Laun

Um laun, launagreiðslur, fyrirkomulag á greiðslu launa o.s.frv. er fjallað um í lögum en þó fyrst og fremst kjarasamningum. Í 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda segir orðrétt: "Laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skulu vera lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir."  

Laun og önnur starfskjör launafólks eru samkvæmt framansögðu viðfangsefni aðila vinnumarkaðarins. Að því er varðar önnur starfskjör en laun þá hefur löggjafinn á ýmsum sviðum sett lög þar sem ákveðin lágmarksréttindi eru tryggð. Slík lágmarksréttindi eru síðan útfærð nánar í kjarasamningnum.

Launahugtakið

Skilgreining á hugtakinu laun er ekki eins í öllum tilvikum. Hugtakið er afstætt og ræðst af samhengi hverju sinni hvað fellur undir það. Laun í skilningi kjarasamninga eru endurgjald fyrir vinnu í hvaða formi sem greitt er.

Greiðsla vegna kostnaðarliða þ.e. endurgreiðsla útlagðs kostnaðar í þágu launagreiðanda telst hins vegar ekki til launa.

Í lögum um greiðslu verkkaups nr. 28/1930 segir að verkkaup skuli greitt með gjaldgengum peningum og megi ekki greiða kaupið með skuldajöfnuði nema svo hafi áður verið sérstaklega um samið. Sjá nánar: Greiðsla launa og Skuldajöfnuður

Laun sem menn eiga rétt á að fá greidd fyrir vinnu sína samkvæmt bindandi kjarasamningi eða ráðningarsamningi teljast eign þeirra í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar. Um eignarrétt manna til launa, sem enn hefur ekki verið unnið fyrir, var deilt í svokölluðu BHMR máli, Hrd. nr. 129/1991. Í dómsniðurstöðu héraðsdóms sagði að laun, sem ekki hefur verið unnið fyrir en samið um, séu kröfuréttindi, þó því skilyrði bundin að sjálfsögðu að vinna skuli koma á móti launagreiðslum. Þessi réttindi verði að telja að njóti verndar 67. gr. stjórnarskrárinnar (nú 72. gr.) eins og þau laun sem unnið hefur verið fyrir. Í þessum dómi var þó talið að löggjafanum hefði verið heimilt með lagasetningu að skerða samningsbundin laun án þess að bætur kæmu fyrir. Þau skilyrði sem þyrftu að vera til staðar væru þau að skerðingin væri almenn, ekki úr hófi, ekki væri um beina tilfærslu verðmæta frá einum aðila til annars að ræða, gild rök væru færð fram fyrir nauðsyn skerðingarinnar og að þeir hagsmunir sem ætlunin væri að vernda hefðu mun meira vægi en hagsmunir þeirra sem löggjöfin beindist að.

Aflahæfi manna eða geta þeirra til þess að afla sér tekna, þ.m.t. launa er undirstaða lífsafkomu einstaklinga og nýtur einnig verndar sem eign. Ef það aflahæfi skerðist t.d. í bótaskyldu vinnuslysi, eignast launamaður kröfu á hinn bótaskylda sem nemur þeirri skerðingu sem hann hefur orðið fyrir á aflahæfi sínu eða starfsgetu.  Í Hrd. nr. 317/1997 er um vernd aflahæfis fjallað og þar segir „ ... í aflahæfi manns eru fólgin eignaréttindi, sem njóta verndar eignaréttarákvæðis stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, áður 67.gr. en nú 72.gr. ...“ 

Lágmarkslaun

Í kjarasamningum er kveðið á um hvaða lágmarkslaun skuli greidd fyrir tiltekin störf. Það eru þau atriði sem flestir kjarasamningar byrja á að fjalla um, og þau atriði sem flestar kjaradeilur ganga út á. Í kjarasamningum er samið um tímakaup eða mánaðarkaup, um launauppbætur, orlofsuppbætur og desemberuppbætur, um námskeiðsálög, yfirvinnu og fleira.

Ákvæði í kjarasamningum eru lágmarkskjör. Ákvæði í ráðningarsamningum um lakari kjör en kjarasamningar kveða á um eru ógild á grundvelli 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Vísa má m.a. til eftirfarandi dóma Hæstaréttar hér um: Hrd. 17/2009, Hrd. 524/2006,  Hrd. 352/1999.

