Um ASÍ

18. apríl 2018

Breytingar á vinnumarkaði – eru borgaralaun svarið?

Þann 5. apríl sl. hélt ASÍ opinn fund í Norræna húsinu um borgaralaun undir yfirskriftinni, Breytingar á vinnumarkaði – eru borgaralaun svarið?

Hugmyndir um borgaralaun eiga rætur sínar að rekja allt aftur á 16. öld. Á undanförnum árum hefur nýtt líf færst í umræðuna vegna vaxandi misskiptingar auðs, aukins atvinnuleysis og minna atvinnuöryggis sem fylgir fjölgun óhefðbundinna starfa vegna starfrænu byltingarinnar. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hagfræðingur hjá ASÍ hélt inngangserindi og velti því upp hvað borgaralaun eru. 

ASÍ fékk þrjá fyrirlesara, þau dr. Henning Meyer, Ilkka Kaukoranta og Halldóru Mogensen til að fjalla um borgaralaun og vinnumarkaðinn.

Henning, sem er ritstjóri Social Europe og ráðgjafi á sviði stefnumótunar, fjallaði um leiðir til að bregðast við tæknibreytingum og mögulegri fækkun starfa. Hann taldi borgaralaun ekki fýsilegan kost í því samhengi en benti á fimm leiðir til að mæta breytingunum. Í fyrsta lagi að auka símenntun, ekki endilega á sviði tækni sem úreldist fljótt, heldur til að efla hæfni til samvinnu og nýrrar hugsunar. Þá taldi hann mikilvægt að dreifa störfunum á fleiri, t.d. með styttingu vinnuvikunnar og í þriðja lagi að búa til störf sem hefðu umfram allt félagslegt mikilvægi og stuðluðu að félagslegri samheldni. Þá taldi hann mikilvægt að endurskoða skattkerfið og gera það þrepaskiptara. Að lokum lagði hann áherslu á að tryggja þyrfti almennt eignarhald eða ríkiseign á mun hærra hlutfalli þess fjármagns sem verður til við verðmætasköpun atvinnulífsins svo það sé hægt að miðla því aftur út í hagkerfið í þágu almennings í stað þess að megnið af arðinum safnist á fárra hendur.

Ilkka, aðalhagfræðingur ASÍ í Finnlandi (SAK), og sagði frá finnsku borgaralaunatilrauninni sem hófst 1. janúar 2017 og mun standa í tvö ár. Sú tilraun er gagnrýnd því hún nær eingöngu til 2.000 einstaklinga sem hafa verið atvinnulausir um lengri tíma og þeir fá aðeins um 70.000 kr. á mánuði í borgaralaun auk annarra greiðslna velferðarkerfisins. Rannsóknir verða gerðar að verkefninu loknu. SAK telur borgaralaun vera vinnuletjandi og því ekki farsæla lausn á því að tryggja sem best lífsgæði fyrir sem flesta. Glærur Ilkka má nálgast hér: XXX

Halldóra Mogensen, þingkona Pírata og formaður velferðarnefndar, fjallaði um hugmyndafræðilega sýn sína á borgaralaun. Hún lagði áherslu á að borgaralaun frelsuðu fólk undan illa launuðum störfum og okinu sem fylgir óöryggi um framfærslu. Með borgaralaunum, sem duga fyrir framfærslu, öðlaðist fólk frelsi til að mennta sig, sinna sínum nánustu og stofna eigin fyrirtæki. Borgaralaun gæfu fólki einnig frelsi til að mistakast og reyna aftur, stuðluðu þannig að nýsköpun og þroska einstaklinganna. Þingsályktunartillögu Pírata um borgaralaun má nálgast hér.

Í kjölfar erindanna sköpuðust líflegar umræður og það er margt sem brennur á fólki varðandi þróun vinnumarkaðarins og réttlæti til handa almenningi þegar kemur að hlutdeild í verðmætasköpuninni.

Glærur alla má nálgast hér að neðan. 

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir: hvað eru borgaralaun?

Dr Henning Meyer: No need for basic income 

Ilkka Kaukoranta: The UBI Finnish experiment and why it won´t work

Twitter Facebook
Til baka