Vinnuréttarvefur

Skekkjur í launaútreikningum

Komi fram eftir á að villur hafi átt sér stað við launaútreikning er eðlilegt að leitast sé við að leiðrétta þær. Ýmsar takmarkanir geta þó verið á leiðréttingum bæði samkvæmt lögum og eins samkvæmt þeim venjum sem skapast hafa í lögskiptum fólks. Sérstök sjónarmið geta einnig átt við þar sem um launaleiðréttingar er að ræða vegna eðlis launagreiðslna sem framfærslueyris. Villur geta bæði stafað af því að of mikið er greitt, og vaknar þá spurning um endurkröfurétt atvinnurekanda og eins ef of lítið hefur verið greitt.

Vangreidd laun

Vanti upp á launagreiðslur gildir sú regla að launamaður á rétt á leiðréttingu launa auk greiðslu dráttarvaxta frá gjalddaga til greiðsludags. Hafi launaútreikningar verið rangir um eitthvert tímabil ber að leiðrétta þá aftur eins langt og skekkjan hefur staðið.

Fyrirvaralaus kvittun starfsmanns um móttöku launa þarf ekki að breyta rétti hans til leiðréttingar á launum sbr. t.d. Hrd. 1953:643 en þar segir m.a.: "Ákvæði 7.gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 ber að skýra þannig, að þó að starfsmenn hafi kvittað fyrirvaralaust fyrir lægri laun en þeim bar samkvæmt kjarasamningi stéttarfélags síns, þá eigi þeir samt rétt, til að fá mismuninn greiddan úr hendi atvinnurekanda eftir á.

Launagreiðandi getur þó borið fyrir sig ákvæði laga um fyrningu vegna kröfu launamanns um leiðréttingu auk þess sem tómlæti getur einnig haft áhrif.

Fyrning - 4 ár

Laun fyrnast á fjórum árum frá gjalddaga skv. 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.

Tómlæti

Hafi móttakanda launanna mátt vera ljós skekkjan kann að vera að tómlæti hans hafi áhrif á rétt hans til leiðréttingar aftur í tímann og almennt verður starfsmaður að gera athugasemdir við skekkjur í launaútreikningum án óeðlilegs dráttar, því annars gætu tómlætissjónarmið skert rétt hans. Í Hrd. 1991:70 var fjallað um kröfu manns til leiðréttingar á launum í veikindatilfellum. Voru þá liðin tvö ár og sjö mánuðir frá fyrra veikindatímabilinu sem um var deilt og nær átta mánuðir frá því síðara. Í báðum tilvikum tók maðurinn við launauppgjöri án fyrirvara eða athugasemda. Eftir það hreyfði hann því í engu við atvinnurekandann að hann teldi sig vanhaldinn um launakjör, fyrr en eftir að hann lét af störfum og skrifaði atvinnurekandanum bréf þar sem hann krafði hann um leiðréttingar. Í dómi Hæstaréttar segir að þegar þetta sé virt sé ljóst að maðurinn hafi sýnt mjög verulegt tómlæti um gæslu þess réttar er hann taldi sig eiga á hendur atvinnurekandanum og þar með hafi hann fyrirgert rétti sínum til leiðréttingar. Var atvinnurekandinn sýknaður af kröfum starfsmannsins. 

Svipuð sjónarmið voru uppi í Hrd. 144/2016. Þar átti í hlut framkvæmdastjóri fyrirtækis og taldi Hæstiréttur að ef hann hefði talið sig eiga kröfu á félagið vegna kaupauka hefði honum verið skylt að sjá til þess að slíkrar kröfu væri getið í bókhaldi og ársreikningi. Þessa hefði hann ekki gætt heldur hefði hann fyrst haft uppi kröfuna eftir að hann lét af störfum. Hefði krafan því komið svo seint fram að hann hafði þá þegar glatað ætluðum rétti sínum til að hafa hana uppi fyrir tómlætis sakir.

Ofgreidd laun

Starfsmaður í góðri trú

Það sjónarmið er almennt viðurkennt að endurheimta atvinnurekanda á ofgreiddum launum sé nánast útilokuð sé viðtakandi greiðslunnar í góðri trú um að hún sé rétt. Rök mæli gegn því að endurheimta verði viðurkennd vegna tillitsins til hagsmuna þeirra viðtakenda sem í grandleysi hafa veitt viðtöku og nota greiðslurnar sem framfærslueyri. Einnig séu þessar greiðslur öðrum fremur til þess fallnar að vekja viðtakanda það traust að honum beri þær með réttu. Sjá t.d. Hrd 32/2007. Hann treystir því að um endanlegt uppgjör hafi verið að ræða sem hann þurfi ekki að eiga á hættu að hróflað verði við síðar. Greiðandi hafi oft yfirburðaaðstöðu til að meta hvað sé rétt greiðsla, hann annist almennt útreikninga sem geta verið mjög flóknir eða byggst á viðamiklum og flóknum reglum.

Þegar vafi hefur leikið á um túlkun laga- eða samningsákvæðis en launagreiðslur þó inntar af hendi fyrirvaralaust, óháð hinni óljósu réttarstöðu, verða þær greiðslur ekki endurheimtar. Jafnframt er endurheimta yfirleitt útilokuð þó að ofgreiðslan stafi af augljóslega röngum skilningi á skýlausu ákvæði. Um þetta kann þó að vera vafi. Ofgreiðslur launa sem stafa af misskilningi um staðreyndir verða almennt ekki endurheimtar úr hendi grandlausra viðtakenda, samanber Hrd. 1969:721.

Byggt á röngum upplýsingum starfsmanns

Hafi atvinnurekandi hins vegar greitt hærra en honum bar vegna þess að hann hefur treyst upplýsingum starfsmanns sem reynast rangar getur starfsmaðurinn ekki haldið slíkri greiðslu og ber að endurgreiða.

Starfsmaður ekki í góðri trú

Aðstæður geta einnig verið þannig að starfsmanni hafi mátt vera ljóst að ofgreitt hafi verið og getur greiðandi þá leiðrétt uppgjör sitt og fengið endurgreitt. Sjá t.d. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-4351/2006. Almennt er ekki að finna lagaákvæði um þetta ef frá er talin 32. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Þar segir að útgerðarmaður geti ekki krafist endurgreiðslu ef skipverja hefur verið greitt meira en honum bar, ef um er að ræða ráðningarslit og ef þau eiga rætur sínar að rekja til dauða skipverja, langvarandi veikinda hans, ólögmætrar uppsagnar úr skipsrúmi eða ef hann missir starf sitt vegna þess að skip er óhaffært og fleiri þátta sem skipverji ber enga ábyrgð á og verður ekki sakaður um.

Fyrirframgreidd laun

Fyrirframgreiðslur launa eru einungis bráðabirgðagreiðslur þannig að til endurheimtu getur komið ef ofgreitt hefur verið. Launagreiðandi getur þó glatað rétti sínum til endurheimtu ef hann dregur fram úr hófi að draga fyrirframgreiðsluna frá launum starfsmanns. Um þetta vísast til almennra tómlætissjónarmiða og reglna um fyrningu. Sjá Hrd. 1994:2391.