Um ASÍ

30. mars 2017

Fundur kvennanefnda Sameinuðu þjóðanna

"Ég hef unnið fleiri heimsmeistaratitla en Christiano Ronaldo en ég efa að hann muni hafa áhyggjur af því að eiga fyrir reikningunum þegar hann lætur af atvinnumennsku. Ég er ekki svo lánsöm að vera í sömu stöðu", sagði Abby Wamback, heimsmeistari og tvöfaldur ólympíumeistari með bandaríska landsliðinu í fótbolta, þegar hún fjallaði um kynbundna mismunun í íþróttum og þann gífurlega launamun sem er á milli kvenkyns og karlkyns atvinnumanna í knattspyrnu.

Árlegur fundur kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna var haldinn dagana 13. – 24. mars s.l. í höfuðstöðvum samtakanna í New York undir yfirskriftinni „Efnahagsleg valdefling kvenna á tímum breytinga á vinnumarkaði.“ Fulltrúar ríkisstjórna og félagasamtaka frá öllum heimshornum komu saman og fjölluðu um hvernig styðja megi við konur og stúlkur og efla þær á öllum sviðum samfélagsins og ekki síst á vinnumarkaði.

Ísland stóð að nokkrum viðburðum á þinginu og meðal annar í samstarfi við Sviss og S-Afríku og einnig UN Women og ILO. Viðburðurinn markaði upphaf víðtæks samstarfs ríkja og alþjóðastofnana um launajafnrétti. Þar steig á stokk heimsþekkt fólk á ýmsum sviðum og setti fram kröfu um afnám kynbundins launamunar.

Umfjöllunarefnin voru af ýmsum toga og fjölmargir viðburðir í boði. Meðal annars var komið inn á baráttu kvenna gegn hatursorðræðu á samfélagsmiðlum. Konur frá S-Ameríku sögðu frá baráttu sinni þar sem konur í valdastöðum m.a. þingkonur verða sérstaklega fyrir barðinu á „dólgunum“ og virðist markvisst reynt að þagga niður í þeim með persónulegum árásum á samfélagsmiðlunum. ILO í samstarfi við UN Women lögðu sérstaka áherslu á umræðuna um kynferðislegt áreiti og ofbeldi á vinnumarkaði og mikilvægi þess að aðilar vinnumarkaðarins taki markvisst á því meini.

Kynning var á Jafnlaunastaðlinum og áhersla lögð á mikilvægi samstarfs aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda til að vinna gegn kynbundnum launamun. Einnig var fjallað um áhrif laga um kynjahlutfall í stjórnum fyrirtækja. Jafnlaunastaðallinn vakti mikla athygli og ekki síður sú staðreynd að 90% þeirra sem eru á vinnumarkaði hér á landi eiga aðild að samtökum launafólks. – Það er þörf áminning og vert að hafa í huga að réttur launafólks til að skipuleggja sig á vinnumarkaði er ekki alls staðar sjálfgefinn.

Íslensk stjórnvöld og landsnefnd UN Women á Íslandi kynntu verkfærakistu sem ætluð er hverjum þeim sem vilja hvetja karlmenn til að láta til sín taka í baráttunni fyrir kynjajafnrétti. Verkfærakistan var þróuð hér á landi og afhent HeForShe, alþjóðlegu verkefni UN Women sem vinnur að aukinni þátttöku karla í allri umræður og baráttu fyrir auknu jafnrétti kynjanna.

Vanmat á störfum kvenna, sömu laun fyrir jafnverðmæt störf, samspil heimilis og vinnu, ólaunuð umönnunarstörf, kynferðislegt áreiti og ofbeldi í nánum samböndum og á vinnumarkaði, hatursorðræðu á samfélagsmiðlum, valdeflingu kvenna, svo eitthvað sé nefnt eru þær áherslur sem unnið er að á heimsvísu í baráttunni um jafnrétti kynjanna. Fundur kvennanefndar SÞ er mikilvægur vettvangur til að miðla upplýsingum og skiptast á skoðunum.

Twitter Facebook
Til baka