Vinnuréttarvefur

Útsendir starfsmenn - EES

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 96/71/EB  frá 16. desember 1996 um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu.      

Tilskipunin á ensku.

Gildandi lög: Lög um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra nr. 45/2007.  Þessum lögum var breytt með þingmáli nr. 468 sem samþykkt var á Alþingi 8.6 2018. Með þeim var m.a. tekin upp keðjuábyrgð í mannvirkjagerð. Sjá ýtarlegt minnisblað ASÍ (06.2018) um lagabreytingarnar.  

Gildissvið. Tilgangur þessarar tilskipunar er að tryggja að starfsmenn fyrirtækja sem sendir eru til starfa tímabundið til annarra aðildarríkja njóti sambærilegra starfskjara og launafólk sem starfar að jafnaði í gistiríkinu. Með starfskjörum er átt við ákvæði um hámarksvinnutíma og lágmarkshvíldartíma, lágmarksfjölda launaðra frídaga á ári, laun ásamt yfirvinnukaupi, heilbrigði, öryggi og hollustuhætti á vinnustað, verndarráðstafanir með tilliti til skilmála og skilyrði fyrir ráðningu barnshafandi kvenna eða kvenna sem hafa nýlega fætt barn, ráðningu barna og ungmenna og jafna meðferð karla og kvenna og önnur ákvæði um jafnræði. Skilyrði er að starfsmaðurinn sé í ráðningarsambandi við fyrirtækið þann tíma hann starfar tímabundið í gistiríkinu.

Innleiðing tilskipunar 96/71/EC

Upphafleg innleiðing með lögum 45/2001 

Unnið var að gildistöku tilskipunarinnar á árunum 1999 og 2000 og kom ASÍ að þeim undirbúningi á öllum stigum. Þegar frumvarp til laga um útsenda starfsmenn var síðan lagt fram á árinu 2001 gagnrýndi ASÍ efni þess að og taldi að of skammt hefði verið gengið til verndar íslenskum vinnumarkaði. Í umsögn ASÍ um frumvarpið sagði m.a.: „Það er meginregla hér á landi að umsamin laun og önnur starfskjör launafólks skv. kjarasamningum eru lágmarkskjör sem einstakir launamenn geta ekki samið sig frá. Þetta birtist í 1.gr. l. 55/1980 eins og alkunna er. Lögin gilda um allt launafólk sem starfar á Íslandi, hvort heldur launagreiðandi er íslenskur eða erlendur, hvort heldur hann hefur staðfestu á Íslandi, á EES-svæðinu eða annarsstaðar.“ Á þessum forsendum lagði ASÍ til að um laun og önnur starfskjör myndu öll ákvæði íslenskra kjarasamninga gilda en þeir hafa ergo omnes áhrif skv. lögum nr. 55/1980 og þar sem mismunun á grundvelli þjóðernis væri bönnuð skyldu útsendir starfsmenn njóta sömu launa og aðrir á íslenskum vinnumarkaði þ.e. markaðslauna eins og þau væri á hverjum tíma. Þetta náði ekki fram að ganga og sett var tiltölulega einföld löggjöf á þessu sviði sem einungis vísaði til helstu lagaákvæða sem giltu um lágmarkskjör, vinnuvernd o.fl.

Kjarasamningur um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði 2004

Mikill fjöldi erlends verkafólks streymdi til Íslands á næstu árum, aðallega í tengslum við stórar virkjanaframkvæmdir og þenslu í byggingaframkvæmdum. Fjölmörg mál komu upp þar sem gengið var á réttindi erlends launafólks. Á árinu 2004 gerðu ASÍ og samtök atvinnurekenda, SA, með sér samkomulag um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. Með því lýstu aðilar vinnumarkaðarins því yfir, að það væri sameiginlegt verkefni þeirra að varðveita gildandi fyrirkomulag á vinnumarkaði og að það væri sameiginlegt verkefni þeirra að stuðla að því að fyrirtæki sem nýti erlent vinnuafl vegna framleiðslu sinnar eða þjónustu, greiði laun og starfskjör í samræmi kjarasamninga og lög hér á landi. Samkomulagið geymir ákvæði um upplýsingagjöf til trúnaðarmanna stéttarfélaganna og um samráðsnefnd aðila sem hafi m.a. það hlutverk að leysa úr ágreiningi í einstökum málum. Í framhaldinu tryggðu stjórnvöld með breytingu á lögum nr. 55/1980 um starfskjör launafólks að samningar aðila vinnumarkaðarins um málsmeðferð í ágreiningsmálum, um hvort laun og ráðningarkjör starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði séu í samræmi við ákvæði laga og kjarasamninga, skyldu hafa sama almenna gildi og samningar þeirra um laun og önnur starfskjör, þ.e. þeir hefðu eins kjarasamningar ergo omnes áhrif fyrir allan vinnumarkaðinn.

