Um ASÍ

28. febrúar 2018

Baráttan fyrir réttlæti í evrópska fluggeiranum

Undanfarinn áratug hefur mikil barátta átt sér stað um alla Evrópu um framtíð fluggeirans. Baráttan stendur á milli verkalýðshreyfingarinnar annars vegar og lággjaldaflugfélaga hins vegar, með lággjaldaflugfélagið Ryanair í fararbroddi. Mörg flugfélög, einna helst lággjaldaflugfélögin, hafa leitast eftir skjóli vegna óljóss regluverks og margbreytilegs eðlis fluggeirans til að greiða starfsfólki sínu smánarlega léleg laun. Laun sem fela ekki eingöngu í sér brot á réttindum viðkomandi einstaklinga heldur einnig gróf félagsleg undirboð.

Íslenskur vinnumarkaður hefur fengið sinn hluta af þessum áskorunum. Flugfreyjufélag Íslands (FFÍ) með stuðningi Alþýðusambands Íslands (ASÍ) hefur átt í harðri deilu við lettneska flugfélagið Primera Air Nordic SIA (PAN), auk móður- og systurfélaga þess sem öll eiga það sammerkt að vera að stærstum hluta í eigu íslenskra aðila. Eins og frægt er orðið hafði FFÍ boðað vinnustöðvun á PAN sem svaraði eftir langa þögn og krafðist þess fyrir Félagsdómi að vinnustöðvunin yrði dæmd ólögmæt. Félagsdómur komst að þeirri gagnrýnisverðu niðurstöðu í nóvember sl. að þar sem ríkissáttasemjari hafði ekki látið deiluna til sín taka með formlegum hætti, þrátt fyrir kröfu FFÍ og ASÍ, uppfyllti boðuð vinnustöðvun ekki formkröfur laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og því ólögmæt. Þessi niðurstaða þýðir að ríkissáttasemjari getur með þessum hætti haft verkfallsrétt íslenskra stéttarfélaga í hendi sér. Dómurinn felur þó aðeins í sér tímabundna töf. Ferlið hefur verið í gangi í um tvö ár og snýr, þrátt fyrir opinbera útúrsnúninga talsmanna PAN á málinu, eingöngu að þeim sjálfsagða rétti að gengið verði til kjarasamningsviðræðna við FFÍ um þau störf sem unnin eru út frá Íslandi. FFÍ er sannarlega ekki af baki dottið og í ályktun stjórnar og trúnaðarráðs félagsins frá 24. janúar sl. er ályktað skýrt um það að undirbúningur sé hafinn að nýrri boðun vinnustöðvunar, með það að marki að draga PAN að samningaborðinu en PAN hefur sýnt FFÍ, Embætti ríkissáttasemjara og íslenskum vinnumarkaði þá lítilsvirðingu að sinna ekki fundarboðum embættisins.

Árangur systursamtaka FFÍ og ASÍ í Evrópu undanfarin misseri er góður leiðarvísir að því að þrátt fyrir dugleysi stjórnmálamanna og innbyggða stofnanatregðu of margra þar til bærra eftirlitsstofnana mun réttlætið sigra að lokum. Áralangir slagir fyrir dómstólum og yfirvofandi hótanir félaga okkar í Evrópu um félagslegar aðgerðir hafa t.a.m. leitt til þess að ofangreindur frægasti „undirbjóðarinn“ í lággjaldafluggeiranum Ryanair hefur játað sig sigrað og lýst því yfir að á næstu misserum muni félagið gera fjölmarga kjarasamninga vegna starfa um borð í flugvélum sínum um mest alla Evrópu, til að tryggja sér langþráðan starfsfrið. Eftir situr PAN og önnur slík félög einangruð og bjóða ódýrar utanlandsferðir sem vel að merkja eru þó á kostnað skammarlegra kjara starfsfólksins sem sér um að koma farþegum á áfangastað. Á meðan PAN og tengd félög hegða sér með þessum hætti hljóta samfélagslega þenkjandi einstaklingar og áhugafólk um réttlæti að hugsa sig tvisvar um áður en stigið er um borð í flugvél sem knúin er áfram af vanvirðingu við launafólk og félagslegum undirboðum. 

Twitter Facebook
Til baka