Vinnuréttarvefur

Veikindaréttur

Til að eiga rétt á greiðslu launa í veikindum þarf að vera ráðningarsamband milli launamanns og atvinnurekanda þ.e. gildur ráðningarsamningur. Engar formkröfur eru um ráðningar almenns launafólks og lög nr. 19/1979 ná með örfáum undantekningum til alls launafólks á almennum vinnumarkaði. Gildur ráðningarsamningur getur þannig komist á milli launamanns og atvinnurekanda með óformlegum hætti þ.e. munnlega eða skriflega.

Fólk sem kann að vera lausráðið samkvæmt ákvæðum í ráðningarsamningi á sama rétt til greiðslna í veikindum og annað fólk ef það hefur áunnið sér veikindarétt skv. kjarasamningi og er veikt þá daga eða á því tímabili sem ákveðið hafði verið að það starfaði hjá atvinnurekanda. Í sjómannalögum eru ákvæði um sérstaka skipsrúmssamninga. Hafi slíkur samningur ekki verið gerður á það ekki að skerða rétt skipverja til greiðslu launa í veikindum.

Sjúkdómshugtakið

Almennt er talið að forföll séu greiðsluskyld án tillits til þess hver sjúkdómurinn er. Byggt er á skilgreiningum læknisfræðinnar á sjúkdómshugtakinu og þá um leið vottorðum lækna auk þess sem oft stuðst við túlkun laga um almannatryggingar í þessu sambandi. Þetta er þó ekki undantekningarlaust. Þannig fellur áfengissýki ekki undir sjúkdómshugtakið samkvæmt l. 19/1979 um uppsagnarfrest og veikindarétt, þótt það sé viðurkenndur sjúkdómur í læknisfræðinni.

Stundum getur risið vafi um hvort forföll af völdum læknisaðgerða skapi rétt til greiðslu launa í veikindaforföllum. Nokkra leiðsögn um túlkun í vafatilvikum er m.a. að finna í bókun með kjarasamningi VR frá árinu 2000. Þar segir um óvinnufærni vegna veikinda: "Aðilar eru sammála um að auk veikinda og slysatilvika verði veikindaréttur skv. samningi þessum virkur þurfi starfsmaður að gangast undir aðkallandi og nauðsynlega læknisaðgerð til að draga úr eða eyða afleiðingum sjúkdóms sem fyrirsjáanlegt er að leiði til óvinnufærni.  Ofangreind skilgreining felur ekki í sér breytingu á sjúkdómshugtaki vinnuréttar eins og það hefur verið túlkað af dómstólum. Þó eru aðilar sammála um að aðgerðir sem starfsmaður þarf að gangast undir, til að bæta úr  afleiðingum slyss við vinnu, leiði einnig til þess að veikindaréttur skv. samningi þessum verði virkur."


Til þess að átta sig betur á sjúkdómshugtakinu er rétt að vísa til dæma:

Vöðvabólga
Ágreiningur hefur lengi verið um það hvort vöðvabólga geti talist sjúkdómur í skilningi l. 19/1979. Úr þessu var skorið í Hrd. 1996:2023 þar sem fallist var á veikindaréttarkröfur manns sem verið hafði á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði vegna vöðvabólgu.

Tannsjúkdómar
Tannsjúkdómar geta verið greiðsluskyldir eins og aðrir sjúkdómar ef starfsmaður forfallast frá vinnu af þeirra völdum. Heimsóknir til tannlæknis vegna reglubundins eftirlits og viðgerða teljast ekki greiðsluskyldar nema um sjúklegt ástand sé að ræða og heimsóknin læknisfræðilega knýjandi eða starfsmaður óvinnufær. 

Fegrunaraðgerðir
Frávera vegna hreinna fegrunaraðgerða, sem ekki eru nauðsynlegar vegna afleiðinga sjúkdóma eða slysa, telst ekki greiðsluskyld skv. l. 19/1979. Sem dæmi má nefna ef fæðingarblettir eru fjarlægðir og húð strekkt. Séu aðgerðirnar læknisfræðilega knýjandi, en hafa jafnframt áhrif á útlit, verður að vega þessa þætti saman. Í þessu sambandi má benda á þá dóma sem hafa fallið vegna kjálkaaðgerða og æðahnúta. Þann 20. október 1993 var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur dómur í máli sjómanns sem krafði útgerð sína um laun vegna aðgerðar sem hann gekkst undir á munni og kjálka, meðal annars vegna þess að hann var með yfirbit og afturstæðan neðri kjálka, sem þurfti að laga. Af þeim sökum var hann óvinnufær í rúman mánuð. Í niðurstöðu dómsins var maðurinn ekki talinn hafa sýnt fram á það að hann hafi verið ófær til vinnu vegna þess að sjúkdómur eða veikindi hafi hamlað starfsgetu hans þegar hann fór frá borði fyrir aðgerð. Hafi hann sjálfur lýst því yfir að hann hafi ekki verið óvinnufær þegar hann fór í aðgerðina. Ekki var dregið í efa að maðurinn hefði fengið bót við að gangast undir lengingu á kjálka. Nauðsyn aðgerðarinnar tengdist hins vegar ekki sjúkdómi eða veikindum með þeim hætti að hægt væri að fallast á að manninum bæri réttur til óskertra launa vegna sjúkdóms eða meiðsla í skilningi sjómannalaga og var útgerðin sýknuð.

Veikindi á meðgöngu
Veikindi sem verða á meðgöngu eru greiðsluskyld, sem og önnur veikindi, hvort sem veikindin tengjast þungun konunnar eða ekki. Í Hrd. 1989:185, var viðurkenndur réttur þungaðrar konu til launagreiðslna í veikindum sem stöfuðu af þungun konunnar. Í undirrétti var meðal annars tekið fram að fæðingareitrun sé sjúkdómur í læknisfræðilegum skilningi og að slíkir sjúkdómar falli undir lög nr. 19/1979. Hvergi sé að sjá að löggjafinn hafi haft í huga að undanskilja ákveðna tegund sjúkdóma lögunum.

Líffæragjöf
Fjarvera frá störfum og sjúkrahúslega sem tengist líffæragjöf er ekki greiðsluskyld skv. l. 19/1979. Byggist þetta á því að fjarveran telst ekki sjúkdómur hjá þeim aðila sem gefur líffæri, og er því líffæragjafinn ekki forfallaður frá vinnu vegna sjúkdóms. Tekið skal fram að Tryggingastofnun ríkisins beitir lögjöfnun þegar um líffæragjafir er að ræða og líffæragjafinn nýtur því almennt sömu réttinda og sjúklingurinn til bóta frá stofnuninni.

Frjósemis- og ófrjósemisaðgerðir
Frjósemis- og ófrjósemisaðgerðir teljast ekki til greiðsluskyldra forfalla. Þessar aðgerðir eru ekki hluti af lækningu við sjúkdómi, jafnvel þótt ófrjósemi kunni að hafa stafað af sjúkdómi. Í kjarasamningum er sums staðar samið um greiðslur vegna fráveru í frjósemisaðgerðum, svokallaðri tæknifrjóvgun, sjá kafla um fæðingarorlof.

Æðahnútar

Í Hrd. nr. 346/2001 fór Þ sem var matsveinn á skipi S í skurðaðgerð vegna æðahnúta á fótum. Deilt var um hvort hann hafi verið óvinnufær í skilningi 36. gr. sjómannalaga er hann fór í aðgerðina. Þótti leitt í ljós, m.a. með vísan til læknisfræðilegra gagna sem lágu fyrir í málinu, að um væri að ræða sjúkdóm, sem hefði þróast í nokkurn tíma með Þ og að skurðaðgerð hefði verið nauðsynleg til að bæta þar úr. Af hinum læknisfræðilegu gögnum þótti einnig mega ráða að dráttur á aðgerð hefði skapað nokkra hættu fyrir heilsu Þ og getað leitt hvenær sem er til óvinnufærni hans. Að öllu þessu virtu og þrátt fyrir það að Þ hefði verð unnt að stunda vinnu sína fram að því að hann fór í leyfi þóttu atvik með þeim hætti að fullnægt væri skilyrðum 36. gr. sjómannalaga að hann fengi greidd laun þann tíma, er hann var óvinnufær vegna skurðaðgerðarinnar.

