Fréttabréf

8. mars alþjóðlegur baráttudagur kvenna

Þann 8. mars á ári hverju taka konur sig saman víða um heim og fagna félagslegum, efnahagslegum, menningarlegum og pólitískum afrekum kvenna og minna jafnframt á að ennþá er verk að vinna í jafnréttisbaráttunni.

Hér á landi er boðað til fundar bæði í Reykjavík og á Akureyri. Í Reykjavík verður haldinn hádegisfundur á Grand hóteli, undir yfirskriftinni „Öll störf eru kvennastörf! – Brjótum upp kynbundið náms- og starfsval.“ Þar mun hópur kvenna sem valið hafa starfsvettvang innan  „karllægra“ starfsgreina, deila reynslu sinni og framtíðarsýn. Að fundinum standa samtök launafólks, KRFÍ og Jafnréttisstofa.

Á Akureyri verður í anddyri Borga hádegisfundur þar sem fjallað er um líðan ungs fólks. Þrjú erindi verða haldin og að þeim fundi stendur Zontaklúbbur Akureyrar og Jafnréttisstofa.

Af hverju alþjóðlegur baráttudagur kvenna?

Hugmyndina að sérstökum baráttudegi kvenna kom fyrst upp á fundi Alþjóðasamtaka sósíalískra kvenna sem haldinn var í Kaupmannahöfn árið 1910. Ákveðin dagsetning var ekki fastsett, en mikilvægt að velja sunnudag í mars, þar sem sunnudagur var eini frídagur verkakvenna í þá daga. Fyrstu árin voru baráttumál kvennadagsins kosningaréttur kvenna og samstaða verkakvenna. Árið 1921 ákvað Alþjóðasamband kommúnista að samþykka tillögu Clöru Zetkin, þýskrar kvenréttindakonu og sósíalista, að 8. mars yrði baráttudagur kvenna. Þessi dagsetning tengdist verkfalli kvenna í Pétursborg, en þær kröfðust betri kjara og friðar. Allir pólitískir leiðtogar lögðust gegn verkfallinu en konurnar héldu sínu striki. Fjórum dögum síðar sagði keisarinn af sér og bráðabirgðastjórn veitti konum kosningarétt. Rússneska byltingin var hafin.

8. mars á Íslandi

Hér á landi var dagsins sennilega fyrst minnst á árshátíð Kvenfélags sósíalistaflokksins 8. mars 1948, en félagið var stofnað árið 1939. Þar flutti Dýrleif Árnadóttir ræðu um 8. mars og baráttu kvenna gegn stríði og fasisma og Petrína Jakobsdóttir flutti erindi um Alþjóðasamband lýðræðissinnaðra kvenna og baráttu þess gegn stríði og fasisma. Ljóð voru flutt og Guðmunda Elíasdóttir söng við undirleik Fritz Weishappels. Kaffi var drukkið og dans stiginn.

Í upphafi var áhersla á friðarmál. Á fundum, 8. mars 1951 og 1952 voru samþykktar ályktanir um að Ísland gengi úr Atlantshafsbandalaginu, en þeir fundir voru á vegum Kvenfélags Sósíalistaflokksins.  Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna, MFÍK, voru stofnuð árið 1951. MFÍK hafa frá árinu 1953 staðið fyrir opnum fundum þar sem baráttan gegn bandarísku herstöðinni og aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu var fyrirferðarmikil í dagskránni lengi vel, enda samtökin stofnuð til að berjast fyrir friði í heiminum. Á 8. áratugnum fór áherslan að vera meiri á kjör verkakvenna og launamun kynjanna í íslensku samfélagi. Til að leggja áherslur á mismunandi kjör kvenna og karla, þá má segja frá því að árið 1984 efndu Kvennalistakonur í Reykjavík til aðgerða fyrir utan matvöruverslun í Austurstræti og vildu borga 2/3 af uppsettu verði matvara sem þær keyptu.

Á heimasíðu Kvennasögusafnsins er að finna meiri fróðleik um sögu 8. mars, en ofangreind samantekt byggir á gögnum safnsins.

Alþýðusamband Íslands hafði frá árinu 1984 komið að undirbúningi funda MFÍK en ákvað í kringum síðustu aldamót að standa að hádegisfundi í samstarfi við önnur samtök launafólks þar sem sérstök áhersla væri á stöðu kvenna á vinnumarkaði á hverjum tíma. Frá árinu 2002 hafa slíkir fundir verið haldnir í samstarfi við önnur heildarsamtök launafólks, Jafnréttisstofu og Jafnréttisráð.

7,1 milljón starfa gætu tapast

Mikilvægt er að kortleggja framtíð vinnumarkaðar með reglubundnum hætti. Tækniframfarir hafa ávallt haft gríðarleg áhrif á efnahagslíf og hagkerfi heimsins. Til lengri tíma eru slíkar breytingar nauðsynlegar til að drífa áfram lífskjör og framleiðni en til skamms tíma þurfa þó áhrifin ekki endilega að vera jákvæð og geta leitt til þess að störf flytji milli landa, landshluta eða jafnvel tapist. Flest bendir til þess að slíkar breytingar séu að verða örari og mun aðlögunarhæfni efnahagslífs, vinnumarkaðar og menntakerfis hafa mikið að segja um hvernig hagkerfi heimsins eykur samkeppnishæfni í breyttu efnahagslegu umhverfi.

Spáð fyrir um færni- og menntunarþörf

Það er ekki að ástæðulausu að vaxandi fjöldi ríkja framkvæmir nú með reglubundnum hætti kortlagningu á stöðu vinnumarkaðar til framtíðar. Þetta á við um meirihluta Evrópuþjóða en einnig hafa nágrannar okkar á Norðurlöndum um langt skeið spáð fyrir um færni- og menntunarþörf á vinnumarkaði. Bæði Svíar og Finnar hafa frá sjöunda áratugi síðustu aldar lagt með kerfisbundnum hætti mat á menntunarþörf til framtíðar. Í dag framkvæma bæði löndin umfangsmiklar greiningar og spár sem ná bæði yfir löndin í heild en einnig yfir ákveðin svæði og ákveðnar atvinnugreinar.

ASÍ hefur í samstarfi við SA, Vinnumálastofnun, Hagstofuna og stjórnvöld unnið að tillögum um hvernig megi taka upp greiningu og spá um færni- og menntunarþörf fyrir íslenskan vinnumarkað. Stefnt er að því að hópurinn ljúki störfum á þessu ári. Markmiðið með slíkri spá er þó ekki endilega að segja til með fullkominni vissu um hvernig vinnumarkaður muni þróast til framtíðar. Slíkt væri ógerlegt enda eru óvissuþættir við efnahagslegar spár til lengri tíma margir. Því væri ólíklegt að slík spágerð hefði komið auga á núverandi uppgang í ferðaþjónustu fyrir tíu árum síðan.

Skoða þarf ólíkar sviðsmyndir

Markmiðið er mun frekar að skoða ólíkar sviðsmyndir til að hafa bestu upplýsingar við ákvörðunartöku og stefnumótun í menntamálum og atvinnumálum bæði til lengri og skemmri tíma. Þrátt fyrir óvissuþætti geta margir mikilvægir þættir verið fyrirséðir með nokkurri vissu t.d. hvernig aldursdreifing er innan ólíkra stétta, hvernig fjöldi útskrifaðra geti þróast, hversu mikið brottfall verður úr námi ásamt fjölda annarra þátta sem tengjast framboði og eftirspurn vinnuafls.           

Slíkar upplýsingar eru verðmætar og eru notaðar víða í okkar nágrannalöndum. Þar er lögð mikil áhersla á miðlun til námsmanna til að styðja við námsval en einnig gera niðurstöðurnar stjórnvöldum kleift að hafa bestu upplýsingar við stefnumótun í mennta- og atvinnumálum. Jafnframt nýtist greiningin símenntunarmiðstöðvum sem geta þá brugðist við aðstæðum með fjölbreyttum menntaúrræðum til skemmri og lengri tíma. Upplýsingarnar tryggja einnig að bregðast megi við kerfisbundnu atvinnuleysi með virkum vinnumarkaðsaðgerðum sem miða að því að bæta færni atvinnuleitenda og aðlaga þá að breyttum aðstæðum á vinnumarkaði.

Störf munu breytast

Störf hafa breyst og munu breytast mikið í náinni framtíð. Aukin sjálfvirkni, gervigreind og mikilvægi tölvuþekkingar mun reyna á aðlögunarhæfni bæði vinnuafls og atvinnulífs til að bregðast við breyttum aðstæðum. Í nýrri verksmiðju sem Siemens opnaði nýverið í Bandaríkjunum uppfylltu einungis 1500 af 10 þúsund atvinnuleitendum grunnkröfur um að starfa í verksmiðjunni. Ástæðan var einföld, einstaklingar í almennum framleiðslustörfum þurfa að búa yfir meiri og fjölbreyttari færni í dag heldur en fyrir fáeinum árum síðan. Í skýrslu World Economic Forum frá síðasta ári var því spáð að til ársins 2020 geti 7,1 milljón starfa tapast vegna tækniframfara á meðan einungis tvær milljónir starfa verða til. Í skýrslunni segir ennfremur „To prevent a worst-case scenario—technological change accompanied by talent shortages, mass unemployment and growing inequality—reskilling and upskilling of today’s workers will be critical“.  Enginn veit framtíðina með vissu en allir hafa þó tækifæri til að búa sig undir líklegar sviðsmyndir til þess að geta brugðist við með bestu getu.

Launamunur kynjanna er staðreynd

„Konur og karlar standa ekki jafnfætis á vinnumarkaði. Karlar eru mun oftar í valdastöðum en konur, þeir eru frekar stjórnarformenn, forstjórar og framkvæmdastjórar en konur. Vinnumarkaðurinn er mjög kynjaskiptur, bæði eftir starfsstéttum og atvinnugreinum en kynjaskiptur vinnumarkaður ýtir undir launamismunun,“ segir Ólafía B. Rafnsdóttir, 1. varaforseti ASÍ og formaður VR.

Vanmat á störfum kvenna

Árið 1961 voru fyrst sett lög um launajöfnuð  karla og kvenna. Fimmtán árum síðar, árið 1976, voru fyrst sett lög um jafnrétti kynjanna. Jafnréttislögin sem eru í gildi í dag eiga að tryggja jafnrétti á öllum sviðum samfélagsins og fjallar 18. greinin sérstaklega um vinnumarkaðinn:

“Atvinnurekendur og stéttarfélög skulu vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Atvinnurekendur skulu sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Sérstök áhersla skal lögð á að jafna hlut kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum.”

Og 19. grein jafnréttislaganna fjallar sérstaklega um launajafnrétti:

“Konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. 

Með jöfnum launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla. Skulu þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun.”

„Skýrari verða lögin ekki. Þau eru hins vegar þverbrotin þegar kemur að launajafnrétti. Það er ekki vegna þess að mæður vilja frekar eiga gæðastundir með börnum sínum en feður. Það er heldur ekki vegna þess að karlar komi gagngert í veg fyrir að konur standi þeim jafnfætis á vinnumarkaði. Vanmat á virði vinnuframlags kvenna er landlægt – hver sem ástæðan er – og því þarf að breyta,“ bendir Ólafía á.

Ein helsta birtingarmynd þessarar stöðu er launamunur kynjanna. Laun eru lægri í „kvennastéttum“ en „karlastéttum“ og innan stétta eru laun kvenna lægri en karla að meðaltali. „Innan VR er kynbundinn launamunur 10%, samkvæmt niðurstöðum launakönnunar 2016,“ segir hún. Kynbundinn launamunur er sá munur sem er á launum karla og kvenna að teknu tilliti til áhrifaþátta á launin. Við hjá VR tökum tillit til aldurs, starfsaldurs, starfsstéttar, atvinnugreinar, menntunar, mannaforráða, vaktavinnu og vinnutíma þegar við reiknum kynbundinn launamun.

„VR hefur kannað laun félagsmanna sinna árum saman og birt upplýsingar um launamun kynjanna frá aldamótum.  Það hefur dregið úr þessum mun, en hann er enn til staðar, það er engin spurning. VR er ekki eitt um það að kanna launamun kynjanna, langt í frá. Fjöldi kannana og rannsókna sýnir kynbundinn launamun á íslenskum vinnumarkaði, þó talan sé ekki alls staðar sú sama. Því furða ég mig alltaf á því þegar því er haldið fram að það sé enginn kynbundinn launamunur á Íslandi,“ segir hún.  

Á að skylda jafnlaunavottun?

Nú er rætt um að skylda innleiðingu jafnlaunastaðalsins hjá fyrirtækjum af tiltekinni stærð og gera kröfu um jafnlaunavottun, jafnvel með lögum. Þessi hugmynd vakti hörð viðbrögð og umræðan um launamun kynjanna fór á flug. „Það er mikilvægt að við ræðum málin en orð hafa hingað til ekki skilað okkur jafnrétti. Það þarf aðgerðir. Ég styð allar góðar hugmyndir sem geta fært okkur í átt að jafnrétti á vinnumarkaði. Jafnlaunastaðallinn er mikilvægt stjórntæki fyrir fyrirtæki sem vilja tryggja jafnrétti innan eigin veggja. Staðallinn er einnig mikilvægur fyrir baráttu okkar í verkalýðshreyfingunni fyrir jafnrétti á vinnumarkaði. Hann er þannig leiðarvísir og brýnt að hann sé nýttur á þann hátt sem ætlað er.“

En hvaða leiðir eru færar? „Ein er að binda innleiðingu staðalsins í lög fyrir fyrirtæki af ákveðinni stærð, eins og ráðherra félags- og jafnréttismála hefur talað fyrir. Önnur er að nýta kjarasamninginn en það má vel semja um slíkt. Það sem e.t.v. skiptir mestu máli hér er fylgja fast eftir þeirri ákvörðun sem tekin verður. Ég tel mikilvægt að tryggja aðkomu stéttarfélaga að verkefninu á einn eða annan hátt því það er eitt að skylda staðalinn og annað að sjá til þess að honum verði fylgt. Okkur ber skylda til að leita allra leiða til að tryggja jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Okkur er full alvara. Jafnrétti er mannréttindi,“ segir Ólafía að lokum.

 

ASÍ aðili að verkefninu Global Deal

Miðstjórn ASÍ hefur samþykkt að taka þátt í verkefninu Global Deal og staðfesti þar með stuðningsyfirlýsingu verkefnisins. Þar segir að samráð aðila vinnumarkaðarins og góð samskipti í atvinnulífinu geta dregið úr mögulegri mismunun vegna alþjóðavæðingar, aukinnar framleiðni og hagvaxtar, auk þess að stuðla að sjálfbærri þróun.

Verkefnið tengist heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Árið 2015 samþykktu Sameinuðu þjóðirnar heimsmarkmið um sjálfbæra þróun og leystu þar með af Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem samþykkt höfðu verið árið 2000. Eins og áður þá er það hlutverk þessara markmiða að stuðla að betri heimi fyrir okkur öll.  

Heimsmarkmiðin eru flokkur 17 markmiða og 169 undirmarkmiða sem taka til alls heimsins. Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eiga að ná að uppfylla þessi markmið fyrir árið 2030. Verkefnið Global Deal byggir á og er nánari útfærsla á áttunda og tíunda heimsmarkmiði sem fjalla um góða atvinnu, hagvöxt og aukinn jöfnuð. Heimsmarkmiðunum er ætlað að tryggja öllum mannréttindi og ná fram kynjajafnrétti og efla vald kvenna og stúlkna. Þau eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli hinna þriggja stoða sjálfbærrar þróunar: hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu.

