Um ASÍ

21. ágúst 2018

Miklar verðhækkanir á skólabókum hjá bókabúð Iðnú milli ára

Verðkönnun á skólabókum sem var framkvæmd þann 15. ágúst síðastliðinn sýnir að töluverðar hækkanir hafa orðið á skólabókum í sumum verslunum á meðan aðrar hafa lækkað verð. Nýjar skólabækur hafa hækkað mest hjá bókabúð Iðnú síðan í fyrra en þar er mesta verðhækkunin 58% á bókinni Bókfærsla 1. Í fyrra var hún á 3.536 kr. en í ár er verðið 5.570 kr. Þá hækka bækurnar Almenn Jarðfræði og Stjórnmálafræði um 43%, Trésmíði – hönnun, útfærsla og verkskipulag um 42% og Íslenska eitt um 18% hjá bókabúð Iðnú. Forlagið hækkar einnig verð á bókum hjá sér en þar eru verðhækkanirnar töluvert minni eða frá 7-8%. Ein bók hækkar mikið hjá Heimkaupum en það er bókin Stjórnmálafræði sem kostaði 3.990 kr. í fyrra en fæst núna á 6.201 kr. og hækkar hún því um 55% á einu ári en aðrar bækur lækka hjá Heimkaupum.

Verslanirnar Heimkaup, A4, Mál og menning og Forlagið eru allar með einhverjar verðlækkanir á bókum en mesta lækkunin á stakri bók er hjá Heimkaupum þar sem Saga listarinnar fer úr 6.190 kr. niður í 4.761 kr. en það gerir 23% verðlækkun. Næst mesta verðlækkunin er hjá Mál og Menningu en þar lækkaði bókin Almenn Jarðfræði um 22%, úr 9.190 krónum í 7.192 kr. Flestar verðlækkanirnar eru hjá A4 en algengast er að verðlækkanir verslananna séu á bilinu 10-20%. Allar bækurnar hjá Mál og menningu voru á 20% afslætti þegar könnunin var framkvæmd og er sá afsláttur tekinn með í niðurstöðum könnunarinnar.

Twitter Facebook
Til baka