Undirbúningur og setning laga nr. 45/2007

Reynslan af framkvæmd samkomulagsins frá árinu 2004 og aukinn þrýstingur á íslenska vinnumarkaðsmódelið á næstu árum leiddi til þess að Félagsmálaráðherra setti á starfshóp með aðilum vinnumarkaðarins til þess að fara yfir málefni útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. Starfshópurinn lagði m.a. til endurskoðun á lögum nr. 54/2001 sem innleitt höfðu tilskipun 96/71/EC á sínum tíma. Starfshópurinn taldi mikilvægt að styrkja stoðir ríkjandi vinnumarkaðskerfis að því er varðar erlend fyrirtæki sem senda starfsmenn sína tímabundið hingað til lands í tengslum við veitingu þjónustu á grundvelli EES-samningsins. Í kjölfarið voru sett ný heildarlög, lög nr. 45/2007 sem fólu í sér nokkrar grundvallarbreytingar.

Í þeim er gert er ráð fyrir að erlend fyrirtæki sem hafa staðfestu í öðru ríki innan EES og ætla að veita þjónustu hér á landi á grundvelli EES samningsins lengur en tíu virka daga á hverjum tólf mánuðum skuli veita Vinnumálastofnun tilteknar upplýsingar um starfsemi sína hér á landi. Er miðað var að upplýsingarnar yrðu veittar eigi síðar en átta virkum dögum áður en þjónustan er veitt í hvert skipti. Þó er lagt til að fyrirtæki sem senda starfsmenn sína hingað til lands til að veita þjónustu í fjórar vikur eða skemur á hverjum tólf mánuðum verði undanskilin framangreindri upplýsingaskyldu enda feli þjónustan í sér sérhæfða samsetningu, uppsetningu, eftirlit eða viðgerð tækja. Enn fremur er fyrirtækjum sem veita þjónustu hér á landi samtals lengur en fjórar vikur á hverjum tólf mánuðum gert að hafa hér sérstakan fulltrúa sem kemur fram fyrir hönd fyrirtækisins gagnvart stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðarins, en gert er ráð fyrir að þessi skylda hvíli á fyrirtækjum sem að jafnaði hafa sex eða fleiri starfsmenn á sínum vegum hér á landi. Þá er lögð sú skylda á notendafyrirtæki að þau gangi úr skugga um að hin erlendu fyrirtæki sem þau hafa gert samninga við um veitingu þjónustu hafi veitt Vinnumálastofnun þær grunnupplýsingar sem þeim ber að veita samkvæmt lögunum en þær varða m.a. nafn fyrirtækis ásamt upplýsingum um staðfestu þess í heimaríki þar sem fram kemur nafn fyrirsvarsmanns fyrirtækis, heimilisfang í heimaríki, tegund þjónustunnar sem veita skal og virðisaukaskattsnúmer eða önnur sambærileg heimild um starfsemi í heimaríki sem sýnir fram á að fyrirtækið starfi löglega í heimaríki í viðkomandi starfsgrein samkvæmt lögum þess ríkis, ásamt nafni notendafyrirtækis og kennitölu eða öðru sambærilegu auðkenni þess. Yfirlit yfir starfsmenn sem starfa munu á vegum fyrirtækisins hér á landi þar sem fram kemur nafn, fæðingardagur, heimilisfang í heimaríki, ríkisfang, upplýsingar um að viðkomandi starfsmenn njóti almannatryggingaverndar í heimaríki (E-101), dvalarstaður og áætlaður dvalartími hér á landi og starfsréttindi eftir því sem við á. Gildi atvinnuleyfa starfsmanna í heimaríki þegar um er að ræða starfsmenn sem ekki eru ríkisborgarar ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu og loks staðfestingu þess að starfsmenn hér á landi njóti slysatrygginga sem nánar eru skilgreindar í lögunum. Jafnframt voru sett skýr ákvæði um rétt hinna útsendu starfsmanna til fastra launa skv. ráðningarsamningi (ekki lágmarkslauna skv. kjarasamningum) í veikinda- og slysatilvikum en þau endurspegla þau grunnréttindi sem kjarasamningar á almennum vinnumarkaði geyma. Lögin geyma einnig ákvæði um eftirlit Vinnumálastofnunar, upplýsingaskyldu bæði þjónustu- og notendafyrirtækis þ.m.t. skyldu til afhendingar á ráðningarsamningum og loks ákvæði um heimild til stöðvunar á starfsemi sé ekki eftir lögunum farið.