Áfengissýki

Lengst af hefur verið litið svo á að fjarvistir manna vegna meðferðar á áfengissýki séu ekki greiðsluskyldar. Í dómi Hrd. 1984:439 var um það deilt hvort frávera manns vegna meðferðar á áfengissýki teldist greiðsluskyld hjá atvinnurekanda. Sagði í dóminum að enda þótt drykkjusýki kynni að teljast sjúkdómur í skilningi læknisfræðinnar hefðu fjarvistir manna frá vinnu vegna áfengisneyslu eða drykkjuhneigðar lengst af verið virtar að lögum á annan veg en fjarvistir vegna veikinda og slysa. Í dóminum segir að áfrýjandi (þ.e. launamaðurinn) miði við það að ekki hafi átt að beita veikindaákvæði kjarasamnings um fjarvistir starfsmanna frá vinnu vegna drykkjusýki nema hann hefði á fjarvistartímanum sætt læknismeðferð á sjúkrastofnunum til að vinna bug á áfengishneigð sinni líkt og hann hefði gert. Endranær hafi drykkjusjúkur starfsmaður ekki átt rétt til launa meðan hann var fjarvistum vegna sjúkdóms síns, svo sem vegna áfengisneyslu eða afleiðinga hennar. Dómurinn tók fram að ekkert benti til þess að við gerð kjarasamnings (sem vísaði beint í lögin um veikindarétt) hafi því verið hreyft að til þess væri ætlast að ákvæðum hans um launagreiðslur í veikindum bæri að beita um fjarvistir starfsmanna vegna drykkjusýki fremur en tíðkast hafði. Hefði þó, vegna þess sem að framan er greint, verið ástæða til þess fyrir samningsaðila að láta það sérstaklega koma fram ef þeir ætluðust til þess að svo yrði gert.

Andleg áföll

Komið hefur til réttarágreinings, sjá Hrd. nr. 498/2007,  um rétt skipverja til veikindalauna þar sem viðkomandi skipverji hafi verið óvinnufær vegna andlegs áfalls sem hann fékk er hann frétti að náinn ættingi hefði látist. Útgerðarfyrirtækið var sýknað af kröfunni af þeirri ástæðu að skipverjinn hefði ekki fært sönnur á að hann hefði verið óvinnufær vegna veikinda á umræddu tímabili. Í Hrd. nr. 207/2005 var háseta dæmdur réttur til veikindalauna á grundvelli þess að hann hafi verið veikur í skilningi 36. gr. sjómannalaga. Hásetinn hafði misst son sinn og mætti ekki til vinnu í rúma fimm mánuði  af þeim sökum en andlát sonar hans hafði mikil andleg áhrif á hann. Í málinu lá fyrir yfirlýsing læknis um óvinnufærni hásetans og var því mati ekki hnekkt af hálfu atvinnurekandans.

Offituaðgerð

Í dómi Héraðsdóms Reykjaness frá 19.4 2010 ( E-3377/2009 ) var fjallað um það hvort offituaðgerð (magahjáveituaðgerð) og forföll úr vinnu hennar (óvinnufærni) væru bótaskyld. Í dóminum segir: „Fyrir liggja tvö vottorð Ludvigs Árna Guðmundssonar læknis. Í því síðara, dags. 1. febrúar 2008, segir afdráttarlaust að stefnandi hafi verið í endurhæfingarmeðferð á Reykjalundi frá 7. janúar til 7. febrúar vegna sjúkdóms og að vegna endurhæfingarinnar gæti hún ekki stundað vinnu þetta tímabil. Samkvæmt framburði læknisins fyrir dómi var stefnandi með offitu á mjög alvarlegu stigi og meðferðin sem hún gekkst undir nauðsynleg. Þá skýrði læknirinn frá því að stefnandi hefði ekki getað stundað vinnu samhliða meðferðinni. Stefnandi hefur ekki hnekkt þessu vottorði og mati læknisins. Stefnda var kunnugt um undirbúning stefnanda fyrir magahjáveituaðgerð og verður stefnandi ekki talin hafa fyrirgert rétti til veikindalauna þó hún hafi ekki tilkynnt strax 7. janúar 2008 að hún yrði fjarverandi næstu vikur.“

Greiðslur í veikindum

Meginreglan er sú að starfsmaður á að vera eins settur fjárhagslega eins og ef forföll hefðu ekki borið að höndum. Starfsmaður á þannig ekki að hagnast á eigin veikindum, til dæmis vegna þess að veikindin urðu til þess að aðrir starfsmenn þurftu sannanlega að vinna yfirvinnu, eða kalla þurfti út aukavakt sem greidd er með aukavaktarálagi. Hann á heldur ekki að tapa á þeim. Þetta þýðir þá einnig að áunnir veikindadagar eru hvorki almanaksdagar eða virkir dagar heldur vinnudagar, tapaðir vinnudagar. 

Nokkuð er misjafnt hvernig launagreiðslum í veikindum er háttað eftir lögum og kjarasamningum. Almennt eru þó reglurnar þannig að fyrsta tímabil veikinda ber að greiða fólki óskert þau laun sem það hefði haft ef það hefði unnið vinnuna en að því tímabili loknu tekur við tímabil þar sem einungis er greitt dagvinnukaup. 

Í 5 og 6.gr. laga nr. 19/1979 segir að "verkafólk skuli eigi missa neins í af launum sínum, í hverju sem þau eru greidd", eftir eitt ár í starfi í einn mánuð, og á fyrsta ári tvo daga fyrir hvern unninn mánuð.

Í sjómannalögum nr. 35/1985 segir að skipverji "skuli eigi missa neins í af launum sínum í hverju sem þau eru greidd svo lengi sem hann er óvinnufær" vegna sjúkdóms eða meiðsla, þó ekki lengur en tvo mánuði. Sama útreikningsreglan gildir því samkvæmt báðum þessum lögum, reglan um staðgengilslaun. Sjómenn geta þó átt lengri rétt undir ákveðnum kringumstæðum samanber Hrd. 1993:365

Í lögum og kjarasamningum eru notuð ýmis hugtök til þess að lýsa því hvaða laun beri að greiða í veikindum. Þau helstu sem um ræðir eru:

Staðgengilslaun 

Með hugtakinu staðgengilslaun er átt við að starfsmaður skuli fá greidd þau laun, sem hann hefði haft, ef forföll hefði ekki borið að höndum. Þetta gildir bæði um grunnlaun, yfirvinnukaup og ýmsar álagsgreiðslur, svo sem námskeiðsálag, flokksstjóraálag, viðgerðar- og þungaálag o.s.frv.

Í Hrd. 1968:67 var ákvæði l. 16/1958 "eigi missa neins í af launum sínum" skýrt þannig að greiða bæri manni laun fyrir þær vinnustundir, sem unnar voru í veikindaforföllum hans, þar á meðal eftirvinnu- og næturvinnu, enda verði að ætla að maðurinn hefði sjálfur unnið þær vinnustundir, ef hann hefði eigi veikst. Sjá ennfremur Hrd. 1972:138 og Hrd. 1975:145.

