Vinnuréttarvefur

Aðild að stéttarfélagi

Eins og fyrr segir eru stéttarfélög frjáls félagasamtök launafólks hvers kjarnahlutverk er að gæta hagsmuna félagsmanna sinna og launafólks almennt gagnvart atvinnurekendum og samtökum þeirra m.a. með gerð kjarasamninga. Þau eru félög sérstaks eðlis og njóta verndar í stjórnarskrá, lögum og alþjóðasamþykktum sem Ísland á aðild að. Þau hafa að lögum mikilvægi hlutverki að gegna á vinnumarkaði, í afkomu launafólks og í efnahagslífi hverrar þjóðar. Af þessum ástæðum gilda ekki sömu reglur um aðild að þeim eins og gilt geta um önnur frjáls félagasamtök sem ekki njóta þessarar miklu verndar og sem ekki bera þessar mikilvægu skyldur. Fjölmargir alþjóðlegir samningar og sáttmálar sem Ísland er aðila að gilda um þetta efni. 

Samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 87 um félagafrelsi og verndun þess
Í samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 87 um félagafrelsi og verndun þess segir í 2. gr. að verkamenn og vinnuveitendur skuli án undantekningar hafa rétt til þess að stofna og ganga í félög að eigin geðþótta án undangengins leyfis, og séu þeir aðeins háðir reglum hlutaðeigandi félags um inngöngu í það. Ísland fullgilti samþykkt nr. 87 þann 4. október 1950 og tók hún gildi ári síðar.

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna
Í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá 1948 er tekið fram í 4. tölulið 23. gr. að hver maður megi stofna til stéttarsamtaka og ganga í þau til verndar hagsmunum sínum. Mannréttindayfirlýsingin er ekki þjóðréttarsamningur og því ekki bindandi að lögum fyrir aðildarríki Sameinuðu þjóðanna.

Mannréttindasáttmáli Evrópu
Mannréttindasáttmáli Evrópu hefur að geyma ákvæði um rétt manna til aðildar að stéttarfélögum. Í 11. gr. sáttmálans segir að mönnum skuli rétt að koma saman með friðsömum hætti og mynda félög með öðrum, þar á meðal að stofna og ganga í stéttarfélög til verndar hagsmunum sínum. Ísland hefur fullgilt sáttmálann og hefur hann gildi að þjóðarrétti. Sáttmálinn hefur nú verið lögfestur hér á landi, samanber lög nr. 62/1994.

Félagsmálasáttmáli Evrópu
Félagsmálasáttmáli Evrópu geymir ákvæði um rétt til aðildar að stéttarfélögum í 5. grein. Ísland fullgilti sáttmálann 1976.

Alþjóðasamningur um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi
Alþjóðasamningur um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi sem samþykktur var af Allsherjarnefnd Sameinuðu þjóðanna 1966 og fullgiltur var af Íslands hálfu 1979 kveður á um skyldur aðildarríkja til að ábyrgjast rétt allra til að gerast félagar í því stéttarfélagi sem þeir velja sér, þó einungis að áskildum reglum hlutaðeigandi félags. Eru ákvæði þessi í 8. gr. samningsins. Samningurinn hefur gildi að þjóðarrétti.

Alþjóðasamningur Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi
Alþjóðasamningur Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 1966 og undirritaður var af Íslands hálfu 30. desember það ár geymir ákvæði í 22. gr. um rétt allra til að ganga í stéttarfélög til verndar hagsmunum sínum.

Skilyrði fyrir aðild

Sú meginregla gildir hér á landi, að "Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti" eins og segir í 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár. Öll mismunun af ofangreindum ástæðum hvað aðild að stéttarfélögum varðar, er því ólögmæt. Það þýðir þó ekki að óheimilt sé með öllu að setja takmarkanir á aðild að stéttarfélögum.

Allar takmarkanir á rétti til aðildar í stéttarfélagi samkvæmt 2. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 verða að vera almennar, lúta að tilgangi félagsins og mega ekki mismuna. Félagsdómur hefur fjallað um ýmis tilvik þar sem stéttarfélag vildi útiloka menn frá aðild. Ákveðnar meginreglur hafa verið viðurkenndar sem réttmætar takmarkanir á aðild og eiga þær sumar stoð í lagareglu, en aðrar hefur Félagsdómur staðfest að séu gildar.

Þótt 2. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nefni ákveðnar reglur í samþykktum félaga sem menn þurfi að uppfylla til að geta átt rétt á aðild að félagi segir lagaákvæðið sjálft ekkert til um það í hverju þessar nánar ákveðnu reglur séu fólgnar eða hvaða takmarkanir séu á þeim.

Í athugasemdum með lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur, segir að það sé skilyrði fyrir því að félag njóti réttinda og verndar sem stéttarfélag að það sé opið öllu fólki, sem býr á félagssvæðinu og vinnur eða hafi heimild samkvæmt kunnáttu sinni til að vinna í þeirri starfsgrein eða iðngrein sem félagið starfar í.

Félagsdómur 1/1994 (X:149) fjallaði meðal annars um það hvort Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar væri opið öllum í hlutaðeigandi starfsgrein í deilu sem kom upp vegna réttarstöðu borgarstarfsmanna, þegar SVR var breytt í hlutafélag. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að Strætisvagnar Reykjavíkur hf. væri aðili að VSÍ og þar með bundið af gildandi kjarasamningum þess við aðildarfélög ASÍ. Um þá kjarasamninga færi eftir lögum nr. 80/1938. Því uppfyllti Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar ekki það skilyrði 2. gr. laga nr. 80/1938 að vera opið öllum í hlutaðeigandi starfsgrein á félagssvæði þess og gæti því ekki verið lögformlegur samningsaðili samkvæmt 5. gr. þeirra laga.

2. gr. laganna ber að skilja þannig að hún eigi ekki eingöngu við um lögskipti einstaklinga og stéttarfélaga, heldur gildi hún einnig um aðild stéttarfélaga að stéttarfélagasamböndum. Á þetta reyndi í dómi Félagsdóms 1/1955 (IV:146) og 4/1961 (V:38), þegar Landssambandi íslenskra verslunarmanna var dæmd aðild að Alþýðusambandi Íslands.

Í  Félagsdómi 4/1961 (V:88) skýrði dómurinn út þær skorður sem 2. gr. laga nr. 80/1938 setur félagafrelsi stéttarfélaganna. Dómurinn segir að skilja verði þetta ákvæði svo að verið sé að tryggja launþegum almennt, að möguleikar þeirra til vinnu á hinum almenna vinnumarkaði í starfsgrein þeirra séu ekki skertir með því að stéttarfélag sem fengið hefur með kjarasamningi forgangsrétt til vinnu hjá vinnuveitendum, láti hentisemi ráða því, hvaða launþegar innan starfsgreinarinnar geti notið góðs af þeirri aðstöðu sem náðst hefur. En auk þessara starfslegu hagsmuna, sem ákvæði 2. gr. laganna taka til og miðast við, verði að telja að ákvæði hennar feli einnig í sér rétt launþegum til handa, til þess að geta með starfsemi sinni í stéttarfélagi því sem hlut á að máli, haft áhrif á hagsmunabaráttu þess í starfsgrein þeirri sem um er að ræða.

