Um ASÍ

31. október 2017

Nýkjörins þings bíða brýn verkefni

Þjóðin hefur nú gengið að kjörborðinu og bíður þess að ný ríkisstjórn líti dagsins ljós. Nýkjörnum alþingismönnum færi ég árnaðaróskir með kjörið og óska þeim velfarnaðar í starfi. Jafnframt lýsi ég okkur reiðubúin til samtals um þær áskoranir sem launafólk og samfélagið allt stendur frammi fyrir.

Á formannafundi ASÍ í síðustu viku gerði ég meðal annars að umtalsefni þau neikvæðu áhrif sem óstöðugleiki á vettvangi stjórnmálanna hefur haft á vinnumarkaðinn. Óstöðugleiki sem leitt hefur til meiri átaka en við höfum séð undanfarna áratugi og hamlað því að við getum þróað vinnumarkaðinn í takt við nýja tíma og nýjar áskoranir.

Nú þegar stjórnarmyndunarviðræður eru að hefjast er rétt að árétta að verkalýðshreyfingin hefur deilt við fráfarandi stjórnvöld um raunverulegt inntak hugtaksins ,,stöðugleiki‘‘. Alþýðusambandið hefur gert kröfu um að jafnvægi verði á milli efnahagslegs og félagslegs stöðugleika. Við höfum lagt áherslu á að þetta séu tvær hliðar á sama peningi sem hlúa verður jafnt að. Verkalýðshreyfingin hefur gengið svo langt að setja það sem forsendu fyrir frekari umræðu og þróun á nýju samningamódeli á vinnumarkaði.

Stjórnmálamenn verða að gera sér grein fyrir þeirri miklu alvöru sem að baki þessari kröfu okkar liggur. Þeir verða að koma velferðarmálunum í þann farveg að launafólk geti treyst á grunnstoðir velferðarkerfisins á öllum tímum. Í aðdraganda kosninga setti ASÍ enn á ný fram kröfu sína um samfélagssáttmála um félagslegan stöðugleika. Slíkur sáttmáli byggir á öflugu heilbrigðiskerfi, öruggu húsnæði á viðráðanlegum kjörum, að allir búi við örugga afkomu og aðstæður,  öflugum og heilbrigðum vinnumarkaði og allt sé þetta fjármagnað með réttlátu skattkerfi.

Í nýlegri skýrslu hagdeildar ASÍ um þróun skatta og fjölskyldubóta kom fram, að þrátt fyrir að verkalýðshreyfingunni hafi tekist að lyfta grettistaki í hækkun lægstu launa – reyndar svo að hlutfall lægstu launa af meðallaunum er hvergi hærra meðal OECD-ríkjanna, hefur það ekki leitt til bættra lífskjara. Ástæðan er að á sama tíma hafa stjórnvöld rýrt verðgildi bæði skattleysismarka og barna- og  húsnæðisbóta. Afleiðingin er sú að sókn til betri lífskjara fyrir þá tekjulægri hefur verið núlluð út með hærri skattbyrði og minni stuðningi í gegnum barna- og vaxtabætur. Það gefur augaleið að við þetta getum við ekki sætt okkur og því þurfum við réttlátara skattkerfi og endurreisn barna- og vaxtabótakerfanna.

Ágætlega hefur tekist að skapa umræðu um áhersluatriði okkar í velferðarmálum, þó enn sé óljóst með efndir, en það sama verður ekki sagt um málefni vinnumarkaðarins. Engin umræða var í aðdraganda kosninga um þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir á vinnumarkaði og þær nauðsynlegu aðgerðir sem ráðast þarf í til að sporna gegn brotastarfsemi sem þar viðgengst gagnvart launafólki, heiðarlegum fyrirtækjum og samfélaginu öllu. Innleiðing keðjuábyrgðar aðalverktaka og aðgerðir til að sporna gegn félagslegum undirboðum og kennitöluflakki leika hér lykilhlutverk og brýnt að ný stjórnvöld taki undir með verkalýðshreyfingunni og sendi skýr skilaboð um að brotastarfsemi á vinnumarkaði verði ekki liðin. Talsvert fór fyrir loforðum um lækkun tryggingagjaldsins í kosningabaráttunni en lítið fór fyrir loforðum um að verja réttindi launafólks. Ég vil minna á að atvinnuleysisbætur eru nú í sögulegu lágmarki í hlutfalli við lágmarkslaun og hámarksgreiðslur úr fæðingarorlofssjóði eru enn langt undir meðaltekjum. Þetta áhugaleysi stjórnmálanna á að standa vörð um grundvallarreglur á vinnumarkaði og réttindi launafólks er okkur mikið áhyggjuefni og kallar á meiri upplýsingar og samtal um markmið og leiðir.

Okkar bíður nú að eiga samtal við nýja ríkisstjórn um öll þau mál sem hér hafa verið nefnd. Eins og áður göngum við vongóð til þeirra viðræðna. Allar ríkisstjórnir verðskulda að lagt sé af stað með samstarf í huga og Alþýðusambandið lítur á það sem skyldu sína fyrir hönd þeirra 125 þúsund félagsmanna aðildarfélaga þess að setjast að slíku samtali. Mikið er í húfi að vel takist til. Í ávarpi mínu á formannafundi ASÍ í síðustu viku lýsti ég þeirri skoðun minni að farsælasta leiðin til þess að koma á meiri festu og trúverðugleika á hinum pólitíska vettvangi og á vinnumarkaðinum er víðtækt samkomulag um samfélagslegan sáttmála um félagslegan og efnahagslegan stöðugleika. Það er alveg ljóst að kröfur um umbætur í velferðarmálum og réttindum á vinnumarkaði, ásamt hækkun skattleysismarka, barna- og húsnæðisbóta, munu speglast í beinni kröfugerð aðildarsamtaka ASÍ við gerð næstu kjarasamninga.

Gylfi Arnbjörnsson,

forseti ASÍ

 

Twitter Facebook
Til baka