Um ASÍ

19. febrúar 2014

Af þróun kaupmáttar fyrir og eftir þjóðarsátt

Af þróun kaupmáttar fyrir og eftir þjóðarsátt

Stefán Ólafsson prófessor hefur verið á furðulegri vegferð undanfarna mánuði í umfjöllun um kjarasamninga og þróun kaupmáttar. Reyndar á ég oft á tíðum erfitt að skilja hvað hann er að fara en hef látið það eiga sig að fjalla um greinarnar hans. Í nýjustu útleggingu Stefáns gekk hann hins vegar svo fram af mér að ég get ekki látið það vera að bregðast við. Svo virðist sem Stefán sé í einhverju uppgjöri við þá kjarasamninga sem gerðir voru árið 1990 og nefndir hafa verið Þjóðarsáttarsamningarnir, þegar aðilar vinnumarkaðarins sameinuðust um að framkalla hér kerfisbreytingu í allri nálgun á bæði stjórn efnahagsmála og gerð kjarasamninga. Vera má að Stefán sé að reyna að búa til einhver ,,fræðileg‘‘ rök fyrir því að launafólk sé betur statt í óðaverðbólgu og víxlverkan gengis, verðlags og launa. Að verkalýðshreyfingin eigi að verja tíma sínum líkt og hundurinn eltist við skottið á sjálfum sér, fremur en beita sér á breiðum vettvangi fyrir bættum hagsmunum félagsmanna sinna.

Í nýjustu útleggingu sinni tekur hann tímabilið frá 1955 til 1990 og síðan eftir 1990 og reiknar út árlegar breytingar á kaupmætti ráðstöfunartekna heimilanna á mann og kemst að þeirri merkilegu niðurstöðu að kaupmáttur á þennan mælikvarða hafi vaxið meira á óðaverðbólguárunum 1955-1990 heldur en á ,,þjóðarsáttarárunum ‘‘ eftir 1990 og munar þar miklu. Hér telur Stefán Ólafsson sig hafa sannað kenningu sína um að betra sé að láta áhyggjur af verðbólgu lönd og leið og semja um duglegar launahækkanir.

Það er hins vegar smá hængur á þessar framsetningu Stefáns fyrir utan þá staðreynd á á þessum árum vorum við að ýta erlendum skipum út úr okkar landhelgi með stækkun fiskveiðilögsögunnar og stórjukum útflutningsverðmætin en gengum jafnframt svo nærri stofnunum að þeir voru að hruni komnir árið 1990. Með því að taka mið af ráðstöfunartekjum heimilanna á mann læðist inn í þessa útreikninga þau áhrif að mun fleiri ,,fjölskyldumeðlimir‘‘ tóku þátt á vinnumarkaði árið 1990 en t.d. árið 1955. Þannig jókst atvinnuþátttaka kvenna mjög mikið upp úr 1960 og þátttaka ungmenna á vinnumarkaði samhliða námi er orðin mun algengari nú en áður (þó sumarvinna hafi ávalt verið mikil). Þetta veldur því að ráðstöfunartekjur heimilanna uxu hraðar á þessu tímabili en eftir 1990 þegar atvinnuþátttakan var komin í hæstu hæðir.

Ef litið er t.d. á kaupmátt dagvinnulauna verkakarla í Dagsbrún/Eflingu í Reykjavík kemur í ljós allt önnur mynd af þróuninni. Þá sést að kaupmáttur dagvinnulauna sveiflaðist gríðarlega mikið á árunum 1955-1990 þannig að gat munað tugum prósentna á milli ára, allt eftir því hversu mikið gengi íslensku krónunnar var fellt. Gengisfellingar mögnuðu upp verðbólgudrauginn sem á skömmum tíma át upp ávinning af kjarasamningum og meira til. Að meðaltali breyttist kaupmáttur dagvinnulauna á þessu tímabili um +/-0,3% eftir því hvaða aðferð notuð er til að reikna meðalvöxtinn. Árið 1990 var kaupmáttur dagvinnulauna verkakarla í Reykjavík t.d. 10% lakari en hann hafði verið árið 1955!

