Um ASÍ

22. mars 2013

Velheppnaðri fundarferð ASÍ lokið

Þann 26. febrúar hófst fundarferð Alþýðusambands Íslands um landið undir yfirskriftinni Kaupmáttur, atvinna, velferð. Alls voru haldnir 10 opnir fundir með stjórnum og trúnaðarráðum stéttarfélaganna og sóttu nokkur hundruð manns þessa fundi. Eftirfarandi staðir voru heimsóttir: Akureyri, Egilsstaðir, Selfoss, Reykjanesbær, Reykjavík (3), Borgarnes, Ísafjörður og Sauðárkrókur.

Fundafyrirkomulagið var þannig að þrír forystumenn úr Alþýðusambandinu héldu stutt erindi þar sem lagt var út af yfirskrift fundaherferðarinnar en auk þeirra fór einn heimamaður yfir stöðu og horfur í atvinnumálum í héraði. Í þeim framsögum kom glögglega fram að víða eru græðlingar sem hlúa verður að en jafnframt ljóst að víða er staðan grafalvarleg. Farið var yfir áherslur ASÍ í atvinnu- og menntamálum þar sem þunginn var á skapandi greinar og nýsköpun auk þess sem rætt var um eflingu verk- og tæknináms og möguleika fólks á vinnumarkaði að efla sína menntun. Þá kom fram að græn atvinnustarfssemi bíður upp á mikla möguleika með betri og verðmætari nýtingu náttúruauðlinda. Þessi grein atvinnulífsins kallar hins vegar á greiðari aðgang að erlendum mörkuðum.

Kaupmáttar- og verðlagsmál voru mörgum hugleikin en þar kynnti ASÍ hugmyndir sínar um hvernig hægt væri að ná niður verðbólgu og vöxtum til að hægt væri að ná langþráðum stöðugleika í landinu, sérstaklega með fastgengisstefnu í stað fljótandi gengis. Rætt var að í aðdraganda kosninga væri lag að krefja stjórnmálamenn svara um hvernig þeir hyggðust ná tökum á gengi og verðlagi. Þá voru stéttarfélögin hvött til að hefja undirbúning kjarasamninga tímanlega, en eins og kunnugt er var samningstímabilið stytt um tvo mánuði og  renna núverandi samningar út 30. nóvember nk.

Í umræðu um velferðarmál yfirskyggðu nýjar hugmyndir ASÍ í húsnæðismálum allt annað. Með nýju húsnæðilánakerfi að danskri fyrirmynd, sem ASÍ kynnti í febrúar, verður húsnæðiskaupendum gefin kostur á hagstæðum og öruggum langtímalánum með föstum nafnvöxtum. Sjálfvirk áhrif verðbólgu á höfuðstól eftirstöðva lánsins verða afnumin og áhættunni af efnahagsáföllum þannig deilt milli fjármagnseigenda og lántaka með sanngjarnari hætti en nú er. Almenn afstaða innan hreyfingarinnar er, að launafólk á Íslandi mun aldrei aftur samþykkja að axla eitt ábyrgð á mistökum í hagstjórn eins og gerðist 2008 þegar húsnæðislán heimilanna stökkbreyttust. Aldrei aftur 2008!

Varðandi félagslega húsnæðiskerfið benti forysta ASÍ á að félagslegar íbúðir þyrftu að vera 25 þúsund á landinu öllu til að tekjulágt fólk fengi viðunandi lausn í sínum húsnæðisvanda, en þær eru fjögur þúsund í dag. Hugmyndir ASÍ að nýju félagslegu húsnæðiskerfi byggja einnig á danskri fyrirmynd. Markmiðið er að húsaleigan sé í samræmi við félagsleg markmið um viðráðanlega leigu sem taki ekki skyndilegum hækkunum auk þess sem búseturétturinn er öruggur. Framlag íbúanna yrði 2% af verði íbúðarinnar en framlagið fengist endurgreitt ef viðkomandi flytur út. Sveitarfélagið leggði fram 14% stofnfé en restin kæmi frá sérhæfðri húsnæðislánastofnun. Það væri síðan hlutverk ríkisins að veita vaxtastyrki til að niðurgreiða húsaleiguna þannig að tryggt verði að húsnæðiskostnaður lágtekjufólks væri um 20% af tekjum í stað yfir 40% eins og nú er.

Nánar má lesa um þessar hugmyndir hér.

Twitter Facebook
Til baka