Vinnuréttarvefur

Aukafrídagar, aukahelgidagar

Vinnuvikan nær frá mánudegi til föstudags, að báðum dögum meðtöldum. Laugardagar og sunnudagar eru frídagar. Ákvæði um þetta er fyrst og fremst að finna í lögum um 40 stunda vinnuviku nr. 88/1971. Í 2. gr. laganna segir að unnar skuli 8 klukkustundir í dagvinnu að jafnaði á degi hverjum frá mánudegi til föstudags, nema annar vinnutími henti betur af sérstökum ástæðum og um það sé samið af aðilum. Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum tryggja það enn frekar að teknir séu frídagar. Segir þar að á hverju sjö daga tímabili skuli starfsmenn fá að minnsta kosti einn vikulegan frídag sem tengist beint samfelldum daglegum hvíldartíma. Að svo miklu leyti sem því verður við komið skal vikulegur frídagur vera sunnudagur. 

Til viðbótar helgarfríum liggur atvinnustarfsemi niðri nokkra daga á ári, svokallaða aukafrídaga eða aukahelgidaga. Vinnutími fólks styttist því sem þessu nemur þegar litið er til heildarvinnutíma yfir árið. Aukafrídagar eru í dag flestir lögbundnir. Falla sumir þeirra alltaf á sama vikudag, t.d. sumardagurinn fyrsti, uppstigningardagur, páskar, hvítasunna og frídagur verslunarmanna en aðrir fylgja ákveðnum mánaðardögum, svo sem jól, áramót og 17. júní. Því er fjöldi frídaga breytilegur frá ári til árs eftir því hversu margir þessara daga falla á helgar. Að meðaltali munu þetta vera um 11 dagar á ári. 

Um aukahelgidaga er fjallað í lögum og kjarasamningum. Sjómannadagurinn er lögbundinn frídagur sjómanna einna og um hann gilda sérstök lög. Í kjarasamningum er sérstaklega fjallað um vinnu á aukahelgidögum, um greiðslur fyrir slíka vinnu og orlof í stað vinnu.

Aukafrídagar skv. lögum um 40 stunda vinnuviku

Lög um 40 stunda vinnuviku nr. 88/1971 kveða á um það í 6. gr. að frídagar séu helgidagar þjóðkirkjunnar, sumardagurinn fyrsti, 1. maí og 17. júní, ennfremur aðfangadagur jóla og gamlársdagur frá kl. 13. Frá og með árinu 1983 varð fyrsti mánudagur í ágúst einnig frídagur. 

 
1. Helgidagar þjóðkirkjunnar 
 
Í lögum um helgidagafrið nr. 32/1997 er að finna upptalningu á því hvaða dagar teljast til helgidaga þjóðkirkjunnar. 

Þeir eru samkvæmt 2. gr. 
1. sunnudagar, annar dagur jóla, nýársdagur, skírdagur, annar dagur páska, uppstigningardagur og annar dagur hvítasunnu, 
2. föstudagurinn langi, páskadagur og hvítasunnudagur og 
3. aðfangadagur jóla frá kl. 18.00 og jóladagur til kl. 6.00 að morgni næsta dags. 

Í lögunum er ennfremur fjallað um það hvernig mönnum beri að haga sér á helgidögum þjóðkirkjunnar. Þar segir að á helgidögum skv. 1. tl. sé öll almenn starfsemi heimil, á helgidögum skv. 2. og 3. tl. sé eftirfarandi starfsemi óheimil: 

a. skemmtanir, svo sem dansleikir eða einkasamkvæmi á opinberum veitingastöðum eða á öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að. Hið sama gildir um opinberar sýningar og skemmtanir þar sem happdrætti, bingó eða önnur svipuð spil fara fram, 
b. markaðir og verslunarstarfsemi, svo og önnur viðskiptastarfsemi. 

Á föstudaginn langa, páskadag og hvítasunnudag má eftirfarandi starfsemi þó fara fram: starfsemi lyfjabúða, bensínstöðva, bifreiðastöðva, verslana á flugvöllum og fríhafnarsvæðum, blómaverslana, söluturna og myndbandaleiga. Hið sama gildir um gististarfsemi og tengda þjónustu. Ennfremur íþrótta- og útivistarstarfsemi, listsýningar, tónleika, leiksýningar og kvikmyndasýningar o.þ.h. 