Við útreikning á staðgengilslaunum ber að miða við þau laun sem viðkomandi starfsmaður hefði sjálfur haft í tekjur að óbreyttu, en ekki hvað staðgengill hans hafði, eða hefði fengið. Einnig ná staðgengilslaun til launagreiðslna en ekki til greiðslu kostnaðarliða eins og bifreiðastyrks og dagpeninga eða annarra greiðslna sem eru einungis endurgreiðsla á útlögðum kostnaði.

Dagvinnulaun 

Dagvinnulaun starfsmanns eru þau laun sem starfsmaður fær greidd fyrir vinnu sína á dagvinnutímabili, án bónusa og hvers konar álagsgreiðslna fyrir 8 klukkustundir á dag eða 40 stundir á viku miðað við fullt starf. 

Full dagvinnulaun  

Full dagvinnulaun eru föst laun fyrir dagvinnu auk vaktaálags, bónus og annarra afkastahvetjandi eða sambærilegra álagsgreiðslna fyrir 8 klukkustundir á dag eða 40 stundir á viku miðað við fullt starf.

Meðaltalslaun 

Í nokkrum kjarasamningum eru ákvæði þess efnis að í stað staðgengilslauna skuli greiða dagvinnukaup auk meðaltals yfirvinnu ákveðið tímabil. Þessi aðferð tryggir að starfsmaður fær að minnsta kosti meðaltal yfirvinnu í veikindum sínum, en með staðgengilsreglu myndi yfirvinna greiðast aðeins ef hún hefði verið unnin þá daga sem veikindi vöruðu. 

Launalaus leyfi 

Veikindaréttur fellur niður í launalausu leyfi og ávinnst ekki á meðan á því stendur. Sé maður veikur þegar að launalausu leyfi kemur falla launagreiðslur niður. Þetta á ekki við um vinnuslys sem verða í aðdraganda launalauss leyfis. Sé maður veikur þegar hann hyggst snúa til baka úr launalausu leyfi á hann rétt á veikindagreiðslum hafi hann áunnið sér slíkan rétt áður en hann fór í leyfið.

Sérreglur gilda um sjómenn og í 1.mgr. 36.gr. sjómannalaga nr. 35/1985 er sérstaklega fjallað um launalaus leyfi sjómanna og veikindi og slys. Þar segir: “Sé skipverji í launalausu fríi er hann veikist eða slasast tekur hann laun frá þeim tíma er hann skyldi hefja störf að nýju.“ Á túlkun þessa ákvæðis hefur ítrekað reynt fyrir dómi en niðurstaða Hæstaréttar er sú, að ákvæðið beri að túlka þröngt og nákvæmlega eftir orðanna hljóðan. Hugtakið „launalaust leyfi“ beri að skilja þannig að það taki ekki til þeirra tímabila þar sem sjómaður kann að hafa verið í „frítúr“ sem til er kominn vegna skipulags vinnu um borð. Sigli menn t.d. annan hvern túr og njóti 100% launa fyrir þá sem farnir eru eða 50% launa allt árið af sömu ástæðu, telst túrinn sem verið er í landi ekki launalaust leyfi í skilningi laganna. Ágreining hvað þessa túlkun varðar hefur Hæstiréttur útkljáð m.a. með dómum í málunum nr. 412/2014 og 400/2012. Annað kann að gilda um „innbyrðis greiðslumiðlun“ milli sjómanna sjálfra sem ekki er hluti af skipulagi því sem útgerðin hefur sett á sbr. Hrd. nr. 385/2012, 288/2007 og 289/2007.

Í Hrd. nr. 138/1984 var tekin afstaða til kröfu sjómanns á fiskiskipi, sem veiktist í veiðiferð en hafði áður sammælst við útgerðarmann um að taka launalaust leyfi eftir lok hennar, um laun í veikindaforföllum vegna næstu veiðiferðar á grundvelli 3. mgr. 18. gr. laga nr. 67/1963. Þar var fallist á þá kröfu með því að lagaákvæði þetta yrði ekki skýrt þannig að réttur skipverja, sem veiktist við vinnu sína, til launa yrði skertur sökum þess að hann hefði á veikindatímabilinu átt að vera í launalausu leyfi. Til stuðnings þessu var vísað til skýringa í athugasemdum við frumvarp, sem varð að lögum nr. 49/1980, en þar sagði meðal annars: „Hins vegar er gert ráð fyrir að skipverji, sem forfallast við vinnu sína, haldi launum þótt hann hafi átt að fara í launalaust frí síðar.“

 

Verkföll 
Greiðslur veikindalauna falla niður í verkfalli eins og aðrar launagreiðslur. Á sama hátt ávinnst ekki veikindaréttur meðan á verkfalli stendur.  

Sérákvæði í kjarasamningum 
Í kjarasamningum er sums staðar að finna reglur sem eru ekki í samræmi við ofangreindar reglur eða frekari útfærsla á þeim. Einnig getur framkvæmd kjarasamninga verið með öðrum hætti en að ofan greinir. Nauðsynlegt er því að kanna hverju sinni þann kjarasamning sem unnið er eftir. Tekið skal fram að l. 19/1979 kveða á um lágmarksrétt samkvæmt 10. gr., og því er einungis hægt að semja í ráðningarsamningi eða kjarasamningi um ákvæði sem eru launafólki hagstæðari en ákvæði laganna.

Tímalengd greiðslu

Hve lengi starfsmenn eiga rétt á launum í veikindum ræðst af ýmsum þáttum. Grunnréttindi hvað varðar hinn almenna vinnumarkað er að finna í lögum um uppsagnarfrest og veikindarétt nr. 19/1979 og hvað varðar sjómenn í sjómannalögum nr. 35/1985. Ofan á þessi grunnréttindi hefur verkalýðshreyfingin samið um nokkuð betri rétt og hvað félagsmenn í stéttarfélögum opinberra starfsmanna varðar þá er þessi réttur umtalsvert betri en lögin og kjarasamningar á almennum vinnumarkaði geyma. Til þess að þekkja hversu lengi menn eiga rétt til greiðslu í veikindum er því mjög nauðsynlegt að kanna hverju sinni þann kjarasamning sem unnið er eftir.

Hér á eftir verður fjallað um grunnréttinn eins og hann birtist í lögum nr. 19/1979 og sjómannalögum nr. 35/1985.

Í 1 og 2.mgr. 5.gr. laga nr. 19/1979 segir: "Allt fastráðið verkafólk, sem ráðið hefur verið hjá sama atvinnurekanda í eitt ár samfellt, skal er það forfallast frá vinnu vegna sjúkdóma eða slysa eigi missa neins í af launum sínum, í hverju sem þau eru greidd, í einn mánuð. - Hafi slíkt starfsfólk verið ráðið hjá sama atvinnurekanda í þrjú ár samfellt skal það, auk þess sem í 1. mgr. segir, halda daglaunum sínum í einn mánuð, en í tvo mánuði eftir fimm ára samfellda ráðningu hjá sama atvinnurekanda." 

Í 6.gr. laganna segir um veikindi á fyrsta starfsári: "Á fyrsta starfsári hjá sama atvinnurekanda skal verkafólk eigi missa neins í af launum, í hverju sem þau eru greidd, í tvo daga fyrir hvern unninn mánuð í veikinda- og slysatilfellum, auk réttar til dagvinnulauna skv. 4. gr. "

Í 1 og 2.mgr. 36.gr. sjómannalaga nr. 35/1985 segir: "Ef skipverji verður óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann verður fyrir meðan á ráðningartíma stendur skal hann eigi missa neins í af launum sínum í hverju sem þau eru greidd svo lengi sem hann er óvinnufær af framangreindum ástæðum, þó ekki lengur en tvo mánuði. Sé skipverji í launalausu fríi er hann veikist eða slasast tekur hann laun frá þeim tíma er hann skyldi hefja störf að nýju. Skipverji, sem forfallast vegna veikinda, á þó ekki rétt til launa í fleiri daga en hann hefur verið í þjónustu útgerðarmanns. - Hafi skipverji verið ráðinn á sama skip eða hjá sama útgerðarmanni í tvö ár samfellt skal hann, auk þess sem í 1. mgr. segir, halda föstu kaupi, kauptryggingu eða sérlega umsömdu veikindakaupi í allt að einn mánuð en í allt að tvo mánuði eftir fjögurra ára samfellda ráðningu hjá sama útgerðarmanni."