Lög nr. 55/1980 gilda hins vegar ekki um atvinnurekendur sjálfa eða stjórnarmenn fyrirtækja sbr. Hrd. 438/2012.

Ráðningarsamningar hafa oft að geyma ákvæði um yfirborganir, annað hvort að samið sé um ákveðna krónutölu eða yfirborgunarhlutfall á tiltekinn launaflokk, samið um fasta yfirvinnugreiðslu eða að kaupákvörðunin sé ekki í neinum tengslum við ákvæði kjarasamnings. Þegar metið er hvort lágmarkslaun hafi verið greidd hefur Hæstiréttur litið heildstætt á laun viðkomandi launamanns sbr. t.d. Hrd. 273/2010 og Hrd. 308/2010. Í því efni skiptir miklu að ráðningarsamningar séu skýrir og öllum ljóst hvort og þá hvernig vikið sé frá lágmarksákvæðum og reglum kjarasamninga. Sjá nánar: Ráðningarsamningar – form og efni og Hvað ber að varast við gerð ráðningarsamninga

Afkastahvetjandi launakerfi

Víða á vinnumarkaði er samið um ákveðið fastakaup, tímakaup, vikukaup eða mánaðarkaup, og síðan er samið um viðbótargreiðslur sem tengdar eru afköstum eða árangri. Þessar viðbótargreiðslur eru ýmist tengdar afköstum hópsins í heild eða einstaklingsins. Sérstakir kaupauka- og bónussamningar hafa verið gerðir hjá tilteknum starfshópum, svo sem í fiskvinnslu.

Þar er fjallað um afkastahvetjandi launakerfi, ýmis framkvæmdaatriði við kerfið, vinnutíma, til hverra bónusinn taki, um rétt til kaupauka í veikindum, um það hvernig taka beri á vandamálum sem upp kunna að koma, um gildistíma og greiðslur. Í bónussamningum í fiski er ekki aðeins greitt fyrir afköst heldur líka fyrir nýtingu og meðferð á hráefni. Þar er einnig samið um ákveðna reiknitölu sem kaupaukinn tekur mið af. Sú reiknitala miðast ekki endilega við ákveðinn launataxta þótt hún hafi upphaflega gert það. Bónus er síðan ákveðið hlutfall af reiknitölu. Hreinir akkorðssamningar eru þannig að eingöngu er greitt fyrir afköst.


ASÍ og samtök atvinnurekenda sömdu á árinu 1972 um hvernig haga skyldi undirbúningi og framkvæmd vinnurannsókna sem ætlað væri að mynda grunn undir afkastahvetjandi launakerfi (Leiðbeiningar um undirbúning og framkvæmd vinnurannsókna). Þar er m.a. fjallað um aðkomu sérstakra trúnaðarmanna sem njóti sömu verndar og aðrir trúnaðarmenn,laun meðan á rannsóknum stendur, framkvæmd mælinga, upplýsingagjöf o.fl. Þar sem undirbúningurinn getur falið í sér, að nákvæmlega sé fylgst með framkvæmd vinnu, hún mæld og gögnum safnað var á árinu 1986 óskað umsagnar Persónuverndar um leiðbeiningarnar og gerði stofnunin engar athugasemdir. Samkomulagið, sem hefur stöðu kjarasamnings, var endurnýjað síðast 1983 og hefur ekki verið sagt upp (12.2015).

Í vissum iðngreinum miðast laun við ákveðin uppmælingarkerfi, svo sem hjá trésmiðum, rafvirkjum, málurum, múrurum og pípulagningamönnum. Sjá nánar www.samidn.is og www.rafis.is

Heildarlaun - brúttólaun

Með heitinu brúttólaun er átt við heildarlaun starfsmanns fyrir ákveðið launatímabil, s.s. viku eða mánuð, áður en lög- og samningsbundnar greiðslur hafa verið dregnar frá þeirri upphæð, s.s. vegna staðgreiðslu skatta og lífeyrisiðgjalda. Nettólaun er sú upphæð sem eftir stendur þegar slíkur frádráttur hefur verið framkvæmdur.

