Vinnuréttarvefur

Ávinnsla orlofs

Lögbundinn lágmarksréttur - tveir dagar fyrir hvern mánuð

Samkvæmt 3. gr. orlofslaga nr. 30/1987 skal orlof vera tveir dagar fyrir hvern unninn mánuð á síðasta orlofsári. Hafi starfsmaður verið í starfi heilt orlofsár á hann því rétt á leyfi og samsvarandi orlofslaunum í 24 virka daga. Hafi hann hins vegar einungis unnið hluta orlofsársins á hann rétt á leyfi frá störfum en einungis hlutfallslegan rétt til orlofslauna. Í greininni segir að við útreikning orlofs, það er leyfisins, skuli reikna hálfan mánuð eða meira sem heilan mánuð en skemmri tími telst ekki með. Við útreikning á þessari skerðingu hefur félagsmálaráðuneytið túlkað það svo að rétt sé að telja allar launalausar fjarvistir á orlofsárinu saman og nái þær samanlagt 80 klukkustundum skerðist innvinnslan um 2 daga, það er hálfur mánuður reiknast sem heill, minna reiknast ekki.

Áhrif veikinda, slysa eða orlofs á orlofsrétt 
Í orlofslögunum segir að sá tími sem menn eru frá vinnu vegna veikinda, slysa eða orlofs teljist vinnutími í þessu sambandi. Hefur þetta verið skýrt þannig að starfsmaður vinni sér inn rétt til orlofs, það er frísins á meðan hann er á launaskrá vegna veikinda, slysa eða orlofs. Hafi hann hins vegar fullnýtt sér veikinda- eða slysarétt sinn telst sá tími sem hann er frá störfum ekki til innvinnslutímabils orlofs. Sama gildir um launalaust leyfi sem starfsmaður fær.     
  
Áhrif fæðingarorlofs 
Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof reiknast fæðingarorlof til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og réttar til atvinnuleysisbóta. 

Fæðingarorlof telst til unnins tíma við útreikning orlofsréttar, það er réttar til frítöku en ekki til orlofslauna. Það þýðir að starfsmaður sem hefur verið í 6 mánuði í fæðingarorlofi á rétt til 24 daga orlofs en einungis rétt til orlofsgreiðslna vegna 12 daga.

Lengd orlofs

Ákvæði orlofslaga um lengd orlofs

Samkvæmt 3. gr. orlofslaga nr. 30/1987 skal orlof vera tveir dagar fyrir hvern unninn mánuð á síðasta orlofsári og reiknast hálfur mánuður eða meira heill mánuður en skemmri tími telst ekki með. Það telst vinnutími samkvæmt greininni þótt maður sé frá vinnu vegna veikinda eða slysa meðan hann fær greitt kaup eða hann er í orlofi. Lágmarksorlof er því 24 virkir dagar á ári.

Sunnudagar og aðrir helgidagar teljast ekki orlofsdagar né heldur fyrstu fimm laugardagar í orlofi. Ákvæðið um að fyrstu fimm laugardagar í orlofi teldust ekki orlofsdagar kom inn í orlofslög 1982, þegar laugardagar hættu almennt að teljast til orlofsdaga. Það þótti ekki eðlilegt að þær stéttir, sem hefðu fyrir lengst orlof, myndu hagnast mest á þessari lagabreytingu, svo sem flugmenn, og því var breytingin aðeins látin ná til fyrstu fimm laugardaga í orlofi.   

Ákvæði kjarasamninga um betri orlofsrétt 
Víða í kjarasamningum er að finna ákvæði um betri orlofsrétt og miðast hinn aukni réttur almennt við starfsaldur hjá sama atvinnurekanda. Tryggð við vinnustaðinn er þannig launuð með lengri orlofsrétti.

Orlofsauki starfsmanna er almennt, að teknu tilliti til starfsaldurs eða aldurs viðkomandi, frá 3 upp í 6 daga.

Nánari upplýsingar um orlofsauka má sjá í kjarasamningum.