26. mars 2013

Verðbólgan 3,9%

Verðlag hækkaði um 0,2% í mars að því er fram kemur í nýjum tölum um vísitölu neysluverðs sem Hagstofa Íslands sendi frá sér í morgun. Þetta er nokkuð minni hækkun en spár gerðu ráð fyrir og gefur vísbendingu um að eftirlit og aðhald frá neytendum geti haft jákvæð áhrif. Verðbólga á ársgrundvelli er nú 3,9% og lækkar um 0,9 prósentustig frá fyrra mánuði sem skýrist af mun minni hækkun á verðlagi nú í mars en í sama mánuði í fyrra.

Mest áhrif til hækkunar á verðlagi í mars hafa hækkanir á fötum og skóm, viðhaldi húsnæðis og matvörum en lækkanir á bensíni vega á móti.

Mest áhrif til hækkunar á verðlagi í mars hafa hækkanir á fötum og skóm sem hækka um 2,6% frá fyrra mánuði og hafa 0,13% áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs. Húsnæðisliður vísitölunnar hækkar vegna hækkana á húsaleigu um 0,9% (0,03% vísitöluáhrif)  og viðhaldi húsnæðis um 2% (0,08% vísitöluáhrif).   

Mat- og drykkjarvörur hækka um 0,5% frá fyrra mánuði sem hefur 0,08% áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs. Flestir mat- og drykkjarvöruliðir hækka milli mánaða að undanskildu grænmeti, ávöxtum, olíum og feitmeti sem lækka frá fyrra mánuði.  Mest áhrif til hækkunar hafa hækkanir á brauði og kornvörum um 1% frá því í febrúar (0,02% vísitöluáhrif), kjöti um 2% (0,06% vísitöluáhrif), fiski um 0,9% ( 0,01% áhrif), mjólkurvörum um 0,9% (0,02% áhrif) og hækkanir á sykri og sætindum 1% (0,01% áhrif).  Gera má ráð fyrir að áhrifa hækkunar á vörugjöldum á sykri og sætindum sem tók gildi þann 1.mars sl. gæti nú í veðlagi. Sjá nánari um breytinguna og áhrif hennar.

Af öðrum liðum vísitölunnar sem hækka frá fyrra mánuði má nefna að húsgögn og ýmiss heimilisbúanaður hækka um 0,6% (0,03% vísitöluáhrif), áfengi og tóbak hækka um 0,4% (0,01% vísitöluáhrif), flugfargjöld hækka um 2,3% (0,05% áhrif), snyrting og snyrtivörur hækka um 1% (0,03% vísitöluáhrif) og tryggingar hækka um 1% (0,01% áhrif).

Á móti hækkunum vegur lækkun á bensíni og olíum sem lækka um 3,7% frá fyrra mánuði og hafa áhrif  til lækkunar á verðlagi um 0,22%. 

Twitter Facebook
Til baka