Vinnuréttarvefur

Sérreglur (fjölburafæðingar, andvanafæðing, veikindi o.fl. )

Fjölburafæðingar


Foreldrar eiga sameiginlegan rétt á lengingu fæðingarorlofs um þrjá mánuði fyrir hvert barn umfram eitt. Foreldrar sem ættleiða eða taka í varanlegt fóstur fleiri börn en eitt á sama tíma eiga sameiginlegan rétt á lengingu fæðingarorlofs um þrjá mánuði fyrir hvert barn umfram eitt.

Andvanafæðingar og fósturlát

Foreldrar eiga sameiginlegan rétt á fæðingarorlofi í allt að þrjá mánuði ef um er að ræða andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu.
Sé um að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu eiga foreldrar sameiginlegan rétt á fæðingarorlofi í allt að tvo mánuði.

Veikindi barns

Þurfi barn að dveljast á sjúkrahúsi lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu er heimilt að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um þann dagafjölda sem barnið dvaldi á sjúkrahúsi fyrir fyrstu heimkomu, allt að fjóra mánuði.
Einnig er heimilt að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs í allt að sjö mánuði ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefst nánari umönnunar foreldris.

Veikindi móður

Heimilt er að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu.