Um ASÍ

03. maí 2019

Við höfum öll rétt til vinnu

Hvar sem er í heiminum er fólk eins. Við viljum búa í friðsömu samfélagi þar sem við getum lifað á eigin forsendum. Grundvöllur að sjálfstæði okkar, andlegu heilbrigði og þátttöku í samfélaginu er rétturinn til vinnu sem gerir okkur kleift að standa á eigin fótum.
En staðreyndin er sú að hópur fólks á Íslandi hefur ekki þessi sjálfsögðu réttindi. Það eru þau sem sótt hafa um hæli og bíða svara frá yfirvöldum. Eins fáfránlegt og það hljómar er hælisleitendum gert að lifa á framfærslu ríkisins þrátt fyrir að vinnu sé að hafa og fólk sé viljugt til verka.

Skilyrði sem ómögulegt er að uppfylla
Þau skilyrði sem hælisleitendur þurfa að uppfylla til að geta unnið eru þröng og einkennast af flóknu og seinvirku skrifræði, sem gerir jákvæða niðurstöðu því sem næst ómögulega. Flestir þurfa að bíða í þrjá mánuði til að mega yfirleitt sækja um atvinnuleyfi og þá þarf fólk að vera búsett annars staðar en í búsetuúrræðum Útlendingastofnunar. En til að komast í annað úrræði þarf viðkomandi í flestum tilfellum að geta sýnt fram á að vera með vinnu. Ef fólki tekst að uppfylla þessi nánast ómögulegu skilyrði tekur við bið eftir að umsóknin fái úrvinnslu, en að því koma Vinnumálastofnun, Útlendingastofnun, stéttarfélög og atvinnurekandinn.
Atvinnurekendur bíða ekki lengi, enda er fljótvirkara að flytja inn fólk til að leysa úr manneklu í stað þess að fara eftir leikreglum þeim sem settar hafa verið þegar kemur að hælisleitendum. Einhverjir atvinnurekendur nýta sér svo bága stöðu þeirra sem bíða úrlausnar sinna mála og bjóða örvæntingafullum manneskjum svarta vinnu. Með því er stuðlað að félagslegum undirboðum en það samfélagsmein er á ábyrgð okkar allra að uppræta.

Ástand sem er engum til sóma
Nálægt þúsund manns hafa sótt um hæli á ári frá 2016, en aðeins nokkrir tugir fengið atvinnuleyfi. Þetta ástand er engum til sæmdarauka og kemur sér illa fyrir samfélagið, atvinnulífið og ekki síst hælisleitendur.
Atvinnuleysi eykur á vanlíðan þeirra sem bíða, fólks í einstaklega viðkvæmri stöðu. Það sem verra er, hælisleitendunum er stundum sjálfum kennt um ástandið sem þeir eru neyddir til að lifa við. Þetta skapar samfélagslega sundrungu og elur á viðhorfum sem aðeins leiða yfir okkur hörmungar.

Það er til lausn
Smálegar breytingar, auðveldar í framkvæmd, geta einfaldað umsóknarferlið fyrir bráðabirgðaatvinnuleyfi til muna. Við getum komið þeim á um leið og fulltrúar viðkomandi stofnana og ráðuneyta setjast niður og leysa málið.
Látum ekki grimmileg viðhorf móta afstöðu íslenskra stjórnvalda. Ríkt samfélag sem vill kenna sig við mannréttindi og frelsi á að láta mannúð og skynsemi ráða för þegar kemur að því að aðstoða fólk í leit að öruggri tilveru.

Drífa Snædal, forseti ASÍ
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar

Twitter Facebook
Til baka