Um skýringu þeirra launahugtaka sem ákvæði þessi geyma vísast til kaflans "Greiðslur í veikindum". 

Atriði sem áhrif hafa á lengd veikindaréttar

Ýmis atriði koma hér til skoðunar; annars vegar þau atriði sem mælt er fyrir um í lögum nr. 19/1979 og hins vegar það sem samið er um í kjarasamningum. Á síðustu árum hefur áhersla verið lögð á aukinn flutning veikindaréttar milli atvinnurekenda. Það kemur til vegna meiri hreyfanleika vinnuaflsins. Tap réttinda við atvinnuskipti getur verkað hamlandi á hreyfanleika vinnuaflsins og latt launafólk í að sækja sér starfs- og endurmenntun.

Samfelldur starfstími og endurráðning hjá sama atvinnurekanda 

Réttur starfsmanna til launa í veikindum er áunninn réttur. Það ræðst fyrst og fremst af samfelldum starfstíma hjá sama atvinnurekanda hve langur rétturinn er. Þetta er meginregla laga nr. 19/1979 og yfirleitt liggur ljóst fyrir hve langur samfelldur ráðningartími manna er, hvenær þeir hófu störf og hve lengi þeir unnu. Lög nr. 19/1979 gera ekki ráð fyrir því að veikindaréttindi endurnýist við endurráðningu hjá sama atvinnurekanda. Það fer eftir kjarasamningum hverju sinni hve hratt launafólk endurnýjar veikindarétt sinn við endurráðningu hjá sama atvinnurekanda.

Flutningur réttinda milli atvinnurekenda 

Sé samið í kjarasamningum um flutning á veikindarétti milli atvinnurekenda, gildir það yfirleitt aðeins um hluta af áunnum rétti. Verkamaður sem t.d. hefur starfað hjá sama atvinnurekanda og áunnið sér 4 mánaða veikindarétt flytur skv. kjarasamningi SGS sem tók gildi 1. febrúar 2008, með sér 2 mánaða rétt (1 á staðgengilslaunum og 1 á dagvinnulaunum) enda hafi hann ráðið sig innan 12 mánaða hjá nýjum atvinnurekanda og starfslok hjá hinum fyrri borið að með eðlilegum hætti. Með því er t.d. átt við að starfsmaðurinn hafi ekki hlaupist fyrirvaralaust úr starfi eða verið rekinn fyrirvaralaust vegna alvarlegra brota á ráðningarsamningi.

Fæðingarorlof  

Um ávinnslu veikindaréttar í fæðingarorlofi fer skv.lögum um fæðingar og foreldraorlof nr. 95/2000 en þar er tekið fram að fæðingarorlof reiknist til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og réttar til atvinnuleysisbóta.


 

Talning veikindadaga

Ekki segir í lögum um veikindarétt nr. 19/1979 við hvaða tímabil réttindi miðist. Sú regla er þó almennt viðurkennd að finna veikindadaga þannig að líta til 12 síðustu mánaða frá upphafsdegi veikinda og reikna út hve mikinn veikindarétt starfsmaður hefur áunnið sér og hve mikinn veikindarétt starfsmaður hefur nýtt sér. Fram að kjarasamningum á árinu 2000 var skv. flestum kjarasamningum í gildi svokölluð endurtekningarregla þ.e. að hverjum nýjum veikindum fylgdi sjálfstæður veikindaréttur. Í kjarasamningunum á árinu 2000 var regla þessi afnumin og heildar veikindaréttur lengdur. Veikindarétturinn er nú heildarréttur á hverju 12 mánaða tímabili án tillits til tegundar sjúkdóms. Við þessar breytingar á kjarasamningum á árinu 2000 var sérstaklega bókað að þessi breyting hefði engin áhrif á slysarétt launafólks. Þannig skapar hvert slys á leið til vinnu, á leið frá vinnu og við vinnu sjálfstæðan rétt hvert um sig.

Eins og fram kemur í kaflanum um greiðslurétt í veikindum er meginreglan er sú að starfsmaður á að vera eins settur fjárhagslega eins og ef forföll hefðu ekki borið að höndum. Starfsmaður á þannig ekki að hagnast á eigin veikindum, til dæmis vegna þess að veikindin urðu til þess að aðrir starfsmenn þurftu sannanlega að vinna yfirvinnu, eða kalla þurfti út aukavakt sem greidd er með aukavaktarálagi. Hann á heldur ekki að tapa á þeim. Þetta þýðir þá einnig að áunnir veikindadagar eru hvorki almanaksdagar eða virkir dagar heldur vinnudagar, tapaðir vinnudagar. 

Fæst veikindi eru þannig að um samfelld forföll sé að ræða þar til veikindaréttur er tæmdur. Þvert á móti eru flest veikindi skammtímaveikindi. Af þeim ástæðum þarf að halda saman fjölda þeirra veikindadaga sem greiddir eru.

Hlutavinnufólk ávinnur sér veikindarétt með sama hætti og fullvinnandi. Starfsmaður í 50% starfi sem unnið er 5 daga í viku, ávinnur sér veikindarétt með sama hætti og sá sem vinnur 100% starf þessa sömu daga. Á sama hátt ávinnur sá sem vinnur alltaf fasta yfirvinnu og vinnur því t.d. 120% starf, sama fjölda veikindadaga og sá sem vinnur 100% eða 50%. Greiðslur í veikindum verða hins vegar mismunandi þar sem greiðsluréttur miðast við að viðkomandi sé skaðlaus af veikindum sínum og að hann eigi hvorki að tapa á þeim eða hagnast.  

Fræðilega geta vandamál við túlkun skapast þegar hlutavinna er t.d. unnin 2,5 daga í viku (50% starf). Sá starfsmaður ávinnur sé veikindarétt með sama hætti og aðrir. Eftir 4 mánaða starf á hann rétt til greiðslu 8 tapaðra vinnudaga þ.e. daga sem hann hefði átt á vinna. Skv. því gæti hann verið í 4 vikur (einn mánuð) að taka þennan veikindarétt út lendi hann í langtímaveikindum. Ákvæði kjarasamninga eru ekki skýr hér um en fræðilega gæti starfsmaður í svona hlutastarfi, eftir 5 -12 mánaða starf, átt „lengri“ veikindarétt eða meira svigrúm til úttöku veikindaréttar, talið í mánuðum en hann ætti eftir eins árs starf. Þetta vandamál hefur verið þekkt allt frá setningu laga nr. 19/1979. Upphafleg túlkun Vinnuveitendasambands Íslands (nú Samtaka atvinnulífsins) var sú að túlka bæri lögin í samræmi við túlkun laga nr. 16/1958 og að telja bæri „greiðsludaga“ en ekki almanaksdaga („Vinnumál I“ frá 1978). Uppúr 1990 breytti SA um afstöðu og hélt því fram að á fyrsta ári beri að telja almanaksdaga en ekki greiðsludaga þegar svona háttar til en engir dómar hafa fallið sem staðfesta það. Ef fallist yrði á túlkun SA gæti starfsmaður með 4 daga veikindarétt og sem vinnur einungis mánudaga og þriðjudaga, glatað öllum veikindarétti sínum veikist hann t.d. frá miðvikudegi til miðvikudags. Fyrstu 4 dagar veikindanna þ.e. frá miðvikudegi til laugardags myndu þá tæma veikindarétt hans (dagar sem hann hefði ekki átt að vinna og hann verið launalaus hvort sem er) og hann launalaus þá daga sem hann hefði átt að vinna. Ef fallast ætti á túlkun SA yrði henni að fylgja greiðsluréttur á þeim almanaksdögum sem taldir væru en til þess hafa þau ekki verið reiðubúin. Bókun var gerð með kjarasamningum SA og aðildarsamtaka ASÍ á almennum vinnumarkaði 2015 um skýringu veikindaréttar sem heildarréttar. Þar segir: „Veikindaréttur miðast við greidda veikindadaga á 12 mánaða launatímabili. Þegar starfsmaður verður óvinnufær er við upphaf veikinda litið til þess hversu margir dagar hafa verið greiddir á síðustu 12 launamánuðum og dragast þeir frá áunnum veikindarétti. Hafi starfsmaður verið launalaus á tímabili telst það tímabil ekki með við útreikning.“ Þessi bókun sem skýrt mælir fyrir um að litið skuli framhjá launalausum tímabilum, styrkir túlkun ASÍ. Í ljósi upphaflegrar afstöðu atvinnurekenda, þessarar bókunar og á meðan skipulagsvald vinnunnar er á hendi atvinnurekenda verður að telja að túlkunarhallinn í þessu efni falli á atvinnurekendur.

