Um ASÍ

28. febrúar 2018

Kynjaþing og Jafnréttisráðstefna

Af nægu er að taka á sviði jafnréttismála í mars en Kvenréttindafélag Íslands mun blása til Kynjaþings laugardaginn 3. mars og Félags- og jafnréttismálaráðherra hefur boðað til jafnréttisþings dagana 7. og 8. mars.

Kynjaþing
Kynjaþingið er haldið laugardaginn 3. mars næstkomandi frá 12:00 – 19:00 og verður haldið í  Tækniskólanum, Skólavörðuholti.

Þingið er hugsað sem tengslaráðstefna fyrir félagasamtök sem vinna að mannréttindum og jafnrétti, þar sem þátttakendur og gestir kynnast nýjum hugmyndum og nálgunum í jafnréttisfræði. Einnig er þingið hugsað sem upplýsingaráðstefna, til að gefa almenningi tækifæri á að kynnast starfi félagasamtaka sem vinna að málefninu.

Nánar má lesa um kynjaþingið hér og skoða dagskrána.

Jafnréttisþing
Jafnréttisþing Félags- og jafnréttismálaráðherra og Jafnréttisráðs verður haldið miðvikudaginn og fimmtudaginn 7. – 8. mars 2018 á Hilton Reykjavík Nordica undir yfirskriftinni „Útvíkkun jafnréttisstarfs - #metoo og margbreytileiki“.  

Félags- og jafnréttismálaráðherra mun opna þingið með framlagningu á skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála 2015–2017 og forsætisráðherra slíta því.  Auk þess munu fjármálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra vera með erindi.

Hlutverk þingsins er að efna til umræðna um jafnréttismál milli stjórnvalda og almennings og gefa áhugasömum kost á að hafa áhrif á stefnumótun málaflokksins.

Að þessu sinni verður lögð áhersla á útvíkkun mismununarhugtaksins með hliðsjón af margbreytileika í íslensku samfélagi og boðaðri löggjöf um jafna meðferð óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð eða kynvitund. Markmið og tilgangur löggjafar um jafna meðferð er að vinna gegn mismunun og stuðla að og viðhalda jöfnum tækifærum einstaklinga óháð ofangreindum þáttum.
Á jafnréttisþingi verður jafnframt fjallað um stöðu kvenna og karla á opinberum vettvangi og vinnumarkaði, kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð, kynbundna hatursorðræðu og hótanir sem og áhrif #metoo byltingarinnar á möguleika kvenna til valda og áhrifa í íslensku samfélagi. Kynntar verða niðurstöður nýrra rannsókna, annars vegar um hlut kvenna og karla í íslenskum fjölmiðlum og hins vegar um launamun karla og kvenna. Þingið er að þessu sinni haldið í samstarfi við Mannréttindaskrifstofu Íslands og aðgerðahóp stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti.

Aðalfyrirlesari verðu Dr. Faisal Bhabha, dósent í lögum við Osgoode Hall Law School, Toronto, Kanada. Building a society free from discrimination: The Canadian perspective.

Eftir erindi hans verður þinginu áframhaldið í eftirfarandi málstofum:

  •        Mismununarhugtakið í íslenskri löggjöf og stjórnsýslu
  •        #metoo – áhrif á stöðu og þróun jafnréttismála
  •        Konur, karlar, fjölmiðlar og lýðræði
  •        Jafnlaunamál og jafnrétti á vinnumarkaði
  •        Samhæfing fjölskyldu- og atvinnulífs
  •        Kynjuð fjárlagagerð og samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun - hvert erum við komin?

Skráning og afhending ráðstefnugagna hefst miðvikudaginn 7. mars kl. 08:45–09:15

 

 

 

Twitter Facebook
Til baka