Um ASÍ

31. október 2017

Hugleiðingar um hag heimila og jöfnuð

Í nýrri hagspá ASÍ kemur fram að hagur heimilanna hefur almennt farið batnandi á undanförnum árum. Aukin neysla heimilanna, aukinn sparnaður og niðurgreiðsla skulda eru til vitnis um það. Þetta eru jákvæð tíðindi en þó er varhugavert að draga of miklar ályktanir um hag heimilanna út frá stöðunni á toppi hagsveiflunnar.

Ójöfnuður hefur farið vaxandi í heiminum og víða hefur launafólk ekki notið hlutdeildar í vaxandi verðmætasköpun þar sem raunlaun þróast ekki í takt við aukna framleiðni. Ísland telst til undantekninga frá þessari þróun. Hér er stéttarfélagsþátttaka mikil og öflug stéttarfélög hafa með kjarabaráttu undanfarinna ára aukið hlutdeild launa í verðmætasköpun hér á landi. Það ætti því ekki að koma á óvart að víða hefur verið bent á sterkt samband stéttarfélagsþátttöku og mikils jöfnuðar.

Niðurstöður nýlegrar rannsóknar hagdeildar sýna að skattbyrði launafólks hefur farið vaxandi frá árinu 1998. Það sem vekur sérstaka athygli er hversu mikið tilfærslukerfin hafa verið veikt yfir tímabilið og hversu fækkar í hópi þeirra sem njóta vaxta- og barnabóta. Miðað við yfirlýsta stefnu stjórnvalda í fjármálaáætlun 2018–2022 stendur til að þrengja þann hóp enn frekar og auka þar með enn á skattbyrðina.

Áherslur verkalýðshreyfingarinnar í kjarabaráttu síðustu ára hafa verið á hækkun lægstu launa sem hefur skilað sér í auknum kaupmætti launa þeirra tekjulægri. Á sama tíma hefur ríkisvaldið dregið úr tekjutilfærslum og þar með unnið gegn kaupmáttaraukningu ráðstöfunartekna launa, sérstaklega hjá láglaunafólki. Myndirnar sýna þróun kaupmáttar launa og ráðstöfunartekna hjá fólki með  lágmarkslaun annars vegar og með laun við efri fjórðungsmörk hins vegar. Miðað er við pör með tvö börn, annað yngra en 7 ára, og 20% eigið fé í 100 m2 íbúð. 

Þegar þróunin hjá þessum tveimur hópum er borin saman sést glögglega að kaupmáttur lágmarkslauna hefur vaxið meira en kaupmáttur hærri launa síðustu ár. Þróunin snýst hins vegar við þegar tekið er tillit til skatta og tilfærslna. Kaupmáttur ráðstöfunartekna parsins með laun við efri fjórðungsmörk vex meira en kaupmáttur ráðstöfunartekna parsins með lágmarkslaun. Veiking tilfærslukerfanna hefur valdið því að lágtekjuhóparnir hafa ekki notið efnahagsuppsveiflu síðustu ára í sama mæli og aðrir.

  

Heimild: RSK, Hagstofa Íslands, Þjóðskrá og útreikningar ASÍ

Hlutfall tekjulágra heimila á leigumarkaði er hærra en annarra tekjuhópa og margir í lágtekjuhópi eru með íþyngjandi húsnæðiskostnað. Láglaunafólk hefur því síður átt möguleika á að bæta hag sinn með endurfjármögnun og var ekki meðal þeirra sem fengu leiðréttingu húsnæðislána. Þegar hægir á efnahagsumsvifum í hagkerfinu gæti þessi hópur lent í erfiðustu stöðunni og þá munu bíða hans veikari stuðningskerfi en í síðustu niðursveiflu.

 

 

Twitter Facebook
Til baka