Brottfall veikindaréttar

Uppsögn 

Veikindaréttur er áunninn og er eins konar umbun fyrir tryggð við atvinnurekanda. Þegar starfslok verða, svo sem vegna uppsagnar, fellur rétturinn niður. Svo sem að framan er greint kveða kjarasamningar oft á um flutning á veikindarétti eða hluta veikindaréttar milli atvinnurekenda.   

Brottrekstur 
Sé maður rekinn úr starfi, og brottrekstur er löglegur, fellur veikindaréttur þar með niður. Þar sem forsendur þess að hægt sé að flytja með sér veikindarétt eru yfirleitt þær að starfslok hafi borið að með löglegum hætti, getur starfsmaður sem rekinn hefur verið misst rétt á að flytja með sér veikindarétt. 

Andlát 
Réttur til greiðslu launa í veikindum fellur niður við andlát. Breytir hér engu hversu mikinn veikindarétt maður hafði áunnið sér. Í 21. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 38/1954 voru ákvæði þess efnis að greiða skuli maka látins starfsmanns þau föstu laun er stöðu hins látna fylgdi í þrjá mánuði. Þetta ákvæði var fellt út við endurskoðun laganna 1996. Það gildir þó áfram gagnvart þeim sem þegar höfðu öðlast þennan rétt. Í 3. mgr. 40. gr.  sjómannalaga nr. 35/1985 eru ákvæði þess efnis að deyi skipverji á þeim tíma er hann á rétt til kaups eigi eftirlifandi maki eða börn rétt til launa fyrir einn mánuð til viðbótar. 

Tímabundinni ráðningu lýkur 
Hafi ráðning verið tímabundin falla réttaráhrif ráðningar niður í lok þess tíma, þar á meðal veikindaréttur. Sjómenn eiga rétt svo lengi sem þeir eru óvinnufærir að vissu hámarki, samanber Hrd. 1993:365
 
Veikindaréttur fullnýttur 
Hafi starfsmaður fullnýtt sér veikindarétt falla launagreiðslur niður. Ráðningarsambandinu er þó ekki slitið, og ber starfsmanni að mæta aftur til vinnu þegar veikindum lýkur. Með sama hætti ber atvinnurekanda að taka á móti starfsmanni aftur til starfa.

Tengsl uppsagnar og veikindaréttar

Veikindaréttur fellur niður við starfslok manns. Skiptir þá ekki máli hvort starfsmaður hefur sjálfur sagt starfi sínu lausu eða hvort honum hefur verið sagt upp starfi. Hafi til dæmis starfsmanni borist uppsögn með venjulegum uppsagnarfresti en eftir það verður hann veikur á hann ekki rétt til launagreiðslna lengur en til loka ráðningartímans. Hafi hins vegar veikindi borið að höndum áður en til uppsagnar kemur, heldur starfsmaðurinn veikindarétti sínum þar til hann er vinnufær á ný eða veikindarétturinn tæmdur. Þetta byggist á því sjónarmiði að atvinnurekandanum á ekki að vera mögulegt að skerða veikindaréttindi starfsmanna sinna með uppsögn úr starfi.

Spurning hefur verið um það hvort atvinnurekanda sé heimilt að segja upp starfsmanni sem er í veikindafríi. Almennt er litið svo á að svo framarlega sem veikindaréttur manns sé ekki skertur með uppsögn komi veikindin ekki í veg fyrir uppsögnina. Oft er þó höfðað til þess að siðlaust sé að segja upp veiku fólki.

Í Hrd. nr. 297/2015 var tekist á um hvort segja mætti starfsmanni upp í veikindum. Uppsögnin var talin ólögmæt skv. sérákvæði í kjarasamningi og laun í veikindum dæmd. 

Í Hrd. nr. 40/2004 var meðal annars tekist á um hvort skipverji haldi rétti til launa í veikindum samkvæmt 36. gr. sjómannalaga er skip ferst. Fram kemur í dóminum að í athugasemdum með sambærilegu ákvæði í eldri lögum hafi verið sagt að skylda útgerðarmanns til launagreiðslu skyldi haldast "jafnt fyrir það, þó að ráðningartími sé fyrr á enda samkvæmt ákvæðum skiprúmssamnings eða vegna uppsagnar hans". Þannig tekur dómurinn fram að ljóst sé að réttur samkvæmt 36. gr. sjómannalaga til greiðslu launa í veikindaforföllum sé ekki takmarkaður við ráðningartíma skipverja. Verði því að telja að sá réttur haldist einnig þótt ráðningarsamningi sé slitið samkvæmt 26. gr. laganna við það að skip ferst. 

Hrd. 1994:1109. Í hinum áfrýjaða dómi Bæjarþings Reykjavíkur var komist að þeirri niðurstöðu að eins og veikindum mannsins hafi verið háttað ætti hann ótvíræðan rétt til fullra launa í sex mánuði og hálfra launa í aðra sex samkvæmt kjarasamningi. Þótt því verði að sönnu játað með atvinnurekanda að honum hafi verið heimilt að slíta ráðningarsamningi við manninn, hvort sem var sökum þess að hann var orðinn ófær til að gegna starfi sínu eða af öðrum ástæðum, þá gat hann ekki bundið enda á samningssambandið þannig að maðurinn glataði réttindum sem hann hafði öðlast fyrir uppsögnina. Þannig var fallist á það með manninum að hann ætti rétt til bóta sem svaraði til verðmæta veikindaorlofsins auk orlofsfjár af þeim launum. Þessu máli var áfrýjað til Hæstaréttar sem aftur á móti sýknaði atvinnurekandann. Þar var litið til þess fyrst og fremst, að starfsmaðurinn hafði sjálfur óskað launalauss leyfis án þess að geta veikinda sinna. Honum hafi verið sagt upp störfum við svo búið en hvorki mætt til starfa eða boðað forföll. Þannig hefði hann vanefnt vinnuskyldu sína á uppsagnarfresti og fyrirgert rétti sínum til launa. Í dómi Hæstaréttar er sérstaklega tekið fram að ekki hafi tekist að sanna að uppsögnin hafi komið fram til þess að losa atvinnurekandann við starfsmanninn vegna veikinda hans og jafnframt að heimilt hafi verið að segja starfsmanninum upp án þess að tilgreina orsakir. Ekki er allskostar ljóst hvað Hæstiréttur á við með þessu orðalagi en ætla verður að réttarstaða starfsmannsins hefði orðið önnur ef tekist hefði að sanna að atvinnurekandinn hefði af ásetningi ætlað að hafa réttindi af starfsmanninum.

