Vinnuréttarvefur

Réttindi og skyldur

Sú spurning vaknar oft hvaða réttaráhrif séu fólgin í því að vera í stéttarfélagi.  Hvaða máli það skiptir fyrir einstaklinginn að vera  í félagi eða utan og hver sé ávinningur af stéttarfélagsaðild. Einnig skiptir það miklu máli að launafólk geri greinarmun á því að vera fullgildur félagsmaður í stéttarfélagi eða aukafélagi. Fullgildir eru þeir félagsmenn sem sótt hafa formlega um aðild að félaginu meðan aukafélagar eru þeir sem greitt er af til félagsins skv. ákvæðum kjarasamninga án þess að hafa sótt formlega um aðild.

Fullgildir félagsmenn njóta allra þeirra réttinda og bera allar þær skyldur sem félagsaðild fylgir. Aukafélagar njóta allra sömu réttinda og þjónustu og fullgildir félagar annarra en atkvæðisréttar (kosningaréttar) og kjörgengis.

Umfjöllun þessa kafla á við um alla félagsmenn stéttarfélaga, bæði fullgilda og aukafélaga nema annað sé sérstaklega tekið fram.

 

Réttindi félagsmanna

Krafan um jöfnuð félagsmanna

Almennt gildir svokölluð jafnræðisregla um félaga að stéttarfélagi.  Með jafnræðisreglu er átt við að félagsmenn skuli allir vera jafnir og þeim ekki mismunað.   Í stjórnsýslulögum nr. 37/1993 er jafnræðisreglan skilgreind þannig í 11. gr.:  "Óheimilt er að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða, byggðum á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum."  Þótt stjórnsýslulög taki einungis til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga gilda í þessu samhengi að mestu leyti sömu sjónarmið um stéttarfélög.  Ákvarðanir verða ógildanlegar ef þær eru ekki teknar á grundvelli þeirra markmiða sem byggt er á eða ef forsendur þeirra eru ekki í samræmi við markmiðin. 

Félagsmenn eiga sama rétt til alls þess sem félagið býður og þeir skulu allir sitja við sama borð.  Reglur sem  mismuna félagsmönnum verða að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum, en ekki geðþóttaákvörðunum.  Þannig er heimilt að deildskipta félagi eftir störfum manna eða landsvæðum og setja hverri deild ákveðnar reglur og stjórn.  Allar ákvarðanir sem teknar eru í nafni félagsins sjálfs verða að taka mið af þessu. Reglur um úthlutun orlofshúsa verða til dæmis að vera réttlátar og sanngjarnar og byggjast á almennum reglum. Væru ættingjar formannsins alltaf látnir ganga fyrir fengist slíkt ekki staðist.

Þótt jafnræðisreglan sé hvergi tekin fram  í samþykktum stéttarfélaga  er hún samofin hugsjón verkalýðshreyfingarinnar.  Hún er grundvallarregla þar sem valdi er beitt á lýðræðislegan hátt. 

Réttindi hins almenna félagsmanns

Í samþykktum eða lögum flestra stéttarfélaga er sérstök grein um réttindi félagsmanna og önnur um skyldur.  Þessi upptalning er sjaldnast tæmandi, en gefur nokkra mynd af því hvernig stéttarfélög telja sig vinna og skilgreina hlutverk sitt. 
  
Í upptalningu á réttindum í samþykktum félaga er oftast aðeins fjallað um réttindi félagsmanna inn á við, en minna fjallað um réttinn út á við.  Það er oft hlutverk kjarasamnings að fjalla um réttinn út á við, svo sem  forgangsrétt til vinnu, enda er hann hluti af samningi við atvinnurekanda og félagsaðildin ein og sér getur ekki tryggt hann.

Réttur til að vinna eftir þeim kjörum sem félagið semur um
Í samþykktum félaganna er það talið sérstaklega upp að félagsaðild fylgi réttur til að vinna eftir þeim kjörum sem félagið semur um.  Þetta ákvæði hafði meiri þýðingu fyrir gildistöku laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.  Nú tryggir 1. gr. þeirra laga öllum þeim sem vinna þau störf sem kjarasamningurinn tekur til rétt til þeirra kjara sem um er samið.

