Hlutverk

Félagsdómi er ætlað skýrt og afmarkað verkefni innan dómskerfisins. Hlutverk hans er að dæma í réttarágreiningi aðila vinnumarkaðarins og eru dómar hans endanlegir og óáfrýjanlegir hvað varðar efnisniðurstöðu máls sbr. Hrd. nr. 265/2003 ogHrd. nr. 266/2003. Í báðum Hæstaréttardómunum segir orðrétt: "Með því að dómar Félagsdóms eru endanlegir og verður ekki áfrýjað var áðurgreind niðurstaða Félagsdóms lögð til grundvallar dómsúrlausn."

Samkvæmt 44. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur er verkefni Félagsdóms að fjalla um: 

1. mál sem rísa út af kærum um brot á lögum nr. 80/1938 og tjóni sem orðið hefur vegna ólögmætra vinnustöðvana,   
2. mál sem rísa út af kærum um brot á vinnusamningi eða út af ágreiningi um skilning á vinnusamningi eða gildi hans, 
3. önnur mál milli verkamanna og atvinnurekenda, sem aðilar hafa samið um að leggja fyrir dóminn, enda séu að minnsta  kosti þrír af dómendum því meðfylgjandi.

Mál sem höfða má fyrir Félagsdómi skal ekki flytja fyrir almennum dómstólum nema Félagsdómur hafi neitað að taka það til meðferðar samkvæmt 47. gr. laga nr. 80/1938.

Samkvæmt þessu ber hinum almennu dómstólum að vísa öllum málum frá, sem eiga undir Félagsdóm. Þetta kann að virðast afdráttarlaust, en er þó ekki eins afdráttarlaust og það virðist við fyrstu sýn. Form máls getur ráðið úrslitum um það hvort mál verður dæmt af Félagsdómi eða almennum dómstólum. Ef mál er höfðað til viðurkenningar á ákveðnum skilningi kjarasamnings á það undir Félagsdóm, en sé dómkrafan aftur á móti tiltekin fjárhæð vegna vangoldinna launa á málið undir almenna dómstóla.

Þeir sem undirbúa mál til flutnings hafa það því oft í hendi sér hvort mál er flutt fyrir Félagsdómi eða almennum dómstólum. Sjá hér til skýringar Hrd. 1969:916 en í dóminum voru málsatvik þau að sóknaraðili sótti mál í héraði vegna kaupkröfu, sem reist var á kjarasamningi ýmissa stéttarfélaga yfirmanna á fiskiskipum og Landssambands íslenskra útvegsmanna. Þessari kröfu var vísað frá héraðsdómi, þar sem talið var að um slíkt grundvallarágreiningsefni væri að ræða varðandi gerð kjarasamninga að úrlausn þess ætti undir Félagsdóm. Hæstiréttur komst að annarri niðurstöðu og sagði að almennum dómstólum væri rétt að meta öll atriði er kaupkröfuna varðaði og skýra að því leyti ákvæði greindra samninga.

Segja má að öll mál sem varða ráðningarsamninga starfsmanna og atvinnurekendur þeirra geti átt undir almenna dómstóla, séu þeir sjálfir aðilar máls, en ekki stéttarfélögin. Sjá hér t.d. Hrd. nr. 270/1999.

Brot álögum 80/1938

Fyrsti töluliður 44. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 nær til brota á sjálfum lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur. Samkvæmt honum er Félagsdómi ætlað að dæma um tjón, sem orðið hefur vegna ólögmætra vinnustöðvana.

Vinnustöðvun

Í Félagsdómi 27/1939 (I:35) kom til skýringar á því hvort dóminum bæri eingöngu að dæma brot vegna ólögmætra vinnustöðvana eða hvort ákvæðið tæki einnig til annarra brota á lögunum. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að greinin tæki til allra brota á lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur hvort sem þau stafa af ólögmætum vinnustöðvunum eða öðru.

