Vinnuréttarvefur

Vinnuvernd mæðra og þungaðra kvenna

Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 er kveðið á um skyldur atvinnurekenda til að meta eða láta fara fram mat á áhættuþáttum varðandi vinnuaðstæður og skipulag vinnunnar með tilliti til öryggis og heilbrigðis þungaðrar konu, konu sem hefur nýlega alið barn eða konu sem er með barn á brjósti. Þessar skyldur og framkvæmd þeirra eru síðan útfærðar frekar í reglugerð um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti  nr. 931/2000. Í 2.gr. reglugerðarinnar segir að hugtökin „þunguð kona“, „kona sem hefur nýlega alið barn“ og „kona sem hefur barn á brjósti“ í skilningi reglugerðarinnar eigi einungis við þær konur hafa greint atvinnurekanda sínum frá því ásigkomulagi sínu.

Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof segir að ef öryggi og heilbrigði þungaðrar konu, konu sem hefur nýlega alið barn eða konu sem er með barn á brjósti er í hættu samkvæmt sérstöku mati skal vinnuveitandi gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi konunnar með því að breyta tímabundið vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma hennar. Ef því verður ekki við komið af tæknilegum eða öðrum gildum ástæðum skal vinnuveitandi fela konunni önnur verkefni en að öðrum kosti veita henni leyfi frá störfum í svo langan tíma sem nauðsynlegt er til að vernda öryggi hennar og heilbrigði.

Í 2. mgr. segir að þær breytingar, sem teljast nauðsynlegar á vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma konu samkvæmt greininni skulu ekki hafa áhrif á launakjör hennar til lækkunar eða önnur starfstengd réttindi. Jafnframt kemur fram í 3. mgr. að ef veita þurfi þungaðri konu leyfi frá störfum samkvæmt 1. mgr. á hún rétt á greiðslum sbr. 13. gr. laganna.

Síðastgreinda reglan á ekki við um sjálfstætt starfandi einstaklinga, sbr. úrskurðir Úrskurðarnefndar velferðarmála 43/2007, 56/2008 og 36/2011. Þá á reglan heldur ekki við sé starfsmaður í skertu starfshlutfalli vegna lengingar fæðingarorlofs enda er ekki gert ráð fyrir í ákvæðinu að starfsmaður þiggi greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði á þeim grundvelli og sé í launuðu starfi, sbr. úrskurð Úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 6/2009. Hafa ber hugfast að þetta hefur ekki áhrif á rétt starfsmanns til þess að komast að samkomulagi við atvinnurekanda um að haga fæðingarorlofi á þann veg að það skiptist niður á fleiri tímabil og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. 2. mgr. 10. gr. fæðingarorlofslaga.

Mat á áhættuþáttum

Atvinnurekandi skal sjálfur eða þjónustuaðili á sviði vinnuverndar og forvarna skv. ósk hans, meta vinnustaðinn og vinnuna með sérstöku tilliti til heilbrigðis og öryggis þungaðs starfsmanns, starfsmanns sem nýlega hefur alið barn eða hefur barn á brjósti. Hafi atvinnurekandi ekki frumkvæði í þessu efni eins og honum ber skylda til er mikilvægt að starfsmaðurinn sjálfur óski eftir slíku mati. Til hægðarauka fyrir starfsmenn er aftar í þessu riti eyðublað vegna beiðni þar að lútandi. Vinnueftirlit ríkisins hefur gefið út leiðbeiningarreglur um „mat á efnafræðilegum, eðlisfræðilegum og líffræðilegum skaðvöldum og vinnsluaðferðum sem talið er að hafi hættu í för með sér fyrir þungaða konu”. Þessar leiðbeiningarreglur skulu vera til leiðbeiningar við áhættumatið. Þar er að finna nákvæmar leiðbeiningar um mat á mögulegum skaðvöldum sem geta ógnað öryggi og heilbrigði kvenna sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti. Hægt er að nálgast leiðbeiningarreglurnar á vef Vinnueftirlits ríkisins www.vinnueftirlit.is, þar sem þær eru birtar sem viðauki með reglugerð 931/2000. Sinni atvinnurekandi ekki þeirri skyldu sinni að meta áhættu skal vísa málinu til Vinnueftirlits ríkisins, sem fer með eftirlit með framkvæmdinni skv. reglugerð um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti, nr. 931/2000, og skal Vinnueftirlitið þá hlutast til um málið. Eins er starfsmanni heimilt að  bera mat atvinnurekanda sjálfs eða mat sem hann hefur látið gera undir Vinnueftirlitið ef hann er ósáttur við niðurstöðu matsins.

