Um ASÍ

24. nóvember 2017

Stéttabarátta á tækniöld

Ráðstefnan Framtíð vinnunnar var haldin í Stokkhólmi 14. nóvember síðastliðinn af Sambandi verkalýðshreyfinga á Norðurlöndum (NFS) og Friedrich Ebert Stiftung stofnuninni.

Ráðstefnunni var ætlað að varpa sérstöku ljósi á þær áskoranir sem verkalýðsfélög standa frammi fyrir hvað kjarnaverkefni varðar, eins og gerð kjarasamninga og skipulag, en ekki síður hvernig horft er á hugtakið vinna og hvernig tryggja á hæfni sem þörf er fyrir á vinnumarkaði framtíðarinnar. Skoða verður með opnum huga hvaða áhrif tæknivæðing framtíðarinnar mun hafa á gerð kjarasamninga og skipulag verkalýðshreyfingarinnar.

Í stuttu máli, hvernig getum við tryggt góð störf, öryggi og réttindi starfsfólks í starfrænni framtíð?

Karl-Petter Thorwaldsson, frá LO í Svíþjóð og varaformaður NFS, benti á að sífellt fleiri alþjóðlegar stofnanir horfa til Norrænu samningamódelanna sem mikilvægs verkfæris til að tryggja jöfnuð og auka hagvöxt.

Fólk þarf rödd

Deborah Greenfield, frá Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO), sagði í sínum fyrirlestri að mæta þurfi framtíðinni á vinnumarkaði með sterkri stefnumótun. Þróun vinnumarkaðarins er ekki aðeins tæknileg, hún er líka pólitísk og samfélagsleg. Sumir framtíðarfræðingar halda því fram að allt að helmingur núverandi starfa hverfi eða breytist til muna. Hann benti á að þörf sé m.a. á að hætta að horfa á skilgreiningu starfa og horfa frekar til skilgreininga verkefna. Tæknin leysir ekki alla hluti starfa – en gæti þó leyst hluta þeirra.

Deborah velti þeirri spurningu upp hvort að velferðakerfi Norrænu módelanna muni lifa af þær breytingar sem eiga eftir að verða á vinnumarkaði? Hvernig passa t.d. hugmyndir um „borgaralaun“ við Norrænt velferðarsamfélag og Norræna samningamódelið og hvaða merkingu hefur símenntun á breyttum vinnumarkaði?

Eitt af því sem Deborah vakti sérstaka athygli á er sá mikli mismunur á aðgengi að tækni. Fimmtíu prósent af vinnumarkaði heimsins er ekki „tengdur“ og því ekki tengdur nýrri tækni. Skoða verður sérstaklega þennan mun á tækniaðgengi á milli landa, ekki aðeins innan landa. 

Verkefni Norrænu verkalýðshreyfingarinnar er ekki síst að skoða hvernig hún skipuleggur sig í breyttu umhverfi þar sem landamæri og atvinnurekandi eru jafnvel ekki sýnileg? Deborah endaði á að leggja áherslu á mikilvægi þess að við gerum ekki ráð fyrir því að fólk hafi atvinnurekanda. Og jafnvel þó svo að atvinnurekandi sé ekki til staðar þá þarf það fólk líka rödd!

Fjórða iðnbyltingin

Thiébaut Weber, frá Evrópusambandi verkalýðsfélaga (ETUC), vill að lögð sé áhersla á að nálgast framtíðina með manninn í forgrunni. Með áherslu á félagslegt réttlæti og nauðsyn þess að Evrópa móti og hafi áhrif á fjórðu iðnbyltinguna. Hann benti á að tæknin er ekki tilbúin til að leysa manninn af hólmi og tók dæmi um það hvernig gervigreind getur ekki lesið í flókna ljósmynd, hana vanti bæði húmor og innsæi til þess, ennþá. Verkalýðsfélög og aðilar vinnumarkaðarins bera mikla ábyrgð. Í fyrsta lagi er mikilvægt að skoða hvernig hægt er að auka virkni og þátttöku fólks í stéttarfélögum. Lykillinn að því að móta rafræna þróun eru virk samskipti á vinnumarkaði og sterkt samningamódel. 

Viðfangsefnið verkalýðshreyfingarinnar er því að endurmeta og endurskoða regluverkið svo að það skapi öryggi fyrir þá sem vinna innan ólíkra vinnuforma.

Dagfinn Höybråten,  frá Norrænu ráðherraráðinu, kynnti stóra rannsókn sem FaFo mun halda utan um. Megin viðfangsefni rannsóknarinnar er að skoða vinnulöggjöfina á Norðurlöndunum. Dagfinn, eins og allir aðrir sem tóku til máls á ráðstefnuninni, lagði áherslu á að fjórða iðnbyltingin væri ekki náttúrufyrirbrigði sem við höfum enga stjórn á!

Hægt er að fara inn á heimasíðu NFS og finna þar dagskrá ráðstefnunnar og myndir. Einnig er hægt að fara inn á YouTube rás þeirra og hlusta á málstofurnar.

 

 

 

 

 

 

Twitter Facebook
Til baka