Tilurð verkefnisins Global Deal má rekja til sannfæringar Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, um mikilvægi þess að ólíkir aðilar eins og stjórnvöld, stéttarfélög, atvinnurekendur, samtök atvinnurekenda, alþjóðleg samtök og aðrir hagsmunaaðilar vinni saman til að ná betri efnahagslegum árangri með því að tryggja mannsæmandi atvinnutækifæri fyrir alla. Þar með sé hægt að tryggja aukinn jöfnuð innan samfélagsins og á milli þjóða.

Hvað felst í Global Deal?

ASÍ og aðildarfélög vinna að fjölmörgum verkefnum sem falla vel að áttunda og tíunda heimsmarkmiði og Global Deal. Til að nefna aðeins nokkur þeirra eru verkefnið Einn réttur – ekkert svindl!, vinnustaðaeftirlitið í samvinnu við opinbera aðila og fundarherferðin Réttlátur vinnumarkaður – allra hagur!

Víða í heiminum er starfsfólki neitað um mannsæmandi vinnu og mannsæmandi laun og sumstaðar jafnvel ofsótt og drepið. Börn eru neydd til að vinna við ómannúðlegar aðstæður og innflytjendur látnir vinna við óviðunandi aðstæður. Á hverju ári eru 2,3 milljónir vinnutengdra dauðsfalla, 310 milljónir vinnuslysa og 160 milljón atvinnutengdra sjúkdómstilfella.

Í mörgum löndum ýtir aukinn ójöfnuður undir samfélagslegan óróa og hindrar efnahagslegan vöxt. Efnahagserfiðleikar í heiminum hafa tekið sinn toll. Það er áætlað að yfir 600 milljón ný störf þurfi  fyrir árið 2030 til að viðhalda vexti sem á sér stað á vinnumarkaði. Bæta þarf aðstæður þeirra 780 milljóna vinnandi kvenna og karla sem ekki fá nægilega mikil laun til að koma sér og fjölskyldum sínum út úr fátækt, draga þarf úr svartri atvinnustarfsemi og umsvifum gráa hagkerfisins.

Global Deal er ekki síst beint að fjölþjóðafyrirtækjum og þeirri samfélagslegu og hnattrænu ábyrgð sem þau bera. Við erum hluti af samfélagi þjóðanna og því skiptir það máli fyrir alla að tryggja mannsæmandi atvinnu og hagvöxt. Mikilvægt er að þekkja heimsmarkmiðin og Global Deal. Allar nánari upplýsingar um Globa Deal má finna á heimasíðu verkefnisins. Þar er m.a. hægt að sjá lista yfir þá aðila sem nú þegar hafa gerst formlegir aðilar að verkefninu.

Þétta þarf félagslegt og fjárhagslegt öryggisnet

Á sama tíma og stöðugar fréttir berast af uppgangi og hagsæld í efnahagslífinu er ljóst að mikill fjöldi fólks býr við fátækt í okkar samfélagi og hefur umræða um þessa miklu meinsemd skotið upp kollinum undanfarið. Því ber að fagna þegar það tekst að setja þetta mikilvæga málefni á dagskrá og ráðamenn krafðir svara um lausnir og úrbætur. Í einu auðugasta landi heims getum við aldrei sætt okkur við að þúsundir manna líði skort og yfir 6.000 börn alist upp í fátækt.

Í kjarasamningum á vettvangi aðildarfélaga ASÍ hefur frá hruni verið lögð sérstök áhersla á að hækka lægstu laun umfram önnur laun með krónutöluhækkunum. Þó það hafi ekki alltaf gengið þrautarlaust fyrir sig, og betur megi ef duga skal, hefur sú stefna engu að síður tryggt tekjulægstu hópunum á vinnumarkaði kaupmáttaraukningu umfram aðra.

Hin hliðin á þessari baráttu er ekki síður mikilvæg. Hún snýr að því hvernig okkur sem samfélagi hefur tekist að tryggja velferð og félagslegan jöfnuð í gegnum öryggisnet samfélagsins. Velferðarsamfélög Norðurlandanna byggja á því að til staðar sé þéttriðið félagslegt og fjárhagslegt öryggisnet sem grípur ef atvinnuleysi, veikindi, slys eða félagslegir erfiðleikar steðja að. Markmiðið er að þrátt fyrir áföll hafi allir áfram tækifæri til mannsæmandi afkomu og samfélagsþátttöku og möguleika  á að byggja sig upp að nýju með markvissum stuðningi. Þar eigum við á mörgum sviðum talsvert í land og á undanförnum árum hafa ákveðnir grundvallarþættir í velferðarþjónustunni raunar snúist til verri vegar sem hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir stóra hópa okkar félagsmanna. Ég ætla að staldra hérna við þrennt.

 • Háa gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu, verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað og takmarkaðir möguleikar til menntunar eða endurmenntunar á vinnumarkaði. Allt eru þetta þættir sem ýta undir fátækt og vinna gegn samfélagi velferðar og jafnaðar. Vegna síhækkandi kostnaðarþátttöku sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni undanfarin ár þurfa þúsundir landsmanna að neita sér um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu á ári hverju.
 • Áralangt sinnuleysi stjórnvalda í húsnæðismálum lágtekjufólks hefur valdið því að stórir hópar hafa ekkert húsnæðisöryggi og búa nú við húsnæðiskostnað sem er svo hár að engin leið er fyrir fólk að ná endum saman. Verst kemur þessi staða niður á börnum sem alast upp við  óöryggi og fjárhagserfiðleika.
 • Sú stefna stjórnvalda að takmarka aðgengi fólks yfir 25 ára að framhaldsskólakerfinu og auka ekki framlög til Fræðslusjóðs bitnar verst á þeim sem hafa minnsta menntun og takmarkar möguleika þeirra á að bæta stöðu sína.

Löng hefð er fyrir því að aðildarfélög ASÍ setji við gerð kjarasamninga fram kröfur á stjórnvöld um aðgerðir í velferðar- og skattamálum. Það var einnig gert í tengslum við síðustu  kjarasamninga í maí 2015. Með samstöðu aðildarfélaga ASÍ tókst að ná fram í yfirlýsingu ríkisstjórnar loforð um verulegt átak í húsnæðismálum, með stofnframlögum til byggingu 2.300 almennra íbúða fyrir tekjulágar fjölskyldur og verulega aukningu framlaga til húsnæðisbóta vegna þeirra sem eru á leigumarkaði. Einnig náðist samkomulag um að þak verði sett á kostnað heimila vegna læknisþjónustu. Jafnframt var fjármagn aukið til framhaldsfræðslu, þó ekki hafi tekist að fella 25 ára aldursþakið. Allt eru þetta atriði sem  draga mun verulega úr framfærslukostnaði þessara heimila og gera þeim betur kleift að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. En þó þetta séu mikilvæg skref er baráttunni hvergi lokið og enn bíða verkalýðshreyfingarinnar stór verkefni á sviði velferðarmála þar sem krafan er að félagslegum stöðugleika verði gert jafn hátt undir höfði og hinni efnahagslegu hlið stöðugleikans.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ

 

Fundur kvennanefnda Sameinuðu þjóðanna

"Ég hef unnið fleiri heimsmeistaratitla en Christiano Ronaldo en ég efa að hann muni hafa áhyggjur af því að eiga fyrir reikningunum þegar hann lætur af atvinnumennsku. Ég er ekki svo lánsöm að vera í sömu stöðu", sagði Abby Wamback, heimsmeistari og tvöfaldur ólympíumeistari með bandaríska landsliðinu í fótbolta, þegar hún fjallaði um kynbundna mismunun í íþróttum og þann gífurlega launamun sem er á milli kvenkyns og karlkyns atvinnumanna í knattspyrnu.

Árlegur fundur kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna var haldinn dagana 13. – 24. mars s.l. í höfuðstöðvum samtakanna í New York undir yfirskriftinni „Efnahagsleg valdefling kvenna á tímum breytinga á vinnumarkaði.“ Fulltrúar ríkisstjórna og félagasamtaka frá öllum heimshornum komu saman og fjölluðu um hvernig styðja megi við konur og stúlkur og efla þær á öllum sviðum samfélagsins og ekki síst á vinnumarkaði.

Ísland stóð að nokkrum viðburðum á þinginu og meðal annar í samstarfi við Sviss og S-Afríku og einnig UN Women og ILO. Viðburðurinn markaði upphaf víðtæks samstarfs ríkja og alþjóðastofnana um launajafnrétti. Þar steig á stokk heimsþekkt fólk á ýmsum sviðum og setti fram kröfu um afnám kynbundins launamunar.

Umfjöllunarefnin voru af ýmsum toga og fjölmargir viðburðir í boði. Meðal annars var komið inn á baráttu kvenna gegn hatursorðræðu á samfélagsmiðlum. Konur frá S-Ameríku sögðu frá baráttu sinni þar sem konur í valdastöðum m.a. þingkonur verða sérstaklega fyrir barðinu á „dólgunum“ og virðist markvisst reynt að þagga niður í þeim með persónulegum árásum á samfélagsmiðlunum. ILO í samstarfi við UN Women lögðu sérstaka áherslu á umræðuna um kynferðislegt áreiti og ofbeldi á vinnumarkaði og mikilvægi þess að aðilar vinnumarkaðarins taki markvisst á því meini.

Kynning var á Jafnlaunastaðlinum og áhersla lögð á mikilvægi samstarfs aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda til að vinna gegn kynbundnum launamun. Einnig var fjallað um áhrif laga um kynjahlutfall í stjórnum fyrirtækja. Jafnlaunastaðallinn vakti mikla athygli og ekki síður sú staðreynd að 90% þeirra sem eru á vinnumarkaði hér á landi eiga aðild að samtökum launafólks. – Það er þörf áminning og vert að hafa í huga að réttur launafólks til að skipuleggja sig á vinnumarkaði er ekki alls staðar sjálfgefinn.

Íslensk stjórnvöld og landsnefnd UN Women á Íslandi kynntu verkfærakistu sem ætluð er hverjum þeim sem vilja hvetja karlmenn til að láta til sín taka í baráttunni fyrir kynjajafnrétti. Verkfærakistan var þróuð hér á landi og afhent HeForShe, alþjóðlegu verkefni UN Women sem vinnur að aukinni þátttöku karla í allri umræður og baráttu fyrir auknu jafnrétti kynjanna.

Vanmat á störfum kvenna, sömu laun fyrir jafnverðmæt störf, samspil heimilis og vinnu, ólaunuð umönnunarstörf, kynferðislegt áreiti og ofbeldi í nánum samböndum og á vinnumarkaði, hatursorðræðu á samfélagsmiðlum, valdeflingu kvenna, svo eitthvað sé nefnt eru þær áherslur sem unnið er að á heimsvísu í baráttunni um jafnrétti kynjanna. Fundur kvennanefndar SÞ er mikilvægur vettvangur til að miðla upplýsingum og skiptast á skoðunum.

Hætta á bólumyndun á húsnæðismarkaði

Viðvörunarbjöllur eru farnar að hljóma á húsnæðismarkaði. Þróun undanfarinna mánaða hefur réttilega beint athyglinni að þróun fasteignaverðs og vakið upp spurningar um hvort verðbóla hafi myndast á húsnæðismarkaði. Á þessu var meðal annars vakin athygli í riti Seðlabankans um Fjármálastöðugleika frá október á síðasta ári þar sem bent var á að áhætta geti verið að byggjast upp á fasteignamarkaði. Síðan þá hefur enn hitnað undir húsnæðismarkaðnum.

Þróunin á sér margar skýringar en hefur þó ekki verið óvænt. Meðal annars hefur verið bent á það í undanförnum spám Hagdeildar að viðvarandi skortur á húsnæði hafi sett og muni setja aukinn þrýsting á húsnæðisverð. Í vorspá 2014 sagði: „ekki er útlit fyrir annað en áframhaldandi verðhækkun á fasteignamarkaði sem getur haft þau áhrif að væntanlegir fasteignakaupendur flýta kaupum og bjóða hærra verð en ella. Þótt verðmyndun beri enn um sinn með sér að vera sjálfbær er umhugsunarefni hversu hratt fasteignaverð hefur hækkað“. Enn ríkir óvissa um það hvort eiginleg bóla hafi myndast á húsnæðismarkaði. Hingað til hafa greiningaraðilar verið nokkuð sammála um að verðmyndun hafi verið í takt við þróun ákvörðunarþátta á eftirspurnar- og framboðshlið. Sé þróun ákvörðunarþátta eins og  kaupmáttar, efnahagsaðstæðna, lýðfræðilegra þátta og ferðaþjónustu byggð á traustum grunni er ekki óeðlilegt að fasteignaverð hafi hækkað m.t.t. til takmarkaðs framboðs á húsnæði. Þannig er ljóst að hraður viðsnúningur t.d. í ferðaþjónustu myndi hafa veruleg áhrif á húsnæðismarkað og væntingar til húsnæðisverðs.

Þó fasteignaverð kunni að hafa hvílt á traustum grunni fram til þessa hefur hækkunartakturinn aukist og ljóst að ákveðin bólumerki eru farin að sjást á fasteignamarkaði. Dæmi eru stuttur sölutími eigna og sú hegðun kaupenda að bjóða upp verð fasteigna sökum skorts eða væntinga um framtíðarhækkun fasteignaverðs. Auglýstar eignir til sölu hafa ekki verið færri í rúman áratug, eða svo langt sem tölfræði Seðlabankans nær. Um 700 eignir í fjölbýli eru nú skráðar til sölu og um 220 sérbýli. Til viðmiðunar voru um 1700 eignir í fjölbýli að meðaltali skráðar til sölu á árunum 2006-2008 og yfir 500 sérbýli. Séu eignir skráðar til sölu í dag má gera ráð fyrir því að þær seljist á um 6 vikum þó heyra megi fjölmörg dæmi um að eignir seljist við og jafnvel fyrir almenna skoðun. Aðstæður sem þessar geta hæglega leitt til þess að verð vaxi umfram það sem hefðbundnir ákvörðunarþættir gefa tilefni til og því full ástæða að bregðast við aðstæðum.

 

Vísitala íbúðaverðs hækkaði að jafnaði um 11% á árinu 2016 og hefur árshækkun vísitölunnar ekki verið meiri í rúman áratug eða frá árinu 2005. Verðhækkanir jukust á síðari helmingi ársins og í desember hafði húsnæðisverð hækkað um 15% frá sama tímabili 2015. Lítil verðbólga hefur jafnframt haft þau áhrif að raunverð fasteigna hefur hækkað hratt, og nam raunhækkun 13% í desember, eða 16% gagnvart öðru verðlagi en húsnæði.

Þróunin í upphafi árs bendir ekki til þess að hægja muni á hækkunarhrinunni í nánustu framtíð. Árshækkun húsnæðis nam 18,6% í febrúar mánuði sem jafngildir 16% hækkun raunverðs. Það er því líklegt að fljótlega verði raunverð húsnæðis hærra en það hefur nokkru sinni verið. Húsnæðisverð hefur einnig farið hækkandi á Norðurlöndunum að Finnlandi undanskildu. Frá aldarmótum hefur húsnæðisverð hækkað mest í Svíþjóð og Noregi en ólíkt Íslandi og Danmörku fóru þau lönd ekki í gegnum djúpa húsnæðiskrísu í efnahagshruninu.

Erfiðar aðstæður á leigumarkaði magna húsnæðisvandann

Aðstæður á húsnæðismarkaði eru gríðarlega erfiðar og hafa í raun ekki verið alvarlegri um áratugaskeið. Húsnæðisvandinn felst fyrst og fremst í viðvarandi skorti á húsnæði sem, í bland við mikla aukningu eftirspurnar, hefur leitt til mikillar hækkunar húsnæðisverðs. Eigendur húsnæðis finna þó takmarkað fyrir vandanum, auður þeirra vex með hærra húsnæðisverði og undanfarin misseri hefur lítil verðbólga leitt til þess að eiginfjárstaða eigenda hefur snarbatnað. Vandinn er fyrst og fremst bundinn við þá sem eiga ekki húsnæði, eru á leigumarkaði eða í foreldrahúsum. Hlutfall ungs fólks í foreldrahúsum hefur sem dæmi ekki verið hærra síðan mælingar hófust, en um 40% allra á aldrinum 20-29 ára búa í foreldrahúsum frá því að hafa verið um þriðjungur fyrir hrun.