Í Félagsdómi 7/1949 (III:103) var deilt um það hvað fælist í orðunum ólögmætar vinnustöðvanir, hvort hér væri einnig átt við vinnustöðvanir, sem væru formlega og efnislega lögmætar en framkvæmd þeirra ólögmæt. Málavextir voru þeir að vinnustöðvun varð með þeim hætti að formaður verkalýðsfélags, sem átti í verkfalli kom því til leiðar með hótunum eða valdbeitingu að menn úr öðru verkalýðsfélagi lögðu niður vinnu, án þess að það félag ætti í verkföllum. Þessi stöðvun vinnu var af Félagsdómi ekki talin falla undir ákvæði 1. mgr. 44. gr., en telja yrði að þar sé átt við verkföll og verkbönn samkvæmt II. kafla laganna. Málinu var af þessum sökum vísað frá dómi. Málsatvik voru svipuð í Félagsdómi 19/1949 (III:118). Þótt vinnustöðvun væri lögmæt var framkvæmd hennar ólögmæt.

Þau mál sem Félagsdómur hefur dæmt með stoð í 1. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 eru langflest vegna brota á II. kafla laganna, sem fjallar um verkföll og verkbönn, um lögmæti vinnustöðvana, hvort rétt hafi verið til þeirra boðað, bæði formlega og eins hvort efnislegar forsendur hafi verið fyrir hendi, og að lokum hvort þeir sem vinnustöðvun beinist gegn hafi reynt að afstýra henni með aðstoð einstakra meðlima þeirra félaga eða sambanda sem að vinnustöðvun stóðu, samanber 18. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur. Sjá einnig Hrd. nr. 48/2000.

Aðild að stéttarfélögum

Annar stærsti hópur mála samkvæmt 1. tl. 44. gr. eru mál vegna brota á 2. gr. laga nr. 80/1938 um að stéttarfélög skuli vera opin öllum í hlutaðeigandi starfsgrein á félagssvæðinu, eftir nánar ákveðnum reglum í samþykktum félaganna. Eru mál þessi annað hvort þess eðlis að einstaklingum er neitað um inngöngu í stéttarfélag eða einstaklingar hafa kært til Félagsdóms brottrekstur úr stéttarfélagi. Mál hafa komið fyrir Félagsdóm þar sem deilt var um rétt stéttarfélags til inngöngu í stéttarsamband og var þeim heimiluð innganga í sambandið með dómi Félagsdóms.

Í Félagsdómi 4/1961 (V:88) voru málsatvik aftur á móti þau að Landssamband íslenskra verslunarmanna sótti um inngöngu í ASÍ. Ekki var talið komið fram að LÍV hefði þá starfslegu hagsmuni af inngöngu í ASÍ sem fyrirmæli 2. gr. laga nr. 80/1938gerðu ráð fyrir. Var málinu því vísað frá, þar sem 44. gr. heimilaði ekki að málið færi fyrir Félagsdóm.

Uppsögn trúnaðarmanns

Í nokkrum málum hefur verið fjallað um 11. gr. laga nr. 80/1938 um uppsögn trúnaðarmanns á vinnustað.

Atvinnukúgun

Önnur mál sem komið hafa til kasta Félagsdóms með stoð í 1. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 hafa til dæmis verið vegna 4. gr. laganna, þar sem atvinnurekendum, verkstjórum og öðrum trúnaðarmönnum þeirra skuli óheimilt að reyna að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir verkamanna sinna, afstöðu þeirra og afskipti af stéttar- eða stjórnmálafélögum, vegna túlkunar á eðli félags, hvort það geti talist stéttarfélag í merkingu 1. gr. laganna og um lögmæti samninga einstakra verkamanna við atvinnurekendur á grundvelli 7. gr. laganna.

Brot á kjarasamningi

 

Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 44. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 er Félagsdómi ætlað að dæma í málum sem rísa út af kærum um brot á vinnusamningi eða út af ágreiningi um skilning á vinnusamningi eða gildi hans. Langflest þeirra mála sem eiga undir þennan tölulið fjalla um túlkunaratriði kjarasamninga, skilning og gildi þeirra.

Kjarasamningar verða að uppfylla ákveðin formskilyrði. Annars er ekki um kjarasamninga að ræða og deilur vegna þeirra eiga ekki undir valdsvið Félagsdóms. Ágreiningur um það hvort slíkur samningur sé kjarasamningur eða ekki á undir dómsvald hans.

Í Félagsdómum 10/1949 (III:49) og 4/1954 (IV:68) voru stefndu sýknaðir af kröfum stefnenda um að í gildi væri kjarasamningur milli þessara aðila, þar sem samningurinn uppfyllti ekki skilyrði 6. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur. 

