Hlutastörf

Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins undirrituðu í nóvember árið 2002 kjarasamning um hlutastörf. Meginmarkmiðið með samningnum er að afnema mismunun gagnvart starfsmönnum í hlutastörfum og stuðla að auknum gæðum slíkra starfa. Þannig á að greiða fyrir því að starfsmenn eigi völ á hlutastörfum og sveigjanlegri tilhögun vinnutíma þannig að tekið sé tillit til þarfa bæði vinnuveitanda og starfsmanna.

Starfsmenn í hlutastörfum skulu þannig ekki njóta hlutfallslega lakari kjara eða sæta lakari meðferð en sambærilegir starfsmenn í fullu starfi af þeim ástæðum einum að þeir eru ekki í fullu starfi.  Sé raunin önnur ber atvinnurekendum skylda til að réttlæta slíkt á grundvelli hlutlægra ástæðna.

Í kjarasamningum einstakra stéttarfélaga eða landssambanda eru ákvæði þar sem frekar er vikið að réttindum starfsmanna í hlutastörfum.

Þar sem kjarasamningur SA og ASÍ um hlutastörf frá 2002 nær einungis til þeirra starfsmanna sem taka laun eftir kjarasamningum ASÍ og SA þótti nauðsynlegt að setja ákvæði í lög um réttindi starfsmanna í hlutastörfum almennt sem þá tækju einnig til þeirra sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum. Lög nr. 10/2004 um starfsmenn í hlutastörfum eru að efni til nær samhljóða fyrrnefndum kjarasamningi.

Samkvæmt lögunum taka þau til starfsmanna sem ekki eru með kjarasamningi tryggð þau lágmarksréttindi sem svara til efnisákvæða tilskipunar 97/81/EB um rammasamninginn um hlutastörf.  Þá hafa lögin ekki áhrif á efni kjarasamninga sem gerðir eru til að innleiða efni tilskipunarinnar að því tilskildu að í þeim felist ekki lakari réttur en felst í tilskipuninni.

Hvað er hlutastarf

Starfsmaður telst vera í hlutastarfi ef venjulegur vinnutími hans á viku eða að meðaltali miðað við heilt ár er styttri en sambærilegs starfsmanns í fullu starfi.

Með sambærilegum starfsmanni er átt við starfsmann sem starfar í sama fyrirtæki á grundvelli samskonar ráðningarfyrirkomulags og vinnur sama eða sambærilegt starf að teknu tilliti til annarra áhrifaþátta svo sem starfstíma, kunnáttu og hæfni. Sé ekki til að dreifa sambærilegum starfsmanni í sama fyrirtæki skal samanburður gerður með vísan til viðeigandi kjarasamnings eða þar sem slíkum samningi er ekki til að dreifa með vísan til laga, annarra kjarasamninga eða venju.

Í Félagsdómi nr. 25/2015 reyndi á skilgreiningu hugtaksins hlutavinnustarfsmaður. A var í ráðningarsambandi við fyrirtæki á þann veg að A var á svokölluðum úthringilista og vann tilfallandi.  Á honum hvíldi ekki tiltekin vinnuskylda og gat hann hafnað útkalli ef hann kysi það. Ágreiningurinn laut að ávinnslu réttinda með samfelldum starfstíma. Fyrirtækið hélt því fram að í hvert sinn sem A sinnti útkalli hefði stofnast nýr tímabundinn ráðningarsamningur. Félagsdómur virðist hafna þessu og kemst að þeirri niðurstöðu að um hlutastarf hafi verið að ræða þó vinnan væri tilfallandi. Í Félagsdómi segir: „Að þessu gættu verður að líta svo á að [..] hafi á umræddu tímabili verið hlutastarfsmaður í skilningi a-liðar 3.mgr. laga nr. 10/2004, sbr. 1. tölulið 3. ákvæðis tilskipunar nr. 97/81/EB.“ Hann kemst síðan að þeirri niðurstöðu að þetta ráðningarsamband sé ekki sambærilegt við ráðningarsambandi starfsmanns í fullu starfi og af þeim ástæðum var sýknað. Sambærilegi starfsmaðurinn í málinu hefði skv. því átt að vera einstaklingur í sambærilegu ráðningarsambandi þ.e. sem vinnur tilfallandi. Þeir sem þannig unnu nutu hins vegar sömu ávinnslu réttinda og A. Þessi niðurstaða er í samræmi við niðurstöður Evrópudómstólsins sbr. t.d. C-313/02.     

Skyldur atvinnurekanda

Í kjarasamningnum eru í nokkrum liðum taldar upp þær skyldur sem atvinnurekendur skulu leitast við að uppfylla til að greiða fyrir sveigjanleika í vinnutíma fyrir starfsmenn. Þær eru:

1. Að taka tillit til óska starfsmanns um að flytjast úr fullu starfi í hlutastarf eða úr hlutastarfi í fullt starf.
2. Taka tillit til óska starfsmanns um að auka eða minnka starfshlutfall sitt, skapist svigrúm til þess.
3. Auðvelda aðgang að hlutastörfum á öllum stigum fyrirtækisins, þar á meðal að sérhæfðum störfum og stjórnunarstörfum.
4. Veita tímanlega upplýsingar um störf sem losna á vinnustaðnum, þar með talið hlutastörf, til að auðvelda flutning úr hlutastarfi í fullt starf og öfugt
5. Greiða fyrir aðgangi hlutavinnufólks að starfsmenntun og starfsþjálfun, m.a. í því skyni þeir geti aukið hæfni sína og til að stuðla að starfsframa og hreyfanleika í starfi.
6. Veita trúnaðarmönnum starfsmanna upplýsingar um hlutastörf á vinnustað.

Uppsögn

Fram kemur í samningnum að það teljist ekki vera gilda ástæða uppsagnar að starfsmaður neiti að fara úr fullu starfi í hlutastarf eða öfugt. Meira þarf til og vísar 3.mgr. 4.gr. laga nr. 10/2004 um starfsmenn í hlutastörfum til þess að uppsögn teljist ekki andstæð lögunum ef hún er í samræmi við lög, kjarasamninga eða venju og stafar af öðrum ástæðum, svo sem rekstrarþörfum viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar.

Tilskipun Evrópusambandsins um hlutastörf

Samningur ASÍ og SA um hlutastörf er gerður til að hrinda í framkvæmd efni tilskipunar EBE um hlutastörf (97/81/EBE) en efnisatriði hennar byggja á rammasamningi aðila vinnumarkaðarins í Evrópu, UNICE, CEEP og ETUC, sem aðilar þessa samnings eiga aðild að. Nánar um efni og túlkun tilskipunarinnar má finna hér.