Hér að neðan eru taldir upp þættir er varða skilyrði að aðild:

Menntun og starfsréttindi

Stéttarfélag getur í lögum sínum haft ákvæði um tiltekna menntun eða starfsréttindi félagsmanna sinna. Ákvæði um menntunarkröfur er að finna í flestum samþykktum félaga faglærðra, iðnaðarmanna, yfirmanna á kaupskipaflotanum og háskólamanna. Þessi stéttarfélög eru þá félög þeirra sem uppfylla tilteknar menntunarkröfur, og eiga þeir einir oft samkvæmt lögum rétt til þeirra starfa sem félögin semja um. Sem dæmi má nefna iðnaðarlög nr. 42/1978lög um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa nr. 30/2007 og hjúkrunarlög nr. 8/1974.

Stundum reynist ekki unnt að fá til starfa nægilega margt fólk sem fullnægir menntunarkröfunum og hefur þá tíðkast að ráða ófaglært fólk í þau störf sem ekki er unnt að manna með faglærðum. Heimild til slíks er nú að finna í 3. mgr. 8. gr. iðnaðarlaga nr. 42/1978. Sum iðnsveinafélög hafa brugðist við þessu á þann hátt að hafa í samþykktum sínum heimild til inngöngu fyrir þá sem starfa í iðninni án þess að hafa iðnréttindi og þá ýmist með þeim hætti að þeir séu fullgildir meðlimir eða aukafélagar.

Í lögum Félags bókagerðarmanna segir til dæmis að þeir einir geti orðið félagsmenn sem hafi full iðnréttindi í þeim iðngreinum sem félagið tekur til svo og óiðnlært fólk, sem rétt hefur til vinnu að framleiðslustörfum á starfssviði félagsins.

Séu menntunarskilyrði vegna aðildar að stéttarfélagi skiptir ekki máli hvort maður hefur hafið störf á félagssvæðinu eða ekki, ef maðurinn er að sækjast eftir starfi. Sjá hér Félagsdóm 27/1939 (I:35), þar sem iðnsveinafélagi var dæmt skylt að veita manni félagsréttindi, sem hafði iðnréttindi, en hafði ekki hafið störf á félagssvæðinu. Í dóminum sagði meðal annars að ekki væri hægt að fallast á það að 2. gr. laga nr. 80/1938 gæfi félaginu svo víðtækan rétt til þess að ráða því, hverjir geti orðið meðlimir í félaginu, sem það vildi vera láta, því með því móti gæti raunverulega að engu orðið sú meginregla 2. gr. að stéttarfélögin skuli opin öllum í hlutaðeigandi starfsgrein. Og þar sem maðurinn hefði öðlast sveinsbréf í iðninni og væri búsettur á svæðinu og það skipti auk þess miklu máli að því er atvinnumöguleika fyrir hann varði, að njóta félagsréttinda í félaginu, bæði vegna ákvæða í lögum þess, sem banni félagsmönnum að vinna með utanfélagsmönnum, svo og vegna kjarasamninga félagsins, hafi félaginu verið óheimilt að synja honum um inngöngu í félagið. Í dómi Félagsdóms kemur ekki fram hvaða inntökuskilyrði iðnsveinafélagið hafði í samþykktum sínum, en í félagslögum margra iðnsveinafélaga er það skilyrði fyrir inngöngu að viðkomandi starfi í iðninni. Spyrja má hvort slík ákvæði kynni að leiða til annarrar niðurstöðu en í tilvitnuðum Félagsdómi og hvort þau samrýmist athugasemdum í greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögum nr. 80/1938, sem segir að félagið skuli öllum opið sem vinni eða hafi heimild samkvæmt kunnáttu sinni til að vinna í þeirri starfsgrein eða iðngrein sem félagið starfar í.

Starf

Í samþykktum félaga er yfirleitt tekið fram að skilyrði fyrir inngöngu sé að maður vinni þau störf sem félagið tekur til. Oft er einnig tekið fram að rétt til inngöngu í félagið eigi einnig þeir sem vinni hjá verkalýðshreyfingunni. Er þetta til komið í því skyni að koma í veg fyrir að þeir sem veljist til starfa fyrir félagið og verkalýðshreyfinguna missi félagsréttindi sín við það.

Á það hefur reynt hvort búfræðingur, sem vinnur almenn verkamannastörf eigi rétt til aðildar að verkalýðsfélagi, og hvort menn sem unnu við smíði á svokölluðu gervismiðakaupi án þess að hafa iðnréttindi ættu rétt til aðildar að verkalýðsfélagi. Eru dómar um þetta efni í III. bindi Félagsdóma sbr. 6/1948 (III:15) sbr. og dóma í sama bindi: 11/1948 (III:25), 12/1948 (III:28),8/1948 (III:31) og 10/1948 (III:33), þar sem verkalýðsfélagið Þór á Selfossi neitaði mönnum um inngöngu í félagið vegna þess að þeir ynnu störf iðnaðarmanna. Niðurstaða allra málanna varð sú að félaginu var skylt að veita mönnunum óskert félagsréttindi.

Loforð um starf jafngildir starfi samkvæmt greinargerð, sem fylgdi frumvarpinu til laga um stéttarfélög og vinnudeilur á sínum tíma, en þar sagði að félagið skyldi opið öllu fólki, sem vinnur eða hafi heimild samkvæmt kunnáttu sinni til að vinna í þeirri starfsgrein eða iðngrein, sem félagið starfar í. Þetta hefur Félagsdómur tekið undir samanber Félagsdómur 2/1954 (IV:77).  

Því verður að telja það almenna reglu að réttur manna til inngöngu í stéttarfélag geti ekki byggst á því hvort þeir gegni tilteknum störfum þegar þeir æskja inngöngu, heldur hvort þeir fullnægi almennum skilyrðum til inngöngunnar. Atvinnulaus verkamaður og faglærður maður sem starfar ekki í fagi sínu eiga því báðir þennan rétt.

Búseta

Í 12. gr. laga ASÍ er sérstaklega tekið fram að í samþykktum félaga innan aðildarsamtaka ASÍ megi ekki vera ákvæði sem takmarka aðild að félögum með tilliti til búsetu og lögheimilisfesti.


Þjóðerni

Takmarkanir á aðild að stéttarfélagi sem byggðar eru á þjóðerni brjóta gegn þeim reglum sem hér gilda. Fyrst ber að nefna  alþjóðlegar skuldbindingar um rétt og aðgang fólks að stéttarfélagi. Síðan er kveðið á um það í lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002, að atvinnuleyfi sé veitt ef fyrir liggi umsögn stéttarfélags á staðnum í hlutaðeigandi starfsgrein eða viðkomandi landssambands og skriflegur ráðningarsamningur sem tryggi erlendum starfsmanni laun og önnur starfskjör til jafns við heimamenn. Lögin tryggja þeim útlendingum sem fá atvinnuleyfi jafnan rétt og Íslendingum til launa og starfskjara. Starfskjör geta ekki verið jöfn, ef aðild að stéttarfélagi er útilokuð. Til dæmis þarf starfsmaðurinn að eiga aðgang að sjúkrasjóðum stéttarfélagsins svo að hann teljist njóta sambærilegra kjara.

Um ríkisborgara samningsaðila samnings um Evrópska efnahagssvæðið, sem hefur lagagildi hér á landi samkvæmt 2. gr.laga nr. 2/1993 gildir bann við mismunun. Í 4. gr. samningsins segir að hvers konar mismunun á grundvelli ríkisfangs sé bönnuð á gildissviði samningsins nema annað leiði af einstökum ákvæðum hans.

Sérstök lög um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins nr.47/1993 tryggja ríkisborgurum EES ríkja aðgang að sameiginlegum vinnumarkaði. Þar er bann við mismunun á grundvelli þjóðernis ítrekað.