Í Félagsdómi 3/1941 (I:155) krafði verkamannafélagið Drífandi bæjarstjóra Vestmannaeyja um vinnulaun, tiltekna fjárhæð til handa eins félagsmanna sinna. Krafan var byggð á því að í gildi væri kjarasamningur milli þessara aðila. Félagsdómur átti dómssögu í málinu að því leyti hvort kjarasamningur væri í gildi milli aðilanna en fjárkröfunni var vísað frá.  

Af Hrd. 1969:916 má ráða að almennum dómstólum sé kleyft að skýra ákvæði kjarasamninga og þar með fara inn á valdsvið Félagsdóms ef það telst nauðsynlegt þegar dómur er lagður á kaupkröfu. Varðandi þessa tegund mála er því óljóst hvar mörk Félagsdóms og hinna almennu dómstóla liggja.  

Í Hrd. 1975:96 og Hrd. 1975:104 var deilt um launakröfur og kom til túlkunar á kjarasamningi. Málin voru flutt fyrir hinum almennu dómstólum af einstaklingum og krafa gerð til ákveðinna vinnulauna á grundvelli kjarasamninga. Deiluefni var því sambærilegt við Hrd. 1969:916. Málin voru dæmd í héraðsdómi og áfrýjað til Hæstaréttar, sem lagði einnig dóm á þau, en í niðurlagi dóms Hæstaréttar er gerð sú athugasemd að eðlilegast hefði verið að reka mál um sakarefnið fyrir Félagsdómi. Málunum var þó ekki vísað frá dómi af þessum sökum þrátt fyrir regluna um slíkt þegar sakarefni á undir sérdómstóla.

Ef deiluefni byggist ekki alfarið á ákvæðum kjarasamnings, þótt krafist sé viðurkenningardóms vísar Félagsdómur málum frá dómi. Í Félagsdómi 4/1951 (III:136) var deilt um það hverjar væru starfsskyldur stýrimanna. Sagði Félagsdómur að starfsskyldur þeirra færu fyrst og fremst eftir landslögum og ráðningarsamningi hvers og eins en ekki nema að litlu leyti eftir kjarasamningi og bæri því að vísa málinu frá dómi. Þó mátti ráða af dóminum að sakarefnið hefði getað átt undir dóminn samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938.

Í Félagsdómi 6/1992 (IX:521) var deilt um uppsögn á dagvinnuskyldu, en um langt árabil hafði gilt sú venja að dagvinnuskyldu sjúkraliða á Borgarspítala væri uppfyllt með því að skila 37,5 dagvinnustundum á viku. Félagsdómur vísaði málinu frá þar sem krafan væri ekki byggð á ákvæði í kjarasamningi heldur venju. Þessi frávísun var staðfest í Hæstarétti með þeim orðum að þegar af þeirri ástæðu að í málinu væri ekki deilt um skilning á skriflegum samningsákvæðum yrði að telja að ekki sé um ágreining um kjarasamning að ræða í skilningi laganna um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Samkvæmt þessari niðurstöðu hefur Félagsdómur þrengt túlkun sína á því hvað telst vera kjarasamningur. Hafi skapast venja um framkvæmd samnings eiga deilur vegna hennar ekki undir dóminn.

Nokkrum sinnum hefur mál verið höfðað fyrir Félagsdómi með heimild í 2. tl. 1. mgr. 44. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur vegna þess að talið hefur verið að forgangsréttarákvæði kjarasamnings hafi verið brotin. 

Aðilar æskja dóms

 

Samkvæmt 3. tl. 44. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 er það einnig verkefni Félagsdóms að dæma í öðrum málum milli verkamanna og atvinnurekenda, sem aðilar hafa samið um að leggja fyrir dóminn, enda séu að minnsta kosti þrír af dómendunum því meðmæltir. Í lögunum segir ekkert frekar um það, í hvaða tilvikum slíkur málflutningur skuli leyfður fyrir Félagsdómi, og ekki er hægt að sjá það af dómum Félagsdóms hvenær þessi grein gæti átt við nema að litlu leyti. Í þau fáu skipti sem aðilar máls hafa verið samþykkir því að ber mál undir Félagsdóm þótt það ætti ekki undir hann samkvæmt 1. og 2. tl. 1. mgr. 44. gr. hefur málinu verið vísað frá.  