Lögin um helgidagafrið ganga ekki eins langt og lögin um 40 stunda vinnuviku hvað viðkemur vinnu á aðfangadag. Þar segir að til helgidaga þjóðkirkjunnar teljist aðfangadagskvöld jóla eftir kl. 18.00 en í lögunum um 40 stunda vinnuviku nær helgin frá kl. 13.00 á aðfangadag. Á gamlársdag er ekki minnst í lögunum um helgidagafrið og er hann ekki einn af helgidögum þjóðkirkjunnar, en í lögunum um 40 stunda vinnuviku telst gamlársdagur frídagur frá kl. 13.00. 
 
2. Aðrir aukafrídagar 
 
Sumardagurinn fyrsti, 1. maí, 17. júní, frídagur verslunarmanna og gamlársdagur frá kl. 13 eru almennir frídagar samkvæmt lögunum um 40 stunda vinnuviku. Forsaga þessara daga er misjöfn og þeir hafa sumir verið frídagar á Íslandi mjög lengi en aðrir komið inn síðar. Sumardagurinn fyrsti á sér þannig langa sögu hér á landi, 1. maí var fyrst haldinn hátíðlegur 1923, varð fánadagur 1944 en varð ekki lögbundinn frídagur fyrr en löngu síðar, 17. júní varð frídagur við lýðveldisstofnunina 1944 og frídagur verslunarmanna var fyrst haldinn hátíðlegur af verslunarmönnum á síðari hluta 19. aldar. Hann varð ekki lögbundinn frídagur fyrr en 1983.

Aðrir frídagar

Sjómannadagur 

 
Samkvæmt lögum um sjómannadag nr. 20/1987 skal fyrsti sunnudagur í júnímánuði ár hvert vera almennur frídagur sjómanna með ákveðnum takmörkunum þó. Beri hvítasunnudag upp á fyrsta sunnudag í júní skal sjómannadagur haldinn næsta sunnudag á eftir. Lögin ná til annarra íslenskra sjómanna en þeirra sem eru á íslenskum farskipum sem sigla milli Íslands og annarra landa, á ferjum milli lands og eyja og starfsmanna Landhelgisgæslunnar. Öll fiskiskip skulu liggja í höfn á sjómannadag og hafa komið til hafnar eigi síðar en kl. 12 á laugardegi fyrir sjómannadag og láta ekki úr höfn fyrr en kl. 12 á hádegi næsta mánudag. Þótt sjómannadagur nái þannig aðeins til hluta launafólks, ber hann upp á sunnudag, sem er almennur frídagur, og hann er almennur fánadagur. 

Nánar er fjallað um sjómannadag í kjarasamningi Sjómannasambands Íslands, grein 1.14. Þar segir, líkt og að framan greinir, að öll fiskiskip skuli liggja í höfn um sjómannadag og hafa komið til hafnar eigi síðar en kl. 12.00 á hádegi á laugardegi fyrir sjómannadag og láta ekki úr höfn fyrr en kl. 12.00 á hádegi næsta mánudag. Samfellt frí í tengslum við sjómannadag skal þó vera 72 klst. og telst það til innunninna fría skv. samningnum. Skipverjar skulu ekki vera skyldir til vinnu á framangreindu tímabili nema öryggi skipsins sé í hættu. Að öðru leyti fer um frí á sjómannadaginn eftir því sem segir í lögum nr. 20/1987.

Hafnarfrí um jól og áramót

Á skipum sem stunda veiðar skv. kjarasamningi Sjómannasambands Íslands skal skipverjum tryggt hafnarfrí frá kl. 12.00 á hádegi á Þorláksmessu til kl. 24.00 annan í jólum og frá kl. 16.00 á gamlársdag til kl. 24.00 á nýársdag. 

Hafnarfrí um jól er heimilt að telja sem 30 klst. í lágmarkshafnarfríum samkvæmt kjarasamningi, en áramótafríið skal vera viðbót við lágmarkshafnarfrí samkvæmt kjarasamningi.

Frávíkjanlegar reglur

Ákvæði um frí um sjómannadagshelgina og um jól og áramót eru frávíkjanleg ef um er að ræða skip sem ætlað er að sigla með afla sinn á erlendan markað, enda sé skipshöfn kunn sú fyrirætlan áður en veiðiferð hefst. Sé siglt á sjómannadegi eða jólum skulu skipverjar fá 36 klst. frí til viðbótar samningsbundnu lágmarksfríi að siglingu lokinni.