ASÍ hafði á undirbúningstíma laganna mikil áhrif á efni þeirra og var sátt við þær niðurstöður sem fengust.  

Viðbrögð ESA og Íslands

Eftir að nýju lögin höfðu verið samþykkt tók ESA þau til skoðunar og komst í rökstuddu áliti að því að tiltekin ákvæði þeirra brjóti í bága við 36. gr. EES samningsins og tilskipun nr. 96/71/EC m.a. vegna þess að lögin feli í sér kröfur sem jafna megi til þess að sækja þurfi um leyfi fyrir fram til að geta hafið starfsemi hér á landi (e. a prior authorisation requirement). Nánar tilgreint voru athugasemdirnar eftirfarandi:

  1. Þjónustuaðili þurfi að veita Vinnumálastofnun upplýsingar átta virkum dögum áður en þjónustan hefst.
  2. Vinnumálastofnun skuli veita skriflega staðfestingu um móttöku gagna sem þjónustuveitandanum er skylt að afhenda notendafyrirtæki áður en þjónustan er veitt
  3. Að fyrirtæki sé óheimilt að veita hér þjónustu láti það hjá líða að tilkynna um fulltrúa sinn til Vinnumálastofnunar eða um skipti á fulltrúa.

Að ákvæði laganna um rétt til launa í veikinda- og slysatilvikum og slysatryggingar vegna andláts, varanlegs líkamstjóns og tímabundins missis starfsorku séu ekki hluti af þeim starfsskilyrðum sem tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 96/71/EB, um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu, gerir ráð fyrir, sbr. a–g-lið 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar.

Alþingi, að höfðu nánu samráði við aðila vinnumarkaðarins, ákvað að mæta hluta af athugasemdum ESA. Lögum 45/2007 var í framhaldinu breytt þannig að m.a. er nægilegt nú að upplýsingar fyrirtækja sem senda starfsmenn hingað til lands í skjóli tilskipunar 96/71/EC yrðu afhentar sama dag og starfsemi hefst hér á landi, upplýsingaákvæði um staðfestingu um almannatryggingavernd í heimaríki var einfaldað þ.a. taka mætti tillit til fleiri sönnunargagna en eyðublað E-101 og Vinnumálastofnun skylduð til þess að staðfesta móttöku gagna tveimur dögum eftir móttöku. Sambærilegar skyldu notendafyrirtækjanna tóku samskonar breytingum. Við lögin var síðan bætt sérstöku ákvæði um dagsektir ef þau fyrirtæki sem í hlut ættu bættu ekki úr annmörkum sem Vinnumálastofnun krefðist úrbóta á. Þessar breytingar voru fyrst og fremst rökstuddar með vísan til almennra reglna um meðalhóf í stjórnsýslu ríkisins sbr. 12.gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Hins vegar var ekki fallist á að gera neinar breytingar á ákvæðum laganna um veikinda- og slysarétt starfsmanna eins og ESA hafði gert kröfu um sbr. 4.tl. hér að ofan. Í greinargerð með lagafrumvarpi því sem lögunum breytti segir: „Að mati [ESA] fela þessi ákvæði í sér hindrun á frjálsum þjónustuviðskiptum á grundvelli 36. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið þar sem efni þeirra sé ekki hluti af þeim starfsskilyrðum sem tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 96/71/EB, um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu, gerir ráð fyrir, sbr. a–g-lið 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar. Það verður hins vegar að líta svo á að umrædd ákvæði laganna feli í sér kjarasamningsbundin réttindi á íslenskum vinnumarkaði sem eru hluti af lágmarkskjörum launafólks og hafi þannig að geyma mikilvæga vernd fyrir launafólk sem starfar hér á landi. Í því skyni að tryggja að erlent starfsfólk njóti þeirra lágmarksréttinda og -kjara sem gilda á íslenskum vinnumarkaði til jafns við aðra sem hér starfa hefur það því þótt grundvallaratriði að ákvæði þessi verði áfram í lögunum. Áhersla er jafnframt lögð á að efni þeirra gildir með fyrirvara um betri rétt starfsmanna samkvæmt ráðningarsamningi við hlutaðeigandi fyrirtæki, kjarasamningi eða löggjöf í því ríki þar sem þeir starfa að jafnaði. Í frumvarpi þessu eru því ekki lagðar til breytingar á 5. og 7. gr. laganna þrátt fyrir athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA að þessu leyti.“ Með öðrum orðum þá áskildi Alþingi Íslandi rétt til þess að standa vörð um mikilvægan hluta hins íslenska vinnumarkaðsmódels þ.e. að allt launafólk starfi hér á landi á sömu lágmarksréttindum sem veikinda- og slysaréttur væri óaðskiljanlegur hluti af. ESA brást við með því að höfða mál á hendur Íslandi fyrir EFTA dómstólnum.