Málfrelsi, tillögu- og atkvæðisréttur 
Þessi réttindi fylgja almennt aðild að hvaða  félagi sem er, hvort sem um er að ræða félög sem stofnuð er í fjárhagslegum tilgangi eða frjálsum félögum svo sem stéttarfélögum, líknarfélögum eða áhugamannafélögum.  Stundum er tekið fram að réttur þessi nái einungis til félagsfunda og eðli máls samkvæmt nær málfrelsisrétturinn og tillögurétturinn fyrst og fremst til félagsfunda.   Á fundum gilda síðan almennar reglur um fundarsköp, sem ekki eru lögfestar.  Þær byggja oftast á hefðum og venjum í félögunum sjálfum og eru stundum skráðar. Þessara réttinda njóta einungis fullgildir félagsmenn.   

Í samþykktum margra stéttarfélaga eru ákvæði um það að ákveðinn fjöldi félagsmanna, oftast um tíundi hluti félagsmanna, geti krafist þess við stjórn félagsins að félagsfundir verði haldnir í félaginu.  Er þetta dæmi um minnihlutavernd í félögum og með þessum hætti reynt að tryggja að ólík sjónarmið fáist rædd á félagslegum grunni.  

Atkvæðisrétturinn nær til þeirrar atkvæðagreiðslu sem fram fer í nafni félagsins, hvort sem hún fer fram á félagsfundi eða með öðrum hætti, svo sem allsherjaratkvæðagreiðslu.  Í deildskiptum félögum getur verið um að ræða atkvæðagreiðslur sem einungis ná til félagsmanna viðkomandi deildar.

Kjörgengi
Fullgildir félagsmenn í stéttarfélagi eru allir kjörgengir til trúnaðarstarfa fyrir félagið.  Ákvæði um takmörkun á seturétti í tilteknum embættum fyrir félagið tíðkast almennt ekki í verkalýðsfélögum, svo sem algengt er hjá öðrum frjálsum félögum.

Réttur á styrkjum úr sjóðum félagsins
Félagsmenn eiga rétt til styrkja úr sjóðum félagsins svo sem nánar er kveðið á um í reglum sjóðanna.  Sjóðir stéttarfélaga eru fyrst og fremst félagssjóður, sjúkrasjóður, orlofssjóður og starfsmennta eða fræðslusjóður.  Mörg félög hafa einnig vinnudeilusjóð. Varðandi úthlutanir úr sjóðum ber að hafa hliðsjón af áðurnefndri jafnræðisreglu, en að öðru leyti fer um úthlutanir eftir reglum viðkomandi sjóða. Sá nánar um þetta efni í kaflanum "Sjóðir stéttarfélaga" hér á eftir. 

Réttur til að njóta aðstoðar félagsins til að fylgja eftir ráðningarkjörum
Aðild að stéttarfélagi veitir félagsmanni rétt til að leita aðstoðar félagsins þegar samningar og lög á vinnumarkaði eru á honum brotin.  Aðildin veitir félagsmanninum þannig vernd.  Þessi aðstoð er oftast fyrst og fremst félagsleg, en sé alvarlega brotið á starfsmanni, til dæmis að laun eru ekki greidd eða starfsmanni vikið úr starfi með ólögmætum hætti aðstoða félögin við leiðréttingu og mörg þeirra sjá um og kosta lögfræðiaðstoð ef á þarf að halda.

Réttur til málskots vegna brota félagsmanns 
Sé félagsmaður ósáttur við afgreiðslu og niðurstöðu stéttarfélags í máli hans  má spyrja til hvaða ráða maðurinn getur gripið.  Í samþykktum margra stéttarfélaga eru ákvæði um viðbrögð félagsins við brotum fullgildra félagsmanna á lögum félagsins.  Stjórnarfundur tekur slík mál fyrir og ákveður hvort veita skuli áminningu, beita fésektum eða víkja félagsmanni brott úr félagi.  Þeim úrskurði má skjóta til félagsfundar. 