Sú breyting varð á húsnæðismarkaði við hrunið að leigjendum fjölgaði ört en á tæpum tíu árum fór hlutfall leigjenda úr því að vera um 13,2% árið 2005 í 21,8% árið 2015. Eftirspurn eftir leiguhúsnæði jókst því hratt án þess að til staðar væru traust úrræði á leigumarkaði, hvorki almenn leigufélög né félagslegt húsnæði. Á sama tíma hurfu margar íbúðir úr langtímaleigu til einstaklinga yfir í skammtímaleigu til ferðamanna.

Leiguverð hefur því hækkað ört og var um 48% hærra í árslok 2016 en í ársbyrjun 2009. Á sama tímabili hefur kostnaður við eigin húsnæðis einungis hækkað um 28% þrátt fyrir að hækkun húsnæðisverðs hafi verið mun meiri. Þetta skýrist meðal annars af því að hagstæð vaxtakjör og lág greiðslubyrði verðtryggðra lána halda kostnaði við húsnæði undir markaðsleigu.

 

Þetta er ein af ástæðum þess að einstaklingar reyna að flýja háa leigu og óöryggi á leigumarkaði með því að bjóða upp húsnæðisverð þar sem það gefur í flestum tilfellum tækifæri til að lækka húsnæðiskostnaðinn. Þeir sem ekki geta keypt húsnæði, eiga ekki fyrir útborgun eða standast ekki greiðslumat sitja eftir í erfiðum aðstæðum og hætta er á því að þeir einstaklingar festist í fátæktargildru.

Líkt og sést á myndinni að ofan eru leigjendur í miklum meirihluta þeirra sem búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað, þ.e. húsnæðiskostnaður er hærri en sem nemur 40% af ráðstöfunartekjum. Staðan er verst hjá leigjendum á almennum markaði en 18,7% þeirra búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað. Staðan er mun betri hjá eigendum en einungis 6,1% þeirra sem skulda í húsnæðinu búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað og hefur það hlutfall ekki verið lægra í yfir áratug.

Þegar rætt er um aðgerðir til að bregðast við húsnæðisvandanum er gríðarlega mikilvægt að ekki sé horft fram hjá stöðu leigjenda og full ástæða til þess að reyna eftir fremsta megni að hraða uppbyggingu félagslegs leiguhúsnæðis. Í dag er einungis gert ráð fyrir byggingu 600 leiguíbúða  á ári á næstu þrem árum í almenna íbúðakerfinu á meðan ASÍ telur að byggja þurfi að minnsta kosti 1.000 leiguíbúðir árlega á næstu 5 árum.

Mun framboðið taka við sér?

Þrátt fyrir að raunverð húsnæðis sé svipað og í síðustu uppsveiflu þegar fasteignabóla ríkti eru aðstæður á húsnæðismarkaði í dag aðrar og gjörólíkar þeim sem uppi voru þá. Núverandi vöxtur eftirspurnar á rætur að rekja til vaxtar ferðaþjónustunnar, lýðfræðilegra breytinga og bættrar fjárhagsstöðu heimilanna á meðan auðvelt aðgengi að lánsfjármagni og hækkun veðhlutfalls hafði gríðarleg áhrif á verðmyndun í síðustu uppsveiflu. Sé slíkum vexti eftirspurnar ekki mætt með auknu framboði er ljóst að verð mun fara hækkandi þar sem viðvarandi skortur setur þrýsting á hækkun húsnæðisverðs.

Byggingariðnaðurinn stöðvaðist við efnahagshrunið og framboð íbúða sem hafði árlega aukist um 2500 nýjar íbúðir á árunum 2000-2008 dróst saman og varð tæplega þúsund íbúðir á ári eftir hrun. Á sama tíma fjölgaði ferðamönnum, mikill fjöldi íbúða færðist úr langtímaleigu í skammtímaleigu til ferðamanna auk þess sem fleiri þúsund erlendir starfsmenn hafa flust búferlum til Íslands á síðustu árum. Skortur á húsnæði er því uppsafnaður vandi sem illa hefur tekist að bregðast við en samkvæmt greiningu Íbúðalánasjóðs vantaði yfir þrjú þúsund eignir á markaðinn í upphafi árs [sjá nánar].

Vöxtur húsnæðisverðs umfram byggingarkostnað hvetur að öðru óbreyttu til aukinna nýbygginga. Hins vegar jókst íbúðarfjárfesting einungis um 14,8% árið 2014 og dróst síðan saman um 3,1% árið 2015 á sama tíma og eftirspurn og raunverð hafa aukist umtalsvert. Nýbyggingar hafa því verið undir því sem hlutfall húsnæðisverði hefur gefið tilefni til um nokkurt skeið. Framboð húsnæðis bregst þó gjarnan hægt við breyttum aðstæðum á markaði og skýrist það meðal annars af þeim tíma sem tekur að skipuleggja framkvæmdir, bæði að hálfu hins opinbera og framkvæmdaaðila. Núverandi tafir benda til þess að stjórnvöld og skipulagsyfirvöld hafi ekki verið undirbúin fyrir lýðfræðilegar breytingar, vöxt ferðaþjónustunnar og aukna eftirspurn eftir húsnæði. Áskoranirnar eru engu að síður til staðar og húsnæðisvandinn einnig. Líkt og Þjóðskrá bendir á í nýlegri greiningu er ein birtingarmynd skorts á húsnæði fjölgun íbúa á hverja íbúð en það er viðsnúningur á þróun undanfarinna áratuga. Enn fremur er sjáanleg fækkun eigenda í yngri aldursflokkunum sem gefur til kynna þann vanda sem felst í því komast inn á húsnæðismarkað. Aðstæður á leigumarkaði eru þó litlu skárri, og há leiga og lítið öryggi búa til frekari hvata fyrir einstaklinga að bjóða upp húsnæðisverð þar sem tiltölulega hagstæðir vextir og 40 ára verðtryggð lán lækka í flestum tilfellum húsnæðiskostnað í upphafi lánstímans.

Hið jákvæða er að hagtölur síðasta árs gefa til kynna að aukinn kraftur sé hlaupinn í mannvirkjagerð. Þótt íbúðafjárfesting á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs hafi ekki gefið tilefni til bjartsýni jókst fjárfesting um fjórðung á öðrum ársfjórðungi og um fimmtung á þeim þriðja. Á fjórða ársfjórðungi jókst íbúðafjárfesting um 70% og hefur því ekki verið meiri frá því á fyrri hluta árs 2008. Samkvæmt talningu Samtaka Iðnaðarins eru þó margar af þessum íbúðum skammt á veg komnar en alls telja samtökin að um 3000 íbúðir séu í byggingu á höfuðborgarsvæðinu. Enn er því nokkuð langt í land með að ljúka við þær 5000-9000 íbúðir sem talið er að vanti inn á markaðinn á næstu árum[sjá nánar]. Fjárfesting í íbúðum eykst umtalsvert á næstu árum samkvæmt nýbirtri spá Hagdeildar ASÍ, eða um 27% á þessu ári, 19,3% á næsta ári og 22,6% árið 2019. Við teljum að markaðurinn verði nær jafnvægi að þessu leyti undir lok spátímans þó að óvíst sé hvort þær eignir sem byggðar eru, falli að þörfum nýrra kaupenda eða séu á réttum landssvæðum og svari þannig þeirri eftirspurn sem til staðar er.

Gangi sú sviðsmynd eftir sem birtist í nýlegri hagspá ASÍ, eru allar líkur á því að þrýstingur verði áfram á fasteignaverð á næstu árum. Staðan á leigumarkaði verður því áfram erfið fyrir þá sem þar eru og ljóst að nú er tækifæri til að stórefla uppbyggingu leiguhúsnæðis. Þannig yrði leigumarkaður að raunverulegum valkosti í búsetu hér á landi og gæti tekið við fólki þegar raunverð fasteigna vex hratt fremur en að ýta þeim út í húsnæðiskaup. ASÍ leggur því ríka áherslu á að uppbyggingu leiguíbúða innan Almenna íbúðakerfisins verði hraðað og fjölgað umfram núverandi áætlun en þær munu nýtast ungu fólki og tekju lágum. Þetta eru einmitt hóparnir sem njóta síst húsnæðisöryggis vegna skorts á leiguhúsnæði og hárrar leigu.

Eru viðskiptamódel alþjóðlegra stórfyrirtækja andsnúin verkafólki?

Hagvöxtur í heiminum hefur þrefaldast á síðustu 30 árum og alþjóðleg risafyrirtæki og undirverktakar þeirra stjórna um 60% af framleiðslu í heiminum. Það mætti því ætla að að normið á vinnumarkaði væri virðing fyrir réttindum og starfsaðstæðum launafólks og lágmarkslaun væru tryggð með kjarasamningum þar sem verkafólk fengi sinn skerf af hagnaði fyrirtækja í gegnum hærri laun. Þannig ykist jöfnuður í samfélaginu, hamingja íbúanna yrði meiri og hagvöxtur myndi aukast. En það skortir verulega upp á að stærstu fyrirtæki heims sýni slíka samfélagslega ábyrgð. Í staðinn halda þau launum niðri, aðbúnaður verkafólks í verksmiðjum þeirra er í sumum tilfellum lífshættulegur og í mörgum tilvikum vita þau ekki, eða vilja ekki vita, hverjir framleiða íhluti í vörurnar þeirra. Á sama tíma hafa laun forstjóra stórfyrirtækja margfaldast og árið 2016 átti ríkasta 1% mannkyns meiri auð en hin 99% samanlögð.

Þetta er veruleikinn í dag. Verkafólk og fjölskyldur þeirra vita að það er eitthvað verulega bogið við þetta. Stjórnvöld vita það líka en skortir kjark til að aðhafast. Jafnvel forstjórar fyrirtækjanna vita að framferði þeirra er rangt en neita að horfast í augu við ástandið og viðurkenna þar með að ábyrgðin er þeirra. Þá er betra að þegja.

Og við, neytendur, kaupum varning þessara fyrirtækja og gerum kröfu um ódýra vöru.

Nú hefur Alþjóðasamband verkalýðsfélaga (ITUC) birt skýrslu með nöfnum 50 alþjóðlegra stórfyrirtækja sem þurfa að taka til í sínum ranni. Fyrirtæki sem byggja viðskiptamódel sitt á lágum launum, takmörkuðum réttindum og slæmum aðbúnaði. Þetta eru fyrirtæki sem hafa látið græðgi og hagnaðarvon blinda sig á kostnað velferðar starfsfólksins. Þetta eru ríkustu fyrirtæki í heimi sem ráða sjálf aðeins til sín 6% af sínu starfsfólki en 94% af starfsmönnunum er falið vinnuafl undirverktaka, oft á tíðum á smánarlaunum í þrælakistum. Þessar keðjur undirverktaka – hið falda vinnuafl – liggur langoftast í löndum þar sem hráefnið er ódýrt, vinnuaflið er ódýrt, þar sem auðvelt er að komast undan hefðbundnum vinnumarkaðsreglugerðum og skattaafslættir eru í boði.

Falið vinnuafl nokkurra stórfyrirtækja

Efri ásinn sýnir opinberan starfsmannafjölda fyrirtækisins en sú neðri falda vinnuaflið sem er í keðjum undirverktaka.

Heimild: ITUC – Scandal inside the global supply chains of 50 top companies
Frontlines Report 2016


Hér sjáum við t.d. niðurbrotinn kostnað á peysu sem kostar 29 evrur í vinsælli fataverslun í Evrópu. Verslunin fær langstærsta hluta verðsins í sinn vasa, þá koma vörumerkið, efniskostnaður, flutningskostnaður, milliliðir, verksmiðjan í Asíu og óbeinn kostnaður áður en kemur að verkafólkinu sem býr til vöruna en það fær aðeins 0,6% af verði hennar í sinn vasa. Það er ekkert eðlilegt við þetta.

 

Heimild: ITUC – Scandal inside the global supply chains of 50 top companies
Frontlines Report 2016

 

 

Baráttan heldur áfram!

Við höldum alþjóðlegan baráttudag verkafólks þann 1. maí að þessu sinni í skugga mikilla umbrota og ógnanna á alþjóðavísu. Vaxandi misskipting á síðustu áratugum er einn helsti orsakavaldur þessarar þróunar sem á skýringar sínar m.a. í því að stjórnmálamönnum, sem verða sífellt háðari peningavaldinu um völd sín, hefur mistekist að sporna gegn auðvaldinu og tryggja almenningi réttlátan hlut í aukinni velsæld. Í samfélögum þar sem misvægi verður of mikið og aðeins lítið brot þjóðarinnar situr að þorra alls auðs og stýrir í krafti þess, verða brestir og samstaðan gefur sig. Það er einnig athyglisvert að fylgjast með því að mikil óánægja almennings víða um heim með hlutskipti sitt og stöðu brýst út í kjöri á þjóðernissinnuðum lýðskrumurum, sem undir formerkjum einangrunarhyggju og útilokunar lofa vinnandi fólki öllu fögru þó vitað sé að útilokað verði að innleysa þau innantómu loforð. Það er því mikil áskorun í því fólgin að skilja þessa stöðu og orsakasamhengið í aðdraganda hennar og í framhaldi af því endurmeta frá grunni með hvaða hætti við setjum hugsjónir okkar um jöfnuð og bræðralag fram og rökstyðjum þær.

Ójöfnuður dregur úr hagvexti og velgengni samfélaga

Ég nefni þetta vegna þess að þetta er að gerast á sama tíma og sífellt fleiri rannsóknir hafa sýnt fram á að ójöfnuður hefur ekki bara félagslegar og pólitískar afleiðingar, heldur dregur hann beinlínis úr hagvexti og velgengni samfélaga til lengri tíma. Jafnframt hefur verið sýnt fram á að í löndum þar sem þátttaka í stéttarfélögum er mikil og afl verkalýðshreyfingarinnar sterkt hefur tekist mun betur að sporna gegn misskiptingunni og tryggja meiri jöfnuð og velferð fyrir allan almenning, bæði með kjarasamningum og opinberu velferðarkerfi og tekjujöfnun í gegnum skattkerfið.

Norrænu samfélögin hafa ákveðna forystu í þessum málum en þau hafa í raun byggt samfélagssáttmála sinn á að viðhalda mikilvægu en viðkvæmu jafnvægi á milli samfélagslegrar ábyrgðar og efnahagslegs vaxtar. Á þeim grunni hafa þau þróað samkeppnishæfustu en á sama tíma jöfnustu samfélög í heimi. Einnig hér á landi hefur verkalýðshreyfingin lagt áherslu á þetta jafnvægi og má í því sambandi nefna kröfu Alþýðusambandsins um að jafnvægi verði milli efnahagslegs- og félagslegs stöðugleika í tengslum við stofnun Þjóðhagsráðs á síðasta ári. Bæði fyrrverandi og núverandi ríkisstjórn hafa tekið þessum kröfum fálega og engin launung er á því að það mótar mjög samskipti okkar við stjórnvöld um þessar mundir. Almennt launafólk er einfaldlega ekki tilbúið að axla eitt ábyrgð á skilyrðum efnahagslegrar velsældar og stöðugleika án þess að því sé á hverjum tíma tryggð réttlát hlutdeild í velmeguninni og að samfélagið skapi því öryggi gagnvart afleiðingum alþjóðavæðingar, atvinnumissis eða heilsubrests.

