Vinnuréttarvefur

Gildissvið kjarasamninga

Kjarasamningar lúta að ráðningarsambandi starfsmanna og atvinnurekenda, bæði að því er varðar persónulega þætti og faglega þætti og einnig þarf að skoða landfræðilegt gildi þeirra.

Hér verður fjallað nánar um hverja kjarasamningar binda, til hvaða starfa kjarasamningar ná, landfræðilegt gildissvið þeirra og um forgangsréttarákvæði kjarasamninga. 

Hverja bindur kjarasamningur

Launamenn og atvinnurekendur

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda njóta allir launamenn í viðkomandi starfsgrein á samningssvæðinu þeirra lágmarkskjara sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um. Ekki skiptir máli hvort launamenn eru félagsmenn stéttarfélagsins eða ekki, þeir eiga á grundvelli þessa ákvæðis rétt til lágmarkskjara kjarasamninga.  

Atvinnurekendur eru með sama hætti bundnir af þessu ákvæði og geta ekki með því einu að tilheyra ekki félagi eða sambandi vinnuveitenda, komið sér undan skyldum samkvæmt kjarasamningum. Með þessu ákvæði má segja að kjarasamningar hafi verið gerðir algildir eða hafi með öðrum orðum ergo omnes áhrif. 

Ergo omnes áhrif kjarasamninga hér á landi hefur ekki verið dregið í efa fyrir dómstólum. Í fræðunum hefur því verið haldið fram, að slík ákvæði kunni að vera andstæð 36.gr. EES samningsins sem fjallar um frjáls þjónustuviðskipti. Á þetta reyndi fyrir Hæstarétti Noregs í málinu HR-2013-0496-A frá 5. mars 2013. Í málinu var tekist á um það hvort Noregi væri heimilt að gera tiltekna hluta kjarasamninga ( dvalar, ferðakostnað o.fl. ) algilda í norskum olíuiðnaði. Væri það gert færi það gegn tilskipun um útsenda starfsmenn nr. 96/71 EC og væri andstætt frjálsum þjónustuviðskiptum á EES svæðinu skv. 36.gr. EES samningsins. EFTA dómstóllinn túlkaði tilskipunina mjög þröngt í dómi sínum í málinu nr. E-2/11 og gaf norska dómstólnum það ráðgefandi álit að slík ákvæði væru ólögmæt nema þau væri hægt að réttlæta í þágu almannahagsmuna. Hæstiréttur Noregs tók með vel rökstuddum hætti ekki tillit til hinnar ráðgefandi niðurstöðu EFTA dómstólsins og taldi ekki einsýnt að vega ætti þjónustufrelsið með þeim hætti sem EFTA dómstóllinn gerði eftir fyrirmynd ESB dómstólsins. Af niðurstöðu EFTA dómstólsins má draga þá niðurstöðu að það standist EES samninginn sem slíkan að kjarasamningar hafi ergo omnes áhrif. Af dómi Hæstaréttar Noregs má draga þá ályktun að aðildarríki EES samningsins mega og eiga að taka sjálfstæða og rökstudda afstöðu til ráðgjafar EFTA dómstólsins. Miðað við þá niðurstöðu verður ekki séð að nein helstu ákvæði kjarasamninga um laun og önnur starfskjör standist ekki gagnvart EES réttinum.

Nýir félagsmenn

Þar sem stéttarfélagsaðild er ekki skilyrði fyrir því að njóta lágmarkskjara samkvæmt kjarasamningi, eiga nýir félagsmenn rétt á lágmarkskjörum eins og þeir sem lengur hafa verið í félaginu og með sama hætti og þeir sem ekki hafa gerst aðilar að félaginu.

