Vinnuréttarvefur

Sjóðir stéttarfélaga

Á íslenskum vinnumarkaði er það svo að stéttarfélögin og sjóðir þeirra gegna veigamiklu hlutverki þegar kemur að velferð launafólks. Til dæmis er áhættu vegna veikinda og slysa launafólks deilt í gegnum sjúkrasjóði stéttarfélaganna. Atvinnurekendur bera launagreiðslur á fyrsta hluta forfalla en þegar réttur í hendi atvinnurekanda hefur verið tæmdur, hvort heldur er vegna margra skammtíma veikinda eða vegna þess að veikindi og forföll eru alvarleg og langtíma taka sjúkrasjóðir stéttarfélaganna við. Til þeirra greiða allir atvinnurekendur í viðkomandi starfs- eða atvinnugrein á svæðinu og deila þannig sín á milli en í gegnum sjúkrasjóðina áhættu vegna veikinda og slysa. Þessir sjóðir létta einnig af hinu opinbera útgjöldum vegna veikinda og slysa launafólks. VIRK starfsendurhæfingarsjóður er síðan dæmi um þríhliða samstarf stéttarfélaga, atvinnurekenda og hins opinbera þegar kemur að velferð launafólks sem um lengri eða skemmri tíma dettur út af vinnumarkaði eða er við að detta út af vinnumarkaði. Í þessum kafla er fjallað stuttlega um þessa sjóði en einnig stuttlega um félags- og vinnudeilusjóði stéttarfélaganna.Félagssjóður

Félagssjóður
Samkvæmt  2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks  er atvinnurekanda  skylt að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum sem kjarasamningar greina.   Þannig greiða félagsmenn félagsgjald, en atvinnurekandi heldur því eftir af launum. Tilgangur félagssjóðs er að standa undir rekstri  og veitir félagið almennt ekki styrki til einstakra félagsmanna. Um greiðsluskyldu án aðildar er fjallað í kaflanum um félagsgjöld.

Vinnudeilusjóður

Vinnudeilusjóður
Vinnudeilusjóður eða verkfallssjóður stendur undir kostnaði og er ætlað að styrkja félagsmenn í vinnudeilum.  Gert er ráð fyrir að honum eins og öðrum sjóðum sé skipað með sérstakri reglugerð sem samþykkt er á aðalfundi.  Tekjur vinnudeilusjóðs eru yfirleitt tiltekinn hundraðshluti félagsgjalda.

Sjúkrasjóður

Sjúkrasjóður
Atvinnurekendur greiða til sjúkrasjóðs eða styrktarsjóðs  ákveðna prósentu af launum. Sjúkrasjóður er sá sjóður stéttarfélaga sem mest er leitað eftir styrkjum úr.  

Atvinnurekendum er skylt samkvæmt 7. gr. laga nr. 19/1979 að greiða 1%  af útborguðu kaupi verkafólks í sjúkrasjóð viðkomandi stéttarfélags, nema um hærri greiðslur hafi verið samið í kjarasamningum.  Lagaákvæði um greiðslur til sjúkrasjóða komu fyrst 1974 en fyrir þann tíma höfðu allmörg verkalýðsfélög stofnað sjúkrasjóði og samið um greiðslur þangað í kjarasamningum.  Þessi greiðsluskylda er ítrekuð í  6. gr. laga nr. 55/1980 þar sem segir að öllum atvinnurekendum sé skylt að greiða í sjúkrasjóði, orlofssjóði og fræðslusjóði viðkomandi stéttarfélaga, iðgjöld þau sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um hverju sinni og samkvæmt þeim reglum sem kjarasamningar greina. 

