Vinnuréttarvefur

Greiðslur í fæðingarorlofi

Greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eru fjármagnaðar af tryggingargjaldi og fer félags- og tryggingamálaráðherra með yfirstjórn fæðingar- og foreldraorlofsmála. Dagleg umsýsla með sjóðnum er í höndum Vinnumálastofnunar, sem jafnframt annast greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi.

Skilyrði fyrir því að fá greitt úr fæðingarorlofssjóði er að foreldri hafi verið samfellt 6 mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma sem barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Starfshlutfall í hverjum mánuði þarf að vera a.m.k. 25%. Foreldri sem er utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi á rétt á fæðingarstyrk.

Þegar foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuðinn á ávinnslutímabilinu skal Vinnumálastofnun, að því marki sem nauðsynlegt er, taka tillit til starfstímabila þess sem starfsmanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, Norðurlandasamningum um almannatryggingar, stofnanasamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samningi milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar á ávinnslutímabilinu enda hafi störf foreldris veitt foreldrinu rétt samkvæmt lögum þess ríkis um fæðingarorlof. Skilyrði er að foreldri hafi hafið störf á innlendum vinnumarkaði innan tíu virkra daga frá því að það hætti störfum á vinnumarkaði í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í öðru Norðurlandaríki, í öðru EFTA-ríki eða í Færeyjum. Foreldri skal láta tilskilin vottorð um áunnin starfstímabil og tryggingatímabil í öðru ríki í samræmi við ákvæði samninganna fylgja með umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi er ákveðið hlutfall af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til heildarlauna teljast jafnframt bætur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, hvort sem um er að ræða greiðslur til foreldris vegna veikra barna eða greiðslur vegna alvarlegra veikinda maka sbr. úrskurð Úrskurðarnefndar í fæðingar- og foreldraorlofsmálum nr. 19/2014.

Í lögunum er að finna heimildir til að leiðrétta greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hafi þær verið rangar. Það gildir hvort heldur um ofgreiðslur eða vangreiðslur hefur verið að ræða.

Nánari upplýsingar um fjárhæðir og útreikninga er að finna á heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs.

Fæðingarstyrkur til foreldris utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi

Í 18. gr. fæðingarorlofslaga er fjallað um fæðingarstyrks til foreldra sem eru annað hvort utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi. 25% starf samsvarar minna en 43 klukkustundum á mánuði skv. lögunum eða það sem myndi teljast til 25% starfs skv. kjarasamningi.

Skilyrðin fyrir því að öðlast slíkan styrk er að foreldri hafi átt lögheimili á Íslandi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingu barns og eigi lögheimili hélendis við fæðingu barns, ættleiðingu eða varanlegt fóstur.

Þá miðast rétturinn, líkt og fæðingarorlof þeirra í hærra starfshlutfalli, við að hvert foreldri fyrir sig fái 3 mánuði í fæðingarorlofs og að sá réttur sé óframseljanlegur. Jafnframt eiga foreldrar sameiginlegan rétt á fæðingarstyrk í 3 mánuði til viðbótar sem annað foreldri getur fengið í heild eða foreldrar skipt honum með sér.

Fæðingarstyrkur til foreldra í fullu námi

Þá eiga foreldrar sem eru í fullu námi einnig rétt á fæðingarstyrk.

Til þess að eiga rétt á slíkum styrki þurfa foreldrar að hafa verið í fullu námi a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi

Uppfylla foreldrar það skilyrði eiga þau sjálfstæðan rétt til fæðingastyrks í allt að 3 mánuði hvort um sig. Er þessi réttur óframseljanlegur. Þar að auki eiga foreldrar sameiginlegan rétt á fæðingarstyrk í þrjá mánuði til viðbótar sem annað foreldri getur fengið í heild sinni eða foreldrar skipt með sér eins og þeim sýnist.