga, og byggir ekki aðeins á lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur heldur einnig á alþjóðasamþykktum, svo sem samþykktumAlþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 87 og 98. Nokkrir dómar Félagsdóms hafa staðfest þessa reglu svo sem Félagsdómur 5/1981 (VIII:243).  Sjá einnig sambærileg mál Félagsdóms: 6/1981 (VIII:250), 7/1981 (VIII:257) og 8/1981(VIII:264).

Gerð kjarasamninga sé eitt af verkefnum félagsins

Ein þeirra krafna sem lögin um stéttarfélög og vinnudeilur gera til stéttarfélags til þess að um stéttarfélag í skilningi laganna geti verið að ræða er, að félagið þurfi í félagslögum sínum að hafa ákveðið að láta starfsemi sína taka til þess að gera kjarasamninga við atvinnurekendur um kaup og kjör félagsmanna sinna. Þetta kemur fram í 5. gr. laga nr. 80/1938.

Í Félagsdómi 6/1984 (IX:45) var deilt um það hvort Stéttarfélag sjúkraþjálfara gæti talist stéttarfélag í merkingu laganna, en félagið var stofnað af sjúkraþjálfurum sem unnu hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra til að ná fram kjarabótum. Félagsdómur taldi félagið ekki uppfylla skilyrði laganna og vísaði í forsendum sínum til þess að í 2. gr. laga nr. 80/1938 segði að stéttarfélög skuli opin öllum í hlutaðeigandi starfsgrein á félagssvæðinu, eftir nánar ákveðnum reglum í samþykktum félaganna. Við hinn munnlega málflutning hafi því verið lýst yfir af hálfu félagsins að stofnun þess hefði ekki verið auglýst opinberlega og sjúkraþjálfurum utan starfsstöðvar stefnanda sem rétt áttu á félagsaðild hefði ekki heldur verið gefinn kostur á með öðrum hætti að taka þátt í stofnun félagsins og mótun laga þess. Þegar þetta sé virt svo og það að lög Stéttarfélags sjúkraþjálfara þyki ekki hafa að geyma nægjanlega fastmótaðar reglur um innra skipulag félagsins, verði að fallast á það að Stéttarfélag sjúkraþjálfara hafi ekki eins og að málum hafi verið staðið verið löglega stofnað sem stéttarfélag í skilningi laga nr. 80/1938 og geti því ekki verið lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör félagsmanna sinna.

Stundum hafa komið upp deilur um það hvort félag geti talist stéttarfélag í merkingu laganna af fleiri orsökum en að framan greinir. Í Félagsdómi 2/1954 (IV:77) var deilt um það hvort Skipstjórafélag Íslands væri stéttarfélag í merkingu laga nr. 80/1938. VSÍ hélt því fram að Skipstjórafélagið væri ekki stéttarfélag í skilningi laganna þar sem inntökuskilyrði væri bundið við vissa menntun eða réttindi en ekki raunverulegt starf. Félagið gæti því bæði verið félag atvinnurekenda og manna sem væru í þjónustu annarra en slík aðstaða skyti loku fyrir að félagið yrði dæmt stéttarfélag. Félagsdómur féllst ekki á þetta sjónarmið og vísaði til þess að félagið væri í Farmanna- og fiskimannasambandinu, tilgangur þess væri meðal annars að efla hag stéttarinnar eftir mætti og hefði það markmið meðal annars komið fram í því að það hefði samið við útgerðarfélög um kaup og kjör félagsmanna sinna. Loks lægi fyrir að félagsmenn væru allir eða hefðu verið á meðan þeir gengu til starfa, launþegar í þjónustu annars aðila, vinnuveitanda. Þótt ýmsir þeirra væru taldir hátt launaðir miðað við launþega almennt og gegndu vandasömum trúnaðarstörfum fyrir vinnuveitendur sína, fengi það ekki breytt því að þeir væru launtakar í skilningi 1. gr. laga nr. 80/1938. Samkvæmt því komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að ótvírætt yrði að telja að Skipstjórafélagið væri stéttarfélag í skilningi laga nr. 80/1938.