Aldur

Aldursskilyrði geta bæði tekið til lágmarksaldurs til inngöngu og hámarksaldurs. Almennt er miðað við það í stéttarfélögum að fullgildir félagsmenn þurfi að hafa náð 16 ára aldri en að þeir sem yngri eru og taka laun skv. kjarasamningum félagsins hafi stöðu aukafélaga.

Ákvæði um tiltekinn hámarksaldur félaga eru ekki algeng en ekki óalgengt að félagsmenn 67 ára og eldri sem hættir eru störfum haldi félagsréttindum þó þeir greiði ekki félagsgjöld enda hafi þeir verið fullgildir félagsmenn við starfslok.

Í Félagsdómi 5/1972 (VII:57) var deilt um uppsögn sjötugs trúnaðarmanns. Þar var uppsögnin dæmd lögmæt og kom fram í niðurstöðum dómsins að eigi væri komið fram að lagareglur, venja né kjarasamningar skjóti loku fyrir lögmæti slíkra ákvarðana um hámarksaldur starfsmanna. Verði trúnaðarmenn stéttarfélaga jafnt sem aðrir að hlíta þessum aldursmörkum. Með hliðsjón af þessum dómi virðist mega telja að stéttarfélögum sé stætt á slíkum reglum í lögum sínum, að minnsta kosti meðan ekki er sýnt að þær hindri menn frá störfum.

Til hliðsjónar er bent á Hrd. 1993:1217, mál leigubifreiðastjóra gegn samgönguráðherra og fleirum, sem fjallaði um tiltekinn hámarksaldur sem skilyrði fyrir leyfi til leigubifreiðaaksturs, en bílstjórinn hafði áður fengið leyfið án slíkra skilyrða, og hvort verið væri að brjóta atvinnufrelsi manna. Hæstiréttur taldi skilyrðið, sem sett var með lögum, standast.

Samkvæmt 7. mgr. 9. gr. laga um leigubifreiðar nr. 134/2001, fellur atvinnuleyfi úr gildi við lok 70 ára aldurs leyfishafa. Þó er heimilt að framlengja atvinnuleyfi til eins árs í senn þar til atvinnuleyfishafi nær 76 ára aldri ef hann telst hæfur til að stunda leigubifreiðaakstur.

Aðild að tveimur eða fleiri stéttarfélögum

Ekki er í landslögum að finna bann við því að einstaklingur geti verið félagsmaður í fleiri en einu félagi. Í 7. gr. laga ASÍ (2006) segir að ekkert félag innan ASÍ megi taka inn félaga, sem er skuldugur eða stendur á annan hátt í óbættum sökum við annað félag í ASÍ, eða hefur verið vikið úr sambandsfélagi, nema til komi leyfi stjórnar þess félags er hann var áður í. Um þetta er fjallað hér á eftir.

Einstaklingur, sem vinnur fleiri en eitt starf, og greiðir félagsgjöld til fleiri en eins stéttarfélags, á beina hagsmuni af því að taka þátt í atkvæðagreiðslu um kjarasamning um öll störfin, en ekki bara eitt starfanna. Hann á einnig hagsmuni af því að hafa áhrif á forystu félagsins og af því að njóta verndar þess og þeirra réttinda sem aðild fylgja.

Í Félagsdómi 2/1942 (I:190) var fjallað um rétt manns til aðildar að stéttarfélagi en honum hafði verið synjað um inngöngu þar sem hann var félagi í öðru stéttarfélagi í sömu starfsgrein á sama félagssvæði. Dómkröfur mannsins voru teknar til greina og niðurstaðan studd þeim rökum að réttur verkafólks samkvæmt 2. gr. laga nr. 80/1938 til þess að krefjast inngöngu í stéttarfélag í starfsgrein þess, geti ekki verið því skilyrði bundinn að það sé ekki í öðru verkalýðsfélagi í sömu starfsgrein á sama stað. Tilgangur löggjafans með þessu ákvæði virðist vera sá að tryggja verkamönnum það að afkomu- og atvinnumöguleikum þeirra geti ekki verið spillt með því að láta það vera að öllu leyti komið undir geðþótta verkalýðsfélaganna, hverjum þau veiti viðtöku í félagsskap sinn. Og þótt stéttarfélögin séu fleiri en eitt í sömu starfsgrein, getur það skipt einstaka verkamenn miklu að geta verið í fleirum en einu þeirra, meðal annars vegna samninga stéttarfélaganna um forgangsrétt að vinnu hjá atvinnurekendunum. Niðurstaðan er afdráttarlaus.

Óbættar sakir

Lög ASÍ (2006) kveða á um það í 7. gr. að ekki megi neitt félag innan sambandsins taka inn félaga, sem sé skuldugur eða stendur á annan hátt í óbættum sökum við annað félag í ASÍ, eða hefur verið vikið úr sambandsfélagi, nema til komi leyfi stjórnar þess félags, er hann var áður í.  

Í samræmi við þetta hafa mörg aðildarfélög sambandsins þetta inntökuskilyrði í lögum sínum. Skilyrðið er tvíþætt, annars vegar það sem lýtur að skuldum mannsins við fyrra félag, og hins vegar brot sem maðurinn hefur gerst sekur um gagnvart fyrra félagi.

Gunnars Sæmundsson hrl. telur í grein sinni "Stéttarfélög í skilningi laga nr. 80/1938 og aðild að þeim og stéttarfélagasamböndum" (Úlfljótur, 1. tbl. 1989) það mjög hæpið að heimilt sé að gera það að skilyrði fyrir inngöngu í stéttarfélag að umsækjandi sé skuldlaus við annað félag. Kröfur þriðja aðila á sviði fjármunaréttar ætti ekki að nota til að varna mönnum að ná mannréttindum. Taka verður undir þetta sjónarmið. Einnig ber að hafa í huga, að skv. kjarasamningum ber atvinnurekendum að innheimta gjöld til stéttarfélaganna og afdráttur þeirra jafngildir greiðslu gjaldsins, óháð því hvort þeim hefur verið skilað eða ekki. Stéttarfélögin hafa treyst atvinnurekendum fyrir innheimtunni og verða að bera áhættuna af skilum þeirra frá innheimtuaðila. 

Öðru máli gegnir um félagsmann í stéttarfélagi sem brotið hefur gegn félagi sínu með þeim hætti að lögmætt hafi verið að vísa honum úr því og ekki bætt fyrir brot sitt. Það hlýtur að teljast gild ástæða fyrir aðild að félagi að menn standi ekki í óbættum sökum vegna brota gegn fyrra félagi. Sjá hér Félagsdóma 3/1956 (IV:123) og 4/1956 (IV:129). Þar sagði dómurinn meðal annars að það yrði ekki talin óeðlileg framkvæmd er maður óski inngöngu í verkalýðsfélag, að fyrir liggi glögg gögn um félagslega afstöðu umsækjanda til annarra verkalýðsfélaga.

 

Atvinnurekstur

Stéttarfélög eru félög launafólks, og gert ráð fyrir þeim sem andstæðu atvinnurekenda eða atvinnurekendafélaga samanber Félagsdóm 5/1949 (III:89). Af þessu leiðir að atvinnurekendur geta ekki átt aðild að þeim. 

Spurning getur vaknað hvort hlutafjáreign manns í fyrirtæki geti komið í veg fyrir aðild hans að stéttarfélagi. Verður þá að meta það hverju sinni hvar hagsmunir mannsins liggja, hvort hann eigi aðild að stjórn fyrirtækisins, hvort hann kemur fram út á við sem fulltrúi atvinnurekanda og svo framvegis. Í Félagsdómi 6/1973 (VII:112) var hlutafjáreign sveins í járniðnaði í vélsmiðju sem hann starfaði í ekki talin því til hindrunar á nokkurn hátt að hann nyti fullra félagsréttinda í járniðnaðarmannafélagi er var viðsemjandi hlutafélagsins.