Í Félagsdómi 2/1943 (II:5) var máli vísað frá þar sem gögn þótti skorta og í Félagsdómi 1/1959 (IV:193) voru dómendur á einu máli um að ekki hafi verið ástæða til að beita 3. tl. 1. mgr. 44. gr. og var frávísun dæmt. Í Félagsdómi 4/1951 (III:136) var dæmt að mál ætti ekki undir Félagsdóm samkvæmt 1. og 2. tl. 1. mgr. 44. gr. og jafnframt tekið fram að þar sem stefndu hefðu mótmælt því að málið væri lagt fyrir dóminn væru skilyrði 3. tl. nefndrar greinar þegar af þeirri ástæðu ekki fyrir hendi. Bæri því að vísa málinu frá. Af orðalaginu mætti ætla að dómendur Félagsdóms hefðu álitið í þessu máli að til greina hefði komið að nota 3. töluliðinn ef aðilar hefði verið því sammála. Í málinu var deilt um starfsskyldur stýrimanna, og taldi dómurinn að þar sem þær færu fyrst og fremst eftir landslögum og ráðningarsamningi hvers manns, ætti málið ekki undir Félagsdóm.

Um það hvenær mál geti mögulega átt undir dómssögu Félagsdóms með stoð í 3. tl. 44. gr. er ekki miklar upplýsingar að fá í dómum aðrar en að framan greinir en með hliðsjón af þeim og þegar litið er á tilgang Félagsdóms hlýtur að mega gera ráð fyrir að leyfi fengist til málflutnings á grundvelli ákvæðisins ef úrlausn máls hefði mikla þýðingu fyrir aðila vinnumarkaðarins og málið þannig vaxið að sérþekkingu á vinnumarkaðsmálum þyrfti til.

Mörk iðnaðar

 

Með lögum nr. 70/1954 um breytingu á 44. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 fékk Félagsdómur aukin verkefni, en í 2. gr. laganna var stéttarfélögum, félögum meistara og iðnrekenda og einstökum atvinnurekendum heimilað að leita úrskurðar Félagsdóms um það hvort starfsemi félli undir I. og II. kafla laga um iðju og iðnað, svo og um það til hvaða löggiltrar iðngreinar hún taki. Með iðnaðarlögum nr. 42/1978 voru lögin um iðju og iðnað afnumin. Ákvæðunum í lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur hefur þó ekki verið breytt. Gera verður ráð fyrir að Félagsdómur geti þrátt fyrir þessa breytingu dæmt um mörk iðju og iðnaðar. Ekkert er minnst á lögsögu Félagsdóms í lögunum.

Tveir dómar Félagsdóms hafa sérstaklega fjallað um þetta. Í Félagsdómi 1/1957 (IV:188) var deilt um það hvort starfræksla klichégrafvélar gæti talist iðnaður og taldi Félagsdómur svo ekki vera. Í Félagsdómi 6/1968 (VI:128) var deilt um mörk milli starfs faglærðra iðnaðarmanna og ófaglærðra og mörk milli starfsgreina fagmanna.

Í Hrd. 1968:1155 var deilt um það hvort ákveðið starf teldist iðnaður í skilningi laga um iðju og iðnað. Var málið flutt í bæjarþingi Hafnarfjarðar og síðan áfrýjað til Hæstaréttar. Hæstiréttur felldi hinn áfrýjaða dóm úr gildi með þeim rökum að úrlausnarefnið bæri undir Félagsdóm.

Opinberir starfsmenn

 

Í fjórða kafla laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna er fjallað um Félagsdóm. Þar segir í 26. gr. að Félagsdómur dæmi í málum sem rísa milli samningsaðila um:  

1. Samningsaðild einstakra stéttarfélaga og til hvaða starfsmanna samningsaðild þeirra nær.  
2. Lögmæti boðaðra eða þegar hafinna vinnustöðvana.  
3. Ágreining um skilning á kjarasamningi eða gildi hans.  
4. Hverjir falli undir 5.- 8. tl. 19. gr. þessara laga.   
5. Önnur atriði sem aðilar hafa samið um að leggja fyrir dóminn enda séu að minnsta kosti þrír af dómendunum því meðmæltir. Félagsdómur dæmir einnig um ágreining um félagsaðild þeirra sem undir lögin falla hvort sem ágreiningurinn er milli samningsaðila, stéttarfélaga eða einstakra starfsmanna og stéttarfélaga.