Dómur í máli E-12/10 og viðbrögð Íslands

ESA byggði málssókn sína aðallega á því að ákvæði um rétt til launa í veikinda- og slysatilvikum féllu utan lágmarslaunahugtaks 1.mgr. 3.gr. tilskipunarinnar og undir ákvæði reglugerðar Nr. 1408/71 um almannatryggingar og að ákvæðið um skyldubundin kaup kaup slysatrygginga félli utan tæmandi talningar greinarinnar. Ísland byggði aðallega á því að ákvæðin um laun í veikinda- og slysatilvikum féllu undir lágmarkslaunahugtak 1.mgr. 3.gr. tilskipunarinnar og ákvæðin um slysatryggingar undir ákvæði landsréttar um skaðabætur og vátryggingar og félli því utan gildissviðs tilskipunarinnar og væri því heimilt. Jafnframt var byggt á því að hvorutveggja réttlætist með vísan til undanþáguákvæðis 10.mgr. 3.gr. tilskipunarinnar um allsherjarreglu (public policy). EFTA-dómstóllinn taldi að 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar hefði að geyma tæmandi upptalningu á þeim ráðningarskilmálum og atvinnuskilyrðum sem EES-ríki gæti gert fyrirtækjum, með staðfestu í öðru EES-ríki, að virða þegar þau sendu starfsmenn til starfa á yfirráðasvæði þess. Í þeirri upptalningu væri að finna „lágmarkslaun ásamt yfirvinnukaupi“. Taldi dómstóllinn að greiðslur launa í veikinda- og slysatilvikum samkvæmt íslenskum lögum gætu ekki fallið undir hugtakið lágmarkslaun í skilningi tilskipunarinnar þar sem þau gerðu ráð fyrir að laun í veikinda- og slysatilvikum miðuðust við föst laun en ekki við lágmarkslaun. Dómstóllinn taldi einnig að ákvæði laganna um skyldubundna slysatryggingu varðaði starfskjör en ekki landsrétt um skaðabætur og vátryggingar og félli þar með undir 1.mgr. 3. gr. tilskipunarinnar. Þar sem skyldubundin slysatrygging væri ekki talin þar upp þá yrði að telja slíka skyldu fara í bága við tilskipunina. Að lokum komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að ekki væri unnt að réttlæta íslenskar reglur um rétt starfsmanna til launa í veikinda- og slysatilvikum á grundvelli allsherjarreglu þar sem Ísland hefði ekki sýnt fram á að þær væru nauðsynlegar til að mæta raunverulegri og alvarlegri ógn við grundvallarhagsmuni íslensks samfélags.

Alþingi, að höfðu nánu samráði við aðila vinnumarkaðarins, ákvað að mæta þessum dómi með því að sættast á niðurstöðu hans um skyldubundna slysatryggingu og fella þau ákvæði úr lögum 45/2007. Eins skammt var gengið eins og kostur var hvað varðar laun í veikinda- og slysatilvikum og lögunum breytt þannig að nú er vísað til kjarasamningsbundinna launa sem er í samræmi við ákvæði 1.gr. laga 55/1980, í stað fastra launa.  

Dómar

Evrópudómstóllinn

C-346/06 3. apríl 2008. Dirk Rüffert.