Tilgangur sjúkrasjóðs er fyrst og fremst að greiða félagsmanni bætur í sjúkra- og slysatilfellum eftir að launagreiðslum frá atvinnurekanda lýkur. Forræði sjóðanna er alfarið í höndum stéttarfélaganna og þær reglur sem þeir starfa eftir hafa félögin sjálf sett. Öll aðildarsamtök ASÍ eru þó bundin af tilteknum lágmarksreglum um lengd bótatímabila, fjárhæð bóta og önnur grundvallarréttindi í sjúkrasjóðunum skv. 49. gr. gildandi laga ASÍ (2018). Lágmarksgreiðslur og réttindi eru sem hér segir:  

Dagpeningar:

  • í veikinda- og slysaforföllum í 120 daga (4 mánuði), að loknum greiðslum skv. veikinda- og slysaréttarákvæðum kjarasamninga. Dagpeningar skulu að viðbættum bótum almannatrygginga, greiðslum úr slysatryggingu launafólks eða annarri lögbundinni tryggingu, ekki nema lægri fjárhæð en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum.
  • í 90daga (3 mánuði), að loknum kjarasamningsbundnum greiðslum launagreiðanda vegna langveikra og alvarlega fatlaðra barna. Greiðslur skulu ekki nema lægri fjárhæð m.v. starfshlutfall sjóðfélaga en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum. Með langveikum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlegan og/eða langvinnan sjúkdóm og þarfnast sérstakrar umönnunar. Með alvarlega fötluðum börnum er átt við börn undir 18 ára aldri sem greinast með alvarlega greindarskerðingu, geðraskanir eða alvarlega líkamlega hömlun og þarfnast sérstakrar umönnunar.
  • í 90 daga (3 mánuði) vegna mjög alvarlegra veikinda maka. Greiðslur skulu ekki nema lægri fjárhæð m.v. starfshlutfall sjóðfélaga en 80% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af á síðustu 6 mánuðum.

Réttur til dagpeninga endurnýjast á hverjum 12 mánuðum, hlutfallslega eftir því sem hann er nýttur, talið frá þeim degi sem dagpeningagreiðslum líkur hverju sinni og greiðslur iðgjalda hefjast að nýju. Sjóðirnir greiða einnig eingreiddar dánarbætur. 

Á grundvelli laga ASÍ hefur verið gefin út "Viðmiðunarreglugerð fyrir sjúkrasjóði aðildarfélaga ASÍ".

Ágreiningur um greiðsluskyldu til sjúkrasjóðs  

Deilur hafa risið um skyldu atvinnurekenda til greiðslu í sjúkrasjóði og rétt starfsmanna til greiðslu úr sjóðunum.  Af dómunum má ráða að greiðsluskylda iðgjalda til sjúkrasjóða er tengd því að þeir starfsmenn sem greiðslan tengist öðlist rétt á sjúkrabótum úr sjóðunum.  Með öðrum orðum má segja að eignist menn ekki rétt á greiðslum úr sjúkrasjóðum er atvinnurekanda ekki skylt að skila iðgjöldum til sjóðsins.

Eins og fyrr segir byggist greiðsluskylda til sjúkrasjóðs á 7.gr. laga nr. 19/1979 en þar segir: "Vinnuveitendur skulu greiða 1% af útborguðu kaupi verkafólks í sjúkrasjóð viðkomandi stéttarfélags, nema um hærri greiðslur hafi verið samið í kjarasamningum."  Í 6.gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980 er greiðsluskylda þessi ítrekuð en einnig aukin og einnig látin taka til orlofssjóðs. Þar segir: "Öllum atvinnurekendum er skylt að greiða í sjúkrasjóði og orlofssjóði viðkomandi stéttarfélaga iðgjöld þau, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um hverju sinni, og samkvæmt þeim reglum, sem kjarasamningar greina." Samkvæmt þessu er ekki til staðar ótvíræð greiðsluskylda til annarra sjóða stéttarfélaganna. 

