Vinnuréttarvefur

Frádráttur frá launum

Þegar heildarlaun starfsmanns fyrir ákveðið launatímabil, s.s. viku eða mánuð, hafa verið reiknuð út, ber atvinnurekanda áður en kemur að útborgun launa, að draga lög- og samningsbundnar greiðslur frá þeirri upphæð, s.s. vegna staðgreiðslu skatta, lífeyrisiðgjalda, félagsgjalda o.s.frv. Nettólaun er sú upphæð sem eftir stendur þegar slíkur frádráttur hefur verið framkvæmdur. Í þessum kafla er fjallað um það helsta sem draga má skv. framansögðu af launum starfsmanna. Atvinnurekendum ber síðan sjálfum að greiða ýmis iðgjöld önnur til hinna ýmsu sjóða á vinnumarkaði og er fjallað um þau í kaflanum "Sjóðir stéttarfélaga".

Skattar

Launagreiðanda ber að halda eftir staðgreiðslu af launum starfsmanna sinna. Staðgreiðsla launamanns af launum nær til tekjuskatts samkvæmt lögum um tekjuskatt og útsvars samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Í 15. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, segir að þegar  ákvörðun launa launamanns fyrir hvert greiðslutímabil að meðtöldu orlofsfé er lokið, skuli bætt við þau skattskyldum hlunnindum samkvæmt mati ríkisskattstjóra. Af þannig ákvörðuðum launum greiðslutímabilsins ber launagreiðanda að reikna staðgreiðslu launamanns vegna greiðslutímabilsins, að teknu tilliti til persónuafsláttar. Greiðslutímabil launa til launamanns ákvarðast með hliðsjón af ákvæðum kjarasamninga þar um. Ekkert launatímabil skal þó teljast lengra en einn mánuður, sbr. 14. gr. laganna.

Launagreiðanda ber síðan samkvæmt 20. gr. laganna ótilkvaddur að greiða mánaðarlega það fé sem hann hefur haldið eftir eða bar að halda eftir á greiðslutímabilum næstliðins mánaðar. Samkvæmt 92. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt ber launagreiðanda að afhenda ótilkvaddur skattstjóra skýrslu um greiðslur þessar og í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Sama gildir um greiðslur til verktaka fyrir efni og vinnu. 

Standi launagreiðandi ekki skil á greiðslum er slíkt refsivert skv. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Í 1. mgr. 30. gr. segir að skýri gjaldskyldur maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því er máli skiptir um staðgreiðsluskil hans skal hann greiða fésekt allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem vanrækt var greiðsla á og aldrei lægri fésekt en nemur tvöfaldri skattfjárhæðinni. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ábyrgð á vanteknum gjöldum
Í 22. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda kemur fram að launagreiðandi ber ábyrgð á þeim opinberu gjöldum sem hann hefur haldið eftir eða bar að halda eftir samkvæmt lögum þessum. Launamaður ber hins vegar ekki ábyrgð á greiðslu opinberra gjalda sem hann sannar að launagreiðandi hafi haldið eftir af launum hans. Það gerir hann fyrst og fremst með því leggja fram launaseðla þar sem fram kemur að staðgreiðsla hefur verið dregin af launum hans. Launagreiðandi og launamaður bera hins vegar óskipta ábyrgð á vanteknum opinberum gjöldum.

Mörk á frádrætti
Í 2. gr. reglugerðar um launaafdrátt nr. 124/2001 segir að launagreiðendur skuli aldrei halda eftir hærri fjárhæð en sem nemur 75% af heildarlaunagreiðslum hverju sinni til greiðslu á gjöldum samkvæmt 1. gr. hennar, að viðbættum lögbundnum iðgjöldum og meðlögum þannig að tryggt sé að launþegi haldi eftir 25% af heildarlaunagreiðslum. Lífeyrissjóðsiðgjöld umfram 4% af iðgjaldastofni falla ekki undir þessa reglu. Afdráttur af launum vegna staðgreiðslu skal ávallt ganga fyrir afdrætti vegna eldri skattskulda. Þetta þýðir að séu skattaskuldir meiri en nemur 75% af launagreiðslum, ganga nýjustu greiðslur upp á móti staðgreiðslunni en eldri skuldir mæta afgangi. 