Í dómi aukadómþings Rangárvallasýslu 15. maí 1990 var deilt um það hvort vinnuveitandi geti með uppsögn skert áunnin réttindi launþega til launa í veikindatilfelli þannig að við slit ráðningarsamningsins glati launþeginn þessum rétti. Í dóminum var deilt um rétt atvinnurekanda til að segja upp manni í veikindafríi, sem hafði þriggja mánaða uppsagnarfrest frá störfum. Í dóminum segir meðal annars að ef launþegi veikist og er síðar sagt upp þá er hann, þegar hann veikist, ennþá ráðinn í vinnu og nýtur réttinda sem slíkur og verður að telja að þau réttindi sem hann þannig á rétt til og hefur áunnið sér verði ekki af honum tekin með uppsögn. Síðan segir að svo verði að telja að stefnandi hafi átt rétt til launa úr hendi stefnda í samtals tvo mánuði vegna veikinda sinna enda var hann þegar veikur er stefndi sagði honum upp og var það enn tveim mánuðum eftir að hann veiktist fyrst. Uppsögn stefnda gat því ekki tekið gildi fyrr en þremur mánuðum eftir að tveggja mánaða veikindaleyfi stefnanda lauk.

Sök starfsmanns

Oft er ruglað saman reglum skaðabótaréttar um sakarskiptingu og ákvæðum laga nr. 19/1979 og sjómannalaga nr. 35/1985 þegar fjallað er um áhrif ásetnings eða stórkostlegs gáleysis á veikindarétt launafólks. Nauðsynlegt er að taka fram að þær reglur sem gilda í skaðabótarétti koma reglum vinnuréttarins um greiðslu launa í veikindum ekkert við og þar er ekki að finna heimild til að lækka veikindagreiðslur vegna sakarstigs. Þeir dómar, sem fallið hafa um skaðabótakröfur launafólks á hendur atvinnurekenda vegna vinnuslysa, skipta hér engu máli. Veikindarétturinn er sjálfstæður tryggingaréttur sem byggist á ákvæðum laga og kjarasamninga og greiðist óháð reglum skaðabótaréttarins.

Sök starfsmanns, ásetningur eða stórkostlegt gáleysi geta þó orðið til þess að veikindaréttur glatast. Þótt ekki sé kveðið á um þetta í lögum nr. 19/1979 er í athugasemdum við 5. gr. frumvarpsins sagt að allar greiðslur skuli atvinnurekandi inna af hendi þótt veikindi séu óviðkomandi þeirri vinnu, sem launþeginn stundar svo fremi að ekki sé til að dreifa ásetningi eða gáleysi launþegans sjálfs. Þar sem þetta eru ummæli í athugasemdum með frumvarpi en ekki lagatextinn sjálfur ber einungis að hafa þetta til hliðsjónar við skýringar á lagatextanum. Með eigin athöfnum getur starfsmaður þannig glatað veikindarétti, svo sem ef hann framkallar veikindin til þess eins að koma sér hjá vinnu. Einnig getur hann með gáleysi sínu glatað rétti en til þess verður gáleysið að vera stórfellt, eins og dómstólar hafa túlkað þetta ákvæði.

Tilkynningar um veikindi

Skylda atvinnurekanda til greiðslu launa í veikindum vegna sjúkdóma og slysa er háð því að launþegi hafi tilkynnt um veikindin með réttum hætti eins og lög og kjarasamningar kveða á um. Í lögum nr. 19/1979 er þó ekkert fjallað um tilkynningar veikinda. Það breytir því ekki að þegar forföll ber að höndum vegna sjúkdóma er nauðsynlegt að launamaður tilkynni atvinnurekanda það svo fljótt sem við verður komið, svo hægt sé að gera nauðsynlegar ráðstafanir á vinnustað. 

Þannig var í Hrd. nr. 40/2004 atvinnurekandi sýknaður af greiðslu launa í veikindaforföllum þar sem ekki þótti sannað að forsvarsmenn hans hafi haft vitneskju um veikindi starfsmannsins. 
 
Í kjarasamningum eru oft ákvæði um tilkynningar veikinda. Jafnvel þótt engin ákvæði sé að finna um tilkynningar veikinda í lögum eða kjarasamningum verður að tilkynna veikindi. Það er eðlilegur þáttur í vinnuréttarsambandi að launamaður gefi skýringar á því hvers vegna hann uppfylli ekki meginskyldur sínar samkvæmt ráðningarsamningnum, að mæta til vinnunnar. Að öðrum kosti á starfsmaður það á hættu að vera vikið úr starfi fyrirvaralaust vegna vanefnda á samningi. Oft er það tekið fram við ráðningu starfsmanns með hvaða hætti hann skuli tilkynna veikindi. Eðlilegt er að þau séu tilkynnt yfirboðara, verkstjóra eða skrifstofustjóra eða þeim sem annast starfsmannahald. Ef ekki eru um þetta skýrar reglur verður starfsmanni ekki gert að sök þótt skilaboð komist ekki í réttar hendur. 

Óeðlilegt er að gera þær kröfur til sjúkra starfsmanna að þeir tilkynni veikindi á fleiri en einn stað. Atvinnurekandinn á að geta sinnt frekara tilkynningarhlutverki og upplýsingahlutverki innan vinnustaðar. Atvinnurekandi á ekki að setja svo stífar reglur um tilkynningar um veikindi að fólki sé gert óþarflega erfitt fyrir. Hér verður að sýna sanngirni. Til dæmis er ekki hægt að svipta mann veikindarétti vegna þess að honum var ókleift að tilkynna veikindi fyrir hádegi fyrsta dag veikinda. Hins vegar mætti  atvinnurekandi ef til vill líta svo á að starfsmaður hafi hlaupist á brott úr starfi ef ekkert heyrist frá honum í þrjá til fjóra daga.

Það er jafnframt álit ASÍ að atvinnurekendum sé ekki heimilt að skilyrða greiðslu launa í veikindaforföllum við tilkynningu veikinda til sérstakra fyrirtækja á sviði heilsuverndar. Slíkar reglur ganga ekki framar ákvæðum kjarasamninga sem að jafnaði mæla fyrir um tilkynningu til næsta yfirmanns.

Læknisvottorð

Krefjist atvinnurekandi læknisvottorðs til sönnunar forföllum vegna veikinda ber honum að greiða fyrir útgáfu vottorðsins. Um þeta eru alls staðar ákvæði í kjarasamningum  og reglugerð um opinbera starfsmenn.

 
Læknisvottorð er skrifleg yfirlýsing læknis um ástand annars manns, líkamlegt eða andlegt, og byggt á sérþekkingu læknisins. Læknirinn verður oft að reiða sig á lýsingu sjúklingsins  á líðan sinni ef ekki eru augljós merki sjúkdóms eða slyss, svo sem sótthiti, bólga eða brotin bein. Svo sem læknalög segja, ber lækni að sýna varkárni og nákvæmni við útgáfu vottorða. Oft er læknum þó vandi á höndum, og hafa raddir úr þeirra hópi haldið því fram að óeðlilegt sé að krefjast læknisvottorða af starfsmanni í hvert skipti sem veikindi verða. Það sé misnotkun á læknum og  lýsi aðeins trúnaðarbresti milli starfsmanna og atvinnurekenda. Hafa læknar jafnvel gefið út vottorð um það eitt að þeim hafi verið tjáð af viðkomandi manni að hann hafi talið sig veikan ákveðna daga. Ljóst er að slík vottorð hafa ekkert gildi. 
 