Í málinu var fjallað um lög í Lower Saxony í Þýskalandi sem kváðu á um að byggingaverktökum, þ.m.t. undirverktökum, sem tækju þátt í opinberum útboðum væri skylt að fara að reglum um greiðslu lágmarkslauna samkvæmt tilteknum kjarasamningi sem gilti á svæðinu. Þýskt verktakafyrirtæki Objekt und Bauregie (O&B) hafði á grundvelli opinbers útboðs fengið úthlutað samningi um byggingu fangelsis í Lower Saxony. Fyrirtækið réð pólskan undirverktaka til verksins. Í ljós kom að undirverktakinn greiddi 53 starfsmönnum sínum laun sem náðu ekki helmingi þeirra lágmarkslauna sem kveðið var á um í framangreindum kjarasamningi.  Þessir starfsmenn höfðu stöðu sem útsendir starfsmenn í Þýskalandi, þ.e. þeir voru ráðnir til starfa í Póllandi en sendir af vinnuveitanda sínum til tímabundinna starfa í Þýskalandi.

Í kjölfar gjaldþrotaskipta á búi O&B komu upp ýmsar spurningar um gildi þessara reglna gagnvart lögum Evrópusambandsins um frelsi til að veita þjónustu yfir landamæri aðildarríkja og staðfesturétt fyrirtækja. 

Evrópudómstóllinn fékk málið til umfjöllunar og komst að þeirri niðurstöðu að umræddar reglur stæðust ekki samkvæmt tilskipun 96/71/EB, sbr. einnig 49. gr. laga Evópusambandsins. Þá niðurstöðu rökstuddi dómstóllinn með vísan til þess að lágmarkskjörum samkvæmt áðurnefndum kjarasamningi hefði ekki verið veitt almennt gildi á þýsku vinnumarkaði með þeim aðferðum sem tilskipun 96/71/EB kvæði á um. Í Þýskalandi væri fyrir hendi ákveðið fyrirkomulag um þetta efni sem fylgja mætti ef veita ætti kjarasamningum almennt gildi, þ.m.t. í byggingariðnaði. Þeim reglum hefði hins vegar ekki verið fylgt í þessu tilviki. Lögin sem gerðu lágmarkslaun samkvæmt áðurnefndum kjarasamningi skuldbindandi ættu einungis við um opinber útboð og samninga og giltu því einungis um takmarkaðan hluta byggingariðnaðarins.

Af því leiddi að ekki var hægt að skilgreina laun samkvæmt áðurnefndum kjarasamningi sem lágmarkslaun sem almennt gildi hefðu í skilningi c-liðar 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar.

Þess ber að geta niðurstaða Evrópudómstólsins í þessu máli hefur enga þýðingu hér á landi. Það skýrist af því að lágmarkskjör samkvæmt kjarasamningum á almennum vinnumarkaði, þ.m.t. í byggingariðnaði, eru skuldbindandi fyrir alla atvinnurekendur og starfsmenn þeirra, sbr. lög nr. 55/1980 um starfskjör launafólks.

C-244/04. 19. janúar 2006. Framkvæmdastjórnin gegn Þýskalandi. 

Fyrirtæki með rikisborgara þriðja ríkis í starfsliði sínu. Að mati Evrópudómstólsins er aðildarríki óheimilt að gera það að skilyrði fyrir atvinnuþátttöku slíkra starfsmanna á sínu landssvæði að þeir hafi áður verið í a.m.k. eitt ár í þjónustu hins erlenda fyrirtækisins. 

C-341/02. 14. apríl 2005. Framkvæmdastjórnin gegn Þýskalandi.

Hugtakið lágmarkslaun skv. 3. gr. tilskipunarinnar. Fyrirtæki í byggingariðnaði. Samanburður á lágmarkslaunum samkvæmt reglum starfsríkis og þeim launum sem hið erlenda fyrirtæki greiðir starfsmönnum sínum skv. ráðningarsamningi eftir þeim reglum sem gilda í heimaríki þeirra. 

Samkvæmt reglum starfsríkis var ekki tekið tillit til ýmissa hlunninda og aukagreiðslna sem voru hluti af launum hinna erlendu starfsmanna við mat á því hvort laun þeirra uppfylltu kröfur um lágmarkslaun í starfsríkinu. Sá háttur við samanburð á launum í heimaríki og starfsríki var að mati Evrópudómstólsins talinn andstæður ákvæðum tilskipunarinnar.

C-445/03. 21. október 2004. Framkvæmdastjórnin gegn Lúxemborg.

Kröfur starfsríkis um að erlend fyrirtæki sæki um atvinnuleyfi vegna starfsmanna sinna með ríkisfang í þriðja ríki samræmast ekki ákvæðum Rómarsáttmálans um frjáls þjónustuviðskipti.

C-60/03. 12. október 2004. Wolff & Müller.

