Um ASÍ

28. september 2017

Skattastefna gegn félagslegum stöðugleika

Ný rannsókn hagdeildar ASÍ  sýnir mikla aukningu á þróun skattbyrði launafólks á árunum 1998-2016. Aukningin er meiri eftir því sem tekjurnar eru lægri, meiri hjá einstæðum foreldrum en pörum og meiri hjá barnafólki en barnlausu. Skattbyrði launafólks jókst á fyrri hluta tímabilsins, hún minnkaði verulega í kjölfar hrunsins en á síðustu árum hefur hún aukist hratt.

Að hluta til má rekja aukna skattbyrði til breytinga á tekjuskatti, útsvari og persónuafslætti en stærsta ástæðan er veiking á vaxtabóta- og barnabótakerfinu. Ef litið er t.d. til einstæðra foreldra með tvö börn og 20% eigið fé í húsnæði þá var skattbyrði þeirra neikvæð um 12% árið 1998 en var orðin jákvæð um 16% árið 2016. Aukning var því heil 28 prósentustig og hjá einstæðum foreldrum við miðgildi launa var aukningin 20 prósentustig. Hjá pörum í sömu stöðu með laun við neðri fjórðungsmörk var aukningin 14 prósentustig en 10 prósentustig hjá hjónum með laun við miðgildi.

Dregið úr áhrifum vaxtabóta

Fyrir þessa hópa launafólks hefur dregið verulega úr áhrifum vaxtabóta til lækkunar skattbyrði og hafa eignaskerðingar þar mest áhrif. Þær hafa ekki fylgt hækkun fasteignaverðs sem veldur því að yfirleitt falla vaxtabætur niður fljótlega eftir fjárfestingu í húsnæði, jafnvel þó tekjur standi í stað, því eignaskerðingarmörk vaxtabótakerfisins halda ekki í við hækkun á fasteignaverði.

Skattbyrðisaukning vegna minnkandi vægis barnabóta er mest hjá einstæðum foreldrum en áhrifin eru minni á pör með börn enda er skattbyrði para nánast sú sama hvort sem þau eru með börn á framfæri eður ei. Tvær síðustu ríkisstjórnir undir forystu Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa stefnt að því að draga úr umfangi barnabótakerfisins til samræmis við tillögur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þær gera ráð fyrir að barnabætur greiðist einungis til allra tekjulægstu foreldranna. Þar með væri horfið algerlega frá norrænu hugmyndinni um barnabætur sem er annars vegar stuðningur við foreldra vegna framfærslu barna og hins vega jöfnun á framfærslubyrði foreldra og barnlausra á sama tekjubili.

Í mótsögn við stefnu ASÍ

Þróunin á bæði vaxtabóta- og barnabótakerfinu vinnur gegn félagslegum stöðugleika og er í algjörri mótsögn við stefnu ASÍ. Við höfum lagt áherslu á styrkingu þessara mikilvægu tekjutilfærslukerfa við gerð kjarasamninga og ítrekað mótmælt aðgerðarleysi og stefnu stjórnvalda í umsögnum og yfirlýsingum.

Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2018 gefur engin fyrirheit um breytingar á þessari stefnu. Þar er gert ráð fyrir að útgjöld til bæði barnabóta og vaxtabóta dragist saman á milli ára, barnabætur um 2% og vaxtabætur um heil 35%.

Þegar litið er til húsnæðisbóta, nýja húsaleigubótakerfisins má greina samdrátt í útgjöldum þar líka eða um 2% á milli áranna 2017 og 2018.

Í raun má segja að tekin hafi verið pólitísk ákvörðun um að auka skattbyrði launafólks með því að draga úr tekjufærslum vegna barna og húsnæðis. Með því að hækka ekki fjárhæðir bóta, tekjuviðmið og eignaviðmið eykst skattbyrði launafólks með hverju árinu sem líður, þeim mun meira sem tekjurnar eru lægri.

 

Twitter Facebook
Til baka