Víðast erlendis eru takmörk á því að kjarasamningur nái til annarra en félagsmanna viðkomandi stéttarfélags. Stéttarfélagsaðild fylgja þá hugsanlega ýmis kjaraleg forréttindi. Hér á landi hefur stefnan verið sú að aðilar vinnumarkaðarins hafa með samningum sínum tryggt öllum launamönnum rétt með samningum, enda greiða allir iðgjöld til stéttarfélaganna. Kjarasamningar tryggja þannig öllum sama rétt óháð því hvort þeir eru félagar í stéttarfélagi eða ekki.

Verkstjórar

Réttarstaða verkstjóra er eins konar sambland af réttarstöðu atvinnurekanda og launamanns. Sem verkstjóri hefur hann trúnaðarskyldum að gegna gagnvart atvinnurekanda, kemur fram fyrir hans hönd gagnvart starfsmönnum og hefur stöðuumboð til ýmissa ráðstafana. Á móti eru skyldur hans gagnvart atvinnurekanda að ýmsu leyti meiri en annarra starfsmanna. Kemur þetta einkum fram í vinnudeilum, þar sem hömlur eru á að verkstjórar geri verkfall.

Verkstjórar hér á landi hafa sín eigin stéttarfélög. Verkstjórasamband Íslands fer með samningsrétt einstakra verkstjórafélaga. Í þeim samningum er að finna öll almenn ákvæði sem er að finna í öðrum samningum. Auk þess er þar að finna ákvæði um að verkstjóra beri að skoða sem sérstakan trúnaðarmann viðkomandi vinnuveitanda gagnvart starfsmönnum hans, sem verkstjórar stjórna fyrir hönd vinnuveitanda.  

Á verkstjóra hvílir alger þagnarskylda um öll málefni vinnuveitanda síns, sem hann fær vitneskju um vegna verkstjórastöðu sinnar og vinnuveitendur skuldbinda sig til að standa við hlið verkstjóra þeim til verndar í sambandi við verkstjórastöðu þeirra til að forða því að verkstjórar verði fyrir óþægindum eða skaða sakir þess að þeir framkvæma skylduverk sín þannig að í samræmi sé við stöðu þeirra sem trúnaðarmenn vinnuveitenda sinna. 

Í kjarasamningum þeirra er einnig að finna ákvæði um að eigi skuli verkföll eða verkbönn ein út af fyrir sig skerða rétt verkstjóra til þess að fá kaup hjá vinnuveitanda, enda er honum eftir sem áður skylt að gæta þess verðmætis, sem honum er trúað fyrir og hefur umsjón með og verja það skemmdum. Verkstjórar túlka þetta ákvæði svo að það taki til verkfalla verkafólks á vinnustað, en skerði ekki verkfallsrétt þeirra sjálfra samkvæmt lögum og kjarasamningum. Á þetta atriði hefur þó ekki reynt fyrir dómi.

Í kjarasamningi milli Reykjavíkurborgar og Verkstjórasambands Íslands vegna Verkstjórafélags Reykjavíkur, grein 13.1, segir að enginn einstakur félagi né deildarfélagi í verkstjórasamtökunum sem er í fastri verkstjórastöðu, megi vera meðlimur í verkalýðsfélagi né á nokkurn hátt samningsbundinn við verkalýðsfélag. Sama gildir um Verkstjórasambandið sem heild og einstakar deildir þess. Sams konar ákvæði er í kjarasamningi Verkstjórasambandsins og Samtaka atvinnulífsins. Sjá nánar.

Meðeigendur

Kjarasamningar eru samningar gerðir milli stéttarfélags og atvinnurekenda, og er ætlað að tryggja lágmarkskjör launafólks, ekki einungis félagsmanna viðkomandi stéttarfélags, heldur allra þeirra sem vinna störf á því starfssviði sem stéttarfélagið nær til.

Oftast er það alveg skýrt hverjir hafa réttarstöðu launamanna innan fyrirtækis og hverjir hafa réttarstöðu atvinnurekenda. Þó geta orðið um það deilur, hvort starfsmönnum, sem jafnframt eru hluthafar í fyrirtæki, beri að láta af störfum í vinnudeilu, þar sem þeirra kjör séu tryggð með þeim kjarasamningi sem verið er að deila um.  

