Um ASÍ

28. febrúar 2018

Nýjar áskoranir á vinnumarkaði

Ný skýrsla hagdeildar ASÍ um vinnumarkaðinn verður gefin út í lok vikunnar. Skýrslan fjallar um þær breytingar sem orðið hafa á íslenskum vinnumarkaði síðustu ár og áratugi. Skýrslan varpar til dæmis ljósi á stöðu erlends launafólks á Íslandi og hvernig aukin fjölbreytni ráðningarsambanda hefur aukið á flækjustig lagalegrar umgjörðar vinnumarkaðarins og kallað fram nýjar áskoranir í vinnurétti.

Aukin eftirspurn eftir starfsfólki í ferðaþjónustu og byggingariðnaði hefur kallað á aðflutning erlends starfsfólks hingað til lands í ríkari mæli en nokkru sinni fyrr. Árið 2017 voru erlendir ríkisborgarar sem fluttust til Íslands, umfram þá sem fluttust héðan, í sögulegu hámarki og nú er talið að erlent launafólk sé rúmlega 10% launafólks á Íslandi.

Algengt er að erlent launafólk flytjist hingað til lands aðeins tímabundið til að afla meiri tekna en í heimalandi sínu. Íslenskum starfsmannaleigum hefur fjölgað hratt með efnahagsuppsveiflunni, en á vegum þeirra starfa erlendir starfsmenn í tiltekinn tíma og eru leigðir út til notendafyrirtækja. Einnig kemur hingað starfsfólk á vegum erlendra starfsmannaleiga og erlendra þjónustufyrirtækja sem hafa aðgengi að íslenskum markaði í gegnum fjórfrelsi evrópska efnahagssvæðisins (EES). Starfsmannaleigustarfsmenn starfa flestir innan byggingariðnaðarins og í ferðaþjónustu.

Þessi þróun kallar á breyttar áherslur við eftirlit og greiningu á vinnumarkaðnum. Í skýrslunni kemur fram að hætta sé á að vinnumarkaðstölfræði, t.d. úr vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands, nái ekki yfir erlent starfsfólk sem ekki hefur hér fasta búsetu og að fjöldi launafólks í vinnuaflsfrekum greinum, þar sem erlent starfsfólk er í meirihluta sé því vanmetinn. Einnig er fjallað um algeng brot á réttindum starfsmanna starfsmannaleiga og hvernig þeir eru jaðarsettir í samfélaginu.

Brot á launafólki einskorðast þó ekki við erlent launafólk. Íslenskt launafólk, sérstaklega ungt fólk, stendur frammi fyrir því að ráðningarform eru lausari í sniðum og fleiri starfa lausráðnir við tímabundin verkefni eða í hlutastarfi þar sem vinnutími er slitróttur og atvinnuöryggi lítið. Í síðasta kafla skýrslunnar er fjallað um réttindi hlutastarfsmanna, tímabundið ráðinna starfsmanna og verktaka og mikilvægi þess að réttindi þeirra séu tryggð.

Skýrslan verður aðgengileg á vef ASÍ föstudaginn 2. mars.

 

 

Twitter Facebook
Til baka