Um ASÍ

25. apríl 2018

Öflugra aðgerða er þörf - ábyrgðin er allra

Á Íslandi eru mannréttindi brotin á verkafólki á hverjum degi. Fyrirtæki gera ekki ráðningasamninga, fara ekki eftir gildandi kjarasamningum, virða ekki vinnutíma, atvinnuöryggi er lítið og starfsmenn eru jafnvel ótryggðir fyrir slysum og skaða. Vísbendingar eru um að almennt vinni erlent launafólk lengri vinnudaga en íslenskt launafólk og fái að meðaltali lægri laun, greiði meira fyrir leigu og þurfi frekar að þola réttindabrot á vinnumarkaði.

Undanfarnar vikur og mánuði hafa fjölmiðlar fjallað um brotastarfsemi af ýmsu tagi. Innan ákveðinna atvinnugreina viðgangast ört vaxandi brot á kjarasamningum sem og gróf brot gegn innfluttu verkafólki. Misnotkun sem jafnast á við nútíma þrælahald og jafnvel mansal. Á síðustu árum hefur verkalýðshreyfingin beint sjónum sínum í æ ríkara mæli að svartri atvinnustarfsemi og misnotkun fólks á vinnumarkaði. Það er ljóst að öflugra aðgerða er þörf. Eftirlitsfulltrúar á vegum stéttarfélaga ASÍ og SA verða nær daglega vitni að því að því að svindlað er á erlendu vinnuafli á íslenskum vinnumarkaði. Aðildarfélög Alþýðusambands Íslands hafa fengið á sitt borð fjölda brota atvinnurekenda á erlendum starfsmönnum, sem eru jaðarsettir í samfélaginu og háðir atvinnurekendum sínum með fæði og húsnæði.  

Aukin eftirspurn kallar á aðflutning erlends starfsfólks

Í skýrslu ASÍ í mars sl. um íslenska vinnumarkaðinn kemur m.a. fram að mikill uppgangur er í ferðaþjónustu og greinum sem koma að þjónustu við ferðamenn eða sölu á ferðamannavænum varningi. Aukning ferðamanna til landsins kemur af stað ákveðinni keðjuverkun. Starfsfólk vantar til að sinna ferðamannastraumi í þjónustu og verslun og ákall um aukið gistirými eykur umsvif í byggingariðnaði og mannvirkjagerð svo þar vantar einnig starfsfólk. Aukin eftirspurn eftir starfsfólki í ferðaþjónustu og byggingariðnaði kallar á aðflutning erlends starfsfólks hingað til lands og er talið að erlent launafólk sé a.m.k. 12-13% launafólks á Íslandi.

Algengt er að erlent launafólk flytjist hingað til lands aðeins tímabundið til að afla meiri tekna en í heimalandi sínu. Algengara er að erlendir starfsmenn eru ráðnir í gegnum starfsmanna-leigur í tiltekinn tíma og eru leigðir út til notendafyrirtækja. Starfsmannaleigustarfsmenn starfa flestir innan byggingariðnaðarins og í ferðaþjónustu.

Þessi þróun kallar á breyttar áherslur við eftirlit og greiningu á vinnumarkaðnum.

Kjarasamningar á Íslandi tryggja lágmarksréttindi samkvæmt lögum. Þau fyrirtæki sem ekki  fylgja kjarasamningum stunda í raun launaþjófnað. Launaþjófnaðurinn sem hér er nefndur getur birst með þrennum hætti. Laun eru greidd langt undir kjarasamningum, starfsmenn eru ráðnir sem sjálfboðaliðar en látnir vinna störf sem kjarasamningar gilda um og fyrirtæki skýla sér á bakvið það að starfsmaður sé í einhvers konar starfsnámi eða starfsþjálfun en hafa í raun hvorki leyfi né hæfni til að taka starfsnema.

Hverjir tapa á undirboðum á vinnumarkaði?

Það tapa allir á undirboðum á vinnumarkaði. Það er verið að hafa tekjur af samfélaginu öllu, því ólaunuð vinna felur oftast í sér frekari brot t.d. gegn skattalögum, samkeppnislögum og lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Ólaunuð vinna við efnahagslega starfsemi þýðir að atvinnurekendur sem nota hana hagnast á kostnað samneyslunnar og skapa sér bæði ósanngjarnt og ólöglegt samkeppnisforskot á markaði.  Samkeppnisstaða fyrirtækja sem starfa heiðarlega verður óásættanleg.