Sú regla gildir um vinnudeilu að bann við vinnu nær ekki einungis til félagsmanna þess félags sem á í deilunni, heldur einnig til þeirra launamanna, sem byggja kjör sín á þeim kjarasamningi sem um er deilt. Ljóst má vera að starfsmaður í stóru fyrirtæki sem jafnframt er almenningshlutafélag hefur ekki réttarstöðu atvinnurekanda, jafnvel þótt hann eigi hlutabréf í félaginu. Einnig má ljóst vera að í fyrirtæki sem rekið er sem hlutafélag að aðaleigandi fyrirtækis sem þar starfar í stjórnunarstarfi myndi hafa réttarstöðu atvinnurekanda.

Hvar eru þá mörkin hér á milli? Rekstrarform fyrirtækis skiptir hér máli. Í fyrirtæki, sem rekið er sem einkafyrirtæki eða sameignarfélag og eigendur eru starfandi hjá því hefðu þeir almennt séð réttarstöðu atvinnurekenda. Öðru máli gegnir um hlutafélög. Hlutafjáreign starfsmanns ein og sér veitir ekki hluthafanum stöðu vinnuveitanda.

Í Félagsdómi 6/1973 (VII:112) setti dómurinn fram það sjónarmið að þótt starfsmaður sé hluthafi í fyrirtæki væri það ekki á nokkurn hátt því til hindrunar að hann hefði full félagsréttindi í stéttarfélagi. Ekki var upplýst hversu stóran hlut maðurinn átti í félaginu, en hann vann þar almenn iðnaðarmannastörf.

Í Félagsdómi 4/1987 (IX:182) var um það deilt hvort starfsmenn verkfræðistofu ættu að leggja niður störf í verkfalli. Starfsmennirnir voru allir hluthafar stofunnar og sumir félagsmenn í því félagi sem tengdist kjarasamningsgerðinni atvinnurekendamegin, en voru ekki félagsmenn stéttarfélagsins sem boðað hafði verkfall. Stéttarfélagið lagði á það ríka áherslu að mennirnir hefðu réttarstöðu launamanna, og kjör þeirra byggðust á þeim kjarasamningi sem um var deilt, þótt þeir ættu jafnframt hlut í stofunni. Í niðurstöðu dómsins sagði meðal annars að verkfall stéttarfélagsins beindist að viðsemjanda þess, fulltrúaráði Félags ráðgjafarverkfræðinga. Eins og aðild félagsmanna í Félagi ráðgjafarverkfræðinga að fulltrúaráði félagsins væri háttað, yrði að telja óeðlilegt að gera félagsmönnum þess félags skylt að taka þátt í verkfalli Stéttarfélags verkfræðinga. Hins vegar yrði ekki fallist á að allir hluthafar stofunnar ynnu verkfræðistörf í löglega boðuðu verkfalli stéttarfélagsins, þar sem hlutafjáreign ein og sér yrði ekki talin veita hluthafanum stöðu vinnuveitanda.

 

Úrsögn úr stéttarfélagi

Í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur segir að meðlimur stéttarfélags hætti að vera bundinn af samþykktum félags síns og sambands þess, þegar hann samkvæmt reglum félagsins er farinn úr því, en samningar þeir, sem hann hefur orðið bundinn af, á meðan hann var félagsmaður, eru skuldbindandi fyrir hann, meðan hann vinnur þau störf, sem samningurinn er um, þar til þeir fyrst gætu fallið úr gildi samkvæmt uppsögn.  

Samkvæmt þessu ákvæði hefur úrsögn úr stéttarfélagi engin áhrif á það hvort ákvæði kjarasamnings gilda um kjör starfsmanns. Hann er bundinn af samningnum meðan hann vinnur þau störf, sem samningurinn er um. Þannig er það starfssviðið sem hér skiptir máli. Þetta er einnig staðfest enn frekar í reglu 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, þar sem kveðið er á um að kjarasamningar skuli vera lágmarkskjör fyrir alla í starfsgreininni.