Sé félagið aðili að heildarsamtökum launafólks eru víða ákvæði um málskot til þeirra samtaka. Þannig geta félagsmenn í aðildarfélögum  ASÍ skotið málum til Alþýðusambandsins.  Byggist þetta bæði á lögum viðkomandi félags og á 10. gr.  gildandi laga ASÍ (2006). Samkvæmt 10. gr. laganna hafa aðildarsamtök rétt til að skjóta öllum ágreiningsmálum, sem upp kunna að rísa innan eða milli þeirra til miðstjórnar ASÍ. Um ágreining milli aðildarsamtaka sem ekki leysist á grundvelli samstarfssamnings eða á annan hátt ber miðstjórn að leita sátta með deiluaðilum. Náist ekki sátt í slíkri deilu getur miðstjórn að fengnu samþykki deiluaðila vísað málinu til sérstaks gerðardóms sem skipaður skal einum aðila sem miðstjórn skipar í hverju máli, en deiluaðilar skipa síðan hvor sinn aðila. Gerðardómurinn starfi samkvæmt lögum um samningsbundna gerðardóma eins og þau eru á hverjum tíma og eru niðurstöður hans bindandi. Miðstjórn getur ákveðið að ágreiningsmál innan aðildarfélags (sambands) sem til hennar hefur verið vísað skuli ganga til úrskurðarnefndar, sem skipuð skal fimm mönnum, þar af þremur sem miðstjórn skipar í hverju máli, en deiluaðilar skipa síðan hvor sinn aðila. Niðurstaða úrskurðarnefndar er bindandi og verður einungis breytt af ársfundi sambandsins. Fram til þess tíma er ársfundur er haldinn kemur saman eru úrskurðir miðstjórnar og úrskurðarnefndar bindandi.  

Málskotsheimild 10. gr. laga ASÍ á fyrst og fremst við um félagsleg ágreiningsmál sem snúa að skipulagsmálum, fremur en ágreining sem verður vegna meints brots einstaks félagsmanns.  En málskotsheimildin takmarkast þó ekki við þau og hún er til staðar, þótt hún sé sjaldan notuð.

Skyldur félagsmanna

Það er eitt megineinkenni samninga sem menn gera að þeir öðlast réttindi og taka jafnframt á sig skyldur. Samningur um félagsaðild ber einnig þessi sömu einkenni.  Samþykktir félagsins greina helstu atriði um skyldur félagsmanns.

Hlýðni við félagslög og samþykktir félagsins
Með aðild að félagi gangast menn undir skyldu til að hlíta lögum og reglum félagsins og löglega gerðum samþykktum þess.  Í þessu felst þó ekki afsal á rétti til að hafa áhrif á lög og samþykktir til breytingar, en þau lög og samþykktir sem gilda hverju sinni ber að virða.  Þetta eru sömu sjónarmið og gilda í lýðræðislegu réttarríki.  Lög og reglur ber að virða, en hægt er að hafa áhrif til breytinga á þeim. 

Í samþykktum flestra félaga eru ákvæði um hvernig við skuli bregðast ef félagsmaður brýtur lög félagsins og er fjallað um þær reglur annars staðar.

Almennt eru ríkar formkröfur gerðar til lagabreytinga í félögum, lögum ekki breytt nema á aðalfundi, stundum þarf tvær umræður um lagabreytingar og oft er krafist aukins meirihluta til lagabreytinga.  Vekja þarf sérstaka athygli í fundarboði á því ef tillögur um lagabreytingar verða til umræðu.  Aðalfundir eru haldnir einu sinni á ári.  Þessum reglum er ætlað að tryggja festu í félaginu og vönduð vinnubrögð og að lögum sé ekki breytt að vanhugsuðu máli.  Lög ASÍ leggja tilteknar skyldur á aðildarsamtök sín í þessu efni og kveða einnig á um að breytingar á lögunum þeirra komi fyrst til framkvæmda er miðstjórn ASÍ og eftir atvikum stjórn hlutaðeigandi landssambands hafa staðfest þær. 

Í leiðbeinandi fyrirmynd að lögum fyrir verkalýðsfélög sem ASÍ gaf út 1985 og höfð hefur verið til hliðsjónar við endurskoðun laga allra stéttarfélaga innan ASÍ síðan, segir að lögum megi breyta á aðalfundi, enda hafi þess verið getið í fundarboði.  Einnig sé heimilt að breyta lögum á félagsfundi, hafi lagabreytingarnar áður verið ræddar á félagsfundi og þess getið í fundarboði.  Til þess að breytingin nái fram að ganga, verður hún að vera samþykkt með 2/3 hlutum greiddra atkvæða fullgildra félagsmanna. 