Í málinu var fjallað um ákvæði í þýskum lögum sem kváðu á um ábyrgð aðalverktaka í byggingariðnaði á kröfum starfsmanna undirverktaka vegna vangoldinna launa. Þær reglur voru að mati Evrópudómstólsins taldar vera í samræmi við markmið tilskipunarinnar um útsenda starfsmenn.

C-279/00. 7. febrúar 2002. Framkvæmdastjórnin gegn Ítalíu.

Í málinu var fjallað um ítölsk lög er kváðu á um að starfsmannaleigur, skráðar í öðrum aðildarríkjum, sem veittu ítölskum fyrirtækjum þjónustu, yrðu að skrá skrifstofu eða útibú á Ítalíu. Auk þess var gerð krafa um að slíkar starfsmannaleigur legðu fram tryggingu að upphæð 700 milljóna líra sem væri gefin út af bankastofnun með skráða skrifstofu eða útibú á Ítalíu.

Niðurstaða Evrópudómstólsins var sú að slík lagaskilyrði brytu í bága við skyldur ítalska ríkisins samkvæmt 49. og 56. gr. Rs.  

C-164/99. 24. janúar 2002. Portugaia Construções.

Málið varðaði fyrirtæki með staðfestu í Portúgal, Portugaia að nafni, sem vann tímabundið að byggingaframkvæmdum í Þýskalandi árið 1997. Rannsókn yfirvalda í Þýskalandi á starfskjörum manna á vinnusvæðinu leiddi í ljós að launakjör starfsmanna Portugaia voru lægri en lágmarkskjör samkvæmt kjarasamningi í byggingariðnaði sem hafði almennt gildi samkvæmt lögum. Var fyrirtækinu skipað að greiða mismunin milli þess tímakaups sem það átti að greiða og þess tímakaups sem fyrirtækið hafði í raun greitt starfsmönnum sínum, margfaldað með fjölda vinnustunda, eða samtals 138.018,52 þýsk mörk.

Málið var lagt fyrir Evrópudómstólinn með hliðsjón af því hvort að framangreind löggjöf og framkvæmd hennar stæðist 59. og 60. gr. Rómarsáttmálans.

Fram kom í málinu að hin þýsku lög sem veittu aðalkjarasamningi í byggingariðnaði almennt gildi höfðu þann tilgang að verja þýskan vinnumarkað einkum gegn félagslegum undirboðum (e. social dumping) vegna innflutnings ódýrs vinnuafls frá láglaunalöndum, að draga úr atvinnuleysi í landinu og til að gera þýskum fyrirtækjum kleift að laga sig að aukinni samkeppni gagnvart fyrirtækjum á innri markaði sambandsins. 

Einnig kom fram að ólíkt þýskum atvinnurekendum, átti atvinnurekendur frá öðrum aðildarríkjum, ekki kost á því að gera sérkjarasamninga við þýsk stéttarfélög um lægri staðbundin launakjör en almennir kjarasamningar í byggingariðnaði kváðu á um. Niðurstaða Evrópudómstólsins var sú að með þessu fyrirkomulagi væri fyrirtækjum mismunað eftir þjóðerni þeirra og bæri að flokka sem óréttmæta hindrun á frelsi fyrirtækja til að veita þjónustu yfir landamæri aðildarríkja sambandsins.

C-49/98, C-50/98, C-52/98 - C-54/98 & C-68/98 - C-71/98. 25. október 2001. Finalarte.

Launað orlof. Samanburður við sambærileg réttindakerfi í heimaríki starfsmanna. 


C-165/98. 15. mars 2001. Mazzoleni.

Kjarasamningur sem gerður var í júní 1993 um starfskjör öryggisvarða á almennum vinnumarkaði og hafði almennt bindandi gildi á grundvelli belgískra laga um kjarasamninga, tók til allra einkarekinna öryggisfyrirtækja sem veittu þjónustu á belgísku yfirráðasvæði, án tillits til þess hvort aðalstöðvar þeirra væri innan eða utan Belgíu. Í þessum samningi voru m.a. ákvæði um lágmarkstímakaup og upphæð ýmissa viðbótargreiðslna. Brot atvinnurekanda á ófrávíkjanlegum ákvæðum kjarasamninga er skilgreint sem refsivert brot samkvæmt áðurnefndum lögum.

Fyrirtækið ISA, með staðfestu í Mont-Saint-Martin í Frakklandi, réði á tímabilinu 1. janúar 1996 til 14. júlí 1997, 13 öryggisverði til að starfa í verslunarmiðstöð í Messancy, Belgíu. Hluti af þessum hóp voru í fullu starfi í Belgíu, en aðrir störfuðu bæði þar og í Frakklandi.