Þess má geta að í samþykktum einstakra stéttarfélaga eru lagðar hömlur á það að menn geti gengið úr félaginu þegar kjaradeilur standa yfir. Ákvæðið er á þá leið að enginn getur sagt sig úr félagi eftir að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hefur verið auglýst, eða ákvörðun um vinnustöðvun verið tekin af félaginu eða trúnaðarmannaráði og þar til vinnustöðvuninni hefur verið formlega aflýst. Einnig er óheimilt að segja sig úr félaginu til þess að taka upp störf félagsmanna í öðru félagi, er lagt hefur niður vinnu vegna deilu.

Sjá hér Félagsdóm 2/2004, Starfsmannafélag ríkisstofnana gegn Íslenska ríkinu og Eflingu-stéttarfélagi. 

 

Aðilaskipti að fyrirtækjum

Svokölluð aðilaskipti að fyrirtækjum eða hluta þeirra hafa ein og sér engin áhrif á gildissvið kjarasamninga starfsmanna fyrirtækjanna. 

Með lögum nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum er kveðið á um það í 2. mgr. 3. gr. að frá og með þeim degi, sem aðilaskipti verði skuli nýr eigandi takast á hendur réttindi og skyldur fyrri eigenda samkvæmt ráðningarsamningi. Hann skuli virða þau launakjör og starfsskilyrði sem samþykkt hafa verið í almennum kjarasamningi með sömu skilmálum og giltu fyrir fyrri eiganda þar til samningi verður sagt upp eða hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda. Lögin ná til aðilaskipta eða samruna fyrirtækja, atvinnurekstrar eða hluta atvinnurekstrar. Þau gilda þó ekki eftir að bú fyrirtækis er tekið til gjaldþrotaskipta.

Lögin tryggja ekki aðeins réttarstöðu starfsmanna, heldur er einnig sérstaklega kveðið á um réttarstöðu trúnaðarmanna. Þegar aðilaskipti verða skal trúnaðarmaður halda réttarstöðu sinni og starfi samkvæmt lögum og samningum að svo miklu leyti sem atvinnureksturinn heldur sjálfstæði sínu. Ef trúnaðarmaður missir umboð sitt vegna aðilaskiptanna skal hann eftir sem áður njóta þeirrar verndar sem lög eða samningar kveða á um.

Starfsgreinar

Gildissvið kjarasamnings fer eftir þeirri starfsgrein sem samningurinn tekur til en ekki aðild einstaklings að stéttarfélagi. Er þessi regla byggð á 1. gr. laga 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Hvaða störf falla þá undir viðkomandi kjarasamning?

 Byggist á samningnum sjálfum

Samningurinn sjálfur kann að geyma ákvæði um það til hvaða starfa hann nær. Þannig segir í kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna að samningurinn gildi fyrir öll skip sem gerð eru út til eftirgreindra veiða (sem svo eru talin upp í samningnum) og tekur til allra slíkra skipa, sem útgerðarmenn er að samningnum standa, eiga, leigja eða hafa að öðru leyti útgerðarstjórn á.   

Í kjarasamningi Félags bókagerðarmanna og SA er gildissviðið hvers konar framleiðslu í prentsmiðjum, prentþjónustum og bókbandsstofum, sem unnin er af fullgildum sveinum í bókbandi, prentsmíð og prentun, eða af ófaglærðu starfsfólki samkvæmt nánari ákvæðum samningsins. Þá segir í yfirlýsingu sem fylgir samningnum að samningsaðilar séu sammála um, að útlitsteikning dagblaða skuli vera sameiginlegt starfssvið setjara og blaðamanna og að starfskjör þeirra, sem við útlitsteiknun vinna, séu þau sömu.