Velferðarkerfið nýtt sem helsta hagstjórnartækið

Sú stefna sem við sjáum birtast í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára gefur því miður ekki fyrirheit um þetta. Þvert á móti byggir hún í allt of ríkum mæli á því að nota velferðarkerfið sem helsta hagstjórnartækið til aðhalds í miklum vexti efnahagslífsins. Á sama tíma og skattalækkanir og óréttlátar skuldalækkunaraðgerðir hafa veikt tekjustofna ríkisins og dregið úr aðhaldi í ríkisfjármálum eru brýnar velferðarúrbætur og innviðaframkvæmdir ófjármagnaðar og vegið að grundvallarréttindum launafólks. Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar vill stytta bótatímabil þeirra sem eru atvinnulausir, þrengja að tækifærum þeirra sem minnsta menntun hafa til að skapa sér nýjar forsendur til að fylgjast með í síbreytilegum aðstæðum á vinnumarkaði, herða enn frekar sultarólina um heilbrigðiskerfið og ýta undir einkavæðingu þrátt fyrir loforð um annað, hjúkrunarrýmum fjölgar engan veginn í takt við þörfina og ríkisstjórnin dregur úr stuðningi við barnafólk með veikingu á barna- og húsnæðisbótakerfinu svo fátt eitt sé talið. Slík forgangsröðun tryggir engan vegin þann félagslega stöðugleika sem lagt hefði nauðsynlegan grunn að nýju og endurbættu vinnumarkaðslíkani og um hana verður enginn sátt.  

Samstaðan er það vopn sem reynst hefur beittast í baráttu launafólks alla tíð. Margir hafa hag af að skapa sundrung og leggja sig fram um að brjóta samstöðuna á bak aftur til að draga úr styrk launafólks til að berjast fyrir bættum hag og réttlátu samfélagi. Ráðist er að talsmönnum verkalýðsfélaganna og grafið undan málflutningi þeirra og starfi. Allt eru þetta kunnugleg stef sem verkalýðshreyfingin hefur í gegnum árin og áratugina staðið frammi fyrir og mætt með samstöðuna og þrautseigjuna að vopni.

Að lokum sendi ég öllu launafólki baráttukveðjur í tilefni 1. maí og hvet til þátttöku í baráttufundum stéttarfélaganna um land allt.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ

 

 

 

Vel heppnaður ungliðafundur SGS

Starfsgreinasamband Íslands stóð fyrir velheppnuðum ungliðafundi á Hótel Laugarbakka í Miðfirði dagana 29. og 30. maí. Alls mættu 18 ungliðar á aldrinum 18 til 33 ára.

Dagskráin var fjölbreytt og umræður líflegar. Farið var yfir hvernig starfið í hreyfingunni fer fram, Ásbjörg Kristinsdóttir frá Landsvirkjun ræddi um verkefnastjórnun og mikilvægi þess skipuleggja verkefni sín vel og halda utan um þau á faglegan hátt. Stefán Pálsson fór yfir hvernig best væri á kosið að haga sér á fundum og fá sínu framgengt þar.

Í lokin hittu ungliðarnir formenn aðildarfélaga SGS og ræddu um væntingar sínar og þau mál sem þeim fannst að berjast ætti fyrir. Umræðuefni eins og kjarasamningar unga fólksins og húsnæðismál voru þar efst á baugi.

Þetta var í annað sinn sem SGS stendur fyrir ungliðafundi. Vonandi eiga sem flestir í þessum hópi eftir að láta af sér kveða innan verkalýðshreyfingarinnar í framtíðinni enda ungt fólk á uppleið með góðar hugmyndir.

 

Keðjuábyrgð – mikilvægt skref í rétta átt

Alþýðusamband Íslands hefur á síðustu árum lagt mikla og vaxandi áherslu á að hér á landi verði tekin upp keðjuábyrgð (samábyrgð) á vinnumarkaði. Að mati samtakanna er um mikið hagsmunamál að ræða fyrir launafólk, auk þess sem keðjuábyrgð á að skapa hér á landi heilbrigðari vinnumarkað sem gagnast öllu starfsfólki og heiðarlegum fyrirtækjum.

Í byrjun árs náðu ASÍ og Samtök atvinnulífsins samkomulagi um keðjuábyrgð í byggingariðnaði og mannvirkjagerð sem nú á að leiða í lög. Hér er um mikilvægt skref að ræða en markmið ASÍ er að keðjuábyrgð verði almennt viðurkennd sem hluti af íslenskum vinnumarkaði.

Hvað er keðjuábyrgð?
Við stærri verklegar framkvæmdir er oft um að ræða margar og langar keðjur verktaka, undirverktaka og starfsmannaleiga. Taka má sem dæmi að aðalverktaki ráði einn undirverktaka vegna jarðvinnu og annan til að steypa upp byggingu og sjá um raf- og pípulagnir. Sá undirverktaki ræður síðan undirverktaka til að sjá um rafmagnið og annan vegna pípulagnanna. Sá ræður síðan starfsmenn frá starfsmannaleigu til að aðstoða sig við verkið. Í þessu dæmi er síðan ótalið það sem snýr að loftræstikerfi, múrverki, málningu og frágangi á lóð. Það er með framangreint í huga sem hugtakið keðjuábyrgð er komið, þ.e. að líta má á hvert fyrirtæki sem einn hlekk í keðjunni. Verkkaupi eða aðalverktaki sem semur við undirverktaka og/eða starfsmannaleigu ber ábyrgð á að starfsmenn þessara fyrirtækja fá greidd laun og njóti þeirra starfskjara sem þeim ber. Það þýðir að standi undirverktakinn eða starfsmannaleigan ekki skil á sínu gagnvart starfsmönnunum geta þeir krafist þess að aðalverktakinn eða verkkaupinn greiði launin.

Keðjuábyrgð þekkist víða
Keðjuábyrgð á vinnumarkaði er vel þekkt víða í Evrópu, þótt hún sé útfærð og framkvæmd með nokkuð mismunandi hætti. Alþýðusambandið hefur í sinni vinnu einkum horft til Noregs. Ástæðan er einföld. Þar í landi er komin mikil og góð reynsla af keðjuábyrgðinni, einkum í byggingariðnaði og við mannvirkjagerð. Þar skiptir tvennt mestu máli. Reynsla Norðmanna sýnir að fyrirtæki sem bera slíka ábyrgð vanda sig mun betur en áður þegar kemur að því að semja við undirverktaka og starfsmannaleigur. Þau vita að ef samið er við fyrirtæki sem brjóta á starfsmönnum sínum, greiða ekki laun og önnur starfskjör í samræmi við það sem þeim ber, þá mun kostnaðurinn og allt sem honum fylgir lenda á þeim sjálfum. Og starfsmennirnir fá sitt.

Keðjuábyrgð ekki afgreidd á þingi

Lagafrumvarp lá fyrir á Alþingi en fékk ekki afgreiðslu. Alþýðusambandið mun vinna að því hörðum höndum í haust að koma því að. Samkvæmt því lagafrumvarpi er gert ráð fyrir að keðjuábyrgðin nái til að byrja með til verklegra framkvæmda.

Þeir sem njóta ábyrgðarinnar eru starfsmenn erlendra verktakafyrirtækja og starfsmannaleiga og nær ábyrgðin til launa og annarra starfskjara samkvæmt íslenskum kjarasamningum í starfsgreininni. Verði vanhöld á því að starfsmaður fái greidd rétt laun, þ.m.t. yfirvinna og aðrar álagsgreiðslur og laun í veikindum og slysum, getur hann gert kröfur á aðalverktakann/verkkaupann (ábyrgðarfyrirtækið) að hann greiði honum launin. Skiptir þá engu máli hvar það fyrirtæki sem starfsmaðurinn vinnur hjá er statt í keðjunni.

Ekki staðar numið
Af hálfu Alþýðusambandsins er lögð áhersla á að hér er aðeins um fyrsta skrefið að ræða við að innleiða keðjuábyrgð á íslenskum vinnumarkaði, þótt mikilvægt sé. Hvoru tveggja er að það takmarkast við byggingariðnaðinn og mannvirkjagerðina og við starfsmenn erlendra verktakafyrirtækja og starfsmannaleiga. Um leið er þess vænst að innlend fyrirtæki í þessari atvinnugrein vandi sig betur en áður og semji ekki við önnur fyrirtæki en þau sem treysta má til að virða rétt starfsmanna sinna. Þá er ljóst að miklu skiptir að ábyrgðinni verði fylgt eftir af festu. Þar mun reyna á stéttarfélögin að þau upplýsi það launafólk sem ábyrgðarinnar nýtur um réttindi sín og aðstoði það við að nota hann ef þörf krefur. Lokamarkmiðið er að keðjuábyrgð verði að almennri reglu á íslenskum vinnumarkaði. Þannig að allt launafólk geti notið þeirrar verndar sem í henni felst.

Stöðvum kennitöluflakk

Alþýðusamband Íslands hefur lengi gagnrýnt andvaraleysi og ótrúlegt langlundargeð löggjafans og stjórnvalda gagnvart kennitöluflakki og þeim skaða sem slík starfsemi veldur. 

Í sinni einföldustu mynd má lýsa kennitöluflakki sem skipulagðri aðgerð einstaklinga þar sem verðmæti eru tekin út úr einu félagi (hlutafélagi og einkahlutafélagi) og sett í annað félag en skuldir og aðrar skuldbindingar skildar eftir og félagið síðan sett í þrot. Mörg dæmi eru um keðju slíkra gjörninga vegna sama rekstursins þar sem sömu einstaklingar eru í forsvari. Fullyrða má að þetta athæfi kosti íslenskt samfélag a.m.k. milljarða króna á ári.

Samfélagslegt tjón

Kennitöluflakk og misnotkun á félögum (hf./ehf.) með takmarkaða ábyrgi hefur alvarleg og víðtæk áhrif fyrir samfélagið allt, atvinnulífið og launafólk og veldur þannig miklu samfélagslegu tjóni fyrir:

 • Starfsmenn sem eiga útistandandi launakröfur á hin gjaldþrota félög auk þess að tapa starfi sínu og margvíslegum réttindum.
 • Fyrirtæki í hliðstæðum rekstri sem standa skil á sínu og búa við skekkta samkeppnisstöðu. Starfsmenn þeirra sem vegna skekktrar samkeppnisstöðu verða af kjörum og réttindum með beinum og óbeinum hætti. Birgja sem fá ekki greidda sína vöru og þjónustu og geta jafnvel vegna ruðningsáhrifa slíks tjóns, sjálfir orðið gjaldþrota. Einstaklingar  sem eiga viðskipti við félagið.
 • Sameiginlega sjóðir landsmanna sem verða af tekjum sem skipta a.m.k. milljörðum á hverju ári. Tekjum sem nýta mætti til að bæta þjónustu heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfisins svo dæmi séu tekin.

Alþýðusambandið hefur lengi bent á Ísland er eftirbátur nágrannaþjóðanna þegar kemur að úrræðum til að sporna við kennitöluflakki.

Sameiginlegar tillögur ASÍ og SA

Þann 20. júní sl. kynntu ASÍ og SA umfangsmiklar tillögur um aðgerðir gegn kennitöluflakki í sjö liðum. Þar er kveðið á um að hægt verði að banna þeim sem verða uppvísir að kennitöluflakki að eiga og reka hlutafélög og einkahlutafélög í allt að þrjú ár. Lagt er til að Ríkisskattstjóra verði veitt heimild til að úrskurða kennitöluflakkara í atvinnurekstrarbann að fengnum úrskurði dómstóla. Bannið myndi ekki einungis ná til skráðra stjórnenda heldur einnig til svokallaðra skuggastjórnanda. Skilyrði atvinnurekstrarbanns eru óverjandi viðskiptahættir eða rökstuddur grunur um refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur.

Það er til mikils að vinna en það liggur fyrir að fjárfesting í baráttu gegn kennitöluflakki skilar sér margalt til baka.

Mikilvægt er að gera greinarmun á kennitöluflakki og gjaldþrotum fyrirtækja sem eiga sér eðlilegar skýringar og þar sem vilji er til að standa við lagalegar skuldbindingar eins og hægt er. Kennitöluflakk felur hins vegar í sér glæpsamlega starfsemi þar sem markmiðið er að koma undan fjármunum.

Alþýðusambandið væntir þess að það náist víðtæk pólitísk samstaða um aðgerðir geng kennitöluflakki strax í vetur.

Skattastefna gegn félagslegum stöðugleika

Ný rannsókn hagdeildar ASÍ  sýnir mikla aukningu á þróun skattbyrði launafólks á árunum 1998-2016. Aukningin er meiri eftir því sem tekjurnar eru lægri, meiri hjá einstæðum foreldrum en pörum og meiri hjá barnafólki en barnlausu. Skattbyrði launafólks jókst á fyrri hluta tímabilsins, hún minnkaði verulega í kjölfar hrunsins en á síðustu árum hefur hún aukist hratt.

Að hluta til má rekja aukna skattbyrði til breytinga á tekjuskatti, útsvari og persónuafslætti en stærsta ástæðan er veiking á vaxtabóta- og barnabótakerfinu. Ef litið er t.d. til einstæðra foreldra með tvö börn og 20% eigið fé í húsnæði þá var skattbyrði þeirra neikvæð um 12% árið 1998 en var orðin jákvæð um 16% árið 2016. Aukning var því heil 28 prósentustig og hjá einstæðum foreldrum við miðgildi launa var aukningin 20 prósentustig. Hjá pörum í sömu stöðu með laun við neðri fjórðungsmörk var aukningin 14 prósentustig en 10 prósentustig hjá hjónum með laun við miðgildi.

Dregið úr áhrifum vaxtabóta

Fyrir þessa hópa launafólks hefur dregið verulega úr áhrifum vaxtabóta til lækkunar skattbyrði og hafa eignaskerðingar þar mest áhrif. Þær hafa ekki fylgt hækkun fasteignaverðs sem veldur því að yfirleitt falla vaxtabætur niður fljótlega eftir fjárfestingu í húsnæði, jafnvel þó tekjur standi í stað, því eignaskerðingarmörk vaxtabótakerfisins halda ekki í við hækkun á fasteignaverði.

Skattbyrðisaukning vegna minnkandi vægis barnabóta er mest hjá einstæðum foreldrum en áhrifin eru minni á pör með börn enda er skattbyrði para nánast sú sama hvort sem þau eru með börn á framfæri eður ei. Tvær síðustu ríkisstjórnir undir forystu Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa stefnt að því að draga úr umfangi barnabótakerfisins til samræmis við tillögur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þær gera ráð fyrir að barnabætur greiðist einungis til allra tekjulægstu foreldranna. Þar með væri horfið algerlega frá norrænu hugmyndinni um barnabætur sem er annars vegar stuðningur við foreldra vegna framfærslu barna og hins vega jöfnun á framfærslubyrði foreldra og barnlausra á sama tekjubili.

Í mótsögn við stefnu ASÍ

Þróunin á bæði vaxtabóta- og barnabótakerfinu vinnur gegn félagslegum stöðugleika og er í algjörri mótsögn við stefnu ASÍ. Við höfum lagt áherslu á styrkingu þessara mikilvægu tekjutilfærslukerfa við gerð kjarasamninga og ítrekað mótmælt aðgerðarleysi og stefnu stjórnvalda í umsögnum og yfirlýsingum.

Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2018 gefur engin fyrirheit um breytingar á þessari stefnu. Þar er gert ráð fyrir að útgjöld til bæði barnabóta og vaxtabóta dragist saman á milli ára, barnabætur um 2% og vaxtabætur um heil 35%.

Þegar litið er til húsnæðisbóta, nýja húsaleigubótakerfisins má greina samdrátt í útgjöldum þar líka eða um 2% á milli áranna 2017 og 2018.

Í raun má segja að tekin hafi verið pólitísk ákvörðun um að auka skattbyrði launafólks með því að draga úr tekjufærslum vegna barna og húsnæðis. Með því að hækka ekki fjárhæðir bóta, tekjuviðmið og eignaviðmið eykst skattbyrði launafólks með hverju árinu sem líður, þeim mun meira sem tekjurnar eru lægri.