Félagsdómi er heimilt að dæma í máli um atriði sem tilgreind eru hér að framan sem ágreiningur er um milli fjármálaráðherra eða sveitarfélags annars vegar og hins vegar einstakra starfsmanna eða starfsmannahópa sem ekki falla undir 5. gr. laganna nélög nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, enda sé um það samkomulag milli aðila og að minnsta kosti þrír af dómendunum séu því meðmæltir.

Í nokkrum tilvikum hefur komið upp ágreiningur um það hvort einstök mál ættu undir lögsögu Félagsdóms samkvæmt þessu ákvæði.

Í Hrd. 1979:640 var deilt um það hvort BSRB eða einstök félög innan þess hefðu heimild til að gera kjarasamninga fyrir hönd vissra hópa starfsmanna sem nafngreindir voru. Í 34. gr. laga nr. 29/1976 var mælt fyrir um það í hvaða tilvikum Félagsdómur hefði dómsvald út af ágreiningi á lögunum. Þótti ekki verða ráðið af orðum ákvæðisins eða forsögu að þeim hefði verið ætlað að taka til annarra ágreiningsmála en þar greindi. Var talið að ágreiningsefni þetta félli utan dómsvalds Félagsdóms. Þessi dómur var staðfestur í Hæstarétti.

Í Hrd. 1984:648 var deilt um skyldu kennara til að annast gæslustörf í kaffitímum. BSRB krafðist þess að málinu yrði vísað frá Félagsdómi þar sem úrslit þess yltu á túlkun á 31. gr. laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna en ekki kjarasamningum. Félagsdómur hafnaði kröfunni þar sem skera yrði úr deiluefninu á grundvelli kjarasamninga. Hæstiréttur staðfesti þessa niðurstöðu.

Í Hrd. 1984:1281 hafði Reykjavíkurborg krafist þess að vísað yrði frá Félagsdómi máli sem BSRB hafði höfðað gegn borginni og gert kröfu um að sú ákvörðun borgarinnar að greiða starfsmönnum sínum er rétt áttu á fyrirframgreiðslu launa hinn 1. október 1984 einungis laun fyrir 1.- 3. október en þann dag hafði verið boðað verkfall. Málsefnið var talið falla undir dómsvald Félagsdóms, þar sem ágreiningurinn varðaði skilning á kjarasamningi aðilanna. Þetta staðfesti Hæstiréttur.

Þótt algengast sé að mál í Félagsdómi sem fjalla um opinbera starfsmenn séu deiluefni milli samtaka opinberra starfsmanna og viðsemjenda þeirra, er ekki útilokað að stefna fyrir Félagsdómi aðila, sem ekki er tengdur stefnanda með kjarasamningi. Í félagsdómi 1/1994 (X:149) stefndi VSÍ fyrir hönd Strætisvagna Reykjavíkur hf. þannig BSRB vegna Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar þótt engir kjarasamningar væru milli þessara aðila. Starfsmannafélagið hafði boðað verkfall á Strætisvagna Reykjavíkur, og var málið höfðað til að fá úr lögmæti verkfallsins skorið.

Lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna hafa frá því þau voru fyrst sett árið 1962 gert ráð fyrir því að Félagsdómur dæmdi í ákveðnum tegundum mála opinberra starfsmanna.

Bankamenn

Í lögum um kjarasamninga starfsmanna banka í eigu ríkisins nr. 34/1977 segir í 8. gr. að Félagsdómur dæmi í málum sem rísa milli samningsaðila um gildi verkfalls, ágreining um skilning á kjarasamningi, félagsréttindi starfsmanna og kjörskrárdeilur. Þetta ákvæði misst gildi sitt tímabundið í kjölfarið á sölu ríkisbankanna, en þeir eru nú komnir aftur í eigu ríkisins. Jafnvel þótt ekki hafi verið kveðið á um það með lögum að þessi mál heyri undir Félagsdóm leit dómurinn svo á að slík samningsákvæðið væru fullnægjandi, sbr. Félagsdóm 10/1991 (IX:474), þar sem Íslandsbanki hf. stefndi SÍB. Í dóminum er ekkert fjallað um það á hvaða lagaforsendum málið er höfðað. Í 15. gr. samkomulags um kjarasamninga félagsmanna SÍB en þar er kveðið á um lögsögu Félagsdóms í framangreindum málum.