Greiðsla launa

Laun skal greiða með peningum. Í lögum um greiðslu verkkaups nr. 28/1930 er kveðið á um að verkkaup skuli greiða með gjaldgengum peningum og að ekki megi skuldajafna kaupi nema svo hafi áður sérstaklega verið um samið. Lagaákvæðið var sett fyrst og fremst til að koma í veg fyrir að atvinnurekendur greiddu starfsmönnum sínum laun í fríðu þ.e. með vörum, fatnaði, húsnæðisafnotum eða þess háttar. Í dag kemur ákvæðið einnig í veg fyrir að greiðslurnar séu ekki skattlagðar eða af þeim ekki skilað iðgjöldum til lífeyrissjóða og kjarasamningsbundinna sjóða stéttarfélaganna o.fl. eins og gera ber þegar laun eru greidd með peningum.  

Í Hrd. nr. 209/1969 var dæmt að samkvæmt 1. gr. laga nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups eigi launamaður réttarkröfu til þess að honum sé greitt verkkaup í gjaldgengum peningum. Að öðru leyti fjalla lögin ekki um form á greiðslu. Í áranna rás hafa greiðsluhættir breyst og algengt er að kaup sé greitt inn á bankareikning viðkomandi. Sums staðar hefur verið um þetta samið í kjarasamningum. Þar sem ekki hefur verið um þetta samið með beinum eða óbeinum hætti gildir enn reglan í lögunum um greiðslu verkkaups og launamaður þarf ekki að sætta sig við greiðslu launa í öðru en gjaldgengum peningum þ.e. í reiðufé. 

 

Skuldajöfnuður

Meginreglan er eins og fyrr segir að laun skal greiða í peningum. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups er tekið fram að ekki megi greiða laun með skuldajöfnuði nema um það hafi áður verið sérstaklega samið. Sem dæmi um samkomulag um skuldajöfnuð má t.d. nefna að útvegi launagreiðandi starfsmanni húsnæði og leigi honum það, þá er þeim heimilt að semja sín í milli þannig að húsaleigan dragist frá launum við útborgun. Launin má hins vegar ekki greiða með húsnæðinu. 

Svo getur þó háttað til, að atvinnurekandi telji sig eiga gagnkröfu á starfsmanninn og vilji nota hana til þess að greiða launin (skuldajafna) án þess að fyrir liggi samkomulag. Telja verður að gera megi undantekningu frá banni laganna um greiðslu verkkaups við skuldajöfnuði ef kröfurnar eru samrættar, samanber t.d. Hrd. 157/1977. Þar háttaði svo til að starfsmaður átti kröfu vegna vangoldinna launa en atvinnurekanda var leyft að skuldajafna með kröfu vegna ólögmæts brotthlaups starfsmannsins úr vinnu. Sem dæmi um kröfur sem ekki eru "samrættar" launakröfunni má nefna skaðabætur vegna tjóns sem sem starfsmaður veldur í starfi sínu. Sem dæmi má nefna að ef afgreiðslumaður í verslun brýtur dýran kristalvasa verður andvirði vasans ekki dregið frá kaupi starfsmannsins. Setji atvinnurekandi fram skaðabótakröfu gagnvart starfsmanni af ástæðum eins og þessum verður hann að öllu jöfnu að innheimta bæturnar með öðrum hætti en draga þær frá launum. Sjá hér ummæli héraðsdómara í Hrd. 293/1988. Í Hrd. nr. 335/2002 var tekist á um kröfu atvinnurekanda á hendur starfsmanni um endurgreiðslu kostnaðar vegna náms starfsmanns hans í Rafiðnarskólanum sem hann vildi draga frá launum sem starfsmanni báru á uppsagnarfresti. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að gagnkrafa atvinnurekandans hefðu ekki slík tengsl við launakröfuna að réttlætti skuldajöfnun. 

 

Launaseðill

Launamaður á rétt á því að fá í hendur við útborgun launa sundurliðun á launaútreikningi. Launaseðillinn er einnig kvittun launamannsins fyrir greiðslu skatta, lífeyrissjóðsiðgjalda og félagsgjalds. Ekkert eitt staðlað form er til um launaseðla en í kjarasamningum koma fram leiðbeiningar um það hvaða upplýsingar skuli vera á launaseðli. 

Samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, 22. gr., ber launagreiðandi ábyrgð á þeim opinberu gjöldum sem hann hefur haldið eftir eða bar að halda eftir.

Launamaður ber ekki ábyrgð á greiðslu opinberra gjalda sem hann sannar að launagreiðandi hafi haldið eftir af launum hans. Þessi sönnun verður fyrst og fremst gerð með launaseðli sem launamaður fær afhentan við greiðslu launa. Það er því afar brýnt að launaseðlar veiti sundurliðaðar upplýsingar um greiðslu launa og launafólk varðveiti launaseðla sína.

Gjalddagi

Um gjalddaga launa á almennum vinnumarkaði er samið í kjarasamningum. Þar gildir sú almenna regla að laun eru greidd eftir á, ýmist einu sinni í mánuði eða vikulega. Í samningum einstakra hópa er þó samið um fyrirframgreiðslu á launum. Laun greiðast þá í upphafi vinnutímabils. Samkvæmt 10.gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna fá opinberir starfsmenn laun greidd fyrirfram, fyrsta virkan dag hvers mánaðar.  Séu laun ekki greidd á gjalddaga er um vanefnd af hálfu atvinnurekanda að ræða sem veitir launamanni rétt til að grípa til ákveðinna réttarúrræða. Sjá „Laun ekki greidd“.