Laun ekki greidd

Meginskylda atvinnurekanda er að greiða starfsmanni laun á gjalddaga. Séu laun ekki greidd hefur atvinnurekandi að öllum líkindum brotið ráðningarsamning á starfsmanni. Skiptir hér ekki máli hvort greiðslufallið stafar af almennum ómöguleika til að greiða eða öðrum ástæðum. Þetta á fortakslaust við þegar laun eru greidd eftir á og starfsmaður hefur uppfyllt skyldur sínar samkvæmt ráðningarsamningi. Úrræði starfsmanns við því að fá ekki laun greidd eru þau sem reglur samningaréttarins kveða á um vegna vanefnda. Ef vanefnd atvinnurekenda er veruleg getur hann t.d. gengið frá ráðningarsamningi á grundvelli brostinna forsendna og hann verður ekki krafinn um efndir á vinnusamningi á meðan laun eru ekki greidd. Hann hefur rétt til að leggja niður störf á vinnustað en mætingarskylda fellur í sjálfu sér ekki niður.  

Til að innheimta ógreitt kaup verður starfsmaður að fara venjulegar réttarfarsleiðir, höfða dómsmál til innheimtu launakröfu, gera fjárnám í eignum atvinnurekanda og láta bjóða þær upp á uppboði til lúkningar skuldinni. Í Hrd. nr. 312/2008 gerði starfsmaður kröfu um orlofsuppbót, desemberuppbót og orlofslaun af ógreiddum launum svo og yfirvinnu vegna nokkurra mánaða og var fallist á kröfur starfsmannsins. Sá sem greiða á kröfuna ber allan kostnað við innheimtu hennar. Greiðsla kemur þó ekki fyrr en við endanlegt uppgjör kröfu. Fram til þess þarf launamaður oft að leggja út í kostnað vegna innheimtunnar.

Félagsmenn stéttarfélaga geta í málum sem þessum leitað aðstoðar stéttarfélaga við innheimtu slíkra krafna. Ef stéttarfélagið telur að krafa sé á rökum reist þarf félagsmaðurinn ekki að leggja sjálfur út fyrir innheimtukostnaði. 

Þegar laun eru greidd fyrirfram kann að skipta máli hvort atvinnurekandi má ætla að meginskyldur ráðningarsamningsins verði ekki efndar. Um þetta var deilt í Félagsdómi í málum nr. 11 og 12, 1984. Þar háttaði svo til að blaðaútgefendur höfðu lagt verkbann á störf blaðamanna frá og með 4. október. Laun fastráðinna blaðamanna eru samkvæmt kjarasamningi greidd fyrirfram. Þann 1. október voru fastráðnum blaðamönnum einungis greidd laun fyrir tímabilið 1.-3. október og vísuðu útgefendur til yfirvofandi verkbanns í því sambandi. Félagsdómur féllst á sjónarmið útgefendanna með þeim ummælum að það væri meginregla í vinnurétti að vinnusamningar aðila, þ.e. vinnuveitenda og launþega, væru gagnkvæmir. Launþegi sem væri í verkfalli ætti ekki rétt til launa fyrir þá daga sem verkfallið stæði, og sama regla gilti um verkbann. Félagsdómur féllst á það með útgefendum að samningsákvæðið um fyrirframgreiðslu launa ætti ekki að skýra svo bókstaflega að það hefði átt að tryggja félagsmönnum Blaðamannafélagsins launagreiðslur fyrir tímabil sem þeir fyrirsjáanlega yrðu í verkbanni. Að svo vöxnu máli hefðu útgefendur því haft rétt til að greiða einungis laun fyrir þá þrjá daga mánaðarins sem fyrirsjáanlegt var að unnið yrði. Var ekki á það fallist að slík óvissa hefði ríkt hinn 1. október, um hvort til verkbanns kæmi, að útgefendum væri skylt að greiða fyrirfram föst laun fyrir allan mánuðinn.