Tímabundin breyting á vinnuskilyrðum o.fl.

Ef öryggi eða heilbrigði konu í þessari stöðu er talið vera í hættu samkvæmt matinu ber atvinnurekanda að gera ráðstafanir til að tryggja öryggi hennar með því að breyta tímabundið vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma hennar. Verði því ekki við komið af tæknilegum eða öðrum ástæðum skal atvinnurekandi fela konunni önnur verkefni. Atvinnurekandi eða starfsmaður geta leitað umsagnar Vinnueftirlits ríkisins áður en ákvörðun er tekin um breytingu á vinnuskilyrðum, vinnutíma eða verkefnum. Þær breytingar sem teljast nauðsynlegar á vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma, eða breytingar á verkefnum, skulu ekki hafa áhrif á launakjör starfsmanns til lækkunar eða önnur starfstengd réttindi. Með öðrum orðum heldur starfsmaður fullum launum og starfstengdum réttindum þrátt fyrir breytingarnar.

Leyfi frá störfum

Undir vissum kringumstæðum kann sú staða að koma upp að af tæknilegum ástæðum er óæskilegt eða ekki unnt að fela starfsmanninum önnur verkefni eða ekki er unnt að fara fram á það með gildum rökum svo að sanngjarnt geti talist. Þá skal veita starfsmanninum leyfi frá störfum í svo langan tíma sem nauðsynlegt er til að vernda öryggi hans og heilbrigði. Atvinnurekanda er heimilt að leita umsagnar Vinnueftirlits ríkisins áður en ákvörðun er tekin um veitingu leyfis. Ef veita þarf þungaðri konu leyfi frá störfum á hún rétt á greiðslum skv. 13. gr. fæðingarorlofslaga og reglugerð um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Tilvik þar sem vinna er bönnuð

Tilvik þar sem vinna er bönnuð fyrir þungaðar konur

Í viðauka við reglugerð 931/2000 kemur fram skrá yfir helstu skaðvalda og vinnuskilyrði, þar sem vinna er bönnuð fyrir þungaðar konur.

  1. Skaðvaldar.

Þeir eðlisfræðilegir skaðvaldar sem eru nefndir eru vinna undir miklum þrýstingi, t.d. í þrýstiklefum og við köfun.

Þar eru eftirfarandi líffræðilegir skaðvaldar taldir upp, nema þungaðir starfsmenn séu sannanlega nægilega varðir gegn slíkum áhrifavöldum með ónæmisaðgerð:

  • Bogfrymill
  • Veira rauðra hunda

Loks, eru efnafræðilegir skaðvaldar, nánar til tekið blý og blýsambönd, ef hætta er á að mannslíkaminn taki þessa skaðvalda upp, sbr. og 5. mgr. 10. gr. reglna nr. 698/1995 um vinnu með blý og blýsölt.

  1. Vinnuskilyrði.

Vinna neðanjarðar í námum.

Tilvik þar sem vinna er bönnuð fyrir konur sem hafa barn á brjósti

  1. Skaðvaldar

Í þessu skyni eru nefndir efnafræðilegir skaðvaldar, blý og blýsambönd, ef hætta er á að mannslíkaminn taki þessa áhrifavalda upp, sjá nánar reglur nr. 698/1995 um vinnu með blý og blýsölt.

  1. Vinnuskilyrði.

Vinna neðanjarðar í námum.

Bann við vinnu og næturvinna

Í reglugerð nr. 931/2000 er kveðið á um að atvinnurekanda sé óheimilt að skylda þungaðan starfsmann til að vinna störf sem mat hefur sýnt að gætu verið hættuleg vegna mengunar eða vinnuskilyrða og gætu þannig stefnt öryggi eða heilbrigði hans eða ófædds barns hans í voða. Þar er einnig skýrt kveðið á um að óheimilt sé að skylda starfsmann til að vinna að næturlagi á meðgöngutíma og jafnframt í allt að sex mánuði eftir barnsburð, enda sé slíkt nauðsynlegt vegna öryggis og heilbrigðis hans og hann staðfest það með læknis- vottorði.