Í samþykktum nokkurra verkalýðsfélaga eru ákvæði í þessa veru. Yfirleitt segir aðeins að atvinnurekendur geti ekki orðið aðilar né verkstjórar sem eingöngu stunda verkstjórn. Við mat á því við hvað skuli miða, þegar meta skal hvort einstaklingur stundi atvinnurekstur eða ekki er rétt að skoða hvert einstakt tilvik, meðal annars það hvort starfsmaður, sem jafnframt er hluthafi í fyrirtæki, hefur stjórnunarleg afskipti af félaginu, hver stærð félagsins er og fleiri þætti.

Á síðustu árum hefur vaxið sá fjöldi einstaklinga sem tekið hafa stöðu á vinnumarkaði án þess að uppfylla hefðbundin skilyrði til þess að kallast launamenn eða atvinnurekendur. Um er að ræða einstaklinga sem starfa einir og að jafnaði er um háskólamenntaða eða mjög sérhæfða einstaklinga að ræða. Í lögum nokkurra aðildarfélaga ASÍ er nú gert ráð fyrir heimild einyrkja til aðildar með takmörkuð félagsleg réttindi t.d. hvað varðar kjörgengi og kosningarétt um kjarasamninga. 

Kynferði

Í upphafi 20 aldar höfðu verið stofnuð sérstök stéttarfélög verkakvenna og sömdu þau um kaup og kjör sinna félagskvenna en undir lok aldarinnar höfðu þau öll sameinast almennum stéttarfélögum beggja kynja. Samkvæmt skýrum ákvæðum 2. mgr. 65. gr. stjórnarskrár er hvers kyns mismunun eftir kynferði óheimil sem á vinnumarkaði endurspeglast m.a. í skýru ákvæði 22. gr.laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. Í 13. gr. laganna segir að atvinnurekendur og stéttarfélög skulu vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Atvinnurekendur skulu sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf.

Önnur tilvik

Reynt hefur á það fyrir Félagsdómi hvort sú takmörkun á inngöngu í félag að setja það að skilyrði fyrir inngöngu í félagið að félagsmenn hafi afgreiðslu fyrir bifreiðar sínar á þeirri vörubílastöð sem félagið sjálft starfrækir. Í Félagsdómi 6/1954 (IV:87) var deilt um þetta og taldi dómurinn þetta löglega takmörkun.

Félagsgjöld

Samkvæmt lögum nr. 55/1980 (starfskjaralögunum) er annars vegar mælt fyrir um að kjarasamningar séu lágmarkskjör sbr. 1. gr. þeirra og hins vegar að atvinnurekendum beri að halda eftir iðgjaldi til stéttarfélags sbr. 2. mgr. 6. gr. Þetta er samtengt eins og nánar verður fjallað um hér á eftir. 


Þótt hér sé ekki lögbundin aðildarskylda að stéttarfélögum er í lögum kveðið á um greiðsluskyldu launafólks til stéttarfélaga. Skv. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980 er atvinnurekendum skylt að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum sem kjarasamningar greina.  

Orðalag kjarasamninga um skil atvinnurekenda á iðgjöldum til stéttarfélaga er nokkuð misjafnt, en almennt má segja að það kveði á um skyldu atvinnurekenda til að halda eftir og skila iðgjöldum af öllum starfsmönnum á tilteknu starfssviði til viðkomandi stéttarfélags. Sums staðar í kjarasamningum er vísað til starfskjaralaganna um innheimtu iðgjalda.


Greiðsluskylda án aðildar

Þeir sem ekki vilja vera í stéttarfélagi verða samt að greiða þangað iðgjald sem er þá greiðsla til félagsins fyrir að sinna þeirri þjónustu sem félagið veitir, meðal annars með kjarasamningsgerðinni. Stundum er þetta gjald kallað vinnuréttargjald. Með því er ekki átt við að með greiðslu gjaldsins öðlist menn rétt til vinnu heldur hitt að gjaldið tengist réttindum á vinnumarkaði. Litið er svo á að greiðsla gjaldsins sé fyrir þá þjónustu sem felst í því að annast gerð kjarasamninga sem gilda fyrir alla, gæslu félagslegra réttinda, aðstoðar vegna ágreinings á vinnustöðum o.fl. Kjarasamningurinn kveður á um lágmarkskjör. Hann tryggir launamanninum ýmis réttindi auk þess sem hann kveður á um það hvaða laun skuli að lágmarki greiða fyrir vinnuna. Það hefur verið talið óhjákvæmilegt, að þar sem starfskjaralögin geri kjarasamninga að lágmarksrétti, að þeir sem nýta sér þessa þjónustu greiði fyrir hana. Í framkvæmd er það þannig að félög ganga ekki stíft eftir því að menn gerist félagsmenn í félögunum svo framarlega sem iðgjöld eru greidd til þeirra og réttindi þessa hóps eru að mörgu leyti þau sömu og þeirra sem eru fullgildir félagsmenn.

Árið 1995 voru samþykktar breytingar á stjórnarskránni og sett inn ákvæði er áttu að styrkja stöðu mannréttinda í stjórnskipan íslenska ríkisins. Í nefndaráliti stjórnarskrárnefndar um frumvarp til stjórnarskipunarlaga var fjallað um það hvort svokölluð forgangsréttarákvæði kjarasamninga og ákvæði þeirra um greiðslu iðgjalda til stéttarfélaga færu i bága við nýtt ákvæði sem lagt var til að tekið yrði upp í stjórnarskrána um rétt manna til að standa utan félaga.

Álit stjórnarskrárnefndar um þetta atriði er svohljóðandi: 

"Meginregla 12. gr. er sú að menn eiga rétt á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi. Enn fremur megi engan skylda til aðildar að félagi en þó megi víkja frá því ef það réttlætist af þeim aðstæðum sem greinin kveður á um. Í orðalagi fyrri málsliðar 2. mgr. felst að engan megi skylda til aðildar að félagi með lögum eða hvers kyns stjórnvaldsákvörðunum. Er því ekki verið að kveða á um það sem menn eru skyldaðir til að gera á grundvelli frjálsra samninga, þar á meðal kjarasamninga. Hvað varðar stéttarfélög og aðild að þeim er bent á að í núgildandi löggjöf eru launþegar ekki skyldaðir til þess að vera í stéttarfélagi. Í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938, er þvert á móti beinlínis gert ráð fyrir að launþegar geti verið utan stéttarfélaga. Því er í 2. mgr. 12. gr. ekki vikið að þeim aðstæðum er eiga við um stéttarfélög og þar af leiðandi ekki lagðar til með málsgreininni breytingar á reglum varðandi aðild manna að þeim. Sérstök ástæða er til að nefna að svonefnd forgangsréttarákvæði, þegar í kjarasamningum er samið um að félagsmenn viðkomandi stéttarfélags skuli hafa forgang til vinnu á félagssvæði þess, leiða ekki af sér félagsskyldu af þeim toga sem fyrri málsliður 2. mgr. tekur til. Þá verður heldur ekki litið svo á umsamin skylda launþega til að greiða gjöld til stéttarfélaga sé félagsskylda af þeim meiði sem ákvæði þetta nær til. Í ljósi þessa lítur nefndin svo á að með samþykkt frumvarpsins sé í engu verið að hrófla við núverandi réttarstöðu á vinnumarkaði að því er varðar forgangsréttarákvæði, greiðslu félagsgjalda eða önnur réttindaákvæði."