Á það var látið reyna í Hrd. nr. 114/2004. Í dómi Hæstaréttar segir segir að í 1. mgr. 6. gr. laganna sé kveðið á um skyldur allra atvinnurekenda að greiða í sjúkra- og orlofssjóði samkvæmt kjarasamningum. Slíka kröfu eigi stéttarfélögin vegna þessara tvenns konar sjóða og sé það tæmandi talning. Kröfur þeirra vegna annarra sjóða en þar séu tilgreindir verði ekki reistar á þessu lagaákvæði og brysti félaginu heimild til þess að krefja atvinnurekandann um gjöldin og var hann sýknaður.

Í Hrd. 1988:1464 var deilt um skyldu atvinnurekanda til að greiða í sjúkrasjóð tiltekins stéttarfélags iðgjöld af starfsmönnum sem voru ekki félagsmenn þess stéttarfélags. Atvinnurekandinn var hins vegar aðili að Vinnuveitendasambandi Íslands og þar með taldi dómurinn hann vera bundinn af kjarasamningum þess við stéttarfélagið. Greiðsluskyldan væri ótvíræð samkvæmt ákvæðum laga og kjarasamninga og í Hæstarétti sagði að ekki skipti máli hvort starfsmenn atvinnurekandans væru félagsbundnir eða ekki. Við það yrði að miða samkvæmt því sem fram hefði komið í málinu og reglum sjóðanna að við greiðslu til þeirra öðlist starfsmenn atvinnurekanda full og óskoruð réttindi til úthlutunar úr sjóðum þessum.

Vanskil atvinnurekanda

Vanskil atvinnurekenda á greiðslu iðgjalda til sjúkrasjóðs eiga að jafnaði ekki að leiða til þess að starfsmenn þeirra glati réttindum í sjúkrasjóði, geti þeir fært sönnur á að félagsgjöld til viðkomandi stéttarfélags hafi verið dregin af launum þeirra sbr. 5.mgr. 49.gr. laga ASÍ (2018) þar sem segir: „Hafi iðgjöld til sjúkrasjóðs ekki verið greidd vegna sjóðfélaga, en hann getur fært sönnur á, að félagsgjöld til viðkomandi aðildarfélags hafi samkvæmt reglulega útgefnum launaseðlum verið dregin af launum hans síðustu 6 mánuði, skal hann njóta réttar skv. 4.mgr. eins og iðgjöld til sjúkrasjóðs hafi verið greidd.“ Á þetta reyndi í dómi Lrd. 248/2018 en í dóminum var höfnun á greiðsluskyldu sjúkrasjóðs staðfest þar sem launamanni tókst ekki að sýna fram á rétt sinn með launaseðlum eða á annan sannanlegan hátt.

Orlofssjóður

Orlofssjóður
Orlofssjóður eða orlofsheimilasjóður stendur undir kaupum og rekstri á orlofshúsum stéttarfélaga.  Einnig styrkja orlofssjóðir margra stéttarfélaga félagsmenn sína við kaup á orlofsferðum innanlands og utan. Samkvæmt flestum kjarasamningum er framlag atvinnurekanda til orlofssjóða 0,25% af   útborguðu kaupi verkafólks. Greiðsluskylda til orlofssjóðs byggir á kjarasamningum en er einnig lögbundin sbr. 6.gr. laga nr. 55/1980

Iðgjaldagreiðslur atvinnurekenda til sjúkra- og orlofssjóða njóta forgangsréttar í þrotabú atvinnurekanda samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti. Umsamdar greiðslur atvinnurekanda í sjúkra- orlofs- og styrktarsjóði njóta lögtaksréttar og eru aðfararhæfar án undangengins dóms samkvæmt 11. tl.1. gr. laga nr. 29/1885 um lögtak samanber  10. tölulið 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