Vilji menn ekki una við ákvörðun stéttarfélags geta þeir haft áhrif á félagsfundum.  Telji þeir málin ekki hafa verið nægilega rædd á félagslegum vettvangi er, eins og áður er vikið að,  ákvæði í samþykktum flestra félaga um skyldu félagsstjórnar að boða til félagsfundar hafi tíundi hluti félagsmanna óskað eftir því og tilgreint fundarefni.

Greiða félagsgjöld
Félagsgjaldaskyldan er ein meginskylda félagsmanna í stéttarfélagi.  Greiði menn ekki félagsgjöld tiltekinn tíma eiga þeir á hættu að falla af félagaskrá og réttur þeirra, til dæmis við atkvæðagreiðslu um kjarasamninga, kann að vera fallinn niður.  Félagsgjöld eru nú almennt innheimt sem tiltekinn hundraðshluti af launum, en áður giltu reglur um lágmarksfélagsgjald.   Einstök félög, einkum félög iðnaðarmanna,  hafa ákvæði um hámarks félagsgjald.  Fari félagsgjaldagreiðslur umfram ákveðna krónutölu á ári endurgreiðir félagið félagsmanninum það sem umfram er.  

Atvinnurekendur annast innheimtu félagsgjalds til stéttarfélaga samkvæmt lögum og kjarasamningum.  Þeim er skylt á grundvelli  2. mgr. 6. gr. starfskjaralaganna nr. 55/1980 að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum sem kjarasamningar greina.

Flest félög ASÍ hafa ákvæði í lögum sínum um aldurslágmark.  Menn þurfa að vera 16 ára til að fá inngöngu.  Menn greiða þó almennt félagsgjöld af launum sem þeir afla óháð aldri.  Vinni 15 ára unglingur í frystihúsi greiðir hann stéttarfélagsgjald af þeirri vinnu.  Í samþykktum flestra stéttarfélaga eru þó ákvæði um að þegar menn ná tilteknum aldri verði þeir gjaldfríir.  Er þá ýmist miðað við 65 ára aldur, 67 ára aldur eða 70 ára aldur.  

Gegna trúnaðarstörfum
Þar sem félag táknar skipulagsbundin, varanleg samtök manna er nauðsynlegt að félagsmenn taki á sig skyldur til að sinna trúnaðarstörfum.  Yfirleitt er þetta tekið fram í samþykktum félags.   Eru þessar reglur í ætt við lagareglur um þegnskyldu til að taka sæti í sveitarstjórn og á Alþingi.  Víða er skylda til að sinna trúnaðarstörfum fyrir félag bundin við tiltekið tímabil og að því loknu geta menn skorast undan slíkum störfum.  Þótt félagsmönnum sé almennt skylt að taka að sér trúnaðarstörf þykir ekki heppilegt að velja menn til trúnaðarstarfa fyrir félag, nema leitað hafi verið eftir samþykki þeirra og þeir séu því samþykkir.  

Í tengslum við kosningar í stéttarfélögum hefur komið upp ágreiningur um það hvort menn hafi í raun gefið kost á sér til trúnaðarstarfa.  Á lista yfir frambjóðendur í trúnaðarmannaráð hafa verið nöfn manna, sem gáfu ekki samþykki sitt til slíks.   Litið hefur verið svo á að í skyldu til trúnaðarstarfa felist ekki skylda til að taka sæti á lista í kosningum í félaginu.   Leita þurfi samþykkis frambjóðenda á lista fyrir framboði sínu.  Miðstjórn ASÍ hefur staðfest niðurstöðu kjörstjórnar stéttarfélags um að framboð hafi verið ógilt vegna þessa formgalla.  Sjá hér mótframboð í stjórnarkjöri í Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis 1991.  Eðlilegt er að sama regla sé viðhöfð um kosningar í stéttarfélögum og í Alþingiskosningum um að menn kannist við framboð sitt með undirskrift. 