Samkvæmt 19.gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012 ber að sýna varkárni og nákvæmni við útgáfu vottorða og annarra yfirlýsinga. Skal votta það eitt er vitað er sönnur á. Ráðherra er heimilt að setja nánari nánari reglur um gerð og útgáfu vottorða í reglugerð. Reglur nr. 586/1991 um útgáfu læknisvottorða voru gefnar út árið 1991 og áttu aðilar vinnumarkaðarins aðild að samningu þeirra. Þar er meðal annars kveðið á um það að lækni beri skylda til að votta samskipti sín og sjúklings, óski sjúklingur eftir því, eða eftir atvikum foreldri eða forráðamaður eða annar umboðsmaður hans. Við útgáfu læknisvottorða skal læknir sérstaklega hafa í huga tilgang vottorðsins. Hann skal gæta fyllstu varkárni og nákvæmni við gerð læknisvottorða og einungis votta þau atriði er hann veit sönnur á læknir skal ekki staðhæfa annað í vottorði en hann hefur sjálfur sannreynt og geta skal nákvæmlega þeirra heimilda er vottorðið kann að styðjast við. Greina skal glögglega milli frásagnar annara, eigin athugunar læknis og álits hans. Lækni ber að hafa þagnarskyldu sína og siðareglur í huga við gerð læknisvottorðs. Hann skal sérstaklega gæta þess að óviðkomandi aðilum séu ekki látin í té læknisvottorð nema fyrir liggi samþykki sjúklings. Lækni ber að vanda allan frágang vottorðs . Notast skal við íslenskt orðaval og því aðeins erlend fræðiheiti að íslensk orð skorti. 
 
Viðkomandi heilsugæslulæknir eða heimilislæknir á að hafa yfirlit yfir sjúkrasögu sjúklings og hann er sá sem gefur út veikindavottorð til atvinnurekanda. Atvinnurekandi getur ekki farið fram á það að fá vottorð frá öðrum en heimilislækni eða heilsugæslulækni. Hann getur því ekki beðið um vottorð frá skurðlækni eð svæfingalækni. Hann getur heldur ekki leitt sem vitni í dómsmáli aðra lækna en þá sem sinnt hafa hinum veika sbr. m.a. Hrd. 631/2013 en þar var fjallað um úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á beiðni L ehf. um að leiða sem vitni fyrir héraðsdóm þrjá lækna í því skyni að færa sönnur á hvort skilyrðum 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 væru uppfyllt í máli sem J höfðaði á hendur L ehf. til heimtu veikindalauna á grundvelli ákvæðisins, en málsaðila greindi á um hvenær J hefði veikst í merkingu þess. Hæstiréttur felldi úrskurð héraðsdóms úr gildi að því er varðaði heimild L ehf. til að leiða læknana JK og ÓÁ sem vitni í málinu þar sem fyrir lægi að þeir hefðu ekki annast J í veikindum sem hann reisti málsókn sína á og að því yrðu skýrslugjafir þeirra fyrir dómi ekki reistar á reglum VIII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hæstiréttur staðfesti á hinn bóginn hinn kærða úrskurð varðandi heimild L ehf. til að leiða lækninn ÓG sem vitni í málinu þar sem talið var að skilyrði 3. mgr. 18. gr. laga nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn væru uppfyllt hvað hann varðaði, enda gætu úrslit málsins oltið á framburði þess læknis sem annast hefði J í veikindum hans.
 
Dragi atvinnurekandi gildi læknisvottorðs starfsmanns í efa verður hann að hnekkja því, svo sem með því að fá vottorð frá trúnaðarlækni sínum þar um. Dómstólar hafa í nokkrum tilvikum tjáð sig um gildi og þýðingu læknisvottorða.
 
Í Hrd. 297/1984 var staðfestur dómur héraðsdóms í máli það sem deilt var um gildi læknisvottorðs sem gefið var út til að sanna veikindi sjómanns. Vottorðið var gefið út þremur dögum eftir að skip hélt úr höfn, en þá fyrst hafði sjómaðurinn samband við lækni. Útgerðin var sýknuð af kröfum sjómannsins, þar sem umrætt læknisvottorð væri ekki hægt að leggja til grundvallar sem sönnunargagn um veikindaforföll mannsins.
 
Skv. Hrd. 298/2001 ber atvinnurekanda sem ber brigður á tilkynnta veikindafjarvist starfsmanns síns að gera kröfu um að launamaður afli slíks vottorð áður en gripið er til aðgerða eins og t.d. brottvikningar. Geri hann það ekki getur hann ekki síðar borið það fyrir sig að launamaður hafi verið frá störfum án lögmætrar ástæðu. 
 
Í dóm Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 1992 var fjallað um hugtakið læknisvottorð. Þar sagði að svarbréf læknis um við fyrirspurn lögmanns um heilsufar konu áður en tiltekin aðgerð var framkvæmd, sem skrifað var þremur árum eftir aðgerðina, verði ekki talið læknisvottorð í skilning kjarasamnings. 

Læknisskoðanir

Stundum er að því spurt hvort nauðsynlegt sé að skoðun fari fram hjá lækni svo að starfsmaður eigi rétt til launagreiðslna í veikindum. Í lögum um uppsagnarfrest og veikindarétt nr. 19/1979 er einungis fjallað um þörf á læknisvottorði sem sönnun fyrir veikindum starfsmanns óski atvinnurekandi þess. Atvinnurekandi getur ekki ákveðið hvaða athugun þurfti að fara fram til að læknir gefi út vottorð um heilsufar sjúklings. Það er alfarið mat læknisins en ekki atvinnurekandans en atvinnurekandinn getur krafist fullnægjandi læknisvottorðs.


Er skylt að fara í læknisskoðun
Í lögum er kveðið á um læknisskoðanir í ákveðnum tilvikum, t.d. í vinnuverndarlögum nr. 46/1980 og sóttvarnalögum nr. 19/1997 og skilyrði til vissra starfa eru bundin heilsufari, svo sem er með flugmenn og kennara. Hér er þó verið að fjalla um læknisskoðun sem skilyrði fyrir greiðslu atvinnurekanda í veikindum. Atvinnurekandi getur ekki skyldað starfsmann til að undirgangast læknisskoðun. Vakni spurningar um réttmæti læknisvottorðs getur atvinnurekandi alltaf snúið sér til trúnaðarlæknis síns, séu ekki ákvæði um læknisskoðanir í kjarasamningi. 

Ákvæði kjarasamninga
 
Dæmi eru um það í kjarasamningum að starfsmönnum sé skylt að undirgangast læknisrannsókn. Slík ákvæði er til dæmis að finna í kjarasamningi ÍSAL. Hér er um að ræða reglubundnar læknisskoðanir sem teljast hluti af fyrirbyggjandi heilsugæslu en veita atvinnurekanda engan rétt til skoðunar í veikindum og verða atvinnurekendur að fá trúnaðarlækna sér til aðstoðar.