Víða er þó ekkert minnst á gildissvið kjarasamnings í samningnum sjálfum, heldur er hann gerður milli tiltekins stéttarfélags og atvinnurekanda, og í samþykktum félagsins er síðan kveðið á um það hverjir hafi rétt á að vera í félaginu. Þannig eru það lög stéttarfélagsins sem gilda um það til hvaða starfa kjarasamningur nær. Í lögum Eflingar-stéttarfélags, 2. gr., eru talin upp þau störf sem falla undir gildissvið félagsins. Kjarasamningar sem félagið gerir ná síðan til þessara starfa.

Hefðin rík hér á landi

Gildissvið kjarasamninga kann auk kjarasamninga og ákvæða í samþykktum félaga að byggjast á hefð. Hefðin getur síðan verið mismunandi milli einstakra staða, til dæmis hefur Verslunarmannafélag Akureyrar og nágrennis haft bensínafgreiðslumenn innan sinna vébanda þegar Efling (áður Dagsbrún í Reykjavík) hefur verið félag bensínafgreiðslumanna í höfuðborginni.

Oft samkomulag milli félaga um grátt svæði

Sums staðar hefur orðið samkomulag milli stéttarfélaga um það hvaða félag semji við einstök fyrirtæki.  

Þannig má finna dæmi um starfsmenn sem gegna sambærilegum störfum í matvælaiðnaði í fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu í Eflingu og Verslunarmannafélagi Reykjavíkur. Kjarasamningar allra félaganna geta náð til þeirra starfa sem um ræðir. Það hvernig stéttarfélagsaðildin er byggist þá á hefð, sem staðið hefur mislengi. Um þetta er almennt gott samkomulag milli félaganna.

Þó hefur það gerst á undanförnum árum að þegar ný atvinnugrein verður til, deila félögin innbyrðis um það til hvaða stéttarfélags störfin skuli heyra, ýmist þannig að þau vilja fleiri en eitt helga sér hin nýju störf eða að þau vilja ekki sinna þeim. Dæmi um hið fyrrnefnda eru starfsmenn öryggisgæslufyrirtækja, dæmi um hið síðarnefnda eru starfsmenn sólbaðsstofa og heilsuræktarstöðva.

Mörkin geta einnig verið á reiki milli starfsmannafélaga einstakra sveitarfélaga og viðkomandi verkalýðsfélaga. Ófaglærðir starfsmenn leikskóla eru til dæmis sums staðar bæjarstarfsmenn og eiga þá aðild að starfsmannafélagi bæjarins en annars staðar eru þeir í verkalýðsfélaginu á staðnum.

Samningur nær til ófélagsbundinna jafnt sem félagsbundinna sem vinna tiltekin störf

Gildissvið kjarasamnings er eins og áður er komið fram óháð félagsaðild. Það byggist fyrst og fremst á kjarasamningnum, sem síðan á sér stoð í lögum eða samþykktum stéttarfélagsins sem hann gerir. Réttur manns til að vinna eftir tilteknum kjarasamningi er ekki bundinn félagsaðildinni. Leiðir þetta af reglunni í 1. gr. starfskjaralaganna nr. 55/1980. Hins vegar fylgja ýmis réttindi félagsaðildinni, eins og atkvæðisréttur í innri málefnum félagsins og kjörgengi til trúnaðarstarfa á vegum þess.

Faglærðir og ófaglærðir

Það fer eftir kjarasamningnum sjálfum hvert gildissvið hans er. Það hvort hann nái bæði til faglærðra og ófaglærðra, ræðst af því hvaða stéttarfélög gera samninginn. Sum stéttarfélög semja eingöngu fyrir faglærða, eins og reyndin er um flest iðnaðarmannafélögin, en önnur iðnaðarmannafélög semja einnig um kjör ófaglærðra, svo sem Félag bókagerðarmanna. Enn önnur félög greina ekki á milli menntunar fólks, og semja fyrir hópinn allan án slíkrar aðgreiningar. Í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur er þannig bæði að finna fólk, sem hefur enga menntun og einnig fólk, sem hefur langskólanám að baki.