Stéttarfélög eru grunneiningar á vinnumarkaði

Lög um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 gera ráð fyrir að stéttarfélagið sé hin skipulagslega grunneining samtaka launafólks á vinnumarkaði. Samkvæmt þeim fer stéttarfélagið (grunneiningin) með samningsréttinn fyrir félagsmenn sína sbr. 5. gr. laganna þar sem segir að stéttarfélög séu lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna, enda hafi félagið í samþykktum sínum ákveðið að láta starfsemi sína taka til slíkra málefna. Hins vegar er félögunum heimilt að framselja umboð sitt til kjarasamninga og algengt að það sé gert. Ýmist er umboðið framselt til stærri skipulagseininga eins og t.d. til landssambanda ASÍ eða beint til ASÍ. Umboð af þessum toga geta bæði verið tímabundin og ótímabundin, tekið til endurnýjunar tiltekinna kjarasamninga eða tiltekins hluta þeirra. Framsal afmarkaðra umboða eru algeng þegar í hlut eiga samræmd réttindi eins og á við í meginatriðum t.d. um veikindarétt og uppsagnarfresti og föst regla þegar fjallað er um lífeyrismál sem skv. venju er samið um á vettvangi ASÍ. 

Félagssvæði

Samkvæmt 2. gr. laganna getur félagssvæðið aldrei verið minna en eitt sveitarfélag, en það getur verið stærra. Verkalýðsfélag sem t.d. skilgreindi félagssvæði sitt þannig að það semdi um kaup og kjör þeirra sem stunduðu verkamannastörf í Breiðholtshverfi í Reykjavík gæti þannig ekki talist vera stéttarfélag í skilningi laga nr. 80/1938. Af þessari reglu leiðir einnig, að þegar sveitarfélög eru sameinuð eins og títt er, verða stéttarfélögin að bregðast við, breyta lögum sínum og stækka félagssvæði sín.

Lögin um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 geyma engar takmarkanir við því að fleiri en eitt stéttarfélag starfi í hverri starfsgrein á sama félagssvæði. 

Í Félagsdómi 2/1939 (I:6) var um þetta tekist. Þar var því meðal annars haldið fram af hálfu annars aðila að stofnun stéttarfélags í kaupstað þar sem annað slíkt félag var fyrir væri ólögleg og gagnstæð ákvæðum og tilgangi laga nr. 80/1938. Félagsdómur féllst ekki á þessa málsástæðu og segir í dóminum að hið nýja félagi virðist hafa verið stofnað að lögum. Sjá ennfremur Félagsdóm 7/1939 (I:26), en þar sagði dómurinn meðal annars að í 1. gr. laganna nr. 80/1938 væru engar takmarkanir settar við því að ekki mætti vera nema eitt stéttarfélag í hverri starfsgrein á hverjum stað og ekki verði það heldur dregið út af öðrum ákvæðum laganna. Yrði að telja að ef tilgangur löggjafans hefði verið sá að takmarka tölu stéttarfélaganna, þá hefði það þurft að koma skýrt í ljós og það því fremur sem vitað var að á þeim tíma er lögin voru sett væru fleiri en eitt stéttarfélag starfandi og höfðu að minnsta kosti um skeið verið starfandi í sömu starfsgrein innan sama bæjar- eða sveitarfélags.

Skipulag ASÍ gerir ráð fyrir því að þegar svo háttar sem að ofan greinir, þá skuli aðildarsamtök sambandsins gera með sér sérstakt samkomulag. Í 15. grein gildandi laga ASÍ (2006) segir: "Þar sem samningssvið tveggja eða fleiri aðildarfélaga skarast, er þeim skylt að gera með sér samkomulag um samningssviðið. Náist ekki samkomulag er aðildarfélagi heimilt að leggja ágreininginn fyrir miðstjórn, sbr. 10. gr."

Skipulag stéttarfélaga

Stéttarfélög hafa frelsi um sín innri mál með þeim takmörkunum sem settar eru í lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur samanber 1. mgr. 3. gr. þeirra. Í því felst meðal annars að stéttarfélag getur ákveðið það í samþykktum sínum hvert félagssvæðið skuli vera, svo framarlega sem félagssvæðið nær yfir að minnsta kosti eitt sveitarfélag.  Enn fremur til hvaða starfsgreina félagið skuli ná og hvernig stjórnskipan þess er háttað.