 

Í sömu sporum ári síðar

Í aðdraganda síðustu kosninga sendi Alþýðusambandið frá sér áskorun til stjórnmálaflokkanna um áherslur í velferðarmálum til að treysta hinn félagslega stöðugleika. Skemmst er frá því að segja að nú ári síðar stöndum við í sömu sporum. Þegar við göngum að kjörborðinu að nýju verðum við að horfast í augu við að lítið hefur gerst sem gefur okkur ástæðu til að skipta um skoðun.

Stjórnmálamönnum hefur undanfarin misseri verð tíðrætt um mikilvægi þess að endurskoða íslenska vinnumarkaðslíkanið og breyta vinnubrögðum við gerð kjarasamninga. Þetta sé grundvallar atriði til að tryggja hér efnahagslegan stöðugleika. Verkalýðshreyfingin hefur margsinnis lýst yfir samstarfsvilja við þetta verkefni en staðfastlega bent á að þær verði ekki gerðar í tómarúmi. Launafólk verður að geta treyst því að stjórnvöld axli sinn hluta ábyrgðarinnar á efnahagslega stöðugleikanum og að honum fylgi jafnvíg áhersla á félagslegan stöðugleika og velferð. Skilaboð okkar hafa verið einkar skýr, annað verður ekki án hins. Þessu hafa stjórnvöld því miður valið að líta alfarið framhjá. Þess í stað lýsti fráfarandi forsætisráðherra vinnumarkaðslíkanið ónýtt og taldi það helsta efnahagsvandamál þjóðarinnar. Þetta er afar furðuleg nálgun í ljósi þess að engin tilraun hefur verið gerð til þess að taka mið af áherslum samtaka launafólks og skapa grundvöll að breytingum með því að undirbyggja hinn félagslega stöðugleika. Þvert á móti er stefnan að vanfjármagna áfram brýn velferðarverkefni og draga úr útgjöldum til barna- og vaxtabóta og veikja þar með enn hina félagslegu velferð. Afleiðing þessa er stöðugt vaxandi ólga og pólitískur órói sem er af þeirri stærðargráðu að fullyrða má að í landinu geisi pólitísk kreppa.

Alþýðusambandið er enn sömu skoðunar og það var fyrir ári síðan og ítrekar áskorun sína til þeirra stjórnmálaflokka sem bjóða fram til Alþingis um að setja hinn félagslega stöðugleika á oddinn í komandi kosningum. Við teljum það einu færu leiðina til þess að leggja grunn að meiri sátt í landinu.

Til þess þarf:

 • Öflugt heilbrigðiskerfi fyrir alla:

Nægilegt fjármagn þarf til reksturs grunnstoða opinbera heilbrigðiskerfisins. Sjúklingar greiða allt of mikið fyrir heilbrigðisþjónustu, of margir þurfa að neita sér um heilbrigðisþjónustu og lyf og fólk býður of lengi. Öldruðum fjölgar hratt en öldrunarþjónustan situr eftir.

 • Öruggt húsnæði á viðráðanlegum kjörum:

Ungt fólk kemst ekki að heiman, tekjulág heimili hafa ekki húsnæðisöryggi og greiða allt of hátt hlutfall tekna sinna í húsnæði.

 • Ábyrgan vinnumarkað:

Undirboð á vinnumarkaði, svört atvinnustarfsemi og margvísleg önnur brotastarfsemi er alvarlegur blettur á íslenskum vinnumarkaði. Þessi brotastarfsemi beinist einkum gegn útlendingum og ungu fólki sem starfa við mannvirkjagerð og í ferðaþjónustunni.  Þá veldur kennitöluflakk miklu samfélagslegu tjóni.

 • Velferð á vinnumarkaði:

Á síðustu árum hafa stjórnvöld grafið undan velferð á vinnumarkaði.  Sífellt fleiri feður taka ekki fæðingarorlof og fæðingartíðni hefur aldrei verið lægri. Atvinnuleysisbætur hafa dregist verulega aftur úr launaþróun og hafa aldrei verið eins lágar og fólki sem veikist og slasast er beint í fátækragildru ef það endurhæfist.

 • Tekjuöflun með réttlátu skattkerfi

Til að treysta efnahagslegan stöðugleika og fjármagna félagslega velferð þarf réttlátt skattkerfi sem dreifir byrðunum og með sanngjörnum hætti og tryggir öllum hlutdeild  í velsældinni og styður betur við barnafólk.

 

 

 

Hugleiðingar um hag heimila og jöfnuð

Í nýrri hagspá ASÍ kemur fram að hagur heimilanna hefur almennt farið batnandi á undanförnum árum. Aukin neysla heimilanna, aukinn sparnaður og niðurgreiðsla skulda eru til vitnis um það. Þetta eru jákvæð tíðindi en þó er varhugavert að draga of miklar ályktanir um hag heimilanna út frá stöðunni á toppi hagsveiflunnar.

Ójöfnuður hefur farið vaxandi í heiminum og víða hefur launafólk ekki notið hlutdeildar í vaxandi verðmætasköpun þar sem raunlaun þróast ekki í takt við aukna framleiðni. Ísland telst til undantekninga frá þessari þróun. Hér er stéttarfélagsþátttaka mikil og öflug stéttarfélög hafa með kjarabaráttu undanfarinna ára aukið hlutdeild launa í verðmætasköpun hér á landi. Það ætti því ekki að koma á óvart að víða hefur verið bent á sterkt samband stéttarfélagsþátttöku og mikils jöfnuðar.

Niðurstöður nýlegrar rannsóknar hagdeildar sýna að skattbyrði launafólks hefur farið vaxandi frá árinu 1998. Það sem vekur sérstaka athygli er hversu mikið tilfærslukerfin hafa verið veikt yfir tímabilið og hversu fækkar í hópi þeirra sem njóta vaxta- og barnabóta. Miðað við yfirlýsta stefnu stjórnvalda í fjármálaáætlun 2018–2022 stendur til að þrengja þann hóp enn frekar og auka þar með enn á skattbyrðina.

Áherslur verkalýðshreyfingarinnar í kjarabaráttu síðustu ára hafa verið á hækkun lægstu launa sem hefur skilað sér í auknum kaupmætti launa þeirra tekjulægri. Á sama tíma hefur ríkisvaldið dregið úr tekjutilfærslum og þar með unnið gegn kaupmáttaraukningu ráðstöfunartekna launa, sérstaklega hjá láglaunafólki. Myndirnar sýna þróun kaupmáttar launa og ráðstöfunartekna hjá fólki með  lágmarkslaun annars vegar og með laun við efri fjórðungsmörk hins vegar. Miðað er við pör með tvö börn, annað yngra en 7 ára, og 20% eigið fé í 100 m2 íbúð. 

Þegar þróunin hjá þessum tveimur hópum er borin saman sést glögglega að kaupmáttur lágmarkslauna hefur vaxið meira en kaupmáttur hærri launa síðustu ár. Þróunin snýst hins vegar við þegar tekið er tillit til skatta og tilfærslna. Kaupmáttur ráðstöfunartekna parsins með laun við efri fjórðungsmörk vex meira en kaupmáttur ráðstöfunartekna parsins með lágmarkslaun. Veiking tilfærslukerfanna hefur valdið því að lágtekjuhóparnir hafa ekki notið efnahagsuppsveiflu síðustu ára í sama mæli og aðrir.

  

Heimild: RSK, Hagstofa Íslands, Þjóðskrá og útreikningar ASÍ

Hlutfall tekjulágra heimila á leigumarkaði er hærra en annarra tekjuhópa og margir í lágtekjuhópi eru með íþyngjandi húsnæðiskostnað. Láglaunafólk hefur því síður átt möguleika á að bæta hag sinn með endurfjármögnun og var ekki meðal þeirra sem fengu leiðréttingu húsnæðislána. Þegar hægir á efnahagsumsvifum í hagkerfinu gæti þessi hópur lent í erfiðustu stöðunni og þá munu bíða hans veikari stuðningskerfi en í síðustu niðursveiflu.

 

 

Stöðva verður brotastarfsemi á vinnumarkaði

Mikill gangur hefur verið í íslensku atvinnulífi síðustu misseri. Umsvifin í byggingastarfsemi eru fordæmalaus og ferðaþjónustan margfaldast að umfangi. Til að sinna verkefnum á ört stækkandi vinnumarkaði hefur erlent launafólk komið hingað til lands svo þúsundum skiptir og lagt mikið til samfélagsins. Nýjustu tölur benda til að hér á landi séu a.m.k. 24.000 útlendingar að störfum og að þeim eigi enn eftir að fjölga.

Þessi fjölgun erlendra starfsmanna á sér dökkar hliðar. Verkalýðshreyfingin hefur á undanförnum mánuðum og misserum orðið áskynja um vaxandi brotastarfsemi sem beinist gegn erlendu launafólki. Birtingarmyndirnar eru margar og í verstu tilfellum verður ekki annað séð en að um skipulagða glæpastarfsemi sé að ræða eins og bent er á í nýrri skýrslu greiningardeildar Ríkislögreglustjóra. Þar eru tekin dæmi um eðli þessarar starfsemi og bent á að hér er oft um alþjóðlega brotastarfsemi að ræða.

Sækja starfsmennina til fátækustu ríkja í Austur Evrópu og Asíu

Hér á landi eru birtingarmyndirnar vel þekktar. Kjarasamningar eru ekki virtir hvað þá að greiddar séu álögur á laun eins og víða þekkist. Fagmenn eru launaðir eins og um nýliða sé að ræða, laun í veikinda- og slysatilfellum ekki greidd, orlofsréttur ekki virtur og þannig má áfram telja. Þá færist í vöxt að fyrirtæki okri gegndarlaust á húsnæði sem þessum starfsmönnum er útvegað, oft í mjög lélegu ástandi, og þeir látnir borga ýmsa kostnaðarliði sem eiga að vera þeim að kostnaðarlausu. Ofan á þetta bætist síðan að í sumum tilfellum eru einstaklingarnir rukkaðir fyrir að fá að vinna hér á landi.

Þessi ógeðfelda brotastarfsemi er stunduð í skjóli þess að erlenda starfsfólkið þekkir ekki rétt sinn. Jafnvel þótt það viti að verið er að brjóta á því þá þorir það ekki að sækja rétt sinn af ótta við að missa vinnuna eða vera sent úr landi í atvinnuleysi og örbirgð heima fyrir ef ekki annað ennþá verra. Hér er mikilvægt að hafa í huga að fyrirtækin sem stunda þessa brotastarfsemi sækja starfsmennina til fátækustu ríkja í Austur Evrópu og Asíu og reyna að flytja þau löku kjör sem gilda í heimalöndum þessa fólks hingað. Þegar hingað er komið er síðan allt gert til að halda erlenda launafólkinu í einangrun, háðu sínum atvinnurekanda um alla hluti og óupplýstu um íslenskt samfélag og þau réttindi sem þau eiga að njóta eins og aðrir sem hér starfa. Við slíkar aðstæður er stutt í hreint vinnumansal.

Grefur undan kjörum og réttindum á íslenskum vinnumarkaði

Við það ástand sem hér hefur verið lýst verður ekki og má ekki una. Það eru hagsmunir allra nema brotafyrirtækjanna að uppræta þessa brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði. Það eru hagsmunir þeirra sem brotið er á. Það eru hagsmunir alls launafólks í landinu vegna þess að brotastarfsemin grefur undan þeim kjörum og réttindum sem áunnist hafa með mikilli baráttu. Það varðar heiðarleg fyrirtæki vegna þess að þeim eru sköpuð óásættanleg samkeppnisskilyrði. Það varðar samfélagið allt vegna þess að brotastarfsemin grefur undan heilbrigðum vinnumarkaði og grunnstoðum samfélagsins.

Verkalýðshreyfingin hefur lagt áherslu á mikilvægi þess að taka upp og skerpa á ýmsum reglum sem er ætlað að verja hér heilbrigðan vinnumarkað. Keðjuábyrgð er öflugt tækið í þessa veru eins og  reynsla nágrannalandanna sem sett hafa slíka ábyrgð í lög hefur sýnt. Notendafyrirtæki vanda sig mun betur þegar kemur að því að ráða erlenda undirverktaka eða starfsmenn starfsmannaleiga enda mega þau eiga von á því að þurfa að standa skil á greiðslum til starfsmannanna ef á þeim er brotið. Annað vopn í baráttunni er að uppræta kennitöluflakk úr íslensku atvinnulífi, enda er það oft hin hliðin á svartri atvinnustarfsemi og annarri brotastarfsemi á vinnumarkaði.

Alþýðusambandið hefur einnig lagt áherslu á að auka heimildir og efla samstarf verkalýðshreyfingarinnar, samtaka atvinnurekenda  og þeirra opinberu stofnana sem ásamt henni bera ábyrgð á að hér á landi sé heilbrigður vinnumarkaður þar sem allir njóta þeirra kjara og réttinda sem þeim ber.

Þegar liggja fyrir útfærðar tillögur um þær aðgerðir sem að framan greinir sem gagnast í baráttunni við brotastarfsemi á vinnumarkaði. Það er eðlileg krafa verkalýðshreyfingarinnar að nýkjörið Alþingi og sú ríkisstjórn sem mynduð verður leggist á eitt með verkalýðshreyfingunni í baráttunni gegn brotastarfseminni og fyrir heilbrigðum vinnumarkaði.

Nýkjörins þings bíða brýn verkefni

Þjóðin hefur nú gengið að kjörborðinu og bíður þess að ný ríkisstjórn líti dagsins ljós. Nýkjörnum alþingismönnum færi ég árnaðaróskir með kjörið og óska þeim velfarnaðar í starfi. Jafnframt lýsi ég okkur reiðubúin til samtals um þær áskoranir sem launafólk og samfélagið allt stendur frammi fyrir.

Á formannafundi ASÍ í síðustu viku gerði ég meðal annars að umtalsefni þau neikvæðu áhrif sem óstöðugleiki á vettvangi stjórnmálanna hefur haft á vinnumarkaðinn. Óstöðugleiki sem leitt hefur til meiri átaka en við höfum séð undanfarna áratugi og hamlað því að við getum þróað vinnumarkaðinn í takt við nýja tíma og nýjar áskoranir.

Nú þegar stjórnarmyndunarviðræður eru að hefjast er rétt að árétta að verkalýðshreyfingin hefur deilt við fráfarandi stjórnvöld um raunverulegt inntak hugtaksins ,,stöðugleiki‘‘. Alþýðusambandið hefur gert kröfu um að jafnvægi verði á milli efnahagslegs og félagslegs stöðugleika. Við höfum lagt áherslu á að þetta séu tvær hliðar á sama peningi sem hlúa verður jafnt að. Verkalýðshreyfingin hefur gengið svo langt að setja það sem forsendu fyrir frekari umræðu og þróun á nýju samningamódeli á vinnumarkaði.

Stjórnmálamenn verða að gera sér grein fyrir þeirri miklu alvöru sem að baki þessari kröfu okkar liggur. Þeir verða að koma velferðarmálunum í þann farveg að launafólk geti treyst á grunnstoðir velferðarkerfisins á öllum tímum. Í aðdraganda kosninga setti ASÍ enn á ný fram kröfu sína um samfélagssáttmála um félagslegan stöðugleika. Slíkur sáttmáli byggir á öflugu heilbrigðiskerfi, öruggu húsnæði á viðráðanlegum kjörum, að allir búi við örugga afkomu og aðstæður,  öflugum og heilbrigðum vinnumarkaði og allt sé þetta fjármagnað með réttlátu skattkerfi.