Starfslok vegna verulegra vanefnda

Sé um að ræða verulega vanefnd á launagreiðslum veitir hún launamanni heimild til að lýsa sig óbundinn af ráðningarsamningi og hætta störfum. Til að gera þessa heimild virka þarf launamaður að hafa lýst yfir þessari fyrirætlun sinni með sannanlegum hætti, svo sem með bréfi eða símskeyti, og gefið atvinnurekanda hæfilegan frest til að bregðast við. Hafi atvinnurekandi ekki brugðist við innan frestsins er launamaður frjáls af því að hætta störfum og krefja atvinnurekanda um laun á uppsagnarfresti.

Sjá hér Hrd. 1995:1293. Þar voru atvik þau að starfsmaður lýsti yfir riftun á ráðningarsamningi ef laun yrðu ekki greidd innan tiltekins frests, sem var tveir dagar og rann fresturinn út kl. 11.00 árdegis tiltekinn dag. Launin voru svo greidd síðdegis sama dag og fresturinn rann út, en starfsmaðurinn kom ekki aftur til starfa. Var atvinnurekandi sýknaður af kröfu starfsmanns til launa á uppsagnarfresti með vísan til þess að fresturinn hefði verið of skammur og greiðsla hefði borist þann dag sem fresturinn rann út.

Setuverkfall

Falli launagreiðslur niður um einhvern tíma getur verið um verulega vanefnd launagreiðanda að ræða og forsenda brostin fyrir áframhaldandi vinnu. Stafi vanefnd af ytri ómöguleika, svo sem vegna verkfalls bankamanna, og því sé ekki hægt að nálgast fé til launagreiðslu verður starfsfólk væntanlega að sætta sig við það ástand. Meta verður í hverju tilviki til hvaða aðgerða launafólk grípur, meðal annars með tilliti til þess hversu alvarleg vanefndin er. Sé vanefnd veruleg er almennt viðurkenndur sá réttur launafólks að leggja niður störf, það er að efna ekki meginskyldu ráðningarsamnings.

Aðrar skyldur samningsins verður þó að uppfylla, svo sem að mæta til vinnu, stimpla sig inn og vera til taks. Um þetta kunna þó að vera skiptar skoðanir en þar sem hér er ekki um verkfallsaðgerð að ræða heldur einungis að vinnuframlag er fellt niður verður að uppfylla aðrar skyldur. Sé einungis deila um einhvern hluta launa eða orlof verður að fara með þann ágreining eins og annan réttarágreining.

Í álitsgerð, sem Guðríður Þorsteinsdóttir lögmaður tók saman um þetta efni 1984, telur hún þessar meginreglur gilda:

- Séu óumdeild laun ekki greidd á réttum tíma er starfsmönnum almennt heimilt að leggja niður vinnu.

- Sé aðeins óverulegur hluti launa ógreiddur er ekki heimilt að beita vinnustöðvun.

- Vanefnd sem stafar af óviðráðanlegum utanaðkomandi atvikum (force majeure) getur leyst atvinnurekanda undan ábyrgð.

- Almennt ber að greiða laun þá daga sem lögleg vinnustöðvun vegna vangoldinna launa stendur.

- Almennt yrði það ekki talið skilyrði fyrir greiðslu launa meðan vinnustöðvun stendur að starfsmaður mæti til vinnu.

- Réttur til vinnustöðvunar er almennt hjá einstökum starfsmönnum.

- Atvinnurekanda ber að greiða starfsmanni dráttarvexti af vangreiddum launum.

Sjóveðréttur

Um sjómenn gildir sú sérregla samkvæmt 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985 að kröfur skipstjóra og skipverja til launa og annarrar þóknunar og slysabóta eru tryggðar með sjóveðrétti í skipi og farmgjaldi. Samkvæmt 198. gr. laganna gengur sjóveðréttur í skipi og farmgjaldi fyrir öllum öðrum eignarhöftum sem á eignum þessum hvíla. Sjóveðréttur í skipi helst þó að eigendaskipti verði á því. Sé skip selt á nauðungaruppboði fellur hann niður en sjóveðhafar eiga þá heimtingu á að fá kröfu sína greidda af söluandvirði miðað við fulla fjárhæð.

Sjóveðréttur fyrir launum fyrnist á einu ári frá því krafan féll í gjalddaga. Ef sjóveðréttur er fenginn með dómi eða dómsátt verður að þinglýsa honum innan 6 vikna til að hann haldi gildi sínu gagnvart þeim viðsemjendum eigandans sem grandlausir eru.