Eftir að þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir hefur dregið verulega úr þessum sveiflum þannig að sú lækkun kaupmáttar sem varð í kjölfar hrunsins er mun minni en verstu verðbólguáranna fyrir 1990. Frá Þjóðarsáttarsamningum hefur kaupmáttur dagvinnulauna  vaxið á bilinu 2,2-2,7% á ári að meðaltali. Kaupmáttur dagvinnulauna verkakarla í Reykjavík var þannig hvorki meira né minna en 66% hærri en hann var árið 1990 og næstum 50% hærri en hann var árið 1955! Er þetta í samræmi við reynslu frænda okkar á Norðurlöndunum, þar sem áhersla hefur verið lögð á sígandi lukku þar sem saman fara hóflegar launahækkanir og lág verðbólga. Það sem ekki kemur fram að fullu í þessum útreikningum er, að skuldsetning heimilanna í dag er margföld á við skuldsetninguna fyrir 1990 og þar af leiðandi eru áhrifin af þeirri miklu lækkun vaxta sem þó hefur orðið frá óðaverðbólguárunum mjög vanmetin.

Stefán Ólafsson hefur í skrifum sínum ítrekað gert þau mistök að bera saman verðbólgu síðasta árs og launahækkun næsta árs í umfjöllun sinni um þá kjarasamninga sem gerðir voru á vetrarsólstöðum og komist að þeirri niðurstöðu að samið hafi verið um lækkun kaupmáttar. Þetta er ótrúleg framsetning af prófessor við Háskóla Íslands því þetta er eins og að bera saman appelsínur og epli. Í desember s.l. var verðbólgan 12 mánuðina þar á undan 4,2% en á sama tíma höfðu laun á Íslandi hækkað að meðaltali um 6,2% og kaupmáttur því vaxið að meðaltali um 2% á árinu 2013, fjórða árið í röð síðan 2010 m.a. vegna þeirra kjarasamninga sem gerðir hafa verið.

Þeir kjarasamningar sem gerðir voru á vetrarsólstöðum þann 21. desember 2013 eru launabreytingar vegna komandi árs og byggja á því staðfasta markmiði samningsaðila á vinnumarkaði að ná niður verðbólgu á þessu ári og gera nú allir greiningaraðila ásamt Seðlabanka Íslands ráð fyrir því að verðbólgan á árinu 2014 verði um eða undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands. Allar líkur eru á því að þetta markmið náist nú þegar í næstu mælingu Hagstofunnar. Almenn launahækkun þessara kjarasamninga var 2,8% og auk þess var ráðstafað 0,35% af heildarlaunasvigrúmi til að hækka lægstu laun um allt að 5%. Þar til viðbótar má gera ráð fyrir að laun hækki aukalega um 0,75% vegna ákvæða í kjarasamningum um starfsaldurshækkanir og framgangs í starfi. Samkvæmt þessu gera samningsaðilar ráð fyrir því að launavísitala Hagstofunnar hækki um 3,9% frá upphafi til loka ársins 2014. Ef verðbólgan verður á bilinu 2,2-2,5% á sama tíma (sem er í samræmi við spár) mun kaupmáttur launa vaxa um 1,4-1,7% á árinu. Ef það gerist mun þetta að Noregi frátöldum verða mesta kaupmáttaraukning á Norðurlöndunum á þessu ári.

Í mínum huga er enginn vafi á því að launafólk hefur mikla hagsmuni af því að okkur takist að mynda breiða sátt um þessa aðferðafræði, að fyrirtæki og hið opinbera axli sinn hluta af ábyrgðinni með því að halda aftur af verðhækkunum og að við getum haldið áfram að byggja upp kaupmátt launa í hægum en taktföstum skrefum en til þess verðum við að hafa trausta og trúverðuga gengis- og peningastefnu sem stutt styður slíka nálgun líkt og á Norðurlöndunum. En til þess þarf sú ríkisstjórn sem situr hverju sinni að hafa stöðugt gengi og lága verðbólgu sem höfuðmarkmið í öllum sínum athöfnum.

Gylfi Arnbjörnsson

Twitter Facebook
Til baka