Verkalýðshreyfingin mun ekki líða undirboð á vinnumarkaði né brot sem felast í ólaunaðri vinnu í efnahagslegri starfsemi. Mikilvæg forsenda árangurs í baráttunni gegn brotastarfsemi gagnvart útlendingum er samstarf og samvinna við aðra aðila sem skyldum hafa að gegna um upplýsingamiðlun, eftirlit og eftirfylgni.

Auka þarf slagkraft gegn félagslegum undirboðum og brotastarfsemi á vinnumarkaði

Til að auka slagkraft eftirlitsins og ná heildstæðum árangri þarf aukið samstarf allra þeirra sem koma að eftirliti á vinnumarkaði. Þannig verða til öflug samlegðaráhrif. Verkefnið er risavaxið og snýst um það að breyta viðhorfinu í samfélaginu. Því er mikilvægt að allir eftirlitsaðilar stéttarfélaganna njóti stuðnings og samvinnu opinberra aðila. Hér er átt við ASÍ og aðildarsamtökin, Starfsgreinasamband Íslands, Samtök atvinnulífsins, Vinnueftirlitið, Vinnumálastofnun, Ríkisskattstjóra, heilbrigðiseftirlit og nefndir ásamt aðstoð lögreglu. Skattstofa og lögregla eru þeir aðilar sem geta beitt víðtækustu viðurlögum við brotastarfseminni. Hinsvegar þarf einnig að styrkja löggjöf og regluverk, fá ríkari eftirlitsheimildir og harðari viðurlög gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Síðast en ekki síst þarf að auka fjárframlög til aðila sem standa að eftirlitinu. Markmiðið með vinnustaðaeftirliti að leggja sérstaka áherslu á það að koma snemma að málum, til að koma í veg fyrir að brotastarfsemi festi rætur á félagssvæði viðkomandi stéttarfélags. Ríkur þáttur í starfi eftirlitsfulltrúa er að upplýsa fyrirtæki um skyldur þeirra og afleiðingar brotastarfsemi, kynna þeim kjarasamninga, ráðningasamningagerð og fleira. Virkum eftirlitsfulltrúum á vegum stéttarfélaganna er að fjölga og er það vel.

Eftirfylgni eftirlitsins er þó enn langt á eftir, þ.e.a.s. eftirfylgnin í því hvað gerist eftir að fulltrúar okkar tilkynna brotið, hver framvinda málsins er gagnvart brotafyrirtækinu, geta eftirlistaðilar gengið út frá því að málinu sé framfylgt alla leið. Þarna skortir upplýsingagjöf  milli stofnana, sem er forsenda þess að tekið sé á málum á öllum sviðum.  Stjórnvöld og stofnanir eru rétt að rumska við það að brota- og glæpastarfsemi er staðreynd hér. Eftirlitsaðilar ASÍ búa við of þröngan ramma og allir aðilar vinnustaðaeftirlits búa við það að vinna í sitt hvoru horninu í stað þess að eiga möguleika á að vinna saman í sterku sameinuðu átaki gegn verkefninu, sem er eins og áður sagði risavaxið. Við þurfum að kalla eftir heildstæðri samvinnu stjórnvalda og stofnana sem eiga aðkomu að vinnustaðaeftirliti og tryggja að kjarasamningar séu virtir. Sem dæmi má nefna að í Noregi vinnur teymi sameiginlega að eftirliti, deilir með sér upplýsingum og fer saman í eftirlit. Slíkt fyrirkomulag með aðkomu ASÍ væri ákjósanleg samsetning eftirlits því þá fara saman þekking á kjarasamningum og skattalögum, aðilar dvalar- og atvinnuleyfa, aðilar öryggis og aðbúnaðar á vinnustað.  Þá er ástæða til að auka samstarf og þátttöku fréttamiðla í því að upplýsa um fyrirtæki sem eru brotleg og gangast ekki við því eða fara að fyrirmælum um bót og betrun, það er akkúrat engin ástæða til að halda hlífðarskildi yfir þeim fyrirtækjum sem brjóta á starfsmönnum sínum.

Twitter Facebook
Til baka