Rafræn vöktun

Algengasta inngrip inn í friðhelgi einkalífs einstaklinga á vinnumarkaði er með svokallaðri rafrænni vöktun atvinnurekanda. Skilyrði fyrir því að rafræn vöktun sé heimil er að atvinnurekandi hafi kynnt starfsfólki sínu vöktunina, frætt það um eðli og umfang hennar og viðeigandi svæði vinnustaðarins séu merkt sérstaklega þar sem rafræn vöktun á sér stað. Um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem til verða við hana, gildir sérstök reglugerð 837/2006. Jafnframt birtir Persónuvernd á vef sínum ítarlega leiðsögn um hvernig haga skuli rafrænni vöktun á vinnustöðum. Álitið er birt í tíð eldri laga frá árinu 2000 en engu að síður standa enn öll þau meginsjónarmið sem þar eru rakin.

Hefðbundin afbrigði rafrænnar vöktunar er notkun á:

1) eftirlitsmyndavélum;

2) ökusíritum og öðrum staðsetningarbúnaði;

3) aðgangsstýringu;

4) eftirliti með tölvupóst- og símanotkun.


Tilgangur rafrænnar vöktunar verður að vera málefnalegur, t.d. í öryggisskyni. Vöktun til að mæla afköst starfsfólks er eingöngu heimil í undantekningartilfellum, þegar:

 -        Ekki er unnt að haga verkstjórn á tilteknu svæði með öðrum hætti.

-         Ekki er hægt að tryggja öryggi á tilteknu svæði án slíkrar vöktunar.

Meginreglan er að allur einkatölvupóstur er friðheilagur og atvinnurekandi má ekki skoða hann. Eðli málsins samkvæmt gildir það sama um símanotkun. Undantekning er ef upp koma tæknileg vandamál svo sem tölvuveira og brýn nauðsyn verður á að skoða póst starfsfólks til að lagfæra skaðann. Skal þó tekið fram að um algjöra undantekningu er að ræða og skilyrðið um brýna nauðsyn skal túlka þröngt.

Samkvæmt lögum um persónuvernd skal atvinnurekandi móta sér vinnureglur hyggist hann hafa eftirlit með tölvupósti og/eða netnotkun starfsfólks og eiga þá áðurnefnd sjónarmið við um rafræna vöktun, þ.e. kynna skal starfsfólki inntak og umfang eftirlitsins og slíkt eftirlit er eingöngu heimilt ef forsendur þess eru málefnalegur og meðalhófs er gætt.

Við starfslok getur staðið eftir það álitamál hvernig skuli fara með tölvupóstfang starfsmanns. Að gefnu tilefni er því vert að vekja athygli á því að á þessu er sérstaklega tekið í nefndri reglugerð um rafræna vöktun. Þar segir að við starfslok skuli starfsmanni gefinn kostur á því að eyða og/eða taka afrit af tölvupósti sem ekki tengist starfsemi atvinnurekanda og eins skal starfsmanni gefinn kostur á því að virkja sjálfvirka svörun þar sem fram kemur að hann hafi látið af störfum. Atvinnurekanda er eðli málsins skv. áfram óheimilt að skoða tölvupóstfang starfsmanns í slíkum tilvikum en heimilt er þó að fengnu skýru og sannarlegu samþykki starfsmanns að búa svo um að tölvupóstur sem berst á tölvupóstfang viðkomandi skuli áframsent á annan starfsmann.