Um ASÍ

31. október 2017

Stöðva verður brotastarfsemi á vinnumarkaði

Mikill gangur hefur verið í íslensku atvinnulífi síðustu misseri. Umsvifin í byggingastarfsemi eru fordæmalaus og ferðaþjónustan margfaldast að umfangi. Til að sinna verkefnum á ört stækkandi vinnumarkaði hefur erlent launafólk komið hingað til lands svo þúsundum skiptir og lagt mikið til samfélagsins. Nýjustu tölur benda til að hér á landi séu a.m.k. 24.000 útlendingar að störfum og að þeim eigi enn eftir að fjölga.

Þessi fjölgun erlendra starfsmanna á sér dökkar hliðar. Verkalýðshreyfingin hefur á undanförnum mánuðum og misserum orðið áskynja um vaxandi brotastarfsemi sem beinist gegn erlendu launafólki. Birtingarmyndirnar eru margar og í verstu tilfellum verður ekki annað séð en að um skipulagða glæpastarfsemi sé að ræða eins og bent er á í nýrri skýrslu greiningardeildar Ríkislögreglustjóra. Þar eru tekin dæmi um eðli þessarar starfsemi og bent á að hér er oft um alþjóðlega brotastarfsemi að ræða.

Sækja starfsmennina til fátækustu ríkja í Austur Evrópu og Asíu

Hér á landi eru birtingarmyndirnar vel þekktar. Kjarasamningar eru ekki virtir hvað þá að greiddar séu álögur á laun eins og víða þekkist. Fagmenn eru launaðir eins og um nýliða sé að ræða, laun í veikinda- og slysatilfellum ekki greidd, orlofsréttur ekki virtur og þannig má áfram telja. Þá færist í vöxt að fyrirtæki okri gegndarlaust á húsnæði sem þessum starfsmönnum er útvegað, oft í mjög lélegu ástandi, og þeir látnir borga ýmsa kostnaðarliði sem eiga að vera þeim að kostnaðarlausu. Ofan á þetta bætist síðan að í sumum tilfellum eru einstaklingarnir rukkaðir fyrir að fá að vinna hér á landi.

Þessi ógeðfelda brotastarfsemi er stunduð í skjóli þess að erlenda starfsfólkið þekkir ekki rétt sinn. Jafnvel þótt það viti að verið er að brjóta á því þá þorir það ekki að sækja rétt sinn af ótta við að missa vinnuna eða vera sent úr landi í atvinnuleysi og örbirgð heima fyrir ef ekki annað ennþá verra. Hér er mikilvægt að hafa í huga að fyrirtækin sem stunda þessa brotastarfsemi sækja starfsmennina til fátækustu ríkja í Austur Evrópu og Asíu og reyna að flytja þau löku kjör sem gilda í heimalöndum þessa fólks hingað. Þegar hingað er komið er síðan allt gert til að halda erlenda launafólkinu í einangrun, háðu sínum atvinnurekanda um alla hluti og óupplýstu um íslenskt samfélag og þau réttindi sem þau eiga að njóta eins og aðrir sem hér starfa. Við slíkar aðstæður er stutt í hreint vinnumansal.

Grefur undan kjörum og réttindum á íslenskum vinnumarkaði

Við það ástand sem hér hefur verið lýst verður ekki og má ekki una. Það eru hagsmunir allra nema brotafyrirtækjanna að uppræta þessa brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði. Það eru hagsmunir þeirra sem brotið er á. Það eru hagsmunir alls launafólks í landinu vegna þess að brotastarfsemin grefur undan þeim kjörum og réttindum sem áunnist hafa með mikilli baráttu. Það varðar heiðarleg fyrirtæki vegna þess að þeim eru sköpuð óásættanleg samkeppnisskilyrði. Það varðar samfélagið allt vegna þess að brotastarfsemin grefur undan heilbrigðum vinnumarkaði og grunnstoðum samfélagsins.

Verkalýðshreyfingin hefur lagt áherslu á mikilvægi þess að taka upp og skerpa á ýmsum reglum sem er ætlað að verja hér heilbrigðan vinnumarkað. Keðjuábyrgð er öflugt tækið í þessa veru eins og  reynsla nágrannalandanna sem sett hafa slíka ábyrgð í lög hefur sýnt. Notendafyrirtæki vanda sig mun betur þegar kemur að því að ráða erlenda undirverktaka eða starfsmenn starfsmannaleiga enda mega þau eiga von á því að þurfa að standa skil á greiðslum til starfsmannanna ef á þeim er brotið. Annað vopn í baráttunni er að uppræta kennitöluflakk úr íslensku atvinnulífi, enda er það oft hin hliðin á svartri atvinnustarfsemi og annarri brotastarfsemi á vinnumarkaði.

Alþýðusambandið hefur einnig lagt áherslu á að auka heimildir og efla samstarf verkalýðshreyfingarinnar, samtaka atvinnurekenda  og þeirra opinberu stofnana sem ásamt henni bera ábyrgð á að hér á landi sé heilbrigður vinnumarkaður þar sem allir njóta þeirra kjara og réttinda sem þeim ber.

Þegar liggja fyrir útfærðar tillögur um þær aðgerðir sem að framan greinir sem gagnast í baráttunni við brotastarfsemi á vinnumarkaði. Það er eðlileg krafa verkalýðshreyfingarinnar að nýkjörið Alþingi og sú ríkisstjórn sem mynduð verður leggist á eitt með verkalýðshreyfingunni í baráttunni gegn brotastarfseminni og fyrir heilbrigðum vinnumarkaði.

Twitter Facebook
Til baka