Fjarvinna

Fjarvinna er form hvað varðar skipulag og/eða framkvæmd vinnu með notkun upplýsingatækni innan ramma ráðningarsamnings eða í ráðningarsambandi þar sem vinna sem einnig væri hægt að inna af hendi í starfsstöð launagreiðanda er unnin reglulega utan þeirrar starfsstöðvar. Fjarvinnustarfsmaður er hver sá sem vinnur fjarvinnu eins og hún er skilgreind hér að ofan. 

Samtök atvinnulífsins (SA) sem aðildarsamtök UNICE og Alþýðusamband Íslands (ASÍ) sem aðildarsamtök ETUC eru aðilar að rammasamningi ETUC og EROCADRES/CEC annars vegar og UNICE/UEAPME og CEEP hins vegar um fjarvinnu frá 16. júlí 2002 og innleiddu þann rammasamning með kjarasamningi sem undirritaður var 5. maí 2006. Til grundvallar rammasamningnum liggur að aðilar vinnumarkaðarins líta á fjarvinnu sem leið til að nútímavæða skipulag vinnunnar, samræma atvinnuþátttöku og einkalíf og veita starfsmönnum meira sjálfræði við framkvæmd verkefna sinna. 

Efni þessa kafla endurspeglar kjarasamning aðila. 

Upptaka fjarvinnu

Fjarvinna byggir á frjálsu vali viðkomandi starfsmanns og launagreiðanda og  getur verið hluti upphaflegrar starfslýsingar eða hafa komist á síðar sem óþvingað val aðila.  

Þegar fjarvinna er tekin upp ber launagreiðanda að gefa fjarvinnustarfsmanni skriflega viðeigandi upplýsingar með sama hætti og gert er þegar ráðningarsamningar eru gerðir eða ráðning staðfest (sjá nánar kaflann Ráðningarsamningar – form og efni )  þar á meðal um viðeigandi kjarasamninga, lýsingu á þeirri vinnu sem inna skal af hendi o.s.frv.

Sérstaða fjarvinnu krefst að jafnaði skriflegra viðbótarupplýsinga um atriði eins og hvaða deild fyrirtækisins fjarvinnustarfsmaður er tengdur, hver sé næsti yfirmaður hans/hennar eða aðrir sem hann eða hún getur snúið sér til með spurningar er varða starfið eða persónuleg mál, fyrirkomulag við skýrslugjöf o.fl.

Sé fjarvinna ekki hluti upphaflegrar starfslýsingar og launagreiðandi býður fjarvinnu, getur launamaður tekið því tilboði eða hafnað því. Láti launamaður í ljós ósk til þess  að taka upp fjarvinnu getur launagreiðanda á sama hátt orðið við eða hafnað þeirri ósk. Með öðrum orðum þá byggist upptaka fjarvinnu, sé hún ekki hluti upphaflegrar ráðningar, á frjálsu vali. Í kjarasamningi ASÍ og SA er tekið fram að upptaka fjarvinnu hafi engin áhrif á stöðu fjarvinnustarfsmannsins sem launamanns og að höfnun starfsmanns á tilboði um fjarvinnu, er sem slík ekki gild ástæða fyrir uppsögn eða breytingum á ráðningarkjörum.

Sé fjarvinna ekki hluti upphaflegrar starfslýsingar er ákvörðun um að hefja fjarvinnu afturkallanleg samkvæmt ráðningarsamningi  og/eða kjarasamningi. Afturköllun getur falið í sér að horfið sé til starfs í starfsstöð launagreiðanda að ósk starfsmanns eða launagreiðanda. Nánari útfærsla byggir á ráðningarsamningi og/eða kjarasamningi.

Ráðningarkjör og réttindi

Fjarvinnustarfsmenn  skulu njóta sömu réttinda og sambærilegum starfsmönnum í starfsstöð launagreiðanda eru tryggð samkvæmt lögum og  kjarasamningum.  Hins vegar kann, til að taka tillit til sérstöðu fjarvinnunnar, að vera nauðsynlegt að gera viðbótar kjara- og/eða einstaklingsbundna samninga.

Sömu skilyrði gilda um þátttöku þeirra og framboð í kosningu í þeim  stofnunum sem koma fram fyrir hönd starfsmanna. Fjarvinnustarfsmenn eru taldir með við útreikning og ákvörðun viðmiðunarmarka stofnana (ráða) sem koma fram fyrir hönd starfsmanna í samræmi við lög, kjarasamninga eða venju. Tilgreina skal í upphafi hvaða einingu innan fyrirtækis launamaður tengist til að hann geti notið kjarasamningsbundinna réttinda sinna. 