Vinna ekki með ófélagsbundnum mönnum
Víða í félagslögum stéttarfélaga eru ákvæði um það að ein af skyldum félagsmanna sé að vinna ekki með ófélagsbundnum mönnum í greininni og að félagsmönnum sé skylt að tilkynna til félagsins ef þeir verða varir við brot í þessum efnum.   Ákvæðinu er ætlað að stuðla að almennri virkni í stéttarfélögum og efla verkalýðshreyfinguna í heild sinni.  

Þetta ákvæði hefur verið talið nægilegur grundvöllur fyrir því að menn hafi lagt niður vinnu.  Í dómi Félagsdómi 6/1973(VII:112)   lögðu starfsmenn niður vinnu í vélsmiðju til að mótmæla því að þar starfaði járnsmiður sem var ekki félagsmaður í Járnsmíðafélaginu.  Hann var sonur eigandans og hafði ekki talið sér skylt að vera í félaginu.  Járnsmiðirnir á staðnum lögðu þá niður vinnu til að mótmæla þessu og gerðu það með vísan til ákvæðis í lögum Félags járniðnaðarmanna.  Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að aðgerðir járnsmiðanna teldust ekki verkfall í skilningi laganna um stéttarfélög og vinnudeilur. 

Í mars 1994 bannaði stjórn Mjólkurfræðingafélags Íslands félagsmönnum sínum á Húsavík og Egilsstöðum að vinna með ófaglærðum iðnaðarmönnum við störf sem hún taldi heyra undir mjólkuriðnað.  Langvarandi deila hafði þá verið milli félagsins og þessara aðila um það hvaða störf tilheyrðu mjólkurfræðingum.   Eftir nokkurra daga vinnustöðvun hvarf stjórnin síðan frá aðgerðum, en þá hafði Vinnumálasamband samvinnufélaganna stefnt félaginu fyrir Félagsdóm vegna verkfallsbrots.  Félagsdómur kvað því aldrei upp dóm í málinu.

Stuðla að því að ófélagsbundnir menn gangi í félagið
Sum félög hafa um það ákvæði í samþykktum sínum að félagsmenn skuli stuðla að því að ófélagsbundnir menn gangi í félagið.  Kemur þetta ákvæði stundum í stað reglunnar um bann við vinnu með ófélagsbundnum mönnum. 

Stéttarfélög og persónuvernd

Um hverja vinna stéttarfélög persónuupplýsingar?

Verkalýðsfélög vinna með og varðveita ýmis konar persónuupplýsingar. Að meginstefnu vinna stéttarfélög með upplýsingar um félagsmenn, hvort sem þeir eru eða voru í viðkomandi félagi. Hjá stéttarfélögum starfa einnig starfsmenn og sem atvinnurekendur varðveita þau að auki upplýsingar um þá. Þó kunna stéttarfélög að vinna með persónuupplýsingar þeirra sem hvorki eru félagsmenn né starfsmenn í viðkomandi félagi. T.a.m. gerir b. liður 1. mgr. 7. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, ráð fyrir því að umsögn stéttarfélags eða landssambands launafólks í hlutaðeigandi starfsgrein liggi fyrir vegna umsóknar útlendings um atvinnuleyfi. Skrá stéttarfélög iðulega þessar upplýsingar.

Hvaða vinnsla á sér stað?

Vinnsla persónuupplýsinga hjá stéttarfélögum getur verið fjölbreytt og fer m.a. eftir félaginu og stærð þess. Almennt séð vinna stéttarfélög með upplýsingar um félagsmenn sína, m.a. hverjir þeir eru og aðrar upplýsingar sem auðkenna þá, upphæð iðgjalda félagsmanna og hver atvinnurekandi félagsmanns er, hvort að félagsmaður hafi sótt um styrki eða sjúkradagpeninga hjá félaginu og upphæð þeirra greiðslna, hvort félagsmaður hafi leitað til félagsins vegna kjaramáls og upplýsingar í tengslum við það, o.s.frv. Verður að telja að þessar upplýsingar séu hvað fyrirferðamestar hjá stéttarfélögum vegna eðli starfsemi þeirra. Yfirleitt á sér stað skráning þessara upplýsinga út frá gögnum sem stéttarfélagið móttekur og í kjölfarið varðveisla þeirra. Þá kann að vera nauðsynlegt fyrir starfsmann stéttarfélags að fletta upp upplýsingunum á einhverjum tímapunkti t.a.m. til þess að staðhæfa félagsaðild, greiðslu styrkja eða dagpeninga. Þá á almennt sér stað eðlileg vinnsla persónuupplýsinga um starfsmenn stéttarfélags og annarra sem koma að rekstri þess, t.d. vinnsla í sambandi við launagreiðslur og birting á nöfnum og ljósmyndum af starfsfólki á heimasíðu félagsins. 

