28. september 2017

Í sömu sporum ári síðar

Í aðdraganda síðustu kosninga sendi Alþýðusambandið frá sér áskorun til stjórnmálaflokkanna um áherslur í velferðarmálum til að treysta hinn félagslega stöðugleika. Skemmst er frá því að segja að nú ári síðar stöndum við í sömu sporum. Þegar við göngum að kjörborðinu að nýju verðum við að horfast í augu við að lítið hefur gerst sem gefur okkur ástæðu til að skipta um skoðun.

Stjórnmálamönnum hefur undanfarin misseri verð tíðrætt um mikilvægi þess að endurskoða íslenska vinnumarkaðslíkanið og breyta vinnubrögðum við gerð kjarasamninga. Þetta sé grundvallar atriði til að tryggja hér efnahagslegan stöðugleika. Verkalýðshreyfingin hefur margsinnis lýst yfir samstarfsvilja við þetta verkefni en staðfastlega bent á að þær verði ekki gerðar í tómarúmi. Launafólk verður að geta treyst því að stjórnvöld axli sinn hluta ábyrgðarinnar á efnahagslega stöðugleikanum og að honum fylgi jafnvíg áhersla á félagslegan stöðugleika og velferð. Skilaboð okkar hafa verið einkar skýr, annað verður ekki án hins. Þessu hafa stjórnvöld því miður valið að líta alfarið framhjá. Þess í stað lýsti fráfarandi forsætisráðherra vinnumarkaðslíkanið ónýtt og taldi það helsta efnahagsvandamál þjóðarinnar. Þetta er afar furðuleg nálgun í ljósi þess að engin tilraun hefur verið gerð til þess að taka mið af áherslum samtaka launafólks og skapa grundvöll að breytingum með því að undirbyggja hinn félagslega stöðugleika. Þvert á móti er stefnan að vanfjármagna áfram brýn velferðarverkefni og draga úr útgjöldum til barna- og vaxtabóta og veikja þar með enn hina félagslegu velferð. Afleiðing þessa er stöðugt vaxandi ólga og pólitískur órói sem er af þeirri stærðargráðu að fullyrða má að í landinu geisi pólitísk kreppa.

Alþýðusambandið er enn sömu skoðunar og það var fyrir ári síðan og ítrekar áskorun sína til þeirra stjórnmálaflokka sem bjóða fram til Alþingis um að setja hinn félagslega stöðugleika á oddinn í komandi kosningum. Við teljum það einu færu leiðina til þess að leggja grunn að meiri sátt í landinu.

Til þess þarf:

  • Öflugt heilbrigðiskerfi fyrir alla:

Nægilegt fjármagn þarf til reksturs grunnstoða opinbera heilbrigðiskerfisins. Sjúklingar greiða allt of mikið fyrir heilbrigðisþjónustu, of margir þurfa að neita sér um heilbrigðisþjónustu og lyf og fólk býður of lengi. Öldruðum fjölgar hratt en öldrunarþjónustan situr eftir.

  • Öruggt húsnæði á viðráðanlegum kjörum:

Ungt fólk kemst ekki að heiman, tekjulág heimili hafa ekki húsnæðisöryggi og greiða allt of hátt hlutfall tekna sinna í húsnæði.

  • Ábyrgan vinnumarkað:

Undirboð á vinnumarkaði, svört atvinnustarfsemi og margvísleg önnur brotastarfsemi er alvarlegur blettur á íslenskum vinnumarkaði. Þessi brotastarfsemi beinist einkum gegn útlendingum og ungu fólki sem starfa við mannvirkjagerð og í ferðaþjónustunni.  Þá veldur kennitöluflakk miklu samfélagslegu tjóni.

  • Velferð á vinnumarkaði:

Á síðustu árum hafa stjórnvöld grafið undan velferð á vinnumarkaði.  Sífellt fleiri feður taka ekki fæðingarorlof og fæðingartíðni hefur aldrei verið lægri. Atvinnuleysisbætur hafa dregist verulega aftur úr launaþróun og hafa aldrei verið eins lágar og fólki sem veikist og slasast er beint í fátækragildru ef það endurhæfist.

  • Tekjuöflun með réttlátu skattkerfi

Til að treysta efnahagslegan stöðugleika og fjármagna félagslega velferð þarf réttlátt skattkerfi sem dreifir byrðunum og með sanngjörnum hætti og tryggir öllum hlutdeild  í velsældinni og styður betur við barnafólk.

 

 

 

Twitter Facebook
Til baka