Um ASÍ

31. janúar 2018

Samskipti stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, hefur frá því að hún tók við embætti staðið fyrir samtali við fulltrúa launafólks, atvinnurekenda og sveitarfélaga og freistað þess að auka traust í samskiptum þessara aðila. Ljóst er að bæði vegna vanefnda stjórnvalda á ýmsum þeim fyrirheitum sem gefin hafa verið við gerð kjarasamninga og vegna ákvarðana kjararáðs og viljaleysis undangenginna ríkisstjórna til  að bregðast við þeim,  hafa samskiptin undanfarin misseri einkennst fyrst og fremst af togstreitu og vantrausti. Brýnt er að finna á þessu viðunandi lausn ef forða á stórslysi.  Ég hef bæði í ræðu og riti sagt að til að svo megi verða þurfi allir sem að þessu borði koma að axla ábyrgð.  Forsætisráðherra hefur nú í janúar skipulagt vikulega fundi og fór að ráði fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar um að byrja samtalið á deilunni um kjararáð og áherslunni um félagslegan stöðugleika áður en fjallað yrði um stöðu efnahagsmála og verkefni Þjóðhagsráðs.

Það er mikilvægt að  halda því til haga, að af hálfu bæði miðstjórnar ASÍ og samninganefndar hefur verið lögð áhersla á nokkur veigamikil atriði er varðar stöðu og réttindi okkar félagsmanna. Þar ber fyrst að nefna kröfu okkar um að ráðherrar, þingmenn og æðstu stjórnendur hins opinbera fylgi sömu launastefnu og ríki og sveitarfélög ásamt atvinnurekendum mótuðu í samningum við ASÍ og BSRB haustið 2015 í svokölluðu rammasamkomulagi. Það á bæði við um þær ákvarðanir sem þegar hafa verið teknar sem og framtíðarskipan þessara mála. Þessa kröfu hafa undangengnar ríkisstjórnir ítrekað neitað að fallast á en eftir ýtarlega yfirferð með forystumönnum ríkisstjórnarinnar og atvinnurekenda var það niðurstaða forsætisráðherra að skipa sérstakan starfshóp sem falið var það verkefni að skoða bæði framtíðarskipan þessara mála sem og úrskurði ráðsins undanfarin ár í samhengi við þá launastefnu sem í gildi er á vinnumarkaði.   Á starfshópurinn að skila niðurstöðu fyrir 10. febrúar n.k.

Í öðru lagi hefur ASÍ í samstarfi við BSRB gert kröfu til þess að félagslegur stöðugleiki verði metinn til jafns við  hinn efnahagslega í umræðum um ríkisfjármál og hagstjórn. Félagsmenn okkar verða að fá að búa við ámóta öryggi í afkomu sinni og stöðu á vinnumarkaði eins og þekkist á hinum Norðurlöndunum. Það er innantóm krafa að leggja upp með nýtt og breytt samningamódel að norrænni fyrirmynd og taka ekki afstöðu til stöðu og umfangs velferðarkerfisins hér á landi. Hér hefur ASÍ lagt áherslu á að velferðarmál hafi forgang við úthlutun á fyrirsjáanlegum tekjuauka ríkisins vegna hagvaxtar á næstu árum. Ef 65% af þeim tekjuauka yrði varið til velferðarmála í víðum skilningi (félags-, húsnæðis-, heilbrigðis-, mennta- og lífeyrismála) væri hægt að ráðstafa 35-40 milljörðum króna aukalega á ári til þessara málaflokka og með því gera margvíslegar umbætur sem færa okkur nær markmiðinu um norrænt velferðarkerfi sem stendur undir nafni. ASÍ hefur jafnframt lagt mikla áherslu á endurreisn velferðarkerfisins á vinnumarkaði, þ.e. réttindi launafólks í atvinnuleysi, fæðingarorlofi og ábyrgðarsjóði launa vegna gjaldþrots fyrirtækja. Í dag eru þessi réttindi í sögulegu lágmarki þrátt fyrir að við séum á toppi hagsveiflunnar og að tekjustofnar sjóðanna standi í reynd undir mun betri réttindum en þeir veita!

Í þriðja lagi hefur ASÍ ítrekað þá skoðun sína að fjölga þurfi íbúðum í almenna íbúðakerfinu mun hraðar en áformað er og byggja að lágmarki 1.000 nýjar íbúðir á ári í því kerfi næstu fimm árin. Samhliða þessu þarf að efla húsnæðis- og vaxtabótakerfið og tryggja stöðugleika þeirra. Þá er brýnt að koma hér á nýju  húsnæðislánakerfi sem tryggir lántakendum lægstu mögulegu húsnæðisvexti og endurskilgreina vísitölu neysluverðs sem notuð er til verðtryggingar þannig að hún verði án húsnæðisliðarins.

Í fjórða lagi hefur ASÍ lagt áherslu á endurbætur á skattkerfinu með það að markmiði að auka jöfnunarhlutverk þess og draga úr skattbyrði lág- og millitekjufólks, tengja persónuafsláttinn launavísitölu líkt og eftir tekjumörkin og stórefla barnabótakerfið.

Í fimmta lagi hefur ASÍ lýst áhyggjum sínum varðandi stöðu framhaldsfræðslunnar og tækifærum þeirra sem ekki hafa lokið formlegu námi á framhaldsskólastigi, en það eru um 50.000 manns á vinnumarkaði! Verulega skortir á raunhæft mat á því hvaða þekkingu atvinnulífið þarf á að halda á næstu árum og áratugum og þarf af leiðandi óljóst hvaða námstækifæri þarf að tryggja til að mæta þessum áskorunum. Jafnframt hafa stjórnvöld ekki aukið framlög til Fræðslusjóðs, sem fjármagnar nám fyrir þennan stóra á vinnumarkaði, til að mæta launahækkunum vegna kjarasamninga framhaldsskólakennara.  Í reynd hefur því námsframboð í formi fjölda nemendastunda dregist verulega saman.

Að lokum hefur verið lögð áhersla á að stjórnvöld taki höndum saman með aðilum vinnumarkaðar og berjist af öllu afli gegn svartri atvinnustarfsemi og undirboðum á vinnumarkaði.

Það sem af er hafa viðræðurnar við stjórnvöld verið afar opinskáar og tækifæri gefist til þess að gera oddvitum ríkisstjórnarinnar kleift að leggja betra mat á þær aðstæður sem eru á vinnumarkaði og hvað það er sem hamlar því að mögulegt sé að taka samtal um nýtt samningamódel lengra. Enginn niðurstaða er komin í viðræðurnar en líkur á því að á næstu vikum verði látið á það reyna hvort flötur sé á sameiginlegri niðurstöðu. Komi til þess verður næsta skerf að tryggja aðildarfélögunum beina aðild að slíku samtali.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ  

Twitter Facebook
Til baka