Trúnaðarlæknar

Trúnaðarlæknar eru læknar sem fyrirtæki og stofnanir ráða til starfa. Samkvæmt reglum, sem Læknafélag Íslands hefur mótað, veitir trúnaðarlæknir forráðamönnum fyrirtækja og stofnana ráðgjöf varðandi læknisfræðileg málefni viðkomandi rekstri. Trúnaðarlæknir veitir ráðgjöf vegna fjarvista starfsmanna í veikinda- og slysatilfellum, meðal annars varðandi læknisvottorð. Trúnaðarlæknir fyrirtækis gefur almennt ekki út læknisvottorð starfsmanna til fyrirtækisins. Ef aðilar eru sammála um slíkt getur trúnaðarlæknir annast reglubundið heilsufarseftirlit meðal starfsfólks, enda verði um það samið sérstaklega. Í samráði við vinnuveitanda ákveður trúnaðarlæknir nánar um alla framkvæmd á heilsufarseftirliti. Trúnaðarlæknir býður upp á fastan viðverutíma í húsnæði fyrirtækis eða stofnunar með 100 starfsmenn eða fleiri. Trúnaðarlækni er skylt að gæta hagsmuna starfsmanna varðandi allt sem gæti spillt heilsu þeirra í starfi. Samráð skal haft við Vinnueftirlit ríkisins þegar ástæða þykir til. Trúnaðarlæknir gegnir ekki hlutverki heimilislæknis fyrir starfsfólk. Honum ber ekki skylda til að sinna veikindum eða slysatilfellum sem upp koma nema í neyðartilvikum enda hafi viðkomandi aðgang að heimilislækni eða slysavarðstofu. Æskilegt er að trúnaðarlæknir sé ekki jafnframt heimilislæknir starfsmanna fyrirtækisins. Í starfi sínu fer trúnaðarlæknir ávallt eftir ákvæðum siðareglna lækna og læknalaga. Sjá nánar t.d. grein Daggar Pálsdóttur í 5.tbl. Læknablaðisins 2014 "Trúnaðarlækningar".

""
Trúnaðarlæknar eru launaðir af atvinnurekanda og gegna trúnaði við hann. Vilji trúnaðarlæknir fá upplýsingar um heilsufar einstakra starfsmanna vegna forfalla ber honum að snúa sér til heilsugæslulæknis eða heimilislæknis starfsmannsins.

Fyrirtæki í eigu lækna hefur rekið svokallaða heilbrigðisráðgjöf á vinnustöðum í nokkur ár. Ráðgjöfin er fyrst og fremst fólgin í því að læknir tekur að sér að fylgjast með fjarvistum starfsmanna en minni áhersla virðist lögð á heilsuvernd. Þau fyrirtæki sem gera samning við þetta fyrirtæki skylda starfsmenn fyrirtækisins til að tilkynna veikindi sín beint til þess. Þó svo að í rammasamningi, sem gerður er milli atvinnurekenda og fyrirtækis, sé tekið fram að læknirinn sé í senn trúnaðarmaður fyrirtækis og starfsmanna þess er ljóst að trúnaðurinn getur aðeins legið öðru megin, en rétt er að minna hér á þagnarskyldu lækna. Skráning veikinda hjá fyrirtækinu gerir það að verkum að mikilvægur gagnagrunnur hefur fengist um veikindaforföll hér á landi og hefur kjararannsóknarnefnd aðgang að þessum upplýsingum. Allar upplýsingar um heilsufar starfsmanna eru viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi laga og ber að fara með þær sem slíkar.

Það er álit ASÍ að einhliðareglur atvinnurekenda um tilkynningu veikinda til annarra en næsta yfirmanns geti aldrei leitt til þess að launamaður glati rétti til greiðslu launa í veikindum hafi hann á annað borð tilkynnt þau skv. ákvæðum kjarasamninga. 

Fæðingarorlof og veikindi

Veikindaréttur barnshafandi kvenna er til staðar þann tíma sem þær eru í vinnu. Þegar fæðingarorlof hefst fellur réttur foreldra til launa í veikindum niður sem og aðrar launagreiðslur frá atvinnurekanda, nema um annað hafi verið samið. 


Þegar fæðingarorlofi lýkur eiga foreldrar að hefja störf að nýju hjá atvinnurekanda. Hamli veikindi því að fólk mæti til vinnu eftir fæðingarorlof gilda almennar veikindareglur um rétt til launa. Starfsmaður verður að sjálfsögðu að sýna fram á veikindi sín með venjulegum hætti, sinna tilkynningarskyldu sinni o.fl. til þess að geta notið þessara réttinda.

Fæðingarorlof telst og ekki innan þess 12 mánaða tímabils sem greiðsluréttur í veikindum miðast almennt við.  Þegar veikindaréttur starfsmanns sem snýr til baka úr fæðingarorlofi er metinn er einfaldlega litið til síðustu 12 mánaða hans í starfi og litið er framhjá fæðingarorlofstímabilinu þ.e. greiðsluréttur ávinnst ekki í fæðingarorlofi.

Veikindi í orlofi

Komi veikindi í veg fyrir að maður geti farið í orlof á þeim tíma sem atvinnurekandi ákveður getur maður farið í orlof á öðrum tíma samkvæmt 6. gr. orlofslaga nr. 30/1987. Þó skal orlofi hans vera lokið fyrir 31. maí næstan á eftir. Í kjarasamningum er samið um það að veikist maður í orlofi  geti hann fengið viðbótarorlof að uppfylltum ákveðnum formskilyrðum. Sjá nánari umfjöllun í kaflanum um veikindi í orlofi hér

Er hægt að semja af sér veikindarétt

Lög um uppsagnarfrest og veikindarétt nr. 19/1979 kveða á um lágmarksrétt. Samkvæmt 10. gr. þeirra eru ákvæði samnings milli atvinnurekanda og launamanns, sem brjóta í bága við lögin, ógild ef þau rýra rétt launamannsins. Þar segir ennfremur að haldast skuli þau réttindi sem veitt eru með sérstökum lögum, samningum eða leiða af venju í einstökum starfsgreinum, ef þau eru launamanninum hagstæðari en ákvæði laganna.

 
Launafólk getur því ekki samið þennan rétt af sér. Í Hrd. 1981:1559 var tekist á um túlkun á þessu ákvæði. Þótt dómurinn fjalli um uppsögn var  deilt um túlkun á því ákvæði laganna sem bæði nær til uppsagnarþáttar laganna og veikindaþáttar. Í málinu var deilt um það hvort heimilt hefði verið að semja um styttri uppsagnarfrest þar sem starfsmaður hafði áður gerst brotlegur vegna áfengisnotkunar á vinnustað. Starfsmanninum hafði verið gerð grein fyrir því að ef hann stæði sig ekki og neytti áfengis í vinnutíma eða gæti ekki mætt í vinnu sakir áfengisneyslu yrði litið svo á að hann væri hættur störfum. Hann gekkst við þessum skilmálum fyrir áframhaldandi vinnu. Honum var vikið úr starfi stuttu síðar vegna meintrar áfengisneyslu er hann mætti ekki í vinnu fyrr en eftir hádegi einn laugardag, en starfsmaðurinn bar fyrir sig bráða tannrótarbólgu sem ástæðu fráveru. Dómstólar sýknuðu atvinnurekanda af kröfu um greiðslu launa á uppsagnarfresti og segir í dómi Hæstaréttar að heimilt hafi verið að gera slíkan samning þrátt fyrir ákvæði 7. gr. l. nr. 16/1958 (Nú 10. gr. l. 19/1979) þar sem telja verði að samningurinn í heild hafi ekki rýrt rétt starfsmannsins. 

Veikindi barna

Meginregla vinnuréttar er sú að veikindaréttur stofnast vegna eigin veikinda en ekki annarra. Reglur kjarasamninga um sérstakan veikindarétt vegna veikra barna er undantekning þar frá. Í almennum  kjarasamningum (2015) segir: „Fyrstu sex mánuði í starfi hjá vinnuveitanda er foreldri heimilt að verja tveimur dögum fyrir hvern unninn mánuð til aðhlynningar sjúkum börnum sínum undir 13 ára aldri, enda verði annarri umönnun ekki við komið. Eftir 6 mánaða starf verður rétturinn 12 dagar á hverju 12 mánaða tímabili. Foreldri heldur dagvinnulaunum sínum, svo og vaktaálagi þar sem það á við. Með vísan til reglna um greiðslur vegna veikinda barna, er það sameiginlegur skilningur aðila, að með foreldri sé einnig átt við fósturforeldri eða forráðamann, sem er framfærandi barns og komi þá í stað foreldris.“  Þessi veikindaréttur er sjálfstæður og dregst ekki frá almennum veikindarétti vegna eigin veikinda.