Sjá nánar heimasíðu Ríkisskattstjóra www.rsk.is

Lífeyrissjóður

Skyldubundin framlög til lífeyrissparnaðar

Öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps samkvæmt lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Skylduaðild launafólks að lífeyrissjóðum byggir á samkomulags aðila vinnumarkaðarins frá árinu 1969, en þar sömdu aðilar um að lífeyrissjóðir skyldu settir á stofn fyrir viðkomandi starfsgrein og eftir ákveðinn árafjölda skyldi launamaður greiða 4% af launum sínum til lífeyrissjóðs en mótframlag atvinnurekanda vera 6%. Þetta samkomulag var endurnýjað í desember 1995. Samkvæmt gildandi lögum og kjarasamningum aðildarfélaga ASÍ ber atvinnurekendum að halda eftir af launum starfsfólks síns iðgjaldshluta þess (4%) og standa viðkomandi lífeyrissjóði skil á honum ásamt mótframlagi sínu (8%). Greiðsla til lífeyrissjóðs skal því að minnsta kosti vera 12% af viðurkenndum stofni iðgjalda. Sjá nánar "Lífeyrissjóðir".

Í Hrd. nr. 359/2008 krafðist lífeyrissjóðurinn G greiðslu lífeyrissjóðsiðgjalda vegna sjö skipverja sem voru lögskráðir á fiskiskipið K frá júlí og fram í desember 2006. H hafði tekið að sér útgerð skipsins með samningi við E, eiganda þess, 11. júlí 2006 og skuldbundið sig samkvæmt samningnum til að greiða þann launakostnað sem fylgdi útgerð skipsins. H hafði skilað til G skilagreinum vegna sumra skipverja fyrir júlí til og með október 2006, en ekki vegna nóvember og desember. G kvað skilagreinar H ekki gefa rétta mynd af fjárhæð iðgjalda sem honum hefði borið að standa skil á. Iðgjaldagreiðslur hefðu hvorki miðast við laun sem borið hefði að greiða samkvæmt kjarasamningum né hefði verið greitt fyrir allan þann tíma sem átt hefði að greiða fyrir. Með orðunum heildarfjárhæð greiddra launa í 3. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sé átt við að stofn til útreiknings lífeyrisiðgjalda sé að minnsta kosti sú heildarfjárhæð launa er samið sé um að greiða skuli samkvæmt kjarasamningum þeim er gilda um starfskjör viðkomandi manna. H hefði aðeins að litlu leyti staðið skil á greiðslum iðgjalda og væri mismunurinn höfuðstóll stefnufjárhæðar. Grundvallaðist áætlun G á útreikningum Verðlagsstofu skiptaverðs um hvað skipverjar hefðu átt að fá greitt í laun samkvæmt ákvæðum kjarasamninga um lágmarkskjör. Hæstiréttur taldi að skilagreinar H hefðu verið markleysa þar sem þær hefðu ekki miðast við lögbundin lágmarkslaun. Þegar af þeirri ástæðu hefði G borið að áætla iðgjöld H og innheimta þau í samræmi við samþykktir sínar. Var H dæmdur til að greiða G höfuðstól dómkröfu hans.

Til hvaða lífeyrissjóðs á að greiða iðgjöld?

Aðild launamanna að lífeyrissjóði ræðst af því að þeir byggi ráðningarbundin starfskjör á kjarasamningum þeirra stéttarfélaga og sambanda sem eiga aðild að viðkomandi lífeyrissjóð eða starfa í starfsgreinum þar sem kjarasamningar aðildarfélaganna eru ákvarðandi um lágmarkskjör. Í samþykktum viðkomandi lífeyrissjóðs eru talin upp aðildarsamtök sjóðsins af hálfu launamanna og atvinnurekanda.

Taki starfsmaður svo dæmi sé tekið laun samkvæmt kjarasamningi VR og SA þá ber atvinnurekanda að skila iðgjöldum vegna hans til Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Taki starfsmaður laun samkvæmt kjarasamningi Eflingar-stéttarfélags þá er iðgjöldum hins vegar skilað til Gildi-lífeyrissjóðs. Launamenn geta m.ö.o. ekki ákveðið einhliða eða samið um það við sinn atvinnurekanda að iðgjöldum þeirra skuli skilað í annan lífeyrissjóð en framangreint fyrirkomulag gerir ráð fyrir.

Nánari upplýsingar á heimasíðu Landssamtaka lífeyrissjóða.