Lífeyrissjóður

Lífeyrissjóður 
Á almennum vinnumarkaði var fyrst gerður heildarkjarasamningur um lífeyrissjóði á árinu 1969. Samkvæmt honum var tekin upp almenn skylduaðild að lífeyrissjóðum viðeigandi stéttarfélaga. Sjóðirnir starfa á félagslegum grunni samtryggingar og byggjast öll réttindi í þeim á þeim fjármunum sem þeir taka við og ávaxta. Viðkomandi stéttarfélög og samtök atvinnurekenda skipa stjórnir sjóðanna að jöfnu og stýra þeim. Síðasta heildarendurskoðun samningsins frá 1969 fór fram með samningi ASÍ og VSÍ þann 12.12 19958.12 2004 var síðan samið um sérstaka ráðstöfun á viðbótarframlagi atvinnurekenda og um aldurstengda réttindaávinnslu. Lífeyrissjóðirnir mynda einn af hornsteinum íslenska velferðarkerfisins og þótti stjórnvöldum nauðsynlegt að setja um þá sérstök heildarlög og var það gert með lögum 129/1997

Skylduaðild allra að lífeyrissjóðum er bæði samnings- og lögbundin. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 gilda kjarasamningar um alla sem fyrir allt launafólk í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til, óháð því hvort menn eru fullgildir félagsmenn þess stéttarfélags sem að kjarasamningi stendur eða ekki.  Í öllum kjarasamningum er sérstaklega tilgreint til hvaða lífeyrissjóðs eigi að greiða. Þessi almenna skylduaðild alls launafólks að tilteknum lífeyrissjóðum skv. kjarasamningum er staðfest í 2.gr. laga nr. 129/1997 en í greinargerð með því ákvæði segir: "Hitt er ljóst að lífeyrismál hafa verið á samningsforræði aðila vinnumarkaðarins og ekki eru forsendur til að hlutast til um þá skipan. Því þykir eðlilegt að staðfesta að meginlínur aðildar verði áfram starfstengdar og í samræmi við þann kjarasamning sem ákvarðar lágmarkskjör í viðkomandi starfsgrein." Þessi regla er meitluð í 1.gr. kjarasamnings ASÍ og SA um lífeyrismál frá 12.12 1995 sem áður er vísað til. Þessi almenna skylduaðild launafólks þýðir að launafólk getur ekki valið lífeyrissjóð til þess að greiða til og jafnframt að atvinnurekendum er skylt að skila mótframlögum sínum til þess lífeyrissjóðs sem viðeigandi kjarasamningur tilgreinir. 

Fræðslusjóður

Fræðslusjóður
Aðildarfélög ASÍ hafa samið við atvinnurekendur um að þeir greiði tiltekið gjald í starfsmenntasjóði. Svo dæmi sé tekið þá er í aðalkjarasamningi SGS kveðið á um frá og með 1. janúar 2007 greiði atvinnurekendur í sjóði til fræðslumála samtals 0,15% en greiðsluskylda til fræðslusjóða er jafnframt lögbundin sbr. 6.gr. laga nr. 55/1980.  

Starfsendurhæfingarsjóður

Starfsendurhæfingarsjóður  
Í kjarasamningum þeim sem undirritaðir voru þann 17.2 2008 gerðu ASÍ og Samtök atvinnulífsins samkomulag um nýtt fyrirkomulag endurhæfingar. Markmið aðila er að koma að málum eins snemma og kostur er til að stuðla að því að hver einstaklingur verði svo virkur á vinnumarkaði sem vinnugeta hans leyfir. Sérstakur sjóður, VIRK - starfsendurhæfingarsjóður var síðan stofnaður í því skyni að skipuleggja og hafa umsjón með störfum þjónustufulltrúa sem verða aðallega á vegum stéttarfélaganna, greiða kostnaðinn af störfum þeirra og kostnaðinn af ráðgjöf fagaðila. Ennfremur hefur Endurhæfingarsjóður fjármuni til þess að greiða fyrir kostnað við úrræði og endurhæfingu til viðbótar því sem veitt er af hinni almennu heilbrigðisþjónustu. Miðað er við að í heild verði ráðstafað 0,39% af launum til starfsendurhæfingarsjóða en sérstök lög, lög nr. 60/2012 um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, voru síðan sett um starfsemi sjóðanna og greiðsluskyldu til þeirra.