Í 6. gr. reglugerðar 931/2000 stendur að óheimilt er að skylda þá starfsmenn sem reglugerðin fjallar um til að vinna að næturlagi á meðgöngutíma og jafnframt í allt að sex mánuði eftir barnsburð, enda sé slíkt nauðsynlegt vegna öryggis og heilbrigðis hennar og hún staðfesti það með læknisvottorði.

Þá skal veita starfsmanni leyfi frá störfum í svo langan tíma sem nauðsynlegt er til að vernda öryggi hans og heilbrigði ef:

  1. Af tæknilegum ástæðum óæskilegt eða ekki unnt að breyta vinnutíma starfsmanns, eða
  2. Ekki er unnt að fara fram á það með gildum rökum svo að sanngjarnt geti talist að breyta vinnutíma starfsmanns

Sé starfsmanninum veitt slíkt leyfi á hann rétt á greiðslum í samræmi við 13. gr. fæðingarorlofslaga og reglugerð um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Réttur til mæðraskoðunar á launum

Með samningum sem gerðir voru á fyrri hluta árs 1998 á milli Alþýðusambands Íslands og landssambanda þess, vegna aðildarfélaga sinna annars vegar og viðsemjenda hins vegar er tryggt að þungaðar konur eigi rétt á fjarvistum frá vinnu vegna mæðraskoðunar án frádráttar á föstum launum. Samningsákvæðið er svohljóðandi: „Barnshafandi konur eiga rétt til nauðsynlegra fjarvista frá vinnu vegna mæðraskoðunar án frádráttar á föstum launum þurfi slík skoðun að fara fram í vinnutíma.“

Brjóstagjöf

Margar konur stunda vinnu á meðgöngunni og margar þeirra snúa aftur til starfa á meðan þær hafa barn á brjósti. Talið er að brjóstagjöf geti stuðlað að því að verja konur gegn brjóstakrabbameini og móðurmjólkin ver ungbörn gegn ýmsum sjúkdómum. Hindranir við brjóstagjöf á vinnustað geta haft veruleg áhrif á heilbrigði bæði móður og barns og það fer gegn markmiðum laga nr. 95/2000 um fæðingar og foreldraorlof, laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og ýmsum alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að sbr. t.d. lög nr. 19/2013 um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og lögum 3/1976 um Félagsmálasáttmála Evrópu að banna eða hindra konur í að gefa börnum sínum brjóst eftir að þær snúa aftur til vinnu eftir fæðingu. Um leiðbeiningar hér að lútandi sjá m.a. leiðbeiningar VER um áhættumat í starfsumhverfi þungaðra kvenna og kvenna sem hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti. Þar segir m.a.: "Forvarnir fela í sér: • aðgang að sérherbergi til að gefa barni brjóst eða mjólka brjóstin • afnot af öruggum, hreinum ísskápum til að geyma brjóstamjólk í á meðan vinna stendur yfir og aðstöðu til að þvo, sótthreinsa og geyma ílát • frítíma (án þess að dregið sé af launum eða fríðindi afnumin og án ótta við refsingu) til að mjólka sig eða gefa barni brjóst."

Veikindi á meðgöngu

Sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum, þ.e. vegna veikinda, að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns á hún rétt á greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði í þann tíma, til viðbótar við hefðbundið fæðingarorlof, en þó ekki lengur en í tvo mánuði. Þetta hefur af hálfu úrskurðarnefndar um fæðingar- og foreldraorlof verið túlkað þannig að eingöngu geti verið um að ræða tvo síðustu mánuðina fyrir töku fæðingarorlofs móður. Rökstyðja skal þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi með vottorði læknis. Umsókn um lengingu fæðingarorlofs skal fylgja staðfesting atvinnurekanda. Auk réttar til lengingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði á þunguð kona sem þarf að leggja niður störf vegna veikinda rétt á greiðslum frá atvinnurekanda samkvæmt almennum ákvæðum kjarasamninga um veikindarétt. Þá geta einnig komið til greiðslur sjúkradagpeninga frá sjúkrasjóði viðkomandi stéttarfélags og frá Tryggingastofnun ríkisins.

Brot á reglum - skaðabætur og viðurlög

Brot á 11. gr. fæðingarorlofslaga geta varðað skaðabótum, sbr. 31. gr. sömu laga sem og sektum, sbr. 31. gr. a. Þá geta brot á reglugerð 931/2000 varðað sektum skv. 99. gr. laga nr. 46/1980.