Um ASÍ

16. febrúar 2018

Mjólkurvörur hækka meðan flestar matvörur lækka í verði

Samkvæmt gögnum frá Hagstofunni yfir vísitölu neysluverðs hefur verðlagsþróun á matvörum á síðustu tveimur árum (janúar 2016 – janúar 2018) verið með þeim hætti að verð á innfluttum vörum hefur lækkað og sama má segja um þær vörur sem eru í samkeppni við innfluttar vörur.  

Verð á matvöru hefur því í heildina lækkað um 0,7% á síðustu tveimur árum en ástæðuna fyrir verðlækkunum má einkum rekja til gengisstyrkingar. Undantekningin á þessu er verð á mjólkurvörum en sá undirflokkur matvörunnar sker sig algjörlega úr og hefur hækkað langmest eða um 7,4%. Þetta skýrist af því að lítil eða engin samkeppni er á Íslandi á mjólkurvörumarkaði og því svigrúm til hækkanna þrátt fyrir ytri aðstæður eins og gengisstyrkingu. 

Töluverð lækkun í flestum matvöruflokkum – 0,7% heildar verðlækkun
Aðrir vöruflokkar sem hafa hækkað eru olíur og feitmeti en verð í þeim vöruflokki hefur hækkað um 2,8%. Þess má geta að inni í þeim vöruflokki eru t.d. smjör og smjörlíki sem tilheyrir að vissu marki mjólkuriðnaðinum hér á landi. Þá hefur verð á fiski hækkað lítillega eða um 1,2%. Þeir matvöruflokkar sem hafa lækkað eru ávextir um 7%, grænmeti um 4,6% og verð á kaffi, te og kakói hefur lækkað um 8,3%. Verð á súpum, sósum, blöndum og kryddi hefur lækkað um 3,5% og verð á gosdrykkjum og söfum um 1,6%. Þá hefur verð á kjöti lækkað um 0,6% og verð á brauð- og kornvörum um 3,3%.

Það má því segja að verðlagsþróun síðustu tveggja ára einkennist í heildina litið af meiri verðstöðugleika en Íslendingar eiga að venjast. Flestar vörur hafa lækkað í verði og njóta neytendur góðs af þeirri gengisstyrkingu sem hefur orðið hér á landi.

Twitter Facebook
Til baka