Belgíska vinnueftirlitið óskaði eftir því við Mazzoleni, forsvarsmann þessa fyrirtækis, að hann léti af hendi ýmis gögn um þessa starfsmenn, þ.á m. launaseðla. Þessir launaseðlar báru með sér grunn mánaðarlaun starfsmanns ISA í Belgíu voru 6.692 franskir frankar fyrir 169 vinnustundir, sem svaraði til u.þ.b. 40.152 belgískra franka sem jafngiltu 237.59 belgískum frönkum í tímakaup. Lágmarkslaun samkvæmt áðurnefndum kjarasamningi voru hins 356.68 belgískir frankar.

Á grundvelli þessara upplýsinga var refsimál höfðað gegn Mazzoleni og ISA fyrir brot þeirra á framangreindum lögum og kjarasamningi. ISA byggði vörn sína á því að fyrirtækinu bæri, að því er varðar lágmarkslaun, einungis að virða ákvæði franskra laga á því sviði. Sérstakt eðli öryggisþjónustu hefði það í för með sér að nauðsynlegt væri að rótera starfsfólki milli vinnustaða til að koma í veg fyrir að viðskiptavinir fyrirtækja bæru kennsl á þá. Starfsmenn fyrirtækisins störfuðu af þeim sökum að hluta til í Belgíu, þ.e. starfsmanni kynni á tilteknu tímabili sem gæti verið einn dagur, vika eða mánuður, að vera falið að gegna starfsskyldum sínum að hluta í einhverju nágrannalanda Belgíu. Að mati ISA ætti tilskipunin um útsenda starfsmenn ekki við í slíkum tilvikum.

Þá byggði ISA á því að umræddir 13 starfsmenn nytu á grundvelli franskra laga sömu, eða í öllum verulegum atriðum, sambærilegrar verndar og samkvæmt belgískum lögum. Lágmarkslaun í Frakklandi væru reyndar lægri en í Belgíu, en þegar kæmi að samanburði milli þessara ríkja, þá væri nauðsynlegt að taka með reikninginn stöðu starfsmannsins í heild sinni, þ.m.t. með hliðsjón af skattalögum, sem að sögn ISA, væru hagstæðari í Frakklandi.

Dómstóllinn sendi eftirfarandi fyrirspurnir til Evrópudómstólsins. Í fyrsta lagi hvort að tilskipunin ætti við um þau sérstöku málsatvik sem fyrir hendi voru í þessu máli og í öðru lagi hvort ákvæði áðurnefndra laga um lágmarkslaun færu í bága við 59. og 60. gr. Rs., að teknu tilliti til þess að umræddir starfsmenn nytu sambærilegrar verndar samkvæmt frönskum lögum um lágmarkslaun heildstætt metið þegar jafnframt væri tekið tillit til annarra þátta (áhrifa skattalaga, tryggingaverndar vegna veikinda, þ.m.t. skyldubundins viðbótartryggingarkerfis í Frakklandi, tryggingarverndar vegna vinnuslysa, ekknabóta, atvinnuleysistrygginga, greiðslna við starfslok og dauða).

Niðurstaða Evrópudómstólsins var sú að þar sem atvik þessa máls áttu sér áður en frestur aðildarríkja til að innleiða tilskipun um útsenda starfsmenn í landsrétt sinn var útrunninn, væri ekki hægt að byggja á ákvæðum hennar í þessu máli. Niðurstaða dómstólsins að því er varðar síðari fyrirspurnina var á þá leið að 59. gr. Rómarsáttmálans (nú 49. gr.) og 60. gr. (nú 50. gr.) komi ekki í veg fyrir að aðildarríki krefjist þess af fyrirtæki sem hefur staðfestu í öðru aðildarríki, en veitir þjónustu í því fyrra, að það greiði starfsmönnum þau lágmarkslaun sem mælt fyrir um í lögum þess ríkis. Beiting slíkra reglna geti engu að síður verið talin ganga lengra en tilefni sé til, ef hlutaðeigandi starfsmenn starfa á vegum fyrirtækis sem er staðsett í landamærahéraði og verða, í hlutastarfi og í skamman tíma hverju sinni, að gegna hluta af starfsskyldum sínum á landssvæði eins, eða eftir atvikum fleiri aðildarríkja, en þess ríkis þar sem vinnuveitandi þeirra er með staðfestu.

