Um ASÍ

02. maí 2018

Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar veitir styrki

Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar hefur veitt Skafta Ingimarssyni styrk að fjárhæð kr. 750.000 vegna verkefnisins: „Íslenskir kommúnistar og sósíalistar: Flokksstarf, félagsgerð og stjórnmálabarátta 1918-1968“.

Um er að ræða styrk til útgáfu á bók sem byggir doktorsverkefni höfundar. Doktorsverkefnið fjallar um upphaf og þróun kommúnistahreyfingarinnar á Íslandi á tímabilinu 1918–1968. Saga hreyfingarinnar er skoðuð í ljósi íslenskrar þjóðfélagsþróunar og alþjóðlegra hugmyndastrauma. Kannað er úr hvaða jarðvegi hreyfingin var sprottin, skoðað hverjir studdu hana og hvers vegna og sýnt hvernig fámennum hópi íslenskra kommúnista tókst að gera flokk sinn að fjöldahreyfingu, ólíkt því sem gerðist í flestum nágrannalöndum. Verkefnið er hluti af verkalýðs- og stjórnmálasögu Evrópu, sem hefur útbreiðslu jafnaðarstefnu og kommúnisma á 19. og 20. öld að viðfangsefni, og er ætlað að auka þekkingu á sviði stjórnmála- og félagssögu á Íslandi á 20. öld.

Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar hefur veitt Írisi H. Halldórsdóttur og Magnfríði Júlíusdóttir styrk að fjárhæð 375.000 vegna rannsóknarverkefnis: „Kjör og aðstæður erlends stafsfólks í ferðaþjónustu“.

Rannsókninni er ætlað að fá dýpri innsýn í kjör og aðstæður erlends stafsfólks í greinum tengdum ferðaþjónustu á Íslandi, en hægt er að fá í aðgengilegum talnagögnum. Það verður gert með viðtölum við erlent starfsfólk í ferðaþjónustu og starfsmenn félaga og stofnana, sem eru í samskiptum við erlenda starfsmenn. Nánar tiltekið er sjónum beint að staðbundnum verkalýðsfélögum og stofnunum sem veita upplýsingar til innflytjenda um réttindi og skyldur í íslensku samfélagi.

Markmiðið er annars vegar að fá yfirsýn yfir hvað má betur fara í starfsumhverfi erlends starfsfólks í ferðaþjónustu með viðtölum við fulltrúa félaga og stofnana, og hins vegar að fá dýpri skilning á reynslu fólks sem kemur til starfa hér á landi, í mislangan tíma.

Styrkurinn er veittur vegna þess hluta rannsóknarinnar sem snýr að vinnu við viðtöl og úrvinnslu þeirra.

Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar hefur veitt Rannveigu Gústafsdóttur styrk að fjárhæð 375.000 vegna verkefnis: „Brot á íslenskum vinnumarkaði“.

Verkefni byggir á MA ritgerð þar sem fjallað er um brot á íslenskum vinnumarkaði, hvaða áhrif þau hafa á þolendur og íslenskt samfélag í heild sinni. Jafnframt er farið yfir hvernig íslenska ríkisstjórnin getur betur spornað gegn þessum brotum, hvort sem er í eigin aðgerðum eða með lagabreytingum, til að mynda er sérstaklega bent á mikilvægi þess að gera viðeigandi breytingar þannig að atvinnurekendur geti ekki stundað kennitöluflakk. Auk þess er fjallað um mikilvægi stéttarfélaga á vinnumarkaðnum og bent á þörf þess að íslenska ríkisstjórnin styðji við störf þeirra, vitnað er í heimildir þessu til stuðnings. Brotin geta verið mismunandi, í ritgerðinni er horft á kjarasamningsbrot, nauðungarvinnu og vinnumansal.

Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar var stofnaður árið 1983 til minningar um Eðvarð Sigurðsson, formann Verkamannafélagsins Dagsbrúnar. Sjóðurinn er í umsjá Alþýðusambands Íslands.

Sjóðurinn veitir styrki til að efla rannsóknir og útgáfu á verkum sem varða sérstaklega vinnumarkaðinn, hagsmuni launafólks og starfsemi verkalýðshreyfingarinnar. Einnig veitir hann styrki til að sækja námskeið eða afla sér með öðrum hætti þekkingar á verkalýðshreyfingunni og málefnum launafólks, innanlands eða erlendis.

Twitter Facebook
Til baka