Um ASÍ

07. desember 2018

Klausturmál hafa áhrif á trúverðugleika Íslendinga á ITUC þingi

Eins og þeir vita sem fylgst hafa með skrifum mínum undanfarið hefur vikan verið undirlögð undir fjórða þing Alþjóðasambands verkalýðsfélaga (ITUC), sem haldið er í Kaupmannahöfn. Þar var ég kjörin varamaður í stjórn ITUC í gær og sat í framhaldinu óvænt stjórnarfund í sambandinu. Í dag verður gengið til kosninga um ályktanir þingsins og þær fjölmörgu viðbótar- og breytingatillögur sem liggja fyrir. Málefnastoðirnar eru fjórar:

1. Friður, lýðræði og mannréttindi (Peace, Democracy and Rights)
2. Böndum komið á fjárhagsleg völd (Regulating Economic Power)
3. Sanngjörn skipti í nýjum heimi (Global Shifts – Just Transitions)
4. Jafnrétti (Equality)

Nýfrjálshyggjunni hefur verið hafnað hér á þingi ITUC og því hreðjataki sem stórfyrirtæki hafa á lífsgæðum fólks og möguleikum til framfærslu. Alþjóðasamningum á forsendum fjármagnsins er hafnað og nauðsyn þess að breyta sjónarhorninu frá fjármagni til fólks ítrekuð. Þetta á líka við um einkavæðingu og uppbyggingu velferðarkerfis um heim allan. Í heimi þar sem 80% af gróðanum fer til 10% fyrirtækja er sannanlega verk að vinna. Þá er ömurlegt til þess að vita að aðeins 60% vinnandi fólks í heiminum er í formlegu ráðningarsambandi. Misrétti og misnotkun verður að linna. Það eru skilaboð hinnar alþjóðlegu verkalýðshreyfingar til heimsbyggðarinnar.

Frá Kaupmannahöfn höfum við einnig fylgst vel með fréttum að heiman og reyndar fengið fjölda spurninga um enn eitt hneykslið í íslenskum stjórnmálum sem ratað hefur í heimsfréttirnar. Hegðun nokkurra þingmanna hefur því haft áhrif á trúverðugleika okkar sem boðberar jafnréttis á alþjóðavettvangi. Það er sárt og óþolandi þó ég hafi aldrei verið sannfærð um að við værum sú jafnréttisþjóð sem við gefum okkur út fyrir að vera á tyllidögum! Hættum að láta eins og við séum með þetta og tökum til í eigin ranni, einungis þannig getum við farið í trúboð um heiminn. Við megum aldrei sætta okkur við niðurlægjandi tal um minnihlutahópa, slíkt er ofbeldi í sjálfu sér. Þegar hatursfull orðræða líðst gefur það leyfi til mismununar í launum, stigveldi og elur á beinu ofbeldi.

Kærar kveðjur til Íslands, niðurstaða þings Alþjóðasambands verkalýðsfélaga (ITUC) verður birt á heimasíðu ASÍ þegar hún liggur fyrir.
Drífa

Twitter Facebook
Til baka