Vinnuréttarvefur

Starfstengd hlunnindi

Gera verður greinarmun á launum og ýmiss konar hlunnindum eða fríðindum svo og endurgreiðslum vegna útlagðs kostnaðar, svo sem greiðslu á ferðareikningum starfsmanna sem ferðast á vegum atvinnurekanda og greiðslum vegna notkunar eigin bifreiðar í þágu atvinnurekstrar. Samkvæmt skattalögum á að greiða skatta af öllum hlunnindum. Hafi starfsfólk frítt fæði ber því samt sem áður að greiða skatta af fæðinu. Ríkisskattstjóri semur og gefur út sérstakt hlunnindamat einu sinni á ári og ber fólki að greiða skatta af hlunnindum á grundvelli þess mats. 

Ekki er þó skylt að greiða staðgreiðslu af öllum launum og hlunnindum. Í reglugerð nr. 591/1987 um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu eru listaðar þær greiðslur sem ekki eru staðgreiðsluskyldar. Þessar greiðslur eru helstar ökutækjastyrkir, sem greiddir eru samkvæmt sundurliðuðum gögnum, dagpeningar, ferðapeningar og hliðstæður ferða- og dvalarkostnaður, svo og einkennisfatnaður sem launagreiðandi lætur launamanni í té.