Um ASÍ

24. nóvember 2017

Ráðstefna um menntun og færni á vinnumarkaði

Alþýðusambandið ásamt Vinnumálastofnun, Samtökum Atvinnulífsins og Hagstofunni stóðu fyrir ráðstefnu um menntun og færni á vinnumarkaði þann 9. Nóvember síðastliðinn. Fjölmennt var á ráðstefnunni eða hátt í tvö hundruð gestir ásamt því að streymt var á vef Vinnumálastofnunar. Ráðstefnan er hluti af vinnu sérfræðingahóps um færnispár á vinnumarkaði og var markmiðið að gefa hagsmunaaðilum innsýn inn í það hvernig ferlið er framkvæmt í nágrannalöndunum. Ísland er eitt af fáum ríkjum í Evrópu sem ekki spá fyrir um færniþörf á vinnumarkaði með kerfisbundnum hætti. Sérfræðingahópurinn stefnir í kjölfarið á að skila tillögum um hvernig taka megi upp sambærilegt spáferli hér á landi fyrir árslok.  

Þrír erlendir sérfræðingar héldu erindi á ráðstefnunni en Rob Wilson prófessor við Warwick Háskóla er meðal helstu sérfræðinga heims um færnispár en í erindi sínu fór hann almennt yfir færnispár, ólíkar aðferðir og helstu takmarkanir. Karin Grunewald starfar hjá Hagstofu Svíþjóðar en í Svíþjóð hafa færnispár verið framkvæmdar frá árinu 1972. Hagstofa Svíþjóðar gefur út langtímaspá um færniþörf á vinnumarkaði á þriggja ára fresti.  Langtímaspáin spáir fyrir um þróun 100 ólíkra menntahópa, 76 á háskólastigi og 23 á framhaldsskólastigi til ársins 2035. Í erindi sínu um færnispár á Írlandi lagði John McGrath mikla áherslu á samráð ólíkra hagsmunaaðila þ.e. menntastofnana, stjórnvalda, verkalýðshreyfingar og atvinnulífs. Samráðið væri nauðsynlegt til að brugðist yrði við vísbendingum og rannsóknum um þróun vinnumarkaðar. Á Írlandi hafa niðurstöður verið mikið notaðar við stefnumótun í menntakerfinu, á vinnumarkaði og á öðrum sviðum. Tók hann þar dæmi um aðgerðir sem hvöttu nemendur til að taka fleiri stærðfræðiáfanga til að eiga meiri möguleika á að komast í háskólann sem valinn var fyrstur. Allir gestir ráðstefnunnar lögðu mikla áherslu á miðlun rannsókna og upplýsinga og þá sérstaklega til almennings og ungs fólks í námsleit.

Pallborðsumræðum var stýrt af Katrínu Ólafsdóttur hagfræðingi en þar tóku þátt Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ, Þorsteinn Víglundsson félags og jafnréttisráðherra, Ari Kristinn Jónsson rektor HR, Ásta Fjeldsted framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs og Rob Wilson prófessor. Þátttakendur í pallborði voru sammála um mikilvægi þess að spáð væri fyrir um lengri tíma þróun á vinnumarkaði.

Bæði upptöku af fundinum og glærur má nálgast hér

 

 

 

 

Twitter Facebook
Til baka