Um ASÍ

29. mars 2017

Þétta þarf félagslegt og fjárhagslegt öryggisnet

Á sama tíma og stöðugar fréttir berast af uppgangi og hagsæld í efnahagslífinu er ljóst að mikill fjöldi fólks býr við fátækt í okkar samfélagi og hefur umræða um þessa miklu meinsemd skotið upp kollinum undanfarið. Því ber að fagna þegar það tekst að setja þetta mikilvæga málefni á dagskrá og ráðamenn krafðir svara um lausnir og úrbætur. Í einu auðugasta landi heims getum við aldrei sætt okkur við að þúsundir manna líði skort og yfir 6.000 börn alist upp í fátækt.

Í kjarasamningum á vettvangi aðildarfélaga ASÍ hefur frá hruni verið lögð sérstök áhersla á að hækka lægstu laun umfram önnur laun með krónutöluhækkunum. Þó það hafi ekki alltaf gengið þrautarlaust fyrir sig, og betur megi ef duga skal, hefur sú stefna engu að síður tryggt tekjulægstu hópunum á vinnumarkaði kaupmáttaraukningu umfram aðra.

Hin hliðin á þessari baráttu er ekki síður mikilvæg. Hún snýr að því hvernig okkur sem samfélagi hefur tekist að tryggja velferð og félagslegan jöfnuð í gegnum öryggisnet samfélagsins. Velferðarsamfélög Norðurlandanna byggja á því að til staðar sé þéttriðið félagslegt og fjárhagslegt öryggisnet sem grípur ef atvinnuleysi, veikindi, slys eða félagslegir erfiðleikar steðja að. Markmiðið er að þrátt fyrir áföll hafi allir áfram tækifæri til mannsæmandi afkomu og samfélagsþátttöku og möguleika  á að byggja sig upp að nýju með markvissum stuðningi. Þar eigum við á mörgum sviðum talsvert í land og á undanförnum árum hafa ákveðnir grundvallarþættir í velferðarþjónustunni raunar snúist til verri vegar sem hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir stóra hópa okkar félagsmanna. Ég ætla að staldra hérna við þrennt.

  • Háa gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu, verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað og takmarkaðir möguleikar til menntunar eða endurmenntunar á vinnumarkaði. Allt eru þetta þættir sem ýta undir fátækt og vinna gegn samfélagi velferðar og jafnaðar. Vegna síhækkandi kostnaðarþátttöku sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni undanfarin ár þurfa þúsundir landsmanna að neita sér um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu á ári hverju.
  • Áralangt sinnuleysi stjórnvalda í húsnæðismálum lágtekjufólks hefur valdið því að stórir hópar hafa ekkert húsnæðisöryggi og búa nú við húsnæðiskostnað sem er svo hár að engin leið er fyrir fólk að ná endum saman. Verst kemur þessi staða niður á börnum sem alast upp við  óöryggi og fjárhagserfiðleika.
  • Sú stefna stjórnvalda að takmarka aðgengi fólks yfir 25 ára að framhaldsskólakerfinu og auka ekki framlög til Fræðslusjóðs bitnar verst á þeim sem hafa minnsta menntun og takmarkar möguleika þeirra á að bæta stöðu sína.

Löng hefð er fyrir því að aðildarfélög ASÍ setji við gerð kjarasamninga fram kröfur á stjórnvöld um aðgerðir í velferðar- og skattamálum. Það var einnig gert í tengslum við síðustu  kjarasamninga í maí 2015. Með samstöðu aðildarfélaga ASÍ tókst að ná fram í yfirlýsingu ríkisstjórnar loforð um verulegt átak í húsnæðismálum, með stofnframlögum til byggingu 2.300 almennra íbúða fyrir tekjulágar fjölskyldur og verulega aukningu framlaga til húsnæðisbóta vegna þeirra sem eru á leigumarkaði. Einnig náðist samkomulag um að þak verði sett á kostnað heimila vegna læknisþjónustu. Jafnframt var fjármagn aukið til framhaldsfræðslu, þó ekki hafi tekist að fella 25 ára aldursþakið. Allt eru þetta atriði sem  draga mun verulega úr framfærslukostnaði þessara heimila og gera þeim betur kleift að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. En þó þetta séu mikilvæg skref er baráttunni hvergi lokið og enn bíða verkalýðshreyfingarinnar stór verkefni á sviði velferðarmála þar sem krafan er að félagslegum stöðugleika verði gert jafn hátt undir höfði og hinni efnahagslegu hlið stöðugleikans.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ

 

Twitter Facebook
Til baka