Svæðisbundin stéttarfélög

Með svæðisbundnum félögum er átt við stéttarfélög sem ná til starfa sem unnin eru í afmörkuðum sveitarfélögum, einu eða fleirum. Fyrrum var aðild að slíkum félögum einnig bundin búsetu þeirra eða lögheimili sem unnu störfin og menn búsettir utan svæðisins áttu þá ekki rétt til inngöngu í félagið. Öll ákvæði í félagslögum aðildarfélaga ASÍ af þessum toga eru nú bönnuð sbr. 2. mgr. 12. gr. laga ASÍ frá 2006 og hafa ekkert gildi séu þau á annað borð í lögum aðildarfélaganna sbr. 1. mgr. 13. gr. sömu laga.  Svæðisbundin félög ná oft yfir nokkur sveitarfélög. Félagssvæði félaganna á höfuðborgarsvæðinu nær gjarnan yfir Mosfellsbæ, Seltjarnarnes og Kópavog auk Reykjavíkur.

Landsfélög

Með landsfélagi er átt við félög sem skilgreina félagssvæði sitt sem allt landið, þ.e. takmarka það ekki við tiltekin sveitarfélög eða landshluta. Kjarasamningar þeirra við atvinnurekendur gilda þannig á landinu öllu og þeir sem uppfylla skilyrði fyrir inngöngu í félagið eiga rétt til inngöngu óháð því hvar á landinu þeir starfa. Sum félög starfshópa eru landsfélög, svo semMjólkurfræðingafélag Íslands og Félag leiðsögumanna. Sjá einnig t.d. VM, Félag vélstjóra og málmtæknimanna sem aðild á að ASÍ en samkvæmt lögum þess er félagið opið öllum sem lokið hafa viðurkenndu vélstjóranámi, iðnnámi í málm- og véltæknigreinum, veiðarfæragerð, báta og skipasmíði svo og námsmönnum og öðrum þeim sem starfa í greinunum. Einnig er þetta fyrirkomulag algengt hjá félögum háskólafólks.   

Starfsgreinabundin félög

Auk þess sem félög ákveða í samþykktum sínum til hvaða svæðis þau ná eru þau almennt einnig starfsgreinabundin.  Í samþykktum þeirra kemur fram til hvaða starfa þau taka og kjarasamningar félaganna við atvinnurekendur endurspegla síðan ákvæði samþykktanna. Færst hefur í vöxt að starfsgreinum innan aðildarfélaga ASÍ hafi fjölgað vegna sameiningar félaga og sveitarfélaga. Til þess að skipuleggja kjarasamningsgerð fyrir einstakar starfsgreinar mynda aðildarfélög ASÍ með sér landssambönd sem einstakar deilir aðildarfélaganna eiga aðild að, eða félögin heild sé einungis um eina starfsgrein að ræða.  

Landssambönd stéttarfélaga innan ASÍ 

Skv. lögum ASÍ skipuleggja aðildarfélög sambandsins aðild sína að ASÍ í gegnum sérstök landssambönd en landsfélög eiga aftur á móti beina aðild að ASÍ. Landssamböndin starfa með líku sniði og ASÍ og halda ársfundi eða þing þar sem tekin eru til umfjöllunar þau mál sem efst eru á baugi í samfélaginu og varða hagsmuni launafólks og stöðu verkalýðshreyfingarinnar. Hlutverk landssambandanna er almennt að sameina innan vébanda sinna verkalýðsfélög í samræmi við lög ASÍ. Þau samræma og móta stefnu félaganna í launa- og kjaramálum og styðja og styrkja félögin í starfi þeirra að hagsmunamálum félagsmanna, svo sem í vinnudeilum og samningum við atvinnurekendur. Þau beita sér fyrir samstöðu félaganna og gagnkvæmum stuðningi, gangast fyrir upplýsingastarfsemi og aðstoða aðildarfélög sín við slíka starfsemi svo einhver dæmi séu tekin.

Samböndin hafa sérstakar stjórnir og opnar skrifstofur þar sem þau veita aðildarfélögum sínum og eftir atvikum félagsmönnum þeirra þjónustu í samræmi við ákvæði samþykkta sinna og ákvarðanir þinga og stjórnar hverju sinni. Eins og fyrr segir er algengt að umboð til kjarasamninga séu framseld til þeirra.