Í nýlegri skýrslu hagdeildar ASÍ um þróun skatta og fjölskyldubóta kom fram, að þrátt fyrir að verkalýðshreyfingunni hafi tekist að lyfta grettistaki í hækkun lægstu launa – reyndar svo að hlutfall lægstu launa af meðallaunum er hvergi hærra meðal OECD-ríkjanna, hefur það ekki leitt til bættra lífskjara. Ástæðan er að á sama tíma hafa stjórnvöld rýrt verðgildi bæði skattleysismarka og barna- og  húsnæðisbóta. Afleiðingin er sú að sókn til betri lífskjara fyrir þá tekjulægri hefur verið núlluð út með hærri skattbyrði og minni stuðningi í gegnum barna- og vaxtabætur. Það gefur augaleið að við þetta getum við ekki sætt okkur og því þurfum við réttlátara skattkerfi og endurreisn barna- og vaxtabótakerfanna.

Ágætlega hefur tekist að skapa umræðu um áhersluatriði okkar í velferðarmálum, þó enn sé óljóst með efndir, en það sama verður ekki sagt um málefni vinnumarkaðarins. Engin umræða var í aðdraganda kosninga um þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir á vinnumarkaði og þær nauðsynlegu aðgerðir sem ráðast þarf í til að sporna gegn brotastarfsemi sem þar viðgengst gagnvart launafólki, heiðarlegum fyrirtækjum og samfélaginu öllu. Innleiðing keðjuábyrgðar aðalverktaka og aðgerðir til að sporna gegn félagslegum undirboðum og kennitöluflakki leika hér lykilhlutverk og brýnt að ný stjórnvöld taki undir með verkalýðshreyfingunni og sendi skýr skilaboð um að brotastarfsemi á vinnumarkaði verði ekki liðin. Talsvert fór fyrir loforðum um lækkun tryggingagjaldsins í kosningabaráttunni en lítið fór fyrir loforðum um að verja réttindi launafólks. Ég vil minna á að atvinnuleysisbætur eru nú í sögulegu lágmarki í hlutfalli við lágmarkslaun og hámarksgreiðslur úr fæðingarorlofssjóði eru enn langt undir meðaltekjum. Þetta áhugaleysi stjórnmálanna á að standa vörð um grundvallarreglur á vinnumarkaði og réttindi launafólks er okkur mikið áhyggjuefni og kallar á meiri upplýsingar og samtal um markmið og leiðir.

Okkar bíður nú að eiga samtal við nýja ríkisstjórn um öll þau mál sem hér hafa verið nefnd. Eins og áður göngum við vongóð til þeirra viðræðna. Allar ríkisstjórnir verðskulda að lagt sé af stað með samstarf í huga og Alþýðusambandið lítur á það sem skyldu sína fyrir hönd þeirra 125 þúsund félagsmanna aðildarfélaga þess að setjast að slíku samtali. Mikið er í húfi að vel takist til. Í ávarpi mínu á formannafundi ASÍ í síðustu viku lýsti ég þeirri skoðun minni að farsælasta leiðin til þess að koma á meiri festu og trúverðugleika á hinum pólitíska vettvangi og á vinnumarkaðinum er víðtækt samkomulag um samfélagslegan sáttmála um félagslegan og efnahagslegan stöðugleika. Það er alveg ljóst að kröfur um umbætur í velferðarmálum og réttindum á vinnumarkaði, ásamt hækkun skattleysismarka, barna- og húsnæðisbóta, munu speglast í beinni kröfugerð aðildarsamtaka ASÍ við gerð næstu kjarasamninga.

Gylfi Arnbjörnsson,

forseti ASÍ

 

Stéttabarátta á tækniöld

Ráðstefnan Framtíð vinnunnar var haldin í Stokkhólmi 14. nóvember síðastliðinn af Sambandi verkalýðshreyfinga á Norðurlöndum (NFS) og Friedrich Ebert Stiftung stofnuninni.

Ráðstefnunni var ætlað að varpa sérstöku ljósi á þær áskoranir sem verkalýðsfélög standa frammi fyrir hvað kjarnaverkefni varðar, eins og gerð kjarasamninga og skipulag, en ekki síður hvernig horft er á hugtakið vinna og hvernig tryggja á hæfni sem þörf er fyrir á vinnumarkaði framtíðarinnar. Skoða verður með opnum huga hvaða áhrif tæknivæðing framtíðarinnar mun hafa á gerð kjarasamninga og skipulag verkalýðshreyfingarinnar.

Í stuttu máli, hvernig getum við tryggt góð störf, öryggi og réttindi starfsfólks í starfrænni framtíð?

Karl-Petter Thorwaldsson, frá LO í Svíþjóð og varaformaður NFS, benti á að sífellt fleiri alþjóðlegar stofnanir horfa til Norrænu samningamódelanna sem mikilvægs verkfæris til að tryggja jöfnuð og auka hagvöxt.

Fólk þarf rödd

Deborah Greenfield, frá Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO), sagði í sínum fyrirlestri að mæta þurfi framtíðinni á vinnumarkaði með sterkri stefnumótun. Þróun vinnumarkaðarins er ekki aðeins tæknileg, hún er líka pólitísk og samfélagsleg. Sumir framtíðarfræðingar halda því fram að allt að helmingur núverandi starfa hverfi eða breytist til muna. Hann benti á að þörf sé m.a. á að hætta að horfa á skilgreiningu starfa og horfa frekar til skilgreininga verkefna. Tæknin leysir ekki alla hluti starfa – en gæti þó leyst hluta þeirra.

Deborah velti þeirri spurningu upp hvort að velferðakerfi Norrænu módelanna muni lifa af þær breytingar sem eiga eftir að verða á vinnumarkaði? Hvernig passa t.d. hugmyndir um „borgaralaun“ við Norrænt velferðarsamfélag og Norræna samningamódelið og hvaða merkingu hefur símenntun á breyttum vinnumarkaði?

Eitt af því sem Deborah vakti sérstaka athygli á er sá mikli mismunur á aðgengi að tækni. Fimmtíu prósent af vinnumarkaði heimsins er ekki „tengdur“ og því ekki tengdur nýrri tækni. Skoða verður sérstaklega þennan mun á tækniaðgengi á milli landa, ekki aðeins innan landa. 

Verkefni Norrænu verkalýðshreyfingarinnar er ekki síst að skoða hvernig hún skipuleggur sig í breyttu umhverfi þar sem landamæri og atvinnurekandi eru jafnvel ekki sýnileg? Deborah endaði á að leggja áherslu á mikilvægi þess að við gerum ekki ráð fyrir því að fólk hafi atvinnurekanda. Og jafnvel þó svo að atvinnurekandi sé ekki til staðar þá þarf það fólk líka rödd!

Fjórða iðnbyltingin

Thiébaut Weber, frá Evrópusambandi verkalýðsfélaga (ETUC), vill að lögð sé áhersla á að nálgast framtíðina með manninn í forgrunni. Með áherslu á félagslegt réttlæti og nauðsyn þess að Evrópa móti og hafi áhrif á fjórðu iðnbyltinguna. Hann benti á að tæknin er ekki tilbúin til að leysa manninn af hólmi og tók dæmi um það hvernig gervigreind getur ekki lesið í flókna ljósmynd, hana vanti bæði húmor og innsæi til þess, ennþá. Verkalýðsfélög og aðilar vinnumarkaðarins bera mikla ábyrgð. Í fyrsta lagi er mikilvægt að skoða hvernig hægt er að auka virkni og þátttöku fólks í stéttarfélögum. Lykillinn að því að móta rafræna þróun eru virk samskipti á vinnumarkaði og sterkt samningamódel. 

Viðfangsefnið verkalýðshreyfingarinnar er því að endurmeta og endurskoða regluverkið svo að það skapi öryggi fyrir þá sem vinna innan ólíkra vinnuforma.

Dagfinn Höybråten,  frá Norrænu ráðherraráðinu, kynnti stóra rannsókn sem FaFo mun halda utan um. Megin viðfangsefni rannsóknarinnar er að skoða vinnulöggjöfina á Norðurlöndunum. Dagfinn, eins og allir aðrir sem tóku til máls á ráðstefnuninni, lagði áherslu á að fjórða iðnbyltingin væri ekki náttúrufyrirbrigði sem við höfum enga stjórn á!

Hægt er að fara inn á heimasíðu NFS og finna þar dagskrá ráðstefnunnar og myndir. Einnig er hægt að fara inn á YouTube rás þeirra og hlusta á málstofurnar.

 

 

 

 

 

 

Ráðstefna um menntun og færni á vinnumarkaði

Alþýðusambandið ásamt Vinnumálastofnun, Samtökum Atvinnulífsins og Hagstofunni stóðu fyrir ráðstefnu um menntun og færni á vinnumarkaði þann 9. Nóvember síðastliðinn. Fjölmennt var á ráðstefnunni eða hátt í tvö hundruð gestir ásamt því að streymt var á vef Vinnumálastofnunar. Ráðstefnan er hluti af vinnu sérfræðingahóps um færnispár á vinnumarkaði og var markmiðið að gefa hagsmunaaðilum innsýn inn í það hvernig ferlið er framkvæmt í nágrannalöndunum. Ísland er eitt af fáum ríkjum í Evrópu sem ekki spá fyrir um færniþörf á vinnumarkaði með kerfisbundnum hætti. Sérfræðingahópurinn stefnir í kjölfarið á að skila tillögum um hvernig taka megi upp sambærilegt spáferli hér á landi fyrir árslok.  

Þrír erlendir sérfræðingar héldu erindi á ráðstefnunni en Rob Wilson prófessor við Warwick Háskóla er meðal helstu sérfræðinga heims um færnispár en í erindi sínu fór hann almennt yfir færnispár, ólíkar aðferðir og helstu takmarkanir. Karin Grunewald starfar hjá Hagstofu Svíþjóðar en í Svíþjóð hafa færnispár verið framkvæmdar frá árinu 1972. Hagstofa Svíþjóðar gefur út langtímaspá um færniþörf á vinnumarkaði á þriggja ára fresti.  Langtímaspáin spáir fyrir um þróun 100 ólíkra menntahópa, 76 á háskólastigi og 23 á framhaldsskólastigi til ársins 2035. Í erindi sínu um færnispár á Írlandi lagði John McGrath mikla áherslu á samráð ólíkra hagsmunaaðila þ.e. menntastofnana, stjórnvalda, verkalýðshreyfingar og atvinnulífs. Samráðið væri nauðsynlegt til að brugðist yrði við vísbendingum og rannsóknum um þróun vinnumarkaðar. Á Írlandi hafa niðurstöður verið mikið notaðar við stefnumótun í menntakerfinu, á vinnumarkaði og á öðrum sviðum. Tók hann þar dæmi um aðgerðir sem hvöttu nemendur til að taka fleiri stærðfræðiáfanga til að eiga meiri möguleika á að komast í háskólann sem valinn var fyrstur. Allir gestir ráðstefnunnar lögðu mikla áherslu á miðlun rannsókna og upplýsinga og þá sérstaklega til almennings og ungs fólks í námsleit.

Pallborðsumræðum var stýrt af Katrínu Ólafsdóttur hagfræðingi en þar tóku þátt Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ, Þorsteinn Víglundsson félags og jafnréttisráðherra, Ari Kristinn Jónsson rektor HR, Ásta Fjeldsted framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs og Rob Wilson prófessor. Þátttakendur í pallborði voru sammála um mikilvægi þess að spáð væri fyrir um lengri tíma þróun á vinnumarkaði.

Bæði upptöku af fundinum og glærur má nálgast hér

 

 

 

 

Aukin áhersla á skammtímaráðningar

Mikil umræða er um þessar mundir um áhrif tæknibreytinga og alþjóðavæðingar á stöðu launafólks á vinnumarkaði. Þetta á við um áhrif nýrrar tækni á innihald starfa, þar sem gervigreind og sjálfvirknivæðing  mun ná nýjum hæðum. Þetta á ekki síður við um samband einstakra launamanna við fyrirtækin þar sem aukin áhersla er á skammtímaráðningar í formi lausamennsku eða ýmis form verktakaráðninga.

Afar mikilvægt er að verkalýðshreyfingin taki virkan þátt í umræðunni, leggi mat á þróunina og hafi áhrif á hana um leið.

Til að byrja með er mikilvægt að verkalýðshreyfingin og stjórnvöld geri sér grein fyrir þeim undirliggjandi kröftum sem standa að baki þessari þróun þegar hugað er að viðbrögðum. Innleiðing nýrrar tækni í framleiðslu eða þjónustu er ekkert ný af nálinni. Allar götur frá fyrstu iðnbyltingu hefur tækninni fleygt fram með sífellt meiri hraða. Iðulega hefur þetta skilað sér í meiri framleiðni og betri vinnuaðstöðu okkar félagsmanna og lagt grunn að bættum lífskjörum. Það sem skiptir máli að muna, er að drifkraftur þessarar þróunar er endalaus viðleitni fyrirtækja til þess að lækka kostnað og auka hagnað sinn og arðsemi eigenda. Þetta birtist í nýrri tækni, sem vissulega getur leitt til breytinga á innihaldi starfanna eða í breytingum á tengslum launafólks við fyrirtækin með annars konar og lausara ráðningasambandi en það sem við höfum þekkt hingað til. Staðreyndin er hins vegar sú að hvernig svo sem þessu er háttað er þetta hluti af undirliggjandi baráttu um skiptingu þeirra verðmæta sem vinnan skapar. Sú barátta er ekki ný af nálinni og líkt og áður er það hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að tryggja réttláta skiptingu þessara verðmæta og missa ekki sjónar af markmiðinu.

Í Bandaríkjunum hefur staða verkalýðshreyfingarinnar veikst til muna og í dag er hún ekki svipur hjá sjón, þar sem stéttarfélagsaðild á almennum vinnumarkaði er komin langt niður fyrir 10%. Afleiðing þessa er að frá árinu 1975 hafa laun ekki þróast í neinu samhengi við aukna framleiðni og verðmætasköpun. Afrakstur vinnunnar skilar sér fyrst og fremst til eigenda og æðstu stjórnenda með vaxandi tekjumun og misskiptingu þannig að heil kynslóð á vinnumarkaði hefur ekki notið neinnar kaupmáttaraukningar. Áhrif þessarar þróunar á kaupgetu þorra Bandaríkjamanna er að lítil og meðalstór fyrirtæki hafa setið eftir á meðan stórfyrirtækin þrýsta á um aukin aðgang að erlendum mörkuðum fyrir sínar vörur.  Samhengi alþjóðavæðingar og þróunar starfa er því með talsvert ólíkum hætti í Bandaríkjunum en við þekkjum, þar sem þeim hafa fylgt lakari lífskjör og fækkun starfa.  

Hér á landi og á Norðurlöndunum hefur þessi þróun verið með talsvert öðrum hætti. Í þessum löndum er þátttaka í verkalýðsfélögum mikil og verkalýðshreyfingin því í allt annarri og betri stöðu til að tryggja launafólki réttmætan hlut í aukinni verðmætasköpun. Ef horft er til þróunar launa og framleiðni hér á landi yfir langt tímabil er miklu betra og jákvæðara samhengi milli þessara grunnþátt en í Bandaríkjunum, þó vissulega megi finna tímabil þar sem sambandið rofnar vegna annarra aðstæðna eins og gerðist milli 2008 og 2009. Síðan hefur tekist að lyfta hlut launa aftur og endurreisa það samhengi bæði m.t.t. framleiðniþróunar og hlutdeildar launa af landsframleiðslu.