Hver er tilgangur vinnslu stéttarfélaga?

Tilgangur stéttarfélaga með vinnslu persónuupplýsinga er fyrst og fremst að gæta hagsmuna félagsmanna sinna og veita félagsmönnum sínum þjónustu að ýmsu tagi – þá  aðallega varðandi kjaramál eða í sambandi við hina ýmsu sjóði félagsins. Þar að auki kann vinnsla persónuupplýsinga einnig að tengjast fullnustu lagaskyldu. Til viðbótar á sér stað vinnsla persónuupplýsinga í sambandi við eðlilegan rekstur stéttarfélaga, t.a.m. í tengslum við starfsmannahald, öryggi á vinnustaðnum o.s.frv.

Á hvaða lagaheimildum er byggt?

Þótt vinnsla persónuupplýsinga hjá stéttarfélögum sé margbrotin og þar með grundvallast á ólíkum vinnsluheimildum, er almennt séð talið að sú vinnsla byggist aðallega á tveimur heimildum: Í fyrsta lagi samþykki og í öðru lagi lagaskyldu.

Óski félagsmaður t.d. eftir aðstoð félagsins í kjaramáli er upplýsingasöfnun háð frumkvæði félagsmannsins og því afhending á þeim til fulltrúa stéttarfélagsins byggt á samþykki félagsmannsins sjálfs.

Sem dæmi um lagaskyldu má nefna að í 6. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrissréttinda, segir að öllum atvinnurekendum sé skylt að greiða í fræðslusjóði atvinnulífsins sem og sjúkrasjóði og orlofssjóði viðkomandi stéttarfélaga iðgjöld þau, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um hverju sinni og samkvæmt þeim reglum, sem kjarasamningar greina. Þá segir jafnframt að atvinnurekanda sé skylt að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum, sem kjarasamningar greina. Þýðir þetta ekki einungis að atvinnurekendur eru skyldugir til þess að greiða tiltekin gjöld í sjóði stéttarfélaga heldur líka að stéttarfélögin þurfi að taka á móti umræddum gjöldum og þar með vinna persónuupplýsingar um launamanninn.

Þá geta aðrar vinnsluheimildir einnig komið til greina. Viss vinnsla kann að styðjast við 5. tölul. 9. gr. persónuverndarlaga, þ.e. að það sé vinnsla sem sé nauðsynleg vegna verks sem er unnið í þágu almannahagsmuna. Einnig gæti ákveðin vinnsla byggst á því að hún sé nauðsynleg vegna lögmætra hagsmuna sem stéttarfélagið gætir nema hagsmunir eða grundvallarréttindi og frelsi hins skráða sem krefjast verndar persónuupplýsinga vegi þyngra, sbr. 6. tölul. 9. gr. laganna.

Ef um er að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar koma nokkrar aðrar vinnsluheimildir til greina til viðbótar þeirra sem hafa þegar verið nefndar. Helst má nefna 4. tölul. 11. gr. persónuverndarlaga sem heimilar m.a. vinnslu samtaka sem starfa með stéttarfélagsleg markmið að leiðarljósi, enda nái vinnslan einungis til félagsmanna eða fyrrum félagsmanna eða einstaklinga sem eru í reglulegu sambandi við stéttarfélagið í tengslum við tilgang þess.

Hverjir eru vinnsluaðilar stéttarfélaga?

Vinnsluaðilar stéttarfélagar geta verið ólíkir aðilar og tengjast ýmist rekstri félagsins eða þjónustu sem félagið veitir. T.d. er eðilegt að stéttarfélög leiti til annarra vinnsluaðila til þess að hýsa og sjá um heimasíðu félagsins, félagakerfi og tölvukerfi.