Aðfangadagur og gamlársdagur 
 
Eins og að framan er getið eru aðfangadagur og gamlársdagur lögskipaðir frídagar frá kl. 13.00 á hádegi. Í kjarasamningum eru hins vegar ákvæði um það að þessir dagar skuli vera frídagar frá kl. 12.00 á hádegi.

Ákvæði kjarasamninga um aukahelgidaga

Samningsákvæði sem lúta að aukafrídögum fjalla í fyrsta lagi um það hvaða dagar teljist vera aukafrídagar, í öðru lagi um það hvaða greiðslur skuli koma fyrir þá daga sem fólk vinnur ekki og í þriðja lagi hvernig skuli greiða fyrir vinnu sem unnin er á aukahelgidögum. 

 
Hvaða dagar eru aukafrídagar
 
Í kjarasamningum er sums staðar talið upp hvaða dagar eru aukafrídagar og þá þar með helgidagar þjóðkirkjunnar, þannig að þótt lagaákvæðin skorti um helgidaga þjóðkirkjunnar sjá kjarasamningar til þess að fólk eigi rétt á fríi þessa daga. Jafnvel þótt helgidagar þjóðkirkjunnar séu ekki taldir upp í kjarasamningi og ekki sé að finna ákvæði um þá í lögum er, eins og áður er tekið fram, hefðuð venja fyrir því hvaða dagar teljast aukahelgidagar. Því myndi atvinnurekandi ekki geta skipað starfsfólki sínu að vinna á uppstigningardag eða skírdag nema sérstaklega hafi verið um það samið milli aðila og sérstök greiðsla komi fyrir. 

Helgi aðfangadags og gamlársdags hefst kl. 12.00 í kjarasamningum eins og áður er fram komið, en ekki kl. 13.00 eins og í lögunum um 40 stunda vinnuviku. 
 
Réttur til launa á aukafrídögum 
 
Þótt tilteknir dagar séu lögskipaðir frídagar fylgir því ekki sjálfkrafa réttur til launa þá daga sem fólk er í fríi. Þótt kjarasamningar geri almennt ráð fyrir að starfsfólk öðlist strax rétt til óskerts vikukaups og þannig óskertra launa á aukahelgidögum er það þó ekki algilt. Þannig segir í kjarasamningi SGS að verkamaður verði að hafa unnið hjá sama vinnuveitanda samfellt í 1 mánuði til að öðlast rétt á óskertu vikukaupi þannig að samningsbundnir frídagar sem falla á mánudaga til og með föstudaga séu greiddir. Í samningnum er ennfremur skýrt út hvað átt sé við með samfelldri eins mánaðar vinnu hjá sama vinnuveitanda. Það er full dagvinna í einn mánuð, enda jafngildi fjarvistir vegna veikinda, slysa, orlofs, verkfalla eða verkbanna fullri vinnu svo og ef vinna fellur niður vegna hráefnisskorts eða sambærilegra orsaka. 

Það kaup sem greitt er fyrir aukafrídaga er dagvinnukaup. Réttur til staðgengilskaups eða yfirvinnugreiðslna er ekki til staðar. 
 
Launagreiðslur fyrir unna aukafrídaga 
 
Þegar starfsmenn einhverra hluta vegna vinna aukafrídaga er aukalega greitt fyrir þá. Í kjarasamningum eru ítarleg ákvæði um greiðslur fyrir vinnu á aukafrídögum og eru þeir mishelgir og því misdýrir í þessu sambandi. Greint er á milli stórhátíðardaga, sem eru víðast nýársdagur, föstudagurinn langi, páskadagur, hvítasunnudagur, 17. júní, jóladagur og aðfangadagur og gamlársdagur eftir kl. 12.00, og annarra frídaga. Vinna á stórhátíðardögum greiðist samkvæmt kjarasamningum með tímakaupi sem nemur 1,375% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu. Fyrir vinnu aðra frídaga greiðist yfirvinnukaup eins og það er skilgreint í viðkomandi kjarasamningi. 

Um vaktavinnufólk gilda sérákvæði þar sem það vinnur aukafrídaga samkvæmt vaktskrá. Almennt greiðist hærra vaktaálag stórhátíðisdaga en aðra daga.