Um ASÍ

29. mars 2017

ASÍ aðili að verkefninu Global Deal

Miðstjórn ASÍ hefur samþykkt að taka þátt í verkefninu Global Deal og staðfesti þar með stuðningsyfirlýsingu verkefnisins. Þar segir að samráð aðila vinnumarkaðarins og góð samskipti í atvinnulífinu geta dregið úr mögulegri mismunun vegna alþjóðavæðingar, aukinnar framleiðni og hagvaxtar, auk þess að stuðla að sjálfbærri þróun.

Verkefnið tengist heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Árið 2015 samþykktu Sameinuðu þjóðirnar heimsmarkmið um sjálfbæra þróun og leystu þar með af Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem samþykkt höfðu verið árið 2000. Eins og áður þá er það hlutverk þessara markmiða að stuðla að betri heimi fyrir okkur öll.  

Heimsmarkmiðin eru flokkur 17 markmiða og 169 undirmarkmiða sem taka til alls heimsins. Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eiga að ná að uppfylla þessi markmið fyrir árið 2030. Verkefnið Global Deal byggir á og er nánari útfærsla á áttunda og tíunda heimsmarkmiði sem fjalla um góða atvinnu, hagvöxt og aukinn jöfnuð. Heimsmarkmiðunum er ætlað að tryggja öllum mannréttindi og ná fram kynjajafnrétti og efla vald kvenna og stúlkna. Þau eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli hinna þriggja stoða sjálfbærrar þróunar: hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu.

Tilurð verkefnisins Global Deal má rekja til sannfæringar Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, um mikilvægi þess að ólíkir aðilar eins og stjórnvöld, stéttarfélög, atvinnurekendur, samtök atvinnurekenda, alþjóðleg samtök og aðrir hagsmunaaðilar vinni saman til að ná betri efnahagslegum árangri með því að tryggja mannsæmandi atvinnutækifæri fyrir alla. Þar með sé hægt að tryggja aukinn jöfnuð innan samfélagsins og á milli þjóða.

Hvað felst í Global Deal?

ASÍ og aðildarfélög vinna að fjölmörgum verkefnum sem falla vel að áttunda og tíunda heimsmarkmiði og Global Deal. Til að nefna aðeins nokkur þeirra eru verkefnið Einn réttur – ekkert svindl!, vinnustaðaeftirlitið í samvinnu við opinbera aðila og fundarherferðin Réttlátur vinnumarkaður – allra hagur!

Víða í heiminum er starfsfólki neitað um mannsæmandi vinnu og mannsæmandi laun og sumstaðar jafnvel ofsótt og drepið. Börn eru neydd til að vinna við ómannúðlegar aðstæður og innflytjendur látnir vinna við óviðunandi aðstæður. Á hverju ári eru 2,3 milljónir vinnutengdra dauðsfalla, 310 milljónir vinnuslysa og 160 milljón atvinnutengdra sjúkdómstilfella.

Í mörgum löndum ýtir aukinn ójöfnuður undir samfélagslegan óróa og hindrar efnahagslegan vöxt. Efnahagserfiðleikar í heiminum hafa tekið sinn toll. Það er áætlað að yfir 600 milljón ný störf þurfi  fyrir árið 2030 til að viðhalda vexti sem á sér stað á vinnumarkaði. Bæta þarf aðstæður þeirra 780 milljóna vinnandi kvenna og karla sem ekki fá nægilega mikil laun til að koma sér og fjölskyldum sínum út úr fátækt, draga þarf úr svartri atvinnustarfsemi og umsvifum gráa hagkerfisins.

Global Deal er ekki síst beint að fjölþjóðafyrirtækjum og þeirri samfélagslegu og hnattrænu ábyrgð sem þau bera. Við erum hluti af samfélagi þjóðanna og því skiptir það máli fyrir alla að tryggja mannsæmandi atvinnu og hagvöxt. Mikilvægt er að þekkja heimsmarkmiðin og Global Deal. Allar nánari upplýsingar um Globa Deal má finna á heimasíðu verkefnisins. Þar er m.a. hægt að sjá lista yfir þá aðila sem nú þegar hafa gerst formlegir aðilar að verkefninu.

Twitter Facebook
Til baka