Starfstengd hlunnindi

Gera verður greinarmun á launum og ýmiss konar hlunnindum eða fríðindum svo og endurgreiðslum vegna útlagðs kostnaðar, svo sem greiðslu á ferðareikningum starfsmanna sem ferðast á vegum atvinnurekanda og greiðslum vegna notkunar eigin bifreiðar í þágu atvinnurekstrar. Samkvæmt skattalögum á að greiða skatta af öllum hlunnindum. Hafi starfsfólk frítt fæði ber því samt sem áður að greiða skatta af fæðinu. Ríkisskattstjóri semur og gefur út sérstakt hlunnindamat einu sinni á ári og ber fólki að greiða skatta af hlunnindum á grundvelli þess mats. 

Ekki er þó skylt að greiða staðgreiðslu af öllum launum og hlunnindum. Í reglugerð nr. 591/1987 um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu eru listaðar þær greiðslur sem ekki eru staðgreiðsluskyldar. Þessar greiðslur eru helstar ökutækjastyrkir, sem greiddir eru samkvæmt sundurliðuðum gögnum, dagpeningar, ferðapeningar og hliðstæður ferða- og dvalarkostnaður, svo og einkennisfatnaður sem launagreiðandi lætur launamanni í té.

 

Ólaunuð vinna / “sjálfboðaliðastörf“

Gera verður skýran greinarmun á ólaunaðri vinnu í efnahagslegri starfsemi annars vegar og ólaunaðri samfélagslegri vinnu (sjálfboðavinnu) hins vegar.  Ólaunuð vinna við efnahagslega starfsemi, framleiðslu og sölu á vöru eða þjónustu á markaði (í hagnaðarskyni) oft  í samkeppni við fyrirtæki í sömu atvinnustarfsemi, felur í sér óásættanleg undirboð á íslenskum vinnumarkaði og stenst hvorki kjarasamninga né lög. Dæmi um efnahagslega starfsemi þar sem gjarnan finnst fólk í ólaunaðri vinnu skv. athugun ASÍ er fyrst og fremst við ýmiss konar ferðaþjónustu, nánar tiltekið vinnu á kaffi- og veitingahúsum, á gistiheimilum og hótelum, hestaleigum og við hellaskoðanir auk ýmiskonar blandaðra starfa á sveitabýlum og/eða við bændagistingu.

Rétt er að taka fram að fæði og húsnæði geta verið hluti af endurgjaldi fyrir vinnu. Í sumum kjarasamningum er tiltekið að starfsmaður skuli fá fæði og húsnæði sér að kostnaðarlausu auk kjarasamningsbundinna launa. Í öðrum samningum er heimild atvinnurekanda til að draga af kjarasamningsbundnum launum starfsmanns vegna fæðis og húsnæðis sem honum er lagt til en þó með miklum takmörkunum. Forsendan er alltaf sú að kjarasamningum sé fylgt. Það þýðir að ráðningarsamningur sé gerður, lágmarkslaun að minnsta kosti greidd og gefinn út launaseðill þar sem fram koma laun og önnur starfskjör og heimilaðir frádráttarliðir. Allt endurgjald fyrir vinnu skal síðan telja fram skatts og skila hinu opinbera, stéttarfélögum og sjóðum því sem þeirra er.

Einstaklingar sem „ráða sig“ í ólaunaða vinnu njóta ekki tryggingaverndar eins og kjarasamningar kveða á um og gagnvart sjúkra- og almannatryggingakerfinu njóta þeir mjög takmarkaðra réttinda. Almennt má álykta að viðkomandi einstaklingar njóti mjög takmarkaðrar tryggingaverndar.

Ólaunuð vinnu við efnahagslega starfsemi þýðir að atvinnurekendur sem nota hana hagnast á kostnað samneyslunnar og skapa sér bæði ósanngjarnt og ólöglegt samkeppnisforskot á markaði. Ólaunuð vinna borgara frá löndum utan EES við efnahagslega starfsemi þýðir að viðkomandi fyrirtæki gerast brotleg við lög um atvinnuréttindi útlendinga og baka sér refsiábyrgð í leiðinni.