22. mars 2013

Verðrýnendum úthýst

Gagnrýnendur eru ekki í vinnu hjá þeim sem þeir gagnrýna. Þeir eru í vinnu hjá neytendum hins gagnrýnda. Mörgum hættir hins vegar til að að líta á gagnrýni sem hluta af eigin markaðssetningu, segir Pawel Bartoszek í grein Fréttablaðinu í dag. Þar fer Pawel yfir þau veiku rök sem verslanirnar Nóatún, Víðir, Kostur og Hagkaup hafa beitt í deilu sinni við ASÍ. Hann segir m.a.:

"Verðlagseftirlit er eins og leikhúsgagnrýni fyrir búðir. Ég er ekki að segja að búðareigendum beri einhver sérstök skylda til að liðka sérstaklega fyrir þeim sem slíku eftirliti sinna. Tími starfsmanna kostar. En þegar beinlínis á að banna fólki að mæta í búð með spjaldtölvu og lista af vörum þá er það auðvitað algjört rugl. Eitt er að hætta að bjóða Jóni Viðari frítt á frumsýningar. Annað væri að banna honum alfarið að koma í leikhús.
 
Í Kastljósþætti í vikunni notaði rekstrarstjóri Nóatúns það orðalag að verslun hans hygðist ekki „taka þátt" í verðlagseftirlitinu. Aftur sama ranghugmynd: Vara heldur að hún sé viðskiptavinur. Bækur taka ekki þátt í bókagagnrýni. Bækur eru gagnrýndar.
 
Sömu sögu er að segja um þær athugasemdir að ekki hafi verið „haft samráð" við einhverja kaupmenn við gerð þessara verðkannana og að verðlagseftirlitið hafi ekki viljað „setjast að borðinu" með þeim.
Þeir sem þykjast stunda eftirlit eiga ekkert að vera setjast að neinu sérstöku borði með þeim sem þeir vilja hafa eftirlit með.
 
Heilbrigðiseftirlitið á ekki að „setjast að borðinu" með þeim sem elda ofan í fólk. Heilbrigðiseftirlitið á að leita að saurgerlum.
 
Svo eitt sé á hreinu. Það eitt að þeir sem lenda aftarlega í einhverri samantekt séu ósáttir bætir ekki við neinum upplýsingum um gæðin. Það að verslunareigendur séu ósáttir er heldur ekki eitt og sér til marks um að samantektin sé vel unnin. En ég get varla ímyndað mér að hægt sé að vinna nokkurn verðsamanburð þannig að þeir sem reka lestina í þeim samanburði verði sáttir. Það er alltaf einhver „ástæða" fyrir því að menn lenda aftarlega. Fá kannski ekki jafngott verð hjá birgjum eða eitthvað svoleiðis. En tölur eru tölur. Þær mæla hvað er stórt og hvað er lítið. Þær eru sjaldnast „sanngjarnar"."
 
Grein Pawels má sjá hér í heild sinni.

Twitter Facebook
Til baka