Flóknari staða en áður

Sú áskorun sem felst í 4. iðnbyltingunni, gervigreindinni og sjálfvirknivæðingunni, einkum þær breytingar sem eru að verða á eðli ráðningasambands einstakra launamanna og fyrirtækjanna er hins vegar ný af nálinni og að sumu leyti flóknari en við höfum staðið frammi fyrir áður. Samband verkalýðshreyfingarinnar við sína félagsmenn í norrænni verkalýðsbaráttu hvílir að mjög stórum hluta á stöðu og hlutverki trúnaðarmannanna. Í raun má segja að fyrirtækin – vinnustaðurinn – sé grunneiningin. Sú breyting sem er að verða á ráðningasambandinu – þar sem einstaka launamenn hafa ekki skýra félagslega stöðu innan einstakra fyrirtækja – leiðir því óhjákvæmilega til breytinga á þessu sambandi. Að sama skapi getur þessi þróun haft mikil áhrif á réttindi sem launafólk nýtur því margt af þeim hvíla á hefðbundnu ráðningasambandi við fyrirtækin. Reyndar er þetta stærra mál hjá félögum okkar á hinum Norðurlöndunum því vegna smæðar íslenskra fyrirtækja hefur tíðkast að byggja slík réttindi á tilvist ,,sjóða‘‘ óháð einstökum fyrirtækjum. Má þar nefna sjúkrasjóði, fræðslusjóði, lífeyrissjóði og starfsendurhæfingarsjóði ásamt atvinnuleysistryggingasjóði, fæðingarorlofssjóði og ábyrgðarsjóði launa. Skyldur atvinnurekenda gagnvart réttindum starfsmanna á mörgum sviðum lýkur við greiðslu iðgjalds mánaðarlega – og það iðgjald getur verið breytilegt eftir aðstæðum á vinnumarkaði - þar sem réttindi launafólks eru gagnvart viðkomandi sjóði. Eðlilegt er fyrir verkalýðshreyfinguna að skoða í alvöru að auka vægi slíkra lausna sem andsvar við auknu rótleysi í ráðningaforminu til þess að tryggja a.m.k. þennan mikilvæga hluta réttindanna.

Áhrif 4. iðnbyltingarinnar á innihald starfanna er einnig mikil áskorun fyrir okkar félagsmenn, einkum í því ljósi að óvíða erlendis er jafn hátt hlutfall launafólks með jafn litla grunnmenntun, en um fjórðungur vinnandi fólks hér á landi hefur ekki lokið neinu námi á framhaldsskólastigi. Það er því augljóst að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld standa frammi fyrir stóru menntunar- og símenntunarverkefni til þess að undirbúa bæði launafólk og atvinnulífið fyrir þessar breytingar.

Gylfi Arnbjörnsson,
forseti ASÍ

Samskipti stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, hefur frá því að hún tók við embætti staðið fyrir samtali við fulltrúa launafólks, atvinnurekenda og sveitarfélaga og freistað þess að auka traust í samskiptum þessara aðila. Ljóst er að bæði vegna vanefnda stjórnvalda á ýmsum þeim fyrirheitum sem gefin hafa verið við gerð kjarasamninga og vegna ákvarðana kjararáðs og viljaleysis undangenginna ríkisstjórna til  að bregðast við þeim,  hafa samskiptin undanfarin misseri einkennst fyrst og fremst af togstreitu og vantrausti. Brýnt er að finna á þessu viðunandi lausn ef forða á stórslysi.  Ég hef bæði í ræðu og riti sagt að til að svo megi verða þurfi allir sem að þessu borði koma að axla ábyrgð.  Forsætisráðherra hefur nú í janúar skipulagt vikulega fundi og fór að ráði fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar um að byrja samtalið á deilunni um kjararáð og áherslunni um félagslegan stöðugleika áður en fjallað yrði um stöðu efnahagsmála og verkefni Þjóðhagsráðs.

Það er mikilvægt að  halda því til haga, að af hálfu bæði miðstjórnar ASÍ og samninganefndar hefur verið lögð áhersla á nokkur veigamikil atriði er varðar stöðu og réttindi okkar félagsmanna. Þar ber fyrst að nefna kröfu okkar um að ráðherrar, þingmenn og æðstu stjórnendur hins opinbera fylgi sömu launastefnu og ríki og sveitarfélög ásamt atvinnurekendum mótuðu í samningum við ASÍ og BSRB haustið 2015 í svokölluðu rammasamkomulagi. Það á bæði við um þær ákvarðanir sem þegar hafa verið teknar sem og framtíðarskipan þessara mála. Þessa kröfu hafa undangengnar ríkisstjórnir ítrekað neitað að fallast á en eftir ýtarlega yfirferð með forystumönnum ríkisstjórnarinnar og atvinnurekenda var það niðurstaða forsætisráðherra að skipa sérstakan starfshóp sem falið var það verkefni að skoða bæði framtíðarskipan þessara mála sem og úrskurði ráðsins undanfarin ár í samhengi við þá launastefnu sem í gildi er á vinnumarkaði.   Á starfshópurinn að skila niðurstöðu fyrir 10. febrúar n.k.

Í öðru lagi hefur ASÍ í samstarfi við BSRB gert kröfu til þess að félagslegur stöðugleiki verði metinn til jafns við  hinn efnahagslega í umræðum um ríkisfjármál og hagstjórn. Félagsmenn okkar verða að fá að búa við ámóta öryggi í afkomu sinni og stöðu á vinnumarkaði eins og þekkist á hinum Norðurlöndunum. Það er innantóm krafa að leggja upp með nýtt og breytt samningamódel að norrænni fyrirmynd og taka ekki afstöðu til stöðu og umfangs velferðarkerfisins hér á landi. Hér hefur ASÍ lagt áherslu á að velferðarmál hafi forgang við úthlutun á fyrirsjáanlegum tekjuauka ríkisins vegna hagvaxtar á næstu árum. Ef 65% af þeim tekjuauka yrði varið til velferðarmála í víðum skilningi (félags-, húsnæðis-, heilbrigðis-, mennta- og lífeyrismála) væri hægt að ráðstafa 35-40 milljörðum króna aukalega á ári til þessara málaflokka og með því gera margvíslegar umbætur sem færa okkur nær markmiðinu um norrænt velferðarkerfi sem stendur undir nafni. ASÍ hefur jafnframt lagt mikla áherslu á endurreisn velferðarkerfisins á vinnumarkaði, þ.e. réttindi launafólks í atvinnuleysi, fæðingarorlofi og ábyrgðarsjóði launa vegna gjaldþrots fyrirtækja. Í dag eru þessi réttindi í sögulegu lágmarki þrátt fyrir að við séum á toppi hagsveiflunnar og að tekjustofnar sjóðanna standi í reynd undir mun betri réttindum en þeir veita!

Í þriðja lagi hefur ASÍ ítrekað þá skoðun sína að fjölga þurfi íbúðum í almenna íbúðakerfinu mun hraðar en áformað er og byggja að lágmarki 1.000 nýjar íbúðir á ári í því kerfi næstu fimm árin. Samhliða þessu þarf að efla húsnæðis- og vaxtabótakerfið og tryggja stöðugleika þeirra. Þá er brýnt að koma hér á nýju  húsnæðislánakerfi sem tryggir lántakendum lægstu mögulegu húsnæðisvexti og endurskilgreina vísitölu neysluverðs sem notuð er til verðtryggingar þannig að hún verði án húsnæðisliðarins.

Í fjórða lagi hefur ASÍ lagt áherslu á endurbætur á skattkerfinu með það að markmiði að auka jöfnunarhlutverk þess og draga úr skattbyrði lág- og millitekjufólks, tengja persónuafsláttinn launavísitölu líkt og eftir tekjumörkin og stórefla barnabótakerfið.

Í fimmta lagi hefur ASÍ lýst áhyggjum sínum varðandi stöðu framhaldsfræðslunnar og tækifærum þeirra sem ekki hafa lokið formlegu námi á framhaldsskólastigi, en það eru um 50.000 manns á vinnumarkaði! Verulega skortir á raunhæft mat á því hvaða þekkingu atvinnulífið þarf á að halda á næstu árum og áratugum og þarf af leiðandi óljóst hvaða námstækifæri þarf að tryggja til að mæta þessum áskorunum. Jafnframt hafa stjórnvöld ekki aukið framlög til Fræðslusjóðs, sem fjármagnar nám fyrir þennan stóra á vinnumarkaði, til að mæta launahækkunum vegna kjarasamninga framhaldsskólakennara.  Í reynd hefur því námsframboð í formi fjölda nemendastunda dregist verulega saman.

Að lokum hefur verið lögð áhersla á að stjórnvöld taki höndum saman með aðilum vinnumarkaðar og berjist af öllu afli gegn svartri atvinnustarfsemi og undirboðum á vinnumarkaði.

Það sem af er hafa viðræðurnar við stjórnvöld verið afar opinskáar og tækifæri gefist til þess að gera oddvitum ríkisstjórnarinnar kleift að leggja betra mat á þær aðstæður sem eru á vinnumarkaði og hvað það er sem hamlar því að mögulegt sé að taka samtal um nýtt samningamódel lengra. Enginn niðurstaða er komin í viðræðurnar en líkur á því að á næstu vikum verði látið á það reyna hvort flötur sé á sameiginlegri niðurstöðu. Komi til þess verður næsta skerf að tryggja aðildarfélögunum beina aðild að slíku samtali.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ  

Nýjar áskoranir á vinnumarkaði

Ný skýrsla hagdeildar ASÍ um vinnumarkaðinn verður gefin út í lok vikunnar. Skýrslan fjallar um þær breytingar sem orðið hafa á íslenskum vinnumarkaði síðustu ár og áratugi. Skýrslan varpar til dæmis ljósi á stöðu erlends launafólks á Íslandi og hvernig aukin fjölbreytni ráðningarsambanda hefur aukið á flækjustig lagalegrar umgjörðar vinnumarkaðarins og kallað fram nýjar áskoranir í vinnurétti.

Aukin eftirspurn eftir starfsfólki í ferðaþjónustu og byggingariðnaði hefur kallað á aðflutning erlends starfsfólks hingað til lands í ríkari mæli en nokkru sinni fyrr. Árið 2017 voru erlendir ríkisborgarar sem fluttust til Íslands, umfram þá sem fluttust héðan, í sögulegu hámarki og nú er talið að erlent launafólk sé rúmlega 10% launafólks á Íslandi.

Algengt er að erlent launafólk flytjist hingað til lands aðeins tímabundið til að afla meiri tekna en í heimalandi sínu. Íslenskum starfsmannaleigum hefur fjölgað hratt með efnahagsuppsveiflunni, en á vegum þeirra starfa erlendir starfsmenn í tiltekinn tíma og eru leigðir út til notendafyrirtækja. Einnig kemur hingað starfsfólk á vegum erlendra starfsmannaleiga og erlendra þjónustufyrirtækja sem hafa aðgengi að íslenskum markaði í gegnum fjórfrelsi evrópska efnahagssvæðisins (EES). Starfsmannaleigustarfsmenn starfa flestir innan byggingariðnaðarins og í ferðaþjónustu.

Þessi þróun kallar á breyttar áherslur við eftirlit og greiningu á vinnumarkaðnum. Í skýrslunni kemur fram að hætta sé á að vinnumarkaðstölfræði, t.d. úr vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands, nái ekki yfir erlent starfsfólk sem ekki hefur hér fasta búsetu og að fjöldi launafólks í vinnuaflsfrekum greinum, þar sem erlent starfsfólk er í meirihluta sé því vanmetinn. Einnig er fjallað um algeng brot á réttindum starfsmanna starfsmannaleiga og hvernig þeir eru jaðarsettir í samfélaginu.

Brot á launafólki einskorðast þó ekki við erlent launafólk. Íslenskt launafólk, sérstaklega ungt fólk, stendur frammi fyrir því að ráðningarform eru lausari í sniðum og fleiri starfa lausráðnir við tímabundin verkefni eða í hlutastarfi þar sem vinnutími er slitróttur og atvinnuöryggi lítið. Í síðasta kafla skýrslunnar er fjallað um réttindi hlutastarfsmanna, tímabundið ráðinna starfsmanna og verktaka og mikilvægi þess að réttindi þeirra séu tryggð.

Skýrslan verður aðgengileg á vef ASÍ föstudaginn 2. mars.

 

 

Baráttan fyrir réttlæti í evrópska fluggeiranum

Undanfarinn áratug hefur mikil barátta átt sér stað um alla Evrópu um framtíð fluggeirans. Baráttan stendur á milli verkalýðshreyfingarinnar annars vegar og lággjaldaflugfélaga hins vegar, með lággjaldaflugfélagið Ryanair í fararbroddi. Mörg flugfélög, einna helst lággjaldaflugfélögin, hafa leitast eftir skjóli vegna óljóss regluverks og margbreytilegs eðlis fluggeirans til að greiða starfsfólki sínu smánarlega léleg laun. Laun sem fela ekki eingöngu í sér brot á réttindum viðkomandi einstaklinga heldur einnig gróf félagsleg undirboð.

Íslenskur vinnumarkaður hefur fengið sinn hluta af þessum áskorunum. Flugfreyjufélag Íslands (FFÍ) með stuðningi Alþýðusambands Íslands (ASÍ) hefur átt í harðri deilu við lettneska flugfélagið Primera Air Nordic SIA (PAN), auk móður- og systurfélaga þess sem öll eiga það sammerkt að vera að stærstum hluta í eigu íslenskra aðila. Eins og frægt er orðið hafði FFÍ boðað vinnustöðvun á PAN sem svaraði eftir langa þögn og krafðist þess fyrir Félagsdómi að vinnustöðvunin yrði dæmd ólögmæt. Félagsdómur komst að þeirri gagnrýnisverðu niðurstöðu í nóvember sl. að þar sem ríkissáttasemjari hafði ekki látið deiluna til sín taka með formlegum hætti, þrátt fyrir kröfu FFÍ og ASÍ, uppfyllti boðuð vinnustöðvun ekki formkröfur laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og því ólögmæt. Þessi niðurstaða þýðir að ríkissáttasemjari getur með þessum hætti haft verkfallsrétt íslenskra stéttarfélaga í hendi sér. Dómurinn felur þó aðeins í sér tímabundna töf. Ferlið hefur verið í gangi í um tvö ár og snýr, þrátt fyrir opinbera útúrsnúninga talsmanna PAN á málinu, eingöngu að þeim sjálfsagða rétti að gengið verði til kjarasamningsviðræðna við FFÍ um þau störf sem unnin eru út frá Íslandi. FFÍ er sannarlega ekki af baki dottið og í ályktun stjórnar og trúnaðarráðs félagsins frá 24. janúar sl. er ályktað skýrt um það að undirbúningur sé hafinn að nýrri boðun vinnustöðvunar, með það að marki að draga PAN að samningaborðinu en PAN hefur sýnt FFÍ, Embætti ríkissáttasemjara og íslenskum vinnumarkaði þá lítilsvirðingu að sinna ekki fundarboðum embættisins.

Árangur systursamtaka FFÍ og ASÍ í Evrópu undanfarin misseri er góður leiðarvísir að því að þrátt fyrir dugleysi stjórnmálamanna og innbyggða stofnanatregðu of margra þar til bærra eftirlitsstofnana mun réttlætið sigra að lokum. Áralangir slagir fyrir dómstólum og yfirvofandi hótanir félaga okkar í Evrópu um félagslegar aðgerðir hafa t.a.m. leitt til þess að ofangreindur frægasti „undirbjóðarinn“ í lággjaldafluggeiranum Ryanair hefur játað sig sigrað og lýst því yfir að á næstu misserum muni félagið gera fjölmarga kjarasamninga vegna starfa um borð í flugvélum sínum um mest alla Evrópu, til að tryggja sér langþráðan starfsfrið. Eftir situr PAN og önnur slík félög einangruð og bjóða ódýrar utanlandsferðir sem vel að merkja eru þó á kostnað skammarlegra kjara starfsfólksins sem sér um að koma farþegum á áfangastað. Á meðan PAN og tengd félög hegða sér með þessum hætti hljóta samfélagslega þenkjandi einstaklingar og áhugafólk um réttlæti að hugsa sig tvisvar um áður en stigið er um borð í flugvél sem knúin er áfram af vanvirðingu við launafólk og félagslegum undirboðum. 