Skipulag verkalýðshreyfingarinnar hefur verið með þeim hætti hér á landi að starfsgreinafélög þekkjast vart með þeim hætti sem algengast er í nágrannalöndunum. Hjá einu meðalstóru fyrirtæki hér á landi eru skrifstofumenn í sérstöku félagi, trésmiðir í öðru félagi, rafvirkjar í því þriðja, verkstjórar eru sér, sömuleiðis verkakarlar svo og verkakonur. Víðast hvar erlendis væru allir þessir aðilar í einu stéttarfélagi.

Gildissvið kjarasamnings iðnaðarmannafélags getur byggst á reglugerð um iðnfræðslu og þeim skilgreiningum sem liggja að baki því hvað tilheyrir iðngreininni.

Iðnnemar

Um iðnnema gilda að ýmsu leyti sérsjónarmið. Þeir eru samtímis bæði í skóla og starfi. Um þá gilda sérstök lög og reglur, sem eiga að tryggja réttarstöðu þeirra á meðan á þessu stendur. Kjaralega séð hafa iðnnemar notið hliðstæðra réttinda og sveinar í greininni.

Landfræðilegt gildissvið

Þegar fjallað er um gildissvið kjarasamnings þarf að huga að landfræðilegu gildi hans. Nær kjarasamningurinn um allt landið, eða tekur hann einungis til tiltekins landshluta eða jafnvel einstaks vinnustaðar? Landfræðilegt gildissvið kjarasamnings byggist yfirleitt á starfssvæði þess stéttarfélags, sem hann gerir. Í lögum félaganna er kveðið á um félagssvæði þeirra. Landinu er þannig skipt upp milli einstakra stéttarfélaga, sem semja hvert um sig. Samkvæmt niðurlagsákvæði 2. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur má félagssvæði aldrei vera minna en eitt sveitarfélag.

Við sameiningu sveitarfélaga hefur sú spurning vaknað hvort hún leiði jafnframt til sameiningar stéttarfélaga. Sameining sveitarfélaga leiðir ekki sjálfkrafa til sameiningar stéttarfélaga, en stéttarfélögin þurfa þó að minnsta kosti að breyta samþykktum sínum hvað félagssvæði varðar og deila eftir það félagssvæðinu og forgangsrétti til starfa. 

Landið allt

Nokkur félög eru landsfélög. Með öðrum orðum er félagssvæði þeirra landið allt. Dæmi um slík félög eru flest félög háskólafólks, Mjólkurfræðingafélag Íslands, Félag bókagerðarmanna, Flugfreyjufélag Íslands og Félag leiðsögumanna. Þeir kjarasamningar sem þessi félög gera ná þá til þessara starfa, hvar á landinu sem störfin eru unnin.

Ákveðnir landshlutar og sveitarfélög

Félagssvæði flestra stéttarfélaga miðast við afmörkuð landssvæði og eitt eða fleiri heil sveitarfélög. Félagssvæði kunna þannig að vera tilgreind sem kaupstaðir, tilteknir hreppar, öll sveitarfélög tiltekinnar sýslu og svo framvegis. Áður þekktist að félagssvæði næðu auk kaupstaðarins að tilteknum kennileitum, sem ekki greindu að hreppa en svo er ekki lengur og félagssvæði stéttarfélaga því ætíð skipulögð m.v. heil sveitarfélög. Þeir kjarasamningar sem stéttarfélögin gera ná til starfa sem unnin eru á félagssvæðinu. Landinu er þannig skipt upp á milli aðildarfélaga í ASÍ. Þar sem einu félagi sleppir tekur félagssvæði hins næsta við.  

Samkvæmt lögum ASÍ er óheimilt að binda rétt til inngöngu í stéttarfélag við búsetu en slíkt tíðkaðist fram eftir 20 öldinni. Starfi maður á félagssvæði annars félags fer um kjör hans eftir þeim kjarasamningi sem gildir á svæðinu þar sem hann starfar. Iðgjöldum er skilað til þess félags sem gerir þann kjarasamning sem hann starfar eftir.  