Viðbótarframlög til lífeyrissparnaðar

Í kjarasamningum aðildarfélaga ASÍ er kveðið á um þá reglu, að leggi starfsmaður a.m.k. 2% viðbótarframlag í lífeyrissjóð (sameignar- eða séreignarsjóð) skuli mótframlag atvinnurekanda vera 2%. Hér er um frjálsan viðbótarlífeyrissparnað að ræða sem launamaður verður að eiga frumkvæði að. Fyrirkomulagið er í stuttu máli á þann veg að hann gerir samning við vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar þar sem m.a. kemur fram hvert mánaðarlegt innlegg til öflunar lífeyrisréttinda skuli vera. Hann afhendir síðan atvinnurekanda sínum afrit af þeim samningi sem ber síðan að draga framlagið af launum starfsmannsins og skila jafnframt eigin framlagi samkvæmt framansögðu. Vörsluaðilar viðbótarlífeyrissparnaðar eru þeir sem hafa heimild skv. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997 til að stunda starfsemi skv. II. kafla þeirra laga og taka við iðgjaldi með samningi um viðbótartryggingarvernd, þ.e. lífeyrissjóðir, bankar, sparisjóðir, líftryggingafélög og verðbréfafyrirtæki. Vörsluaðili viðbótarlífeyrissparnaðar getur eftir atvikum verið sami aðili og tekur við skyldubundnum framlögum til lífeyrissparnaðar.

Sjá nánar reglugerð nr. 698/1998 um ráðstöfun iðgjalds til lífeyrissparnaðar og viðbótartryggingarvernd, sbr. reglugerð nr. 9/1999 um breytingu á henni.

Iðgjöld til stéttarfélaga

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga um starfskjör launafólks o.fl. nr. 55/1980 er atvinnurekendum skylt að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags skv. þeim reglum sem kjarasamningar greina. Í kjarasamningum eru síðan ákvæði um skil félagsgjalda. Svo dæmi sé tekið þá segir í grein 11.1 í aðalkjarasamningi SGS/SA, að vinnuveitendur taki að sér innheimtu félagsgjalda aðal- og aukafélaga viðkomandi verkalýðsfélags í samræmi við reglur félagsins, hvort sem um er að ræða hlutfall af launum eða fast gjald. Þessum gjöldum sé skilað mánaðarlega til félagsins og er eindagi 15. næsta mánaðar á eftir. Stundum er deilt um það hvort afdráttur iðgjalds til stéttarfélaga feli í sér ólögmæta skylduaðild. Nánar er um þau efni fjallað í kaflanum "Félagsgjöld". 

Meðlög

Meðlagsskuldir má og ber að draga af kaupi sé þess krafist. Samkvæmt lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga nr. 54/1971 annast stofnunin meðlagainnheimtu hjá foreldrum. Þá kemur fram í lögunum að barnsföður sé skylt að endurgreiða stofnuninni meðlag með barni sínu með þeim hætti sem stofnunin krefst.

Í lögunum segir ennfremur að ef vanrækt er að verða við innheimtukröfu geti stofnunin m.a. krafið launagreiðanda um að halda eftir hluta af kaupi eða aflahlut til lúkningar meðlögum. Slíkar kröfur ganga fyrir öðrum kröfum, þar á meðal kröfum sveitarsjóða og innheimtumanna ríkissjóðs. Kaupgreiðendur skulu halda slíku innheimtufé aðgreindu frá eigin fé.

Vanræki kaupgreiðandi að verða við slíkri kröfu ber hann ábyrgð gagnvart Innheimtustofnuninni allt að þeirri fjárhæð sem hann hefur greitt barnsföður, eins og segir í lögunum, eftir að krafa stofnunarinnar barst honum. Sama gildir ef kaupgreiðandi tekur ekki tilskilda fjárhæð af kaupi eða aflahlut eða ef hann skilar ekki innheimtu meðlagsfé innan hálfs mánaðar.

Samkvæmt reglugerð um innheimtu og skil á meðlögum og fleira á vegum Innheimtustofnunar sveitarfélaga nr. 491/1996, skulu launagreiðendur þó aldrei halda eftir meiru en nemur 50% af heildarlaunagreiðslu hverju sinni til greiðslu á meðlögum sem kaupgreiðanda er skylt að halda eftir af launum viðkomandi.

Stjórn Innheimtustofnunar getur heimilað, ef þess er óskað, að einungis verði innheimt, mánaðarlega, fjárhæð sem nemi þremur barnsmeðlögum hjá þeim sem greiða meðlag er nemur hærri fjárhæð en þremur barnsmeðlögum og búa við sérstaka félagslega erfiðleika. Stjórn Innheimtustofnunar er og heimilt í þessum tilvikum, verði eftir því leitað, að fella niður dráttarvexti af þeim meðlagsgreiðslum sem frestað yrði að svo stöddu að innheimta.

Sjá nánar upplýsingar á heimasíðu Innheimtustofnunar sveitarfélaga www.medlag.is