Kynjaþing og Jafnréttisráðstefna

Af nægu er að taka á sviði jafnréttismála í mars en Kvenréttindafélag Íslands mun blása til Kynjaþings laugardaginn 3. mars og Félags- og jafnréttismálaráðherra hefur boðað til jafnréttisþings dagana 7. og 8. mars.

Kynjaþing
Kynjaþingið er haldið laugardaginn 3. mars næstkomandi frá 12:00 – 19:00 og verður haldið í  Tækniskólanum, Skólavörðuholti.

Þingið er hugsað sem tengslaráðstefna fyrir félagasamtök sem vinna að mannréttindum og jafnrétti, þar sem þátttakendur og gestir kynnast nýjum hugmyndum og nálgunum í jafnréttisfræði. Einnig er þingið hugsað sem upplýsingaráðstefna, til að gefa almenningi tækifæri á að kynnast starfi félagasamtaka sem vinna að málefninu.

Nánar má lesa um kynjaþingið hér og skoða dagskrána.

Jafnréttisþing
Jafnréttisþing Félags- og jafnréttismálaráðherra og Jafnréttisráðs verður haldið miðvikudaginn og fimmtudaginn 7. – 8. mars 2018 á Hilton Reykjavík Nordica undir yfirskriftinni „Útvíkkun jafnréttisstarfs - #metoo og margbreytileiki“.  

Félags- og jafnréttismálaráðherra mun opna þingið með framlagningu á skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála 2015–2017 og forsætisráðherra slíta því.  Auk þess munu fjármálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra vera með erindi.

Hlutverk þingsins er að efna til umræðna um jafnréttismál milli stjórnvalda og almennings og gefa áhugasömum kost á að hafa áhrif á stefnumótun málaflokksins.

Að þessu sinni verður lögð áhersla á útvíkkun mismununarhugtaksins með hliðsjón af margbreytileika í íslensku samfélagi og boðaðri löggjöf um jafna meðferð óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð eða kynvitund. Markmið og tilgangur löggjafar um jafna meðferð er að vinna gegn mismunun og stuðla að og viðhalda jöfnum tækifærum einstaklinga óháð ofangreindum þáttum.
Á jafnréttisþingi verður jafnframt fjallað um stöðu kvenna og karla á opinberum vettvangi og vinnumarkaði, kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð, kynbundna hatursorðræðu og hótanir sem og áhrif #metoo byltingarinnar á möguleika kvenna til valda og áhrifa í íslensku samfélagi. Kynntar verða niðurstöður nýrra rannsókna, annars vegar um hlut kvenna og karla í íslenskum fjölmiðlum og hins vegar um launamun karla og kvenna. Þingið er að þessu sinni haldið í samstarfi við Mannréttindaskrifstofu Íslands og aðgerðahóp stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti.

Aðalfyrirlesari verðu Dr. Faisal Bhabha, dósent í lögum við Osgoode Hall Law School, Toronto, Kanada. Building a society free from discrimination: The Canadian perspective.

Eftir erindi hans verður þinginu áframhaldið í eftirfarandi málstofum:

 •        Mismununarhugtakið í íslenskri löggjöf og stjórnsýslu
 •        #metoo – áhrif á stöðu og þróun jafnréttismála
 •        Konur, karlar, fjölmiðlar og lýðræði
 •        Jafnlaunamál og jafnrétti á vinnumarkaði
 •        Samhæfing fjölskyldu- og atvinnulífs
 •        Kynjuð fjárlagagerð og samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun - hvert erum við komin?

Skráning og afhending ráðstefnugagna hefst miðvikudaginn 7. mars kl. 08:45–09:15

 

 

 

Breytingar á vinnumarkaði – eru borgaralaun svarið?

Þann 5. apríl sl. hélt ASÍ opinn fund í Norræna húsinu um borgaralaun undir yfirskriftinni, Breytingar á vinnumarkaði – eru borgaralaun svarið?

Hugmyndir um borgaralaun eiga rætur sínar að rekja allt aftur á 16. öld. Á undanförnum árum hefur nýtt líf færst í umræðuna vegna vaxandi misskiptingar auðs, aukins atvinnuleysis og minna atvinnuöryggis sem fylgir fjölgun óhefðbundinna starfa vegna starfrænu byltingarinnar. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hagfræðingur hjá ASÍ hélt inngangserindi og velti því upp hvað borgaralaun eru. 

ASÍ fékk þrjá fyrirlesara, þau dr. Henning Meyer, Ilkka Kaukoranta og Halldóru Mogensen til að fjalla um borgaralaun og vinnumarkaðinn.

Henning, sem er ritstjóri Social Europe og ráðgjafi á sviði stefnumótunar, fjallaði um leiðir til að bregðast við tæknibreytingum og mögulegri fækkun starfa. Hann taldi borgaralaun ekki fýsilegan kost í því samhengi en benti á fimm leiðir til að mæta breytingunum. Í fyrsta lagi að auka símenntun, ekki endilega á sviði tækni sem úreldist fljótt, heldur til að efla hæfni til samvinnu og nýrrar hugsunar. Þá taldi hann mikilvægt að dreifa störfunum á fleiri, t.d. með styttingu vinnuvikunnar og í þriðja lagi að búa til störf sem hefðu umfram allt félagslegt mikilvægi og stuðluðu að félagslegri samheldni. Þá taldi hann mikilvægt að endurskoða skattkerfið og gera það þrepaskiptara. Að lokum lagði hann áherslu á að tryggja þyrfti almennt eignarhald eða ríkiseign á mun hærra hlutfalli þess fjármagns sem verður til við verðmætasköpun atvinnulífsins svo það sé hægt að miðla því aftur út í hagkerfið í þágu almennings í stað þess að megnið af arðinum safnist á fárra hendur.

Ilkka, aðalhagfræðingur ASÍ í Finnlandi (SAK), og sagði frá finnsku borgaralaunatilrauninni sem hófst 1. janúar 2017 og mun standa í tvö ár. Sú tilraun er gagnrýnd því hún nær eingöngu til 2.000 einstaklinga sem hafa verið atvinnulausir um lengri tíma og þeir fá aðeins um 70.000 kr. á mánuði í borgaralaun auk annarra greiðslna velferðarkerfisins. Rannsóknir verða gerðar að verkefninu loknu. SAK telur borgaralaun vera vinnuletjandi og því ekki farsæla lausn á því að tryggja sem best lífsgæði fyrir sem flesta. Glærur Ilkka má nálgast hér: XXX

Halldóra Mogensen, þingkona Pírata og formaður velferðarnefndar, fjallaði um hugmyndafræðilega sýn sína á borgaralaun. Hún lagði áherslu á að borgaralaun frelsuðu fólk undan illa launuðum störfum og okinu sem fylgir óöryggi um framfærslu. Með borgaralaunum, sem duga fyrir framfærslu, öðlaðist fólk frelsi til að mennta sig, sinna sínum nánustu og stofna eigin fyrirtæki. Borgaralaun gæfu fólki einnig frelsi til að mistakast og reyna aftur, stuðluðu þannig að nýsköpun og þroska einstaklinganna. Þingsályktunartillögu Pírata um borgaralaun má nálgast hér.

Í kjölfar erindanna sköpuðust líflegar umræður og það er margt sem brennur á fólki varðandi þróun vinnumarkaðarins og réttlæti til handa almenningi þegar kemur að hlutdeild í verðmætasköpuninni.

Glærur alla má nálgast hér að neðan. 

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir: hvað eru borgaralaun?

Dr Henning Meyer: No need for basic income 

Ilkka Kaukoranta: The UBI Finnish experiment and why it won´t work

Öflugra aðgerða er þörf - ábyrgðin er allra

Á Íslandi eru mannréttindi brotin á verkafólki á hverjum degi. Fyrirtæki gera ekki ráðningasamninga, fara ekki eftir gildandi kjarasamningum, virða ekki vinnutíma, atvinnuöryggi er lítið og starfsmenn eru jafnvel ótryggðir fyrir slysum og skaða. Vísbendingar eru um að almennt vinni erlent launafólk lengri vinnudaga en íslenskt launafólk og fái að meðaltali lægri laun, greiði meira fyrir leigu og þurfi frekar að þola réttindabrot á vinnumarkaði.

Undanfarnar vikur og mánuði hafa fjölmiðlar fjallað um brotastarfsemi af ýmsu tagi. Innan ákveðinna atvinnugreina viðgangast ört vaxandi brot á kjarasamningum sem og gróf brot gegn innfluttu verkafólki. Misnotkun sem jafnast á við nútíma þrælahald og jafnvel mansal. Á síðustu árum hefur verkalýðshreyfingin beint sjónum sínum í æ ríkara mæli að svartri atvinnustarfsemi og misnotkun fólks á vinnumarkaði. Það er ljóst að öflugra aðgerða er þörf. Eftirlitsfulltrúar á vegum stéttarfélaga ASÍ og SA verða nær daglega vitni að því að því að svindlað er á erlendu vinnuafli á íslenskum vinnumarkaði. Aðildarfélög Alþýðusambands Íslands hafa fengið á sitt borð fjölda brota atvinnurekenda á erlendum starfsmönnum, sem eru jaðarsettir í samfélaginu og háðir atvinnurekendum sínum með fæði og húsnæði.  

Aukin eftirspurn kallar á aðflutning erlends starfsfólks

Í skýrslu ASÍ í mars sl. um íslenska vinnumarkaðinn kemur m.a. fram að mikill uppgangur er í ferðaþjónustu og greinum sem koma að þjónustu við ferðamenn eða sölu á ferðamannavænum varningi. Aukning ferðamanna til landsins kemur af stað ákveðinni keðjuverkun. Starfsfólk vantar til að sinna ferðamannastraumi í þjónustu og verslun og ákall um aukið gistirými eykur umsvif í byggingariðnaði og mannvirkjagerð svo þar vantar einnig starfsfólk. Aukin eftirspurn eftir starfsfólki í ferðaþjónustu og byggingariðnaði kallar á aðflutning erlends starfsfólks hingað til lands og er talið að erlent launafólk sé a.m.k. 12-13% launafólks á Íslandi.

Algengt er að erlent launafólk flytjist hingað til lands aðeins tímabundið til að afla meiri tekna en í heimalandi sínu. Algengara er að erlendir starfsmenn eru ráðnir í gegnum starfsmanna-leigur í tiltekinn tíma og eru leigðir út til notendafyrirtækja. Starfsmannaleigustarfsmenn starfa flestir innan byggingariðnaðarins og í ferðaþjónustu.

Þessi þróun kallar á breyttar áherslur við eftirlit og greiningu á vinnumarkaðnum.

Kjarasamningar á Íslandi tryggja lágmarksréttindi samkvæmt lögum. Þau fyrirtæki sem ekki  fylgja kjarasamningum stunda í raun launaþjófnað. Launaþjófnaðurinn sem hér er nefndur getur birst með þrennum hætti. Laun eru greidd langt undir kjarasamningum, starfsmenn eru ráðnir sem sjálfboðaliðar en látnir vinna störf sem kjarasamningar gilda um og fyrirtæki skýla sér á bakvið það að starfsmaður sé í einhvers konar starfsnámi eða starfsþjálfun en hafa í raun hvorki leyfi né hæfni til að taka starfsnema.

Hverjir tapa á undirboðum á vinnumarkaði?

Það tapa allir á undirboðum á vinnumarkaði. Það er verið að hafa tekjur af samfélaginu öllu, því ólaunuð vinna felur oftast í sér frekari brot t.d. gegn skattalögum, samkeppnislögum og lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Ólaunuð vinna við efnahagslega starfsemi þýðir að atvinnurekendur sem nota hana hagnast á kostnað samneyslunnar og skapa sér bæði ósanngjarnt og ólöglegt samkeppnisforskot á markaði.  Samkeppnisstaða fyrirtækja sem starfa heiðarlega verður óásættanleg.

Verkalýðshreyfingin mun ekki líða undirboð á vinnumarkaði né brot sem felast í ólaunaðri vinnu í efnahagslegri starfsemi. Mikilvæg forsenda árangurs í baráttunni gegn brotastarfsemi gagnvart útlendingum er samstarf og samvinna við aðra aðila sem skyldum hafa að gegna um upplýsingamiðlun, eftirlit og eftirfylgni.

Auka þarf slagkraft gegn félagslegum undirboðum og brotastarfsemi á vinnumarkaði

Til að auka slagkraft eftirlitsins og ná heildstæðum árangri þarf aukið samstarf allra þeirra sem koma að eftirliti á vinnumarkaði. Þannig verða til öflug samlegðaráhrif. Verkefnið er risavaxið og snýst um það að breyta viðhorfinu í samfélaginu. Því er mikilvægt að allir eftirlitsaðilar stéttarfélaganna njóti stuðnings og samvinnu opinberra aðila. Hér er átt við ASÍ og aðildarsamtökin, Starfsgreinasamband Íslands, Samtök atvinnulífsins, Vinnueftirlitið, Vinnumálastofnun, Ríkisskattstjóra, heilbrigðiseftirlit og nefndir ásamt aðstoð lögreglu. Skattstofa og lögregla eru þeir aðilar sem geta beitt víðtækustu viðurlögum við brotastarfseminni. Hinsvegar þarf einnig að styrkja löggjöf og regluverk, fá ríkari eftirlitsheimildir og harðari viðurlög gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Síðast en ekki síst þarf að auka fjárframlög til aðila sem standa að eftirlitinu. Markmiðið með vinnustaðaeftirliti að leggja sérstaka áherslu á það að koma snemma að málum, til að koma í veg fyrir að brotastarfsemi festi rætur á félagssvæði viðkomandi stéttarfélags. Ríkur þáttur í starfi eftirlitsfulltrúa er að upplýsa fyrirtæki um skyldur þeirra og afleiðingar brotastarfsemi, kynna þeim kjarasamninga, ráðningasamningagerð og fleira. Virkum eftirlitsfulltrúum á vegum stéttarfélaganna er að fjölga og er það vel.

Eftirfylgni eftirlitsins er þó enn langt á eftir, þ.e.a.s. eftirfylgnin í því hvað gerist eftir að fulltrúar okkar tilkynna brotið, hver framvinda málsins er gagnvart brotafyrirtækinu, geta eftirlistaðilar gengið út frá því að málinu sé framfylgt alla leið. Þarna skortir upplýsingagjöf  milli stofnana, sem er forsenda þess að tekið sé á málum á öllum sviðum.  Stjórnvöld og stofnanir eru rétt að rumska við það að brota- og glæpastarfsemi er staðreynd hér. Eftirlitsaðilar ASÍ búa við of þröngan ramma og allir aðilar vinnustaðaeftirlits búa við það að vinna í sitt hvoru horninu í stað þess að eiga möguleika á að vinna saman í sterku sameinuðu átaki gegn verkefninu, sem er eins og áður sagði risavaxið. Við þurfum að kalla eftir heildstæðri samvinnu stjórnvalda og stofnana sem eiga aðkomu að vinnustaðaeftirliti og tryggja að kjarasamningar séu virtir. Sem dæmi má nefna að í Noregi vinnur teymi sameiginlega að eftirliti, deilir með sér upplýsingum og fer saman í eftirlit. Slíkt fyrirkomulag með aðkomu ASÍ væri ákjósanleg samsetning eftirlits því þá fara saman þekking á kjarasamningum og skattalögum, aðilar dvalar- og atvinnuleyfa, aðilar öryggis og aðbúnaðar á vinnustað.  Þá er ástæða til að auka samstarf og þátttöku fréttamiðla í því að upplýsa um fyrirtæki sem eru brotleg og gangast ekki við því eða fara að fyrirmælum um bót og betrun, það er akkúrat engin ástæða til að halda hlífðarskildi yfir þeim fyrirtækjum sem brjóta á starfsmönnum sínum.