Dómstólar hafa fjallað um það hér á landi hvort heimilt sé að krefja launamenn um gjald til stéttarfélags sem þeir eru ekki fullgildir félagsmenn í. Í dómi bæjarþings Reykjavíkur 16. janúar 1984 var fjallað um rétt félags til að krefja ófélagsbundinn starfsmann um iðgjald til félagsins. Málavextir voru þeir að skólanemi hafði með skóla unnið við afgreiðslustörf í verslun. Hafði félagsgjöldum verið skilað til VR, en neminn aldrei verið félagsmaður þess félags. Í dómsmáli krafði neminn félagið um endurgreiðslur gjaldanna og vísaði til ákvæða laga um stéttarfélög og vinnudeilur, sem kvæðu ekki á um skylduaðild og til stjórnarskrárákvæða um félagafrelsi. Félagið byggði varnir sínar á starfskjaralögunum og ákvæðum kjarasamnings félagsins. Félagið var sýknað af kröfum nemans með eftirfarandi rökum:  

"Stefnandi vann allan þann tíma sem hér skiptir máli með kjörum sem kjarasamningar VR sögðu til um á hverjum tíma. Kjarasamningar eru eðli málsins samkvæmt með þeim hætti að þeir veita báðum aðilum viss réttindi, en leggja jafnframt á þá gagnkvæmar skyldur. Eigi verður á það fallist að árgjald það sem stefndi tók af stefnanda samkvæmt heimild 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980 hafi verið með þeim hætti að þar hafi verið um að ræða brot á 74. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar um félagafrelsi. Ber því að taka sýknukröfu stefnda til greina."


Einnig má í þessu efni vísa til
Hrd. nr. 315/2005 sem fjallaði um greiðslu iðnaðarmálagjalds atvinnurekenda til Samtaka Iðnaðarins. Álagning iðnaðarmálagjalds og ráðstöfun þess samkvæmt lögum til Samtaka Iðnaðarins var ekki talin fela í sér skylduaðild viðkomandi einstaklings að samtökunum, sem bryti gegn stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Var því ekki fallist á að lögin stönguðust á við 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Þá var hvorki talið að með lagafyrirmælum um álagningu gjaldsins hefði löggjafinn farið út fyrir heimildir sínar né að hún stangaðist á við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. 

Opinberir starfsmenn

Í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna segir að starfsmaður sem lögin taki til og er ekki innan stéttarfélags greiði til þess stéttarfélags sem hann ætti að tilheyra gjald jafnt því sem honum bæri að greiða væri hann í því, enda fari um laun hans og önnur starfskjör samkvæmt samningum þess. Um lögmæti þessa var m.a. fjallað í Félagsdómi 4/1998 (XI:315) en þar segir m.a. að skylda til greiðslu gjalda til þess félags, sem fer með samningsaðild fyrir starfsmann, brjóti hvorki í bága við félagafrelsisákvæði 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins né 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 eða 4. gr. laga nr. 80/1938.

Það að ófélagsbundnir starfsmenn verða einnig að greiða gjald í félögin er rökstutt með því að um sé að ræða gjald til félagsins fyrir samningsvinnuna sem hinir ófélagsbundnu njóti á sama hátt og skráðir félagar. Gjald þetta sé ekki félagsgjald enda veiti það hvorki réttindi né skyldur í viðkomandi stéttarfélagi umfram fyrrgreind afnot af kjarasamningi þess. Bent hefur verið á það á móti að slík gjaldtaka hljóti að fela í sér að minnsta kosti óbeina félaganauðung þar sem einstaklingar hljóti, af tveimur kostum, fremur að kjósa að gerast félagar, verði þeir á annað borð að greiða til félagsins, þar sem þeir öðlist þá að minnsta kosti önnur þau réttindi sem stéttarfélagsaðild veitir. Hér sé heldur ekki um að ræða að launamenn geti án sérstakra kvaða valið hvort þeir vilji eitthvað hafa saman að sælda við viðkomandi stéttarfélag eða ekki, heldur er beinlínis lögbundið að svo skuli vera. Það hvort einstaklingar séu formlegir félagar eða ekki hljóti samkvæmt því sjónarmiði að teljast aukaatriði.

Réttur til að standa utan stéttarfélags

Skv. 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrár, má engan skylda til aðildar að félagi þó kveða megi á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.


Samkvæmt íslenskum lögum er launafólk ekki skyldað til að vera í stéttarfélagi. Hvergi í lögum eru ákvæði um aðildarskyldu að stéttarfélagi og í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 er beinlínis gert ráð fyrir að launamenn geti staðið utan stéttarfélaga. Kemur þetta meðal annars fram í 2. mgr. 3. gr. laganna, þar sem fjallað er um úrsögn úr stéttarfélagi og í 45. gr. þar sem segir að ófélagsbundnir aðiljar reki mál sín sjálfir fyrir Félagsdómi. Óski menn þess að standa utan stéttarfélags hafa þeir því almennt rétt til þess hér á landi. Samkvæmt lögum ASÍ má ekkert aðildarfélag sambandsins hafa ákvæði um félagsskyldu í samþykktum sínum. Hafi þau slík ákvæði í samþykktum sínum víkja þau fyrir ákvæðum laga ASÍ og hafa ekkert gildi. 

Ákvæði um greiðsluskyldu til félaga án félagsaðildar er að finna í lögum um starfskjör launafólks nr. 55/1980 svo oglögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 en greiðsluskyldu fylgir ekki aðildarskylda.  Að sjálfsögðu hlýtur þó að felast í slíkri skyldu hvatning til aðildar að félaginu. Auk þess valda forgangsréttarákvæði kjarasamninga því að vegna beinna hagsmuna einstaklinga af því að vera félagsmenn í verkalýðsfélögum er há almenn þátttaka launafólks í þeim hér á landi.

Ákvæði 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu 

Mannréttindasáttmáli Evrópu sem tók gildi 1953 hefur lagagildi hér á landi sbr. lög um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994. Íslenskir dómstólar hafa ekki talið sér skylt að fara eftir ákvæðum sáttmálans en í dómaframkvæmd má sjá að dómar Evrópudómstólsins eru hafðir til hliðsjónar dómaúrlausnum hér á landi. Félagsdómur hefur tvisvar árið 1994  í úrskurðum um að dómari víki sæti, byggt niðurstöður sínar á sáttmálanum, Félagsdómar 1/1994 (X:149) og 11/1994 (X:228).

Það ákvæði sem hér kemur til skoðunar hvað félagsaðildina varðar er 11. grein sáttmálans sem fjallar um rétt manna til að stofna og vera í félögum og rétt manna til að standa utan félaga. Þar segir svo:

"1. Rétt skal mönnum að koma saman með friðsömum hætti og mynda félög með öðrum, þar á meðal að stofna og ganga í stéttarfélög til verndar hagsmunum sínum.

2. Eigi skal réttur þessi háður öðrum takmörkunum en þeim sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis eða almannaheilla, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða réttindum og frelsi. Ákvæði þessarar greinar skulu eigi vera því til fyrirstöðu að löglegar takmarkanir séu settar við því að liðsmenn hers og lögreglu eða stjórnarstarfsmenn beiti þessum rétti."