Það sé í verkahring til bærra stjórnvalda í því ríki þar sem slík fyrirtæki veita þjónusta að ákveða hvort, og að hve miklu leyti, beiting ákvæða í landsrétti um lágmarkslaun sé nauðsynleg og hæfileg í því skyni að tryggja vernd hlutaðeigandi starfsmanna.

C-58/98. 3. október 2000. Corsten.

C-369/96 og C-376/96. 23. nóvember 1999. Arblade.

Tvö frönsk fyrirtæki unnu við byggingaframkvæmdir í Belgíu en létu undir höfuð leggjast að greiða starfsmönnum sínum sem þangað voru sendir á árinum 1991 til 1993 laun í samræmi við þarlenda kjarasamninga. Af hálfu belgískra yfirvalda var höfðað refsimál á hendur forsvarsmönnum viðkomandi fyrirtækja, Arblade og Leloup, vegna brota þeirra á lögum er veita kjarasamningum þar í landi almennt gildi. Í málinu reyndi á ekki aðeins á gilda kjarasamninga að því er varðar lágmarkslaun heldur einnig á ýmsa aðra þætti í þarlendri vinnulöggjöf. Var m.a. deilt um það hvort heimilt væri að skylda hin erlendu fyrirtæki til að kaupa sérstakar launatryggingar vegna óveðurs og greiða ákveðna bónusa tengdum ráðningartíma starfsmanna. Auk þess var deilt um gildi reglna varðandi útgáfu og varðveislu starfsmannareglna, ráðningarsamninga, skrá yfir starfsmenn o.fl. 

Evrópudómstóllinn féllst á að heimilt væri að skylda erlend þjónustufyrirtæki til að fara að kjarasamningum í gistiríki. Evrópudómstóllinn skilgreinir slíkar reglur engu að síður sem takmarkanir á rétti fyrirtækja til veita þjónustu yfir landamæri ríkja og verða slíkar takmarkanir því að uppfylla ákveðin skilyrði:  

- slíkar takmarkanir verður að vera hægt að réttlæta með vísan til mjög mikilvægra þátta er varða vernd almannahagsmuna.
- aðildarríki verður að virða meginreglur um gagnkvæma viðurkenningu, þ.e. horfa verður til þess hvernig málum er skipað í heimaríki viðkomandi starfsmanna. 
- takmarkanir verða að byggja á hlutlægum ástæðum, og 
- gæta verður meðalhófs, þ.e. ekki má ganga lengra en nauðsyn krefur miðað við þá hagsmuni sem viðkomandi reglum er ætlað að standa vörð um. 

C-272/94. 28. mars 1996. Guiot.

Skylda atvinnurekanda til að greiða gjöld vegna útsendra starfa til félagslegra sjóða. 

C-43/93. 9. ágúst 1994. Vander Elst.

Erlent þjónustufyrirtæki var með ríkisborgara þriðja ríkis í starfsliði sínu. Þeir voru löglegir í aðildarríkinu þar sem fyrirtækið hafði staðfestu. Evrópudómstóllinn kvað á um að fyrirtækinu hefðu að þeim sökum verið heimilt að senda þá til annarra ríkja innan Evrópusambandsins í tengslum við veitingu þjónustu og að viðkomandi aðildarríkjum væri óheimilt að gera þá kröfu að sótt væri um atvinnuleyfi fyrir þá.

C-113/89. 27. mars 1990. Rush Portuguesa.

Fyrirtæki með staðfestu í Portúgal var með ríkisborgara þriðja ríkis í starfsliði sínu. Spurt var hvort því væri heimilt að senda þá til annars aðildarríkis til að vinna þar tímabundið við byggingarframkvæmdir án þess að sækja um atvinnuleyfi fyrir þá.

Evrópudómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að fyrirtækinu væri ekki skylt að sækja um atvinnuleyfi í gistiríkinu vegna þeirra. Það skilyrði var hins vegar sett að starfsmennirnir væru löglegir í Portúgal, þ.m.t. með atvinnuleyfi þar í landi, hluti af föstu starfsliði fyrirtækisins og að einungis væri um tímabundna atvinnuþátttöku í gistiríkinu að ræða.

Evrópudómstóllinn tekur það fram að aðildarríkjum sé heimilt að knýja erlend þjónustufyrirtæki til að greiða starfsmönnum sínum laun í samræmi við kjarasamninga sem almennt gildi hafa í gistiríkinu.