Engar hömlur má leggja á samskipti fjarvinnustarfsmanna við trúnaðarmenn og trúnaðarmönnum skulu veittar upplýsingar og við þá haft samráð í samræmi við lög, kjarasamninga og venju  þegar fjarvinna er tekin upp.

Skipulag vinnunnar og þjálfun

Innan ramma laga, kjarasamninga og reglna fyrirtækisins skipuleggur fjarvinnustarfsmaður sjálfur vinnutíma sinn.

Viðmið varðandi vinnuálag og kröfur til fjarvinnustarfsmanns eru þau sömu og fyrir sambærilega starfsmenn í starfsstöð launagreiðanda.

Launagreiðanda tryggir að gerðar séu ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að fjarvinnustarfsmaður einangrist frá samfélagi við aðra starfsmenn í fyrirtækinu með því t.d. að gefa honum tækifæri til þess að hitta vinnufélaga með reglulegum hætti og eiga aðgang að þeim upplýsingum sem fyrirtækið veitir.

Fjarvinnustarfsmenn eiga sama aðgang að þjálfun og möguleikum til starfsframa eins og sambærilegir starfsmenn í starfsstöð launagreiðanda og skulu háðir sömu stefnu hvað varðar mat á árangri í starfi og þessir starfsmenn.

Fjarvinnustarfsmenn hljóta viðeigandi þjálfun með tilliti til þess búnaðar  sem þeir hafa til ráðstöfunar og sérkenna þessa forms á vinnuskipulagi. Yfirmaður fjarvinnustarfsmanns og beinir starfsfélagar hans geta jafnframt þurft þjálfun vegna þessa vinnuforms  og stjórnunar þess.

Búnaður

Meginreglan er sú, að launagreiðanda ber að útvega, tengja og halda við þeim búnaði sem nauðsynlegur er við reglulega fjarvinnu nema fjarvinnustarfsmaður noti sinn eigin búnað.

Sé fjarvinna innt reglulega af hendi, bætir eða greiðir launagreiðandi beinan kostnað sem stafar af vinnunni, sérstaklega hvað varðar kostnað við samskipti.

Launagreiðandi sér fjarvinnustarfsmanni fyrir viðeigandi möguleika á tæknilegri aðstoð.

Launagreiðandi ber í samræmi við landslög og kjarasamninga  ábyrgð á kostnaði vegna taps  og skemmda á búnaði og gögnum sem fjarvinnustarfsmaður notar.

Fjarvinnustarfsmaður fer vel með þann búnað sem honum er séð fyrir og safnar hvorki né dreifir ólöglegu efni um internetið.

Öll álitaefni er varða búnað, ábyrgð og kostnað skulu skilgreind á skýran hátt áður en fjarvinna hefst.

Aðbúnaður og hollustuhættir

Launagreiðandi ber ábyrgð á heilbrigði og öryggi fjarvinnustarfsmanns vegna vinnunnar í samræmi við löggjöf og kjarasamninga. Hann upplýsir fjarvinnustarfsmann um stefnu fyrirtækisins í heilbrigðis- og öryggismálum vegna vinnunnar sérstaklega hvað varðar skjávinnu. Fjarvinnustarfsmaður fer með réttum hætti eftir þessari stefnu.

Til þess að staðfesta að viðeigandi reglum um heilbrigði og öryggi sé fylgt  hafa launagreiðandi, trúnaðarmenn og/eða viðeigandi yfirvöld aðgang að þeim stað þar sem fjarvinna fer fram, með þeim takmörkum sem lög og kjarasamningar geyma. Vinni fjarvinnustarfsmaður á heimili sínu er slíkur aðgangur háður fyrirfram tilkynningu og samþykki hans/hennar. Fjarvinnustarfsmaður getur og óskað eftir eftirlitsheimsókn.

Vernd gagna og einkalífs

Launagreiðandi ber ábyrgð á því, einkanlega að því er varðar hugbúnað, að gerðar séu viðeigandi ráðstafanir, til þess að tryggja vernd þeirra gagna sem fjarvinnustarfsmaðurinn notar og vinnur með í starfi sínu.

Launagreiðandi upplýsir fjarvinnustarfsmann bæði um lagareglur sem máli skipta og reglur fyrirtækisins varðandi verndun gagna.

Það er á ábyrgð fjarvinnustarfsmannsins að fara eftir þessum reglum.

Launagreiðandi upplýsir fjarvinnustarfsmann sérstaklega um:

  • allar takmarkanir á notkun upplýsingatæknibúnaðar eða verkfæra eins og internetsins,
  • viðurlög ef ekki er eftir þeim farið.

Launagreiðandi ber að virða einkalíf fjarvinustarfsmanns. Sé komið fyrir einhverskonar eftirlitskerfi þá skal þess gætt að það sé í  hlutfalli við markmiðið og tekið upp í samræmi við reglur Vinnueftirlits um skjávinnu.