Inntak annarrar málsgreinar hefur lengi þótt nokkuð óljóst þegar um aðild að stéttarfélögum hefur verið að ræða og rétt manna til að standa utan stéttarfélaga. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur í nokkrum dómum sínum skýrt inntakið, en því hefur aldrei verið slegið föstu í úrlausnum þaðan né frá Mannréttindanefnd Evrópu hvort 2. mgr. 11. gr. sáttmálans feli í sér almenna vernd á rétti manna til að standa utan stéttarfélags í sérhverju tilliti og hefur reyndar verið gengið út frá því að vernd ákvæðisins á þessum rétti sé háð verulegum takmörkunum.  

Í málinu Young, James og Webster gegn Bretlandi, sem dæmt var árið 1981 var ekki tekin afstaða til þess hvort skylda til aðildar að stéttarfélagi væri almennt andstæð 11. gr. mannréttindasáttmálans, þótt dómurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að þvingun þeirra þriggja sem höfðuðu málið til aðildar að stéttarfélagi bryti í bága við ákvæðið eins og á stóð.

Mál Sigurðar Sigurjónssonar var dæmt í júní 1993. Þar hafði leigubílstjóri verið þvingaður með lögum til aðildar að Frama, félagi leigubílstjóra. Hann sætti sig ekki við það og höfðaði mál fyrir dómstólum hér heima. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri andstætt 73. gr. stjórnarskrárinnar að þvinga mann með lögum til aðildar að stéttarfélagi. Ákvæðinu væri ætlað að tryggja félagsstofnunina sem slíka, en ekki rétt manna til að standa utan félaga. Sjá Hrd. 1988:1532. Mannréttindadómstóllinn hnekkti þessum dómi Hæstaréttar og taldi lögþvingunina ekki standast 2. mgr. 11. gr. þar sem bílstjórinn var þvingaður með lögum til að vera félagsmaður í Frama, félagi leigubílstjóra, svo hann mætti halda vinnu sinni, en hann var ósáttur við þá stefnu sem rekin var af félaginu hvað varðaði fjölda bílstjóra.

Í máli Sibson gegn breska ríkinu sem dæmt var í apríl 1993 voru málsatvik þau að Sibson hafði verið sagt upp störfum þar sem hann neitaði að gerast félagi í tilteknu stéttarfélagi sem allir starfsmenn fyrirtækisins tilheyrðu án þess að um skylduaðild væri að ræða. Sibson hafði gengið úr félaginu þar sem hann hafði gegnt trúnaðarstörfum eftir að hafa lent í útistöðum við félaga sína þar. Starfsmenn fyrirtækisins neituðu að vinna með honum og hótuðu verkfalli. Fyrirtækið gaf honum tvo kosti, annað hvort að ganga í stéttarfélagið eða hefja störf hjá sama fyrirtæki í nálægum bæ. Sibson hafnaði þessu og var þá sagt upp. Mannréttindadómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að 11. greinin hefði ekki verið brotin. Ástæður mannsins fyrir þessari synjun lúti meðal annars ekki að andstöðu hans gegn því að vera í verkalýðsfélagi og voru þess vegna ekki þess eðlis að hann nyti verndar 11. gr. mannréttindasáttmálans. Ekki hefði heldur verið skylduaðild að stéttarfélaginu og manninum var gefinn kostur á að starfa áfram hjá fyrirtækinu án félagsaðildar í nálægum bæ.

Sjá einnig málið Gustafsson sem dæmt var í apríl 1996. Í málinu var fjallað um stöðu atvinnurekanda sem ekki var aðili að samtökum atvinnurekanda.

Í  Sörensen og Rasmussen gegn Danmörku sæm dæmt var í janúar 2006 fjallaði dómstóllinn um ákvæði í dönskum kjarasamningum sem gerðu það að verkum að réttur starfsmanna til að ráða sig í vinnu hjá tilteknum tveimur fyrirtækjum var bundinn því skilyrði að þeir gerðust aðilar að því stéttarfélagi sem gert hafði kjarasamning við viðkomandi fyrirtæki. Kjarasamningarnir kváðu m.ö.o. á um aðildarskyldu starfsmanna fyrirtækisins að ákveðnum stéttarfélögum (útilokunarákvæði eða closed shop).   Þessu vildu hlutaðeigandi starfsmenn ekki una en áttu þ.a.l. ekki kost á atvinnu hjá viðkomandi fyrirtækjum. Höfðuðu þeir í kjölfarið mál á hendur þessum fyrirtækjum á þeim grundvelli að um ólögmætar uppsagnir hefðu verið ræða. Niðurstaða Mannréttindadómstólsins var í stuttu máli sú að skilyrði um aðildarskyldu líkt og um var að ræða í framangreindu máli færu í bága við 11. gr. Mannréttindasáttmálans.  Bent skal á að þessi dómur hefur takmarkað gildi hér á landi hvað varðar túlkun svokallaðra forgangsréttarákvæða kjarasamninga. Þau ákvæði halda því alveg opnu að atvinnurekendur ráði utanfélagsmenn til starfa. Ákvæði um aðildarskyldu starfsmanna að stéttarfélögum líkt og um var fjallað í framangreindu máli eru ekki fyrir hendi í kjarasamningum aðildarfélaga Alþýðusambandsins enda slíkt ekki heimilt sbr. 12. gr. laga ASÍ (2006). Þar segir í 2. mgr. "Í samþykktum aðildarfélaga mega ekki vera ákvæði um félagsskyldu né ákvæði sem takmarka aðild að félögum með tilliti til búsetu og lögheimilisfesti."  

Aðildarskylda ekki til staðar

Í samþykktum stéttarfélaga voru hér áður fyrr ákvæði um það að allir sem unnu tiltekin störf á félagssvæðinu skyldu vera félagsmenn í stéttarfélaginu og teldust fullgildir félagsmenn, án sérstakrar inntökubeiðni, eftir að hafa greitt til félagsins félagsgjöld í tiltekinn tíma. Þessi ákvæði voru síðan tekin upp í kjarasamningi aðila. Frá þessu fyrirkomulagi hefur verið horfið m.a. vegna túlkana Mannréttindadómstóls Evrópu á 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Úrsögn úr stéttarfélagi

Lög um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 leggja áherslu á að stéttarfélög skuli opin öllum eftir nánar ákveðnum reglum í samþykktum félaganna.  Í 2. mgr. 3. gr. laganna segir að meðlimur stéttarfélags hætti að vera bundinn af samþykktum félags síns og sambands þess þegar hann samkvæmt reglum félagsins er farinn úr því, en samningar þeir sem hann hefur orðið bundinn af á meðan hann var félagsmaður eru skuldbindandi fyrir hann meðan hann vinnur þau störf sem samningurinn er um þar til þeir fyrst gætu fallið úr gildi samkvæmt uppsögn. Lögin gera því ráð fyrir heimild manna til úrsagnar úr félagi eftir ákveðnum reglum. Réttaráhrif úrsagnar úr einu félagi og innganga í annað félag felur hins vegar ekki í sér rétt til þess að krefjast launa skv. kjarasamningi þess félags sem gengið var í sbr. m.a. Félagsdóm 18/1998 (XI:350). Í félagslögum einstakra stéttarfélaga er síðan fjallað um það með hvaða hætti úrsögn getur átt sér stað og hvaða skilyrði þurfi að vera til staðar. Hvað aðildarfélög ASÍ varðar mega slík skilyrði ekki brjóta gegn lögum sambandsins en í 3. mgr. 12. gr. gildandi laga sambandsins (2006) segir að ekki megi ".... hamla því að félagsmenn geti sagt sig úr félögum með skriflegri tilkynningu, með þeirri undantekningu einni að um tímabundnar hömlur sé að ræða, t.d. vegna yfirstandandi kjaradeilu og verkfallsaðgerða henni tengdri."