Í 15.gr. laga ASÍ segir að þar sem samningssvið tveggja eða fleiri aðildarfélaga skarast, er þeim skylt að gera með sér samkomulag um samningssviðið. Náist ekki samkomulag er aðildarfélagi heimilt að leggja ágreininginn fyrir miðstjórn, sbr. 10. gr. Allar breytingar á lögum einstakra félaga þurfa staðfestingu miðstjórnar ASÍ áður en þær taka gildi. Ákvæði um starfssvæði félaganna eru þá sérstaklega athuguð svo ekki komi til árekstra milli félaga.
 

Einstakur vinnustaður

Kjarasamningar eru einnig gerðir um tiltekna vinnustaði. Eru það sérkjarasamningar, sem þau stéttarfélög sem eiga félagsmenn sem starfa á vinnustaðnum, gera við viðsemjendur. Ýmist eru slíkir sérsamningar algerlega sjálfstæðir, svo sem dæmi eru um hjá Íslenska Álfélaginu eða að þeir kveða aðeins á um tiltekin afmörkuð atriði og um aðra þætti er síðan vísað í almennu samningana sem gilda á svæðinu.

Útlendingar

Samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002 skulu þeir útlendingar sem hér hafa gilt atvinnuleyfi hafa gert ráðningarsamning sem tryggi þeim laun og önnur starfskjör til jafns við heimamenn.

Þegar Ísland gerðist aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið 1. janúar 1994 tóku gildi lög um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, lög nr. 47/1993. Með lögunum er reglugerð nr. 1612/68 um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins fengið lagagildi hér á landi. Samkvæmt reglugerðinni skal sérhver ríkisborgari EES ríkis, óháð búsetu, hafa rétt til að ráða sig til vinnu sem launþegi og rækja það starf á yfirráðasvæði annars EES ríkis í samræmi við þau ákvæði í lögum eða stjórnsýslufyrirmælum er taka til atvinnumála ríkisborgara aðildarríkisins. Hann skal meðal annars njóta þeirra réttinda að ráða sig til vinnu á yfirráðasvæði annars EES ríkis með sama forgangsrétti og ríkisborgarar þess ríkis.

Samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar er ekki heimilt að láta launþega, sem er ríkisborgari annars EES ríkis en þess sem hann starfar í, gjalda þjóðernis síns hvað viðvíkur ráðningar- og vinnuskilyrðum, einkum og sér í lagi hvað varðar launakjör, uppsögn úr starfi og, komi til atvinnumissis, endurskipun eða endurráðningu. Hann skal njóta sömu félagslegra réttinda og skattaívilnana og innlendir launþegar. Hann skal einnig í krafti sama réttar og með sömu skilyrðum hafa sama aðgang og innlendir launþegar að þjálfun í skólum er tengjast atvinnulífinu og endurmenntunarstöðvum. Öll ákvæði í kjarasamningum eða ráðningarsamningum eða öðrum almennum reglugerðum sem varða aðgang að atvinnu og öll önnur starfsskilyrði eða uppsagnarákvæði eru ógild og að engu hafandi að svo miklu leyti sem þau mæla fyrir um eða heimila mismunun launþega sem eru ríkisborgarar annarra EES ríkja.

Lögin kveða með öðrum orðum á um það að kjarasamningar hér á landi tryggi íbúum EES ríkja sem hér starfa lágmarkskjör. Sérstök þríhliða nefnd skipuð fulltrúum aðila vinnumarkaðarins og félagsmálaráðuneytisins hefur eftirlit með framkvæmd laganna um frjálsan atvinnu- og búseturétt og getur nefndin beint tilmælum til viðkomandi aðila þar að lútandi. Nefndinni er heimilt undir ákveðnum kringumstæðum að fara með ágreiningsefni fyrir dómstóla.