Úrsögn í vinnudeilum

Í lögum aðildarfélaga ASÍ er 3. mgr. 12. gr. laga sambandsins endurspegluð með ýmsum hætti. T.d. þannig að enginn geti sagt sig úr félaginu eftir að viðræður eru hafnar við atvinnurekendur, vinnudeilu hefur verið vísað til sáttasemjara, atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hefur verið auglýst og þar til vinnustöðvuninni hefur verið formlega aflýst o.fl. Með breytingum á 15.gr. laga 80/1938 á árinu 1996 var skerpt á formlegum aðdraganda vinnustöðvana og m.a. gert að skilyrði lögmætrar ákvörðunar um boðun vinnustöðvunar að samningaviðræður eða viðræðutilraunir um framlagðar kröfur hafi reynst árangurslausar þrátt fyrir milligöngu sáttasemjara auk þess sem viðhafa verður allsherjaratkvæðagreiðslu um boðun. Ætla verður að úrsögn sé í öllum tilvikum óheimil eftir að ákvörðun hefur verið tekin um boðun allsherjaratkvæðagreiðslu um vinnustöðvun en ekki útilokað að svo geti verið fyrr í ferlinu, allt eftir ákvæðum í lögum viðkomandi stéttarfélags.

Einnig sé óheimilt að segja sig úr félaginu til þess að taka upp störf félagsmanna í öðru félagi, er lagt hefur niður vinnu vegna deilu.  Þessum ákvæðum er ætlað að koma í veg fyrir að félagsmenn segi sig úr félagi þegar vinnudeila er orðin til þess að losa sig undan deilunni.  Félagsmenn verða oft fyrir miklum þrýstingi meðal annars af hálfu atvinnurekenda að segja skilið við stéttarfélagið, eftir að kjaradeila er komin upp.

Ákvæði í þessa veru var ekki að finna í félagslögum Félags íslenskra atvinnuflugmanna, en ágreiningur þess við Flugfélagið Atlanta varð tilefni málareksturs fyrir Félagsdómi í október 1994. Málavextir málsins 11/1994 (X:234) voru þeir að FÍA hafði lengi leitað eftir því við flugfélagið að gera kjarasamning fyrir félagsmenn þess hjá fyrirtækinu. FÍA hafði kjarasamning við Flugleiðir, en ekki við Atlanta. Atlanta hélt því meðal annars fram að engir flugmenn væru í starfi hjá fyrirtækinu. Flugmenn væru allir ráðnir fyrir milligöngu áhafnaleigu erlendis og því gæti það ekki gert kjarasamning.  Samningafundir höfðu verið haldnir þegar flugmenn sem unnu fyrir Atlanta gengu úr FÍA, stofnuðu sitt eigið stéttarfélag og gengu frá kjarasamningi við Atlanta daginn eftir stofnun félagsins.  Ekki voru allir flugmenn fyrirtækisins aðilar að hinu nýja félagi.  Fimm eða sex þeirra héldu áfram aðild að FÍA. FÍA boðaði síðan verkfall á fyrirtækið.  Atlanta höfðaði mál gegn félaginu og krafðist þess að verkfallið yrði dæmt ólögmætt. Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að hið nýja félag hefði verið löglega stofnað og kjarasamningur sem það hafði gert við Atlanta væri bindandi fyrir aðila.  Af þeim sökum væri þátttaka félagsmanna í hinu nýja félagi í vinnustöðvun ólögmæt og þyki ekki skipta máli í þeim efnum hvort þessir meðlimir hins nýja stéttarfélags hefðu sagt sig formlega úr FÍA eða ekki, enda gætu þeir verið í báðum félögunum.  Vinnustöðvunin var dæmd lögmæt en hún næði aðeins til þeirra félagsmanna sem ekki væru bundnir af hinum nýgerða kjarasamningi.

Úrsögn og innganga í annað stéttarfélag

Til þess að félagaskipti geti verið lögmæt þarf það félag sem gengið er í að hafa samningsrétt gagnvart atvinnurekanda. Í Félagsdómi 4/1998 (XI:315), Sjúkraliðafélag Íslands gegn íslenska ríkinu og Starfsmannafélagi ríkisstofnana var ágreiningur um samningsaðild og félagaskipti. 

Málið varðaði gæslumann á Meðferðarheimilinu að Sogni sem í ráðningarsamningi var skráður sem félagsmaður í Starfsmannafélagi ríkisstofnana, lífeyrissjóður var tilgreindur Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og vinnuveitandinn tilgreindur sem Sjúkrahús Suðurlands (Meðferðarheimilið Sogni). Þann 22. apríl 1997 gekk umræddur starfsmaður í Sjúkraliðafélag Íslands og sagði sig úr Starfsmannafélagi ríkisstofnana daginn eftir. Í kjölfar þessa sendi Sjúkraliðafélag Íslands bréf til Sjúkrahúss Suðurlands þar sem segir að með þessu hafi gæslumaðurinn tekið á sig  almennar félagslegar skyldur gagnvart Sjúkraliðafélagi Íslands, þ.m.t. að greiða til félagsins 1,4% iðgjöld af öllum launum, auk 0,25% greiðslna í orlofssjóð og 0,22% til starfsmenntunarsjóðs BSRB af sama gjaldstofni. Í niðurstöðu Félagsdóms segir m.a. að Sjúkraliðafélag Íslands sé stéttarfélag sem hafi rétt til að vera samningsaðili við stefnda, íslenska ríkið, samkvæmt ákvæðum 3. tl. 5. gr. laga nr. 94/1986. Áður en meðferðarheimilið að Sogni tók til starfa á árinu 1992 hafi verið auglýstar til umsóknar stöður gæslufólks. Umræddur starfsmaður var menntuð sem sjúkraliði, en sóttist engu að síður eftir gæslumannsstarfi á meðferðarheimilinu að Sogni, enda var ekki um störf sjúkraliða að ræða á meðferðarheimilinu. Endurspeglar ráðningarsamningur starfsmannsins þessa staðreynd. Með vísan til 2. mgr. 7. gr. laga nr. 94/1986 bar því þessum starfsmanni að greiða gjöld til Starfsmannafélags ríkisstofnana eins og hann væri félagsmaður. Tekið er fram, að skylda til greiðslu gjalda til þess félags, sem fer með samningsaðild fyrir starfsmann, brjóti hvorki í bága við félagafrelsisákvæði 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins né 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 eða 4. gr. laga nr. 80/1938. Voru stefndu því sýknuð með vísan til með framanritaðs.

Brottrekstur úr stéttarfélagi

Samþykktir flestra félaga hafa að geyma ákvæði um refsingu  félaga, hafi þeir til saka unnið að mati félagsins. Stéttarfélög eru hér engin undantekning. Refsing félagsmanna í stéttarfélagi er almennt fyrst áminning.  Stundum er einnig heimilt að beita fésektum.  Ef sakir eru miklar er heimilt að reka mann úr félagi.  Ákvæði um brottrekstur lúta að því að menn séu rækir úr félaginu í lengri eða skemmri tíma fyrir það að hafa unnið gegn hagsmunum félagsins, að hafa bakað félaginu tjón eða gert  því eitthvað til vansa, sem ekki er álitið að bætt verði með fé, svo og hver sem ekki hlýðir lögum þess eftir gefna áminningu í félaginu. Þessi ákvæði eiga að sjálfsögðu aðeins við um fullgilda félagsmenn stéttarfélaganna. 


Réttur manna til inngöngu í stéttarfélög er afdráttarlaus og verndaður meðal annars með skýru ákvæði 2. gr. laga nr. 80/1938.  Ef menn fullnægja almennum skilyrðum sem stéttarfélögum er talið heimilt að setja varðar það við lög að meina þeim inngöngu eða tefja hana með einhverjum hætti.   Með sama hætti verður brottvikning úr stéttarfélagi að byggja á traustum grunni og telst lögleysa ef svo er ekki. Hagsmunir einstaklingsins til aðildar að stéttarfélagi eru verulegir. Brottrekstur úr félaginu getur þýtt starfsmissi auk alls konar óhagræðis fyrir þann sem fyrir verður, meðal annars synjun um inngöngu í önnur félög, svo sem kveðið er á um í 7. gr. gildandi laga ASÍ (2006).  Því verður að gera strangar kröfur til þess að brottvikning geti  átt sér stað og að fullkomlega réttmætar ástæður séu til staðar.  
 
Reglur um brottrekstur
Reglur um brottrekstur í félagslögum eru fábrotnar.  Þær lúta að því að maður hafi brotið af sér gagnvart félaginu með þeim hætti að réttlæti að honum sé vikið úr félaginu.  Hér er fyrst og fremst fjallað um alvarleg brot félagsmanns, sem varðar hann brottvísun en ekki skuld félagsgjalda og réttindamissi og útstrikun á félagaskrá þess vegna.  Brottrekstur er aðgerð sem félagið getur gripið til gagnvart félagsmanni í einstökum tilvikum þegar sérstaklega stendur á.

Formreglur
Í samþykktum stéttarfélaga eru almennt ákvæði um að ef félagsmaður er sakaður um brot á lögum félagsins skuli málið tekið fyrir á stjórnarfundi, sem ákveður hvort veita skuli áminningu, beita fésektum eða víkja félagsmanni brott úr félaginu með einföldum atkvæðismeirihluta.  Skjóta má þeim úrskurði til félagsfundar.  

Hafi félagsmanni verið vikið úr félaginu, á hann ekki afturkvæmt í félagið nema inntökubeiðni hans sé samþykkt á lögmætum félagsfundi.  Í lögum einstakra félaga segir að trúnaðarráðsfundur eða ályktunarfær félagsfundur taki ákvörðun um brottvísun og jafnvel að úrskurði félagsfundar verði ekki áfrýjað.  

Auk þess sem að framan greinir er ljóst af dómi Félagsdóms 14/1951 (III:178) að nauðsynlegt er að geta þess í fundarboði ef taka á fyrir brottvikningu manns úr félagi.  Þar hafði félagsfundur tekið ákvörðun um brottrekstur félagsmanns.  Maðurinn höfðaði mál fyrir Félagsdómi og sagði dómurinn  að ekki hafi þess verið getið í fundarboði að lögð myndi verða fyrir fundinn tillaga um að víkja manninum úr félaginu.  Um fjórðungur félagsmanna mætti á fundinn, og þar sem félagsmönnum gafst þannig samkvæmt þessu ekki færi á því að fá vitneskju um það fyrir fundinn að tillaga um brottvikningu úr félaginu myndi koma til álita og atkvæða á fundinum yrði ekki talið að fundurinn hafi getað, svo gilt væri, vikið manninum úr félaginu.  Bæri því þegar af þessari ástæðu að dæma brottvikningu mannsins marklausa og ólögmæta.  Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að brottreksturinn væri brot á 2. gr. laga nr. 80/1938.

Í dómi Félagsdóms 5/1991 (IX:439) er að finna ágreiningsefni svipað þessu.  Málsatvik voru þau að Heilsuhæli Náttúrulækningafélags Íslands hafði auglýst stöðu læknis lausa til umsóknar.  Læknafélag Íslands brást þannig við að það birti í riti sínu aðvörun til félagsmanna um að stjórn félagsins gæti vísað manni úr félaginu ef viðkomandi myndi sækja um eða taka við stöðunni.  Þá hafði formaður félagsins marglýst því yfir í fjölmiðlum að hver sá læknir sem myndi sækja um stöðuna yrði rekinn úr félaginu.   Heilsuhælið höfðaði mál á hendur félaginu fyrir Félagsdómi vegna meints brots þess á 69. gr. stjskr. um atvinnufrelsi og 2. gr. l. nr. 80/1938.  Félagsdómur vísaði málinu frá af sjálfsdáðum á þeim grundvelli að hvorki væri um vinnudeilu að ræða né ágreining um skilning á kjarasamningi.  Vinnuveitandi gæti ekki lagt fyrir dóminn ágreining við stéttarfélag um félagsréttindi innan þess, auk þess sem það væri almennt utan verkahrings dómsins að fjalla um túlkun á stjórnarskrárákvæðum.  Afstaða Félagsdóms hefði væntanlega orðið önnur ef einhver félagsmaður Læknafélagsins hefði höfðað málið gegn félaginu.
 
Efnisreglur
Í samþykktum stéttarfélaga er áhersla fyrir brottvikningu almennt á fjórum atriðum.  Í fyrsta lagi að félagsmaður hafi unnið gegn hagsmunum félagsins.  Sjá hér atvik í Félagsdómum 14/1951 (III:178) og 13/1951 (III:185).  Í öðru lagi að maður hafi bakað félaginu tjón.  Í þriðja lagi að maður hafi gert félaginu eitthvað til vansa, sem ekki er álitið að bætt verði með fé. Í fjórða lagi er maður brottrækur úr  félagi, sem ekki hlýðir lögum félagsins eftir gefna áminningu í félaginu.  Þessi atriði geta einnig farið saman í einstaka máli og verður að vega það og meta hverju sinni hvort efni séu til brottrekstrar félagsmanns.

Heimild til áfrýjunar ákvörðunar um brottrekstur
Almennt er í lögum ákvæði þess efnis að hægt sé að áfrýja ákvörðun um brottrekstur. Hafi stjórn vald til að reka mann, má skjóta þeirri ákvörðun til félagsfundar. Oft eru einnig ákvæði um að úrskurðum félagsfundar um áminningu, fésektir eða brottvísun félagsmanns megi vísa til viðkomandi sérsambands og/eða Alþýðusambands, en úrskurður félagsfundar gildi þar til sambandið ákveður annað.  Hér má einnig benda á 10. gr. gildandi laga ASÍ (2006), sem kveður á um að aðildarsamtökin hafi rétt til að skjóta öllum ágreiningsmálum, sem upp kunna að rísa innan eða milli þeirra til miðstjórnar ASÍ.
   
Sektir eða févíti í stað brottreksturs
Í samþykktum félaga er víða að finna ákvæði um fésektir vegna brota gegn félaginu. Samkvæmt grundvallarreglum í réttarríki fara dómstólar með refsivaldið og refsingu má ekki beita nema hún sé heimiluð í lögum. Dómarar geta því einir lagt sektir á menn samkvæmt skýrum lagaheimildum. Févíti er fjárgreiðsla sem mönnum ber að gjalda láti þeir undir höfuð leggjast að fullnægja tiltekinni skuldbindingu er á þeim hvílir. Févíti verður aðeins beitt samkvæmt samningi þar um, samkvæmt stjórnsýsluákvörðun eða ákvörðun dómara. Því er það ekki alveg augljóst að forsendur fyrir greiðslu fésekta eða févítis vegna brots félagsmanns í félagi séu til staðar nema litið sé svo á að við inngöngu í félag séu menn að